Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 586. máls.

Þskj. 977  —  586. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996,
með síðari breytingum.

1. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Landið skiptist í 6 lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar sem hér segir:
1.      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
2.      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
3.      Lögreglustjórinn á Vesturlandi og Vestfjörðum.
4.      Lögreglustjórinn á Norðurlandi.
5.      Lögreglustjórinn á Austurlandi.
6.      Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
    Umdæmi lögreglustjóra skulu að öðru leyti ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna.
    Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Dómsmálaráðherra er heimilt að fela sýslumanni daglega lögreglustjórn í umdæmi sínu, í umboði viðkomandi lögreglustjóra.
    Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða í landi. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að fela einstökum lögreglustjórum umsjón tiltekinna verkefna á landsvísu. Heimild þessi nær m.a. til verkefna sem talin eru upp í 2. mgr. 5. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
a.      2. mgr. fellur brott.
b.      1. og 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðherra setur nánari reglur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um hvaða brot skuli rannsaka hjá sérstökum rannsóknardeildum. Brot skal rannsaka í því umdæmi þar sem þau eru framin, sbr. þó ákvæði a- og b-liðar 2. mgr. 5. gr.
c.      4. mgr. fellur brott.
d.      5. mgr. fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn fara með lögregluvald.

5. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Í hverju lögregluumdæmi skal starfa ein eða fleiri samstarfsnefndir um málefni lögreglunnar. Í nefnd sitja lögreglustjóri viðkomandi lögregluumdæmis, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, og sveitarstjórar þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu eða á því svæði sem nefndin starfar. Fundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

6. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra til fimm ára í senn.
    Lögreglustjóri skal auk almennra hæfisskilyrða til þess að hljóta skipun í embætti á vegum ríkisins jafnframt fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
a.      vera lögráða og hafa aldrei misst forræði á búi sínu,
b.      hafa hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta,
c.      hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt.
    Ríkislögreglustjóri skipar yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn. Lögreglustjóri skipar aðra lögreglumenn með sama hætti. Hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.

7. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    4. mgr. 38. gr. laganna orðast svo:
    Nám í lögregluskólanum stendur í a.m.k. tólf mánuði og skiptist í þrjár annir. Fyrsta önn er ólaunuð. Þeim nemum sem standast próf á önninni skal lögregluskólinn sjá fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. fjóra mánuði. Greiðir þá lögregluskólinn grunnlaun en viðkomandi lögreglustjóri vaktaálag og annan kostnað sem til fellur. Að lokinni starfsþjálfunarönn tekur við ólaunuð þriðja önn í lögregluskólanum sem lýkur með prófum.

II. KAFLI
Gildistaka o.fl.
9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.
    Við gildistöku laganna taka ný embætti lögreglustjóra við öllum réttindum, eignum og skyldum þeirra lögregluembætta sem þau leysa af hólmi. Þar á meðal taka ný embætti við öllum starfsmönnum eldri lögregluembætta á sömu starfskjörum, að undanskildum lögreglustjórum eldri embætta en störf þeirra eru lögð niður við gildistöku laga þessara.

10. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga sem hér segir:
1.      Lög um verslunaratvinnu, nr. 28/1998. Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 1. mgr. 19. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í greininni kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumanns.
2.      Áfengislög, nr. 75/1998.
             a.      Í stað embættisheitisins „lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. og „lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumanns.
             b.      Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 3. mgr. 11. gr. og „lögreglustjóri“ í 2. mgr. 25. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumanni.
3.      Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. 3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
                   Leyfisveitendur samkvæmt lögum þessum eru sýslumenn.
4.      Lög um opinberar fjársafnanir, nr. 5/1977. Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumanni.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir fyrirmæli 9. gr. taka lög þessi þegar gildi á þann hátt sem segir í þessu ákvæði.
    Fyrir 1. janúar 2011 er ráðherra heimilt að taka ákvarðanir um að flytja og skipa lögreglustjóra í hin nýju lögregluembætti. Þeir sem við gildistöku þessa ákvæðis eru skipaðir lögreglustjórar skulu njóta forgangs til skipunar í hin nýju embætti lögreglustjóra og er heimilt að flytja þá í hin nýju embætti. Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Ráðherra skal við gildistöku þessa ákvæðis skipa verkefnisstjórn sem hefur með höndum framkvæmd þeirra breytinga sem lög þessi mæla fyrir um. Skal verkefnisstjórnin m.a. leggja mat á hagkvæmni og eftir atvikum gera tillögu um hvaða verkefni væri rétt að fela einstökum lögreglustjórum á grundvelli 5. mgr. 6. gr. lögreglulaga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á grundvelli vinnu sem fram hefur farið á vegum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis undanfarin missiri. Efni þess er einkum byggt á skýrslu starfshóps frá því í október 2009, sem dómsmálaráðherra skipaði þá um sumarið og í sátu fulltrúar ráðuneytisins og skólastjóri Lögregluskóla Íslands. Með starfshópnum störfuðu fulltrúar Landssambands lögreglumanna og Lögregluskóla Íslands svo sem nánar greinir frá hér á eftir.
    Í frumvarpinu eru lagðar til skipulagsbreytingar á lögreglunni í landinu sem eiga sér bæði fagleg og fjárhagsleg rök. Hvati þess að lagðar eru til breytingar nú eru þó einkum þær sparnaðarkröfur, sem hafa verið gerðar til lögreglu á fjárlögum þessa árs og hins fyrra, og sem fyrirsjáanlegt er að gerðar verði til hennar á komandi árum, sem og annarra ríkisstofnana.
    Er lagt til að breytingarnar gerist með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til að lögregluumdæmum verði fækkað þannig að þau verði 6 í stað 15. Í öðru lagi verði lögfest almenn heimild til að fela einstökum lögregluembættum verkefni á landsvísu, sem nú eru á hendi embættis ríkislögreglustjóra, en í því kunna að felast hagræðingarmöguleikar. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að samhliða lagabreytingunni verði skipurit embætta ýmist samin eða endurskoðuð með það fyrir augum að draga úr kostnaði við yfirstjórn. Gert er ráð fyrir að nokkur sérstök starfsheiti innan lögreglunnar verði felld úr lögum í samræmi við þá sýn að rétt sé að einfalda og fækka starfsstigum lögreglu og þar með draga úr kostnaði við yfirstjórn embættanna.
    Í ársbyrjun 2007 tóku gildi breytingar á skipulagi lögreglunnar sem áttu sér langan aðdraganda. Þær fólust einkum í stækkun umdæma. Það er niðurstaða dómsmála- og mannréttindaráðherra að þótt þessar breytingar hafi að mörgu leyti gengið vel sé nauðsynlegt að ganga lengra til að settum markmiðum verði náð. Þá niðurstöðu styðja tvær úttektir, annars vegar skýrsla sú sem nefnd var hér í upphafi frá því í október 2009, og einnig ítarleg skýrsla matsnefndar ráðuneytisins frá því apríl 2008, sem unnin var á vegum þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.
    Sumarið 2008 kynnti ráðuneytið hugmyndir um frekari stækkun umdæma og var óskað eftir umsögnum ýmissa aðila um þær hugmyndir sem þar komu fram. Við hrun íslensks efnahagslífs haustið 2008 ásamt þeim átökum sem lögreglan stóð frammi fyrir um veturinn, var þessum áformum frestað. Í ljósi fyrirsjáanlegs niðurskurðar á fjárveitingum til löggæslu og aukinna krafna um hagkvæmni í rekstri lögreglunnar ákvað ráðuneytið að endurskoða fyrri hugmyndir um skipulagsbreytingar innan lögreglunnar.
    Eins og fyrr greinir skipaði dómsmála- og mannréttindaráðherra starfshóp sumarið 2009 til að yfirfara skipulag lögreglunnar í landinu. Starfshópurinn var skipaður þeim Hauki Guðmundssyni skrifstofustjóra sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Arnari Guðmundssyni skólastjóra lögregluskólans og Ásdísi Ingibjargardóttur skrifstofustjóra. Þau áttu fjölmarga fundi m.a. með lögreglustjórum, Landssambandi lögreglumanna, Félagi yfirlögregluþjóna, Félagi rannsóknarlögreglumanna, Lögreglustjórafélagi Íslands, Félagi ákærenda, ríkssaksóknara, sérstökum saksóknara, Tollstjóra og stjórn Sýslumannafélagsins og var tilgangurinn að fá fram sjónarmið allra þessara aðila um fyrirhugaðar breytingar.
    Var það eindregin niðurstaða starfshópsins að stækka þyrfti lögregluumdæmi frá því sem nú er, auk þess sem hafa yrði hliðsjón af hugmyndum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá október 2006 um að ríkislögreglustjóri ætti fyrst og fremst að sinna verkefnum sem lúta beint að stjórnun, stjórnsýslu og miðlægri þjónustu og verkefnum á sviði öryggismála.
    Þá komst starfshópurinn enn fremur að þeirri niðurstöðu að yfirmenn innan lögreglunnar væru of margir og því væri hugsanlegt að ná fram töluverðum sparnaði með hagræðingu innan lögreglunnar án þess að slíkt kæmi að fullu fram í skertri löggæslu.
    Á grundvelli framangreindra niðurstaðna ákvað ráðherra að unnið skyldi að tillögum um að stækka lögregluumdæmin í landinu og þau myndu síðan lúta stjórn eins lögreglustjóra á landsvísu. Óskaði ráðherra eftir því við Kjartan Þorkelsson formann Lögreglustjórafélagsins og Snorra Magnússon formann Landssambands lögreglumanna, að þeir tækju þátt í að útfæra hugmyndir starfshópsins áfram. Þegar leið á vinnuna var það mat hópsins að ekki væri unnt að ráðast í að sameina alla lögregluna í eina stofnun á svo skömmum tíma að það myndi hjálpa lögreglunni við að mæta lækkuðum fjárveitingum. Á hinn bóginn væri skynsamlegt að sameina lögregluembættin strax í 6–8 embætti enda lá fyrir að viðbrögð við þessum hugmyndum voru fremur jákvæð þegar þær voru settar fram árið 2008. Sú skipting styðst m.a. við sjónarmið um að lögreglulið ættu helst ekki telja færri en 30–50 lögreglumenn til að þau geti verið sjálfbær að sem allra mestu leyti um helstu verkefni. Þá hefur verið horft til þeirrar svæðaskiptingar sem rædd hefur verið í stefnumótunarnefnd ríkisins um svæðaskiptingu landsins.
    Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að ný sameinuð embætti taki til starfa 1. janúar 2011. Þá verði einnig ráðist í breytingar á fyrirkomulagi einstakra löggæsluverkefna. Þessar breytingar hafi fyrst og fremst aukið hagræði að leiðarljósi en taki mið af þeirri stefnumörkun að draga úr löggæsluverkefnum ríkisögreglustjóraembættisins þar sem það er hagkvæmt og skerpa á þeirri sýn að hlutverk þess sé á sviði samræmingar, eftirlits og yfirstjórnar auk öryggismála. Er gert ráð fyrir að þessi löggæsluverkefni verði færð út í hin nýju embætti um leið og rekstur einstakra verkefna á embættunum verði sameinaður á einhverjum þeirra eftir því sem henta þykir. Auk þeirrar yfirstjórnar sem ríkislögreglustjóraembættið hefur með höndum, verði áherslan þannig á samræmingu og eftirlit. Í frumvarpinu er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra skuli fyrir 1. janúar 2011 setja á fót verkefnisstjórn, sem stýri breytingaferlinu og leggi mat á og komi með tillögur til ráðherra um hvaða verkefni væri rétt að fela einstökum lögreglustjóraembættum. Þannig verði unnt að skilgreina ákveðnar kröfur og koma í veg fyrir tortryggni um að þjónustu við önnur lögregluumdæmi á landsvísu sé forgangsraðað aftan við kjarnastarfsemi viðkomandi lögregluembættis.
    Rétt er að taka fram að ætlunin er að í skipuriti nýrra lögregluembætta verði færri stjórnunarstöður en fleiri lögreglumenn, en nú eru innan lögregluliðanna. Embættum ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verði svo gert að ráðast í sams konar endurskoðun á fjölda yfirmanna í sínu skipulagi að því marki sem það hefur ekki þegar verið gert.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til, er fylgt þeirri stefnu, sem að meginstefnu hefur verið framkvæmd undanfarna áratugi í skipulagi lögreglunnar og réttarvörslukerfisins. Skref fyrir skref hefur sérhæfing aukist og einstakar stofnanir orðið öflugri. Fyrir tuttugu árum var löggæslan utan Reykjavíkur á hendi ríflega tuttugu embætta, sem jafnframt sinntu störfum sýslumanna og dómara. Sjálfstæði dómsvaldsins og uppbygging héraðsdómstólanna fól í sér stórt framfaraskref sem fáir mundu vilja að stigið yrði til baka. Hið sama gildir um þá stækkun lögregluumdæma sem framkvæmd var 2007. Með þeirri tillögu sem felst í frumvarpinu hefur verið fallið frá því að sameina alla lögregluna á Íslandi í eina stofnun, en markmiðið er þó að lögreglan vinni í auknum mæli saman sem ein heild. Fækkun lögregluliða og áherslubreytingar í rekstri ríkislögreglustjóra skapa forsendur til þess að lögreglustjórar vinni saman með miklu nánari hætti en nú.
    Um leið er þessum breytingum ætlað að auðvelda lögreglunni að ná fram þeim sparnaði í rekstri sínum sem krafist er. Með stærri rekstrareiningum er unnt að ná sparnaði í stoðþjónustu af ýmsu tagi auk þess sem hlutfall stjórnenda af liðsheildinni getur verið lægra en raunhæft er að miða við í mjög fámennum lögregluliðum.

Um framkvæmd breytinganna.
    Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta taki gildi 1. janúar 2011. Samhliða vinnu við lagafrumvarpið þarf að vinna að nánari útfærslu á fjárhagsramma einstakra embætta í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Í því sambandi þarf að ákveða hvernig boðaður sparnaður skiptist niður á ólík embætti. Meðal annars þarf að taka mið af útfærslu þátta eins og útfærslu meginskipulags, endurskoðun starfsstiga, áhrifa tilfærslu verkefna o.fl. Einnig þarf að útfæra fjárhagslegan aðskilnað lögregluembætta og sýslumannsembætta, en gert er ráð fyrir að þar sem embættismenn færist úr störfum sýslumanna inn á hin nýju fjögur lögregluembætti muni sýslumenn úr aðliggjandi umdæmum verða settir til að fara með þau embætti sem þannig losna. Samhliða frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, þar sem kveðið er á um að unnt verði að setja sýslumann í einu embætti til að að gegna jafnframt öðru sýslumannsembætti. Heildarendurskoðun á skipulagi sýslumannsembættanna fylgi svo í kjölfarið.
    Nauðsynlegt er að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að stýra breytingaferlinu, samræma framkvæmd og styðja lögreglustjóra við uppbyggingu embætta. Einnig er gert ráð fyrir að verkefnisstjórnin stýri tilfærslu verkefna. Í verkefnisstjórninni ættu að eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og lögreglumanna. Þá má gera ráð fyrir að undir verkefnisstjórnina yrðu settir undirhópar til að aðstoða verkefnisstjórnina við innleiðingu á tilteknum verkefnum til að tryggja samræmingu í uppbyggingu nýju embættanna.
    Verkefnisstjórnin mun þurfa að útfæra samrunaáætlun en það er verk-, tíma- og kostnaðaráætlun um framkvæmd sameiningar. Í áætluninni verði fjallað um það sem þarf að gera á hverjum tíma í sameiningarferlinu og hve miklum tíma og fjármunum verður varið til verksins. Í þessum undirbúningi felst að móta meginstefnu um uppbyggingu, skipulag og viðfangsefni lögregluembætta. Undir það falla þættir eins og gerð skipurita, staðsetning starfsstöðva, húsnæði, breytingar á starfsmannahaldi, endurmat starfsstiga og áætlun um tilfærslu verkefna. Eitt lykilverkefni í þessu sambandi er greining og útfærsla aðskilnaðar lögregluembætta og sýslumannsembætta.
    Það er einn lykilþáttur í árangri breytinga að til nýrra stofnana ráðist hæfir og reyndir stjórnendur. Mikilvægt er að tryggja samfellu þannig að þeir stjórnendur sem veljast til starfa hafi þekkingu á lögreglustjórn og því löggæslusvæði sem þeir taka við eða sambærilegum svæðum. Eðlilegt þykir að þeir menn sem starfa sem lögreglustjórar í dag njóti forgangs til áframhaldandi starfa við lögreglustjórn. Er til hagræðis að líta fyrirfram á þá alla sem umsækjendur um störf lögreglustjóra fremur en að auglýsa sérstaklega eftir umsóknum þeirra en brýnt er að fjárhagsleg og fagleg ábyrgð á nýjum embættum verði skýr sem allra fyrst. Er því gert ráð fyrir að dómsmála- og mannréttindaráðherra geti beitt flutningsheimildum til að raða núverandi lögreglustjórum til starfa á nýjum embættum. Allt að einu er þó gert ráð fyrir að gæta verði sömu sjónarmiða og ella um mat á hæfni þeirra sem sækjast eftir sömu störfum.
    Rétt er að undirstrika að gert er ráð fyrir að ný lögregluembætti taki við öllum réttindum og skyldum þeirra embætta sem nú eru fyrir. Þar á meðal munu embættin taka við öllum starfsmönnum á sömu kjörum og áður að undanskildum lögreglustjórunum sjálfum. Um starfslok þeirra gilda ákvæði starfsmannalaga um niðurlagningu stöðu.
    Gert er ráð fyrir því að embættin muni að mestu starfa í óbreyttu formi þar til nýtt skipulag þeirra tekur gildi 1. janúar 2011. Tíminn frá því að lögreglustjórar verða skipaðir við ný embætti og þangað til hin nýju embætti taka til starfa verður nýttur til að móta alla meginþætti starfsemi nýrra embætta. Gert er ráð fyrir því að verkefnahópar starfsmanna fái mikilvægt hlutverk í þessu sambandi og að fyrrgreind verkefnisstjórn hafi yfirsýn en sá sem ákvörðun hefur verið tekin um að verði lögreglustjóri í nýju embætti beri þó höfuðábyrgð á sínu embætti.
    Meðal viðfangsefna sem vinna þarf að má nefna stefnumótun, skipurit, fjárhagsáætlun, húsnæðismál, starfsmannamál, vaktaskipulag og fyrirkomulag ýmissa verkefna.
    Starfsmannamál eru lykilatriði í breytingaferli sem þessu. Skipulagsbreytingar, fækkun yfirmanna og hugsanlega annarra starfsmanna fela óhjákvæmilega í sér röskun á högum margra starfsmanna lögreglunnar. Við framkvæmd breytinga þarf að huga að því að lágmarka þessa röskun og reyna að takmarka beinar uppsagnir eins mikið og hægt er. Veita þarf starfsmönnum þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda og tryggja þeim lögfræðilega ráðgjöf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að ákvæði um stöður aðstoðarríkislögreglustjóra verði felld úr lögunum, en í sparnaðarskyni hefur ekki verið skipaður aðstoðarríkislögreglustjóri um nokkurt skeið. Þessi breyting er í samræmi við það markmið að niðurskurði á fjárheimildum verði m.a. mætt með fækkun yfirmanna og að stöðuheiti í lögreglu séu ekki fastbundin í lögum.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í 6. Þau verði á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, á Vesturlandi og Vestfjörðum, á Norðurlandi, á Austurlandi og á Suðurlandi. Allítarleg grein er gerð fyrir stærð þessara umdæma og lögregluliðanna sem í þeim starfa í fylgiskjali með frumvarpinu. Með þeirri stækkun sem hér um ræðir er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið, sem bæði verði hagkvæmari rekstrareiningar en þau sem fyrir eru og njóti styrks af stærri liðsheild. Þá verði unnt að skipuleggja stærri lið með færri yfirmönnum og komast þannig hjá þeim uppsögnum sem ella væru óumflýjanlegar.
    Var það mat starfshópsins sem frumvarpið samdi að óheppilegt væri að fastsetja umdæmin með nákvæmum hætti í lög og því var farin sú leið að veita dómsmála- og mannréttindaráðherra heimild til að afmarka þau nánar í reglugerð. Rökin fyrir því eru einkum þau að fjöldi sveitarfélaga í landinu hefur tekið breytingum undanfarin ár. Gæti verið nauðsynlegt að hnika umdæmum til, t.d. vegna sameiningar sveitarfélaga eða jafnvel vegna eindreginna óska heimamanna í einstökum byggðarlögum um að tilheyra öðru lögregluumdæmi. Þá var það samróma álit nefndarinnar að ekki ætti að kenna embættin við tiltekna þéttbýliskjarna eða sveitarfélög eða taka með öðrum hætti afstöðu til þess í lögunum hvar höfuðstöðvar eiga að vera staðsettar eða aðstaða fyrir lögreglu að öðru leyti. Tækniframfarir og síaukin áhersla á sýnilega löggæslu hafa dregið mjög úr mikilvægi varðstofa og engin ástæða er til að stilla málum upp með þeim hætti að skipuleggja þurfi nær alla starfsemi embættis í einum höfuðstöðvum á einum stað. Réttara virðist að láta lögreglustjórum eftir að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og stilla þeim og aðstöðu þeirra upp eins og þeir telja þörf krefja og fjárveitingar hrökkva til.
    Með brottfalli núgildandi 2. mgr. 6. gr. eru aflögð embætti aðstoðarlögreglustjóra sem nú eru á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Er það í samræmi við það stefnumið að fækka yfirmönnum í lögreglunni.
    Lagt er til að úr 3. mgr. 6. gr. laganna verði fellt ákvæði er lýtur að samræmingu á starfi lögreglunnar innan landsfjórðunga. Við það er miðað að störf lögreglu eigi að samhæfa eftir því sem kostur er um allt land. Gert er ráð fyrir því að lögfest verði heimild til að fela sýslumönnum að fara með daglega lögreglustjórn í umboði lögreglustjóra. Þannig er unnt að taka tillit til aðstæðna í einstökum landshlutum, þar sem samgönguerfiðleikar og ákveðin einangrun gera að verkum að heppilegt kann að þykja að halda í það fyrirkomulag að dagleg verkstjórn sé í höndum sýslumanns.
    Lagt er til að við bætist ný málsgrein í 6. gr. þar sem lögfest verði ný heimild fyrir ráðherra til að fela einstökum lögreglustjórum umsjón tiltekinna verkefna á landsvísu. Góð reynsla er af því að taka einstök verkefni fastari tökum með því að sameina vinnslu þeirra á einum stað. Má t.d. nefna sektainnheimtu, sem upphaflega var sameinuð hjá ríkislögreglustjóra en síðar vistuð á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórn um útfærslu breytinganna geri tillögur um færslur á verkefnum og fjárheimildum, en embætti ríkislögreglustjóra hafi eftirlit með því að viðkomandi embætti uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til rækslu verkefnanna. Á meðal þeirra verkefna sem þarna koma til skoðunar er rekstur sérsveitar, símsvörun og rekstur fjarskiptamiðstöðvar, flutningur brottvísaðra útlendinga úr landi o.fl. Heimildin tengist þannig þeirri áherslubreytingu sem boðuð er á embætti ríkislögreglustjóra, en felur einnig í sér möguleika á að hagræða með því að fella saman vinnslu verkefna sem nú eru unnin á öllum lögregluembættum.

Um 3. gr.

    Í 8. gr. laganna er gerð grein fyrir lögreglurannsóknum. Með þeim breytingum sem gerðar voru árið 2007 var sú skipan tekin upp að rannsóknardeildirnar voru aðeins 7 þótt embættin væru 15. Eru því nú í lögunum ákvæði sem mæla fyrir um hversu brot framin í einu umdæmi geta sætt rannsókn rannsóknardeildar úr öðru umdæmi. Þetta fyrirkomulag þykir ekki hafa gefist vel að öllu leyti og er gert ráð fyrir að sérstakar rannsóknardeildir verði starfræktar í öllum 6 lögregluumdæmunum. Lögreglurannsóknir samþættast almennu lögreglustarfi í umdæmunum og lögregluembættin eru betur í stakk búin til þess að takast á við slík mál með skilvirkum hætti um leið og þau koma upp. Forræði rannsókna verður í því lögregluumdæmi þar sem brot eru framin. Hins vegar er lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu áfram gert að starfrækja tæknideild sem er hinum lögregluumdæmunum til aðstoðar ef þörf er á. Ekki er ætlast til að hvert umdæmi setji á laggirnar dýra tæknideild. Langflest eða um 70% hegningarlagabrota voru á árinu 2008 framin á höfuðborgarsvæðinu, um 5–7 % í hverju hinna nýju umdæma á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi/Vestfjörðum og Norðurlandi og innan við 5% á Austurlandi. Miðað við það að langflest brotin eru framin á höfuðborgarsvæðinu eða um 70% er skynsamlegt að sérstök tæknideild starfi í sem mestri nálægð við og með stærstu rannsóknardeildinni á landinu og viðhaldi með því þekkingu sinni á því sem gerist í rannsóknum þar, haldi sýn á nýjungum í rannsóknum og stuðli að sem bestri samvinnu við aðra rannsakara. Langflest brot eru þeirrar tegundar að rannsókn þeirra krefst ekki flókinna eða sérstakra rannsóknarúrræða.
    Lögreglurannsóknir byggjast stöðugt meira á alþjóðlegum samskiptum og tæknilausnum sem krefjast sérstakrar kunnáttu. Þessi tengsl og sérhæfing verður ekki byggð upp á mörgum stöðum.
    Brotaumhverfi á Íslandi er að breytast þannig að lögreglurannsóknir byggjast í mjög vaxandi mæli á samþættingu upplýsinga hér heima og erlendis sérstaklega á því sviði sem lýtur að rannsóknum brota sem eiga uppruna sinn í skipulagðri glæpastarfsemi. Talið er rétt að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu veiti öðrum lögregluembættum rannsóknaraðstoð, þ.m.t. tæknilega rannsóknaraðstoð vegna brota er tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, vettvangsrannsókna, samanburðarrannsókna og annarra slíkra rannsókna. Þar skal varðveitt fingrafarasafn lögreglu og ljósmyndasafn. Meginröksemdin fyrir þessari tilhögun er að flest alvarleg brot verður að rannsaka með aðkomu sérhæfðrar tæknideildar með rannsóknaraðstoð í formi upplýsinga og tæknilegra úrræða auk þess sem þau krefjast að jafnaði verulegs vinnuframlags (flóknar og tímafrekar rannsóknir auk þess sem vanda þarf sérstaklega alla öflun sönnunargagna vegna alvarleika brotsins og þyngd mögulegrar refsingar). Rannsóknir slíkra alvarlegra brota eru nokkuð sérhæfðar og krefjast sérþekkingar auk þess sem mjög áríðandi er rannsókn slíkra brota gangi hratt og skilmerkilega fyrir sig.
    Ákvæði 5. mgr. 8. gr. laganna hefur ekki verið nýtt né talin þörf á því. Ekki er hagkvæmt að hafa fleiri en eina greiningardeild.

Um 4. gr.

    Breytingin á 9. gr. laganna leiðir af því að stöður aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra verða felldar úr lögunum.

Um 5. gr.

    Hér er fjallað um samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga. Er kveðið á um að sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem eru innan umdæmisins sitji í nefndinni í stað þeirra sem nú sitja í henni þ.e. lögreglustjóri viðkomandi umdæmis sem jafnframt er formaður nefndarinnar og tveir sveitarstjórnarmenn tilnefndir af hálfu sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu. Er talið skilvirkara að hafa sveitarstjórana sjálfa í nefndunum. Nauðsynlegt þykir að skapa þann möguleika að fleiri en ein samstarfsnefnd geti starfað í lögregluumdæmi, en við því má búast að á annan tug sveitarfélaga verði í nokkrum lögregluumdæmum.

Um 6. gr.

    Hér er fjallað um hæfisskilyrði ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra. Í núgildandi lögum er vísað í hæfisskilyrði sýslumanna um hæfi lögreglustjóra, en í lögum nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, segir um hæfisskilyrði sýslumanna að engan megi „skipa sýslumann, nema hann fullnægi almennum skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara, öðrum en um lágmarksaldur“. Hinar efnislegu reglur um hæfisskilyrði lögreglustjóra er því að mestu að finna í dómstólalögum, nr. 15/1998.
    Hér er lagt til að efnisreglurnar um hæfisskilyrði lögreglustjóra verði teknar upp í lögreglulög. Á hinn bóginn er ekki lagt til að verulegar breytingar verði gerðar á þessum skilyrðum.
    Í 12. gr. dómstólalaga segir að þann einan megi skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1.      Hefur náð 30 ára aldri.
2.      Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3.      Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4.      Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5.      Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6.      Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
7.      Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.
    Fyrsta skilyrðið í þessari upptalningu á ekki við um sýslumenn og lögreglustjóra og virðist óþarft að taka það upp. Annað skilyrðið er almenns eðlis og er að finna í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki er talin þörf á að taka þriðja skilyrðið upp í lagatextann, svo sjálfsagt sem það er. Fjórða og fimmta skilyrðið lúta að fortíð viðkomandi og er ekki talin ástæða til að slaka á þeim kröfum sem þar eru gerðar. Síðustu tvö skilyrðin lúta að menntun og reynslu.
    Í ljósi þess að ekki verður skilið milli ákæruvalds og lögreglu er talið rétt að miða við að lögreglustjórar séu lögfræðingar. Á hinn bóginn er skilyrðið í 7. tölul. 12. gr. dómstólalaga nær eingöngu miðað við reynslu af dómstörfum og þykir ástæðulaust að hafa skilyrði af þessu tagi í lögum, enda þykir mega gera ráð fyrir því að hæfustu umsækjendur um starf lögreglustjóra hafi jafnan umtalsverða reynslu.
    Öll þessi hæfisskilyrði ná jafnt til ríkislögreglustjóra og annarra lögreglustjóra.
    Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að ekki verður lengur kveðið á um að staðgengill lögreglustjóra þurfi að uppfylla sömu hæfisskilyrði og hann sjálfur. Með þessu er gengið skrefi lengra á þeirri braut sem mörkuð var með breytingu á lögreglulögum frá 2006, sem kom á embættum aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra, því samkvæmt þessu geta þeir undirmenn lögreglustjóra sem lokið hafa námi frá Lögregluskóla ríkisins verið staðgenglar hans. Slíkt mundi væntanlega einkum eiga við um þá menn sem einnig hafa lokið stjórnunarnámi eða öðru sambærilegu námi, svo sem nú á við um aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra. Í ljósi þess að stærð minnstu embættanna verður töluvert önnur en nú, þykir mega koma málum fyrir með þeim hætti innan þeirra að meðferð ákæruvalds verði ekki teflt í tvísýnu þótt staðgengill lögreglustjóra sé ólöglærður.
    Lagt er til að 3. mgr. 28. gr. verði felld úr gildi, enda gert ráð fyrir að stöður aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra verði lagðar niður sem sérstök stöðuheiti í lögunum.
    Þá er lagt til að lögreglustjórar skipi alla lögreglumenn nema yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna við sitt embætti og er það gert til að undirstrika stjórnunarheimildir lögreglustjóra yfir starfsliði sínu og gera boðleiðir skýrari. Eðlilegt er að sá sem ber ábyrgð á störfum undirmanna sinna, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna, skipi starfsmenn sína, enda er það hann sem hefur heimildir 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til áminningar á sinni hendi. Skipanir yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna færist frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu til ríkislögreglustjóra, en rökin fyrir því að færa ekki allar skipanir að fullu til embættanna í einu lagi eru annars vegar þau að heppilegra sé að gera breytingar að þessu leyti í áföngum og hins vegar þau að mikilvægt er að haldið sé á skipunarmálum stjórnenda embættanna með samræmdum og tryggum hætti eftir að hin nýju sameinuðu embætti taka til starfa. Lagt er til að sú heimild sem nú er að finna í 5. mgr. 28. gr. falli niður. Greinin er arfur frá þeim tíma þegar ekki var unnt að manna stöður lögreglumanna með menntuðum mönnum. Vegna mikillar eflingar lögregluskólans hefur þetta vandamál nú verið leyst. Þessi breyting hróflar ekki við störfum þeirra örfáu ómenntuðu lögreglumanna sem enn eru við störf. Nauðsynlegt er að ráðuneytið hugi að því hvort rétt sé að breyta reglugerð um héraðslögreglumenn til að fyrirbyggja að þessi breyting leiði til þess að alls ómögulegt verði að halda uppi löggæslu á ákveðnum stöðum og tímum

Um 7. gr

    Brottfall 2. mgr. 37. gr. leiðir af því að óeðlilegt þykir að stilla upp einstökum embættum lögreglumanna við lögregluskólann í lögum, enda er það ekki gert við aðrar stofnanir lögreglunnar.

Um 8. gr.

    Lagt er til að breyting verði gerð á fyrirkomulagi launagreiðslna til lögreglunema sem stunda nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins frá því sem verið hefur frá lögleiðingu lögreglulaga. Námið á fyrstu önninni í skólanum er ólaunað en hefur verið lánshæft nám samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).
    Samkvæmt gildandi lögum skal ríkislögreglustjóri sjá þeim nemum sem standast próf á fyrstu námsönninni í skólanum fyrir launaðri starfsþjálfun í lögreglu ríkisins. Raunin er sú að skólinn hefur skipulagt starfsþjálfunina með samkomulagi við lögregluembætti sem hafa tekið nemendur í starfsþjálfun og greitt þeim laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna (LL). Fjárveiting hefur hins vegar aldrei verið veitt sérstaklega á fjárlögum til að standa straum af launakostnaði vegna starfsþjálfunar lögreglunema. Á lokaönn námsins hafa lögreglunemarnir fengið laun sem Lögregluskóli ríkisins greiðir.
    Rekstur lögregluembætta er erfiður og fyrrgreint fyrirkomulag gengur ekki lengur vegna fjárskorts auk þess sem það hefur ávallt verið sá faglegi galli á fyrirkomulaginu, að fremur hefur verið litið á starfsþjálfunarnema sem afleysingamenn en nemendur, sem á hinn bóginn hefur leitt til þess að Lögregluskóli ríkisins hefur átt erfitt með að fylgja eftir námskrá starfsþjálfunarannarinnar. Virðist eðlilegt að lögreglunemar fjármagni sitt nám með námslánum eins og aðrir nemar að undanskildum þeim tíma sem þeir eru í starfsnámi.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og m.t.t. hagræðingar og betri nýtingu fjármuna er talið rétt og eðlilegt að breyta núverandi fyrirkomulagi varðandi launagreiðslur vegna grunnnámsnema við Lögregluskóla ríkisins. Skólinn skuli sjá þeim nemendum sem standast próf á fyrstu námsönn (bóknámsönn) fyrir starfsþjálfun í lögreglunni í a.m.k. fjóra mánuði og greiðir þá mánaðarlaun þeirra. Hins vegar verði hætt að greiða lögreglunemum laun á lokaönn námsins í skólanum (bóknámsönn) sem gert er ráð fyrir að verði lánshæft nám samkvæmt reglum LÍN eins og námið á fyrstu námsönn er.

Um 9. gr.

    Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða. Er gert ráð fyrir að hin nýju embætti taki við öllum réttindum og skyldum sem og eignum þeirra lögregluembætta sem þau leysa af hólmi. Þar á meðal taki þau við öllum starfsmönnum embættanna á sömu starfskjörum að undanskildum lögreglustjórunum sjálfum en störf þeirra verða lögð niður. Vísað er til almennra athugasemda um framkvæmd breytinganna.

Um 10. gr.

    Hér eru gerðar breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að koma á aðskilnaði lögreglustjóra og sýslumanna. Eru ýmsar leyfisveitingar faldar sýslumönnum með þessum breytingum, en raunin hefur verið sú að mikill fjöldi leyfa sem krefst aðkomu lögreglustjóra samkvæmt lögum hefur í reynd ekki verið afgreiddur af lögreglumönnum heldur af almennum starfsmönnum sýslumannsembættanna.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er lagt til að þrátt fyrir að hin nýju embætti taki ekki til starfa fyrr en 1. janúar 2011 taki lögin gildi þegar í stað að því leyti sem kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða. Þannig geti ráðherra tekið ákvörðun um hver verði lögreglustjóri í hinu nýja lögregluembætti þó svo að embættið taki ekki til starfa fyrr en 1. janúar 2011. Er þetta mikilvægt í ljósi þess að tilvonandi lögreglustjóri þarf að starfa með verkefnisstjórn þeirri sem skipa skal skv. 3. mgr. ákvæðisins að undirbúningi breytinganna. Þá er jafnframt kveðið á um að ekki þurfi að auglýsa hin nýju embætti og að ráðherra geti flutt menn til í embætti og skulu þeir sem skipaðir eru í embætti lögreglustjóra við gildistöku ákvæðis til bráðabirgða þá njóta forgangs. Vísast til nánari umfjöllunar í almennum athugasemdum hér að framan. Ákvæðið um forgangsrétt lögreglustjóra til starfa á sér fyrirmynd í 18. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, o.fl.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að löggæslan verði að fullu aðskilin frá sýslumannsembættum og lögregluumdæmin stækkuð og þeim fækkað úr 15 í 6. Gert er ráð fyrir að skipuð verði sérstök verkefnisstjórn sem sjái um framkvæmd breytinganna. Í þeirri vinnu skal m.a. leggja mat á hagkvæmni og koma með tillögu um verkefnaflutning á milli embætta. Þannig er gert ráð fyrir að verkefni ríkislögreglustjóra verði endurmetin til þess að ná fram aukinni samlegð og fækkun í yfirstjórn. Markmið breytinganna eru í meginatriðum tvíþætt, annars vegar að ná fram hagræðingu í rekstri og hins vegar að auka faglega burði lögreglunnar á landsbyggðinni. Með þessum aðgerðum er leitast við að ná fram betri stýringu á fjárveitingum til málaflokksins, sérstaklega í ljósi þess að fjárveitingar koma til með að dragast saman á næstu árum. Gera má ráð fyrir að það gerist einkum með fernum hætti. Í fyrsta lagi leiðir af stækkun embætta að yfirmönnum fækkar hlutfallslega meira en almennum lögreglumönnum. Í öðru lagi má gera ráð fyrir að lögreglumönnum sem og öðru starfsfólki löggæsluembætta fækki í heildina á næstu árum með því að nánast engar nýráðningar koma á móti fækkun vegna þeirra starfsmanna sem fara á eftirlaun eða hverfa til annarra starfa. Í þriðja lagi er áætlað að með samþættingu verkefna á landsvísu við einstök umdæmi lögreglu komi til með að verða betri nýting á starfsfólki og samhliða endurskipulagningu á öllu innkaupaferli lögreglu náist fram veruleg hagræðing. Í fjórða lagi er ætlunin að skipta fjárveitingum til löggæslu í samræmi við reiknilíkan þannig að meira tillit verði tekið til íbúafjölda og umferðar í umdæmi en verið hefur.
    Eins og fram kemur hér að framan er sérstakri verkefnisstjórn ætlað að finna út hagkvæmni þessara breytinga og hefur fjárhagsleg greining ekki að fullu farið fram. Þó gera áætlanir dómsmálaráðuneytisins ráð fyrir að fækkun í yfirstjórn spari embættunum rúmar 243 m.kr. en að ráðnir verði almennir lögreglumenn í staðinn sem hafi í för með sér um 128 m.kr. kostnaðarauka þannig að nettó áhrifin verði ekki nema 115 m.kr. sparnaður. Auk þess er gert ráð fyrir að með sameiningunni geti bakvaktir dregist verulega saman og að sparnaður vegna þess verði um 142 m.kr. Áætlað er að með meiri miðstýringu á innkaupum og með endurskipulagningu á innkaupaferlum náist lækkun útgjalda um allt að 80 m.kr. á ári. Samtals gera áætlanir dómsmálaráðuneytisins því ráð fyrir að bein hagræðing vegna þessa frumvarps verði rúmar 330 m.kr. á ári eða 4,5% af veltu starfseminnar. Í sameiningaráformum ríkisstofnana hefur hins vegar verið horft til þess að hagræðið gæti orðið á bilinu 10–15% og væri sparnaðurinn þá á bilinu 700–1.000 m.kr.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að heildarsparnaður gæti verið á bilinu 330–450 m.kr. á ári allt eftir því hvað starfsmönnum verður fækkað mikið í samræmi við möguleika sem frumvarpið skapar. Mat á mannaflsþörf hinna nýju lögregluembætta í samræmi við þetta frumvarp hefur hins vegar ekki verið metin og er gert ráð fyrir því að það verði hlutverk verkefnisstjórnarinnar að útfæra frekari hagræðingu innan málaflokksins þannig að útgjöld ríkissjóðs geti lækkað enn frekar.Fylgiskjal II.

Sameining lögregluembætta.
Greinargerð starfshóps dómsmálaráðherra.
(Október 2009)

Formáli
    Í greinargerð þessari er leitast við að gera grein fyrir tillögu starfshóps dómsmálaráðherra, frú Rögnu Árnadóttur, um sameiningu lögregluembætta. Með starfshópnum hafa jafnframt starfað Kjartan Þorkelsson, formaður lögreglustjórafélagsins, og Snorri Magnússon, formaður landssambands lögreglumanna. Kjartan og Snorri hafa tekið fulla þátt í starfi hópsins og styðja meginefni tillagnanna þótt skiptar skoðanir hafi verið um einstaka þætti. Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur á dómsmála- og löggæsluskrifstofu, var ritari starfshópsins og með hópnum hefur einnig starfað Sigurður Helgason ráðgjafi.
    Greinargerðinni er skipt upp í 5 kafla þar sem gerð er grein fyrir aðdraganda verkefnisins, tillögunni um stækkun lögregluumdæma, skipulagi lögreglu, hagræðingu og framkvæmd breytinga. Þá fylgja greinargerðinni þrjú fylgiskjöl. Í fyrsta lagi fylgiskjal sem gerir grein fyrir sjónarmiðum stjórnenda og starfsmanna löggæslunnar, í öðru lagi fylgiskjal um valkosti um breytt skipulag og að lokum drög að frumvarpi til breytinga á lögreglulögum.


Reykjavík 22. október 2009,
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Haukur Guðmundsson


formaður


Arnar Guðmundsson Ásdís Ingibjargardóttir
Kjartan Þorkelsson Snorri Magnússon
Skúli Þór Gunnsteinsson,
ritari
Sigurður Helgason,
ráðgjafi


1. Inngangur
    Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar viðamiklar breytingar á skipulagi löggæslunnar. Má í þessu sambandi nefna:
*      Aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði árið 1992 sem fól í sér að lögreglustjórar fóru ekki lengur með dómsvald.
*      Stofnsetning embættis ríkislögreglustjóra árið 1996 en samhliða því var Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður.
*      Tilfærsla ýmissa verkefna til embættis ríkislögreglustjóra auk nýrra verkefna á embættinu.
*      Sameiningu og fækkun lögreglustjóraembætta úr 25 í 15 árið 2007.
*      Með breytingu á tollalögum nr. 88/2005, sem tók gildi 1. janúar 2007, var landið gert að einu tollumdæmi og tollstjórn aðskilin frá lögreglustjórn.
    Nefnd dómsmálaráðherra sem skipuð var til að meta árangur af skipulagsbreytingum sem tóku gildi 2007 komst að þeirri niðurstöðu að árangur af nýskipan lögreglumála hafi verið góðar. Nefndin lagði fram ýmsar ábendingar, meðal annars um að:
1.      Meiri stækkun lögregluembætta gæti enn aukið slagkraft lögregluliða.
2.      Lögreglustjórum yrði gert kleift að sinna eingöngu lögreglustjórn.
3.      Hugað yrði að nýrri skipan lögreglurannsókna og rannsóknarstörf lögreglu yrðu færð í fyrra horf og undir stjórn lögreglustjóra innan hvers umdæmis.
    Í ljósi góðrar reynslu af fækkun lögregluumdæma ákvað dómsmálaráðherra að fara yfir stofnanauppbyggingu innan lögreglunnar, ásamt umdæma- og verkefnaskiptingu. Slík endurskoðun er brýn í ljósi erfiðra aðstæðna í fjármálum ríkisins. Leita þarf leiða til að þeir fjármunir sem veitt er til löggæslu nýtist sem allra best. Markmið skipulagsbreytinga eru ekki síst að auka möguleika til að mæta lægri fjárveitingum með hagræðingu fremur en niðurskurði þjónustu.
    Dómsmálaráðherra skipaði þann 15. júní sl. starfshóp til að vinna að þessu verkefni. Í hópinn voru skipuð þau Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu, sem jafnframt var formaður, Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og Ásdís Ingibjargardóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu ráðherra . Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur á dómsmála- og löggæsluskrifstofu, var ritari starfshópsins. Starfshópnum var falið að:
*      Leggja fram tillögur að breytingum eða nýju skipulagi, sem hafi það að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu, auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til embættanna er varið.
*      Taka til skoðunar verkaskiptingu á milli embætta, stofnanauppbyggingu innan lögreglunnar, tengingu lögreglu við sýslumenn og önnur verkefni sýslumanna og breytingar á verksviði lögreglu, t.d. varðandi ákæruvald og leyfisveitingar.
*      Leita eftir skoðunum og tillögum um skipulag löggæslunnar innan lögreglunnar og eftir atvikum frá öðrum þeim sem láta sig löggæslumál varða.
*      Hafa til hliðsjónar skýrslu nefndar um mat á breytingum á nýskipan lögreglu sem unnin var á vegum ráðuneytisins í apríl 2008.
    Í starfi sínu átti starfshópurinn fjölmarga fundi m.a. með lögreglustjórum, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, sérstökum saksóknara, saksóknara efnahagsbrotadeildar, stjórnum Landssambands lögreglumanna, félags ákærenda, félags yfirlögregluþjóna, lögreglustjórafélagsins og sýslumannafélagsins, auk tollstjórans í Reykjavík og fleiri aðila í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið þeirra varðandi skipulagsbreytingar. Í fylgiskjali 1 eru tekin saman helstu viðhorf og sjónarmið sem fram komu á fundunum.
    Starfshópurinn lagði fyrstu hugmyndir sínar fram við dómsmálaráðherra í júlí sl. Í framhaldi af því ákvað ráðherra að hefja undirbúning að breyttu skipulagi þar sem lögregluumdæmin verði stækkuð frá því sem nú er og stofnað nýtt embætti lögreglustjóra á landsvísu.
    Í kjölfar þeirrar ákvörðunar óskaði dóms- og kirkjumálaráðherra eftir að Kjartan Þorkelsson, formaður lögreglustjórafélagsins, og Snorri Magnússon, formaður landssambands lögreglumanna, tækju að sér að starfa með hópnum til að útfæra framangreindar hugmyndir. Óskaði ráðherra eftir því að starfshópurinn ynni að nánari útfærslu og áætlun um framkvæmd og var hópnum falið að undirbúa og útfæra tillögur um að:
*      Lögregluumdæmi landsins verði stækkuð frá því sem nú er og verði 6–8 talsins og starfi þau undir forystu umdæmisstjóra.
*      Umdæmisstjórar verði undir stjórn eins lögreglustjóra á landsvísu.
*      Lögregluembættin í landinu verði sameinuð í eitt lögreglulið.
    Markmið með skipulagsbreytingum var að tryggja þá grunnþjónustu sem lögreglu ber að veita og nýta sérhæfingu innan lögreglunnar þannig að hún gagnist sem best um land allt. Stjórnunarkostnaður verði lækkaður eins mikið og unnt er til að mæta sparnaðarkröfum næstu ára. Ráðherra hélt fund með öllum lögreglustjórum og stjórn Landssambands lögreglumanna og kynnti þeim málið þann 30. júlí 2009.
    Starfshópurinn kannaði kosti þess að sameina öll lögregluembætti í eitt embætti á landsvísu. Þegar leið á vinnuna var það mat hópsins að ekki væri raunhæft að gera svo umfangsmikla breytingu þegar á næsta ári. Starfshópurinn lagði því til við ráðherra að unnið yrði að skipulagsbreytingum sem fela í sér stækkun umdæma en ekki sameiningu í eitt lögregluembætti. Ráðherra féllst á þessa niðurstöðu starfshópsins og er í meðfylgjandi skýrslu gerð grein fyrir tillögu hópsins á þeim grunni.

2. Tillögur um stækkun lögregluumdæma
    Það er álit starfshópsins að stefna beri að stækkun lögregluumdæma og fækkun lögregluembætta og draga jafnframt úr yfirbyggingu þeirra. Einnig er lagt til að fela einstökum lögregluembættum verkefni á landsvísu, en það þykir raunhæft m.a. vegna stækkunar þeirra.
    Megintillögur starfshópsins eru:
1.      Lögregluembættum verði fækkað úr 15 embættum í 6 embætti:
             a.      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
             b.      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
             c.      Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
             d.      Lögreglustjórinn á Norðurlandi.
             e.      Lögreglustjórinn á Austurlandi.
             f.          Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
2.      Mörk svæðanna verði ekki lögfest heldur ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna.
3.      Ráðherra skipi yfirmenn nýju lögregluembættanna úr hópi þeirra sýslumanna sem nú gegna lögreglustjórn. Áður en þetta verði gert kanni ráðuneytið afstöðu þeirra.
4.      Ný embætti taki formlega til starfa 1. janúar 2010.
5.      Hin eiginlega skipulagslega sameining með nýju skipuriti taki gildi 1. apríl 2010. Samhliða komi til framkvæmda nauðsynlegar breytingar á starfsmannahaldi sem m.a. miða að því að draga úr yfirbyggingu.
6.      Unnið verði skipulega að því að færa löggæsluverkefni frá embætti ríkislögreglustjóra til lögregluembættanna eftir því sem hagkvæmt þykir. Um leið verði hugað að því að sameina vinnslu einstakra löggæsluverkefni á landsvísu á einstökum embættum.
7.      Við sameiningu embætta og tilfærslu verkefna verði unnið skipulega í öllum embættunum að hagræðingu.
8.      Leyfisveitingar sem unnar eru af lögreglustjórum verði færðar til embætta sýslumanna.
    Starfshópurinn telur æskilegt að samhliða fækkun lögregluembætta verði hugað að fækkun embætta sýslumanna. Er það mat hópsins að það sé mikilvæg forsenda þess að hægt verði að vinna að aðskilnaði löggæslu frá sýslumannsembættum með skipulegum hætti.
    Markmiðin með tillögum starfshópsins eru fyrst og fremst að:
1.      Efla og þróa faglega hæfni löggæslunnar um land allt og tryggja að sérhvert lögregluembætti geti annast sem flesta þætti löggæslu.
2.      Auðvelda samhæfingu og auka sveigjanleika í löggæslu.
3.      Að einfalda stjórnskipulag lögreglunnar.
4.      Auka möguleika til að færa miðlæga löggæslu og stoðþjónustu til einstakra lögregluembætta.
5.      Draga úr yfirbyggingu löggæslunnar til hagsbóta fyrir sýnilega löggæslu.
6.      Bæta möguleika lögreglunnar til að mæta niðurskurði fjárveitinga án þess að það komi niður á grunnþjónustu.
    Það er mat starfshópsins að hægt sé að framkvæma framangreindar breytingar án teljandi áhættu á því að röskun verði á löggæslunni. Það er lykilatriði í þessu sambandi að náið samráð verði haft við starfsmenn og stjórnendur lögreglunnar við framkvæmd breytinga. Vanda þarf til undirbúnings breytinga og vinna að þeim með skipulegum og samræmdum hætti.
    Eins og fram kemur í inngangi þá taldi hópurinn ekki tímabært að sameina öll lögreglulið í eitt embætti á landsvísu en hópurinn telur samt sem áður rétt að leggja umfjöllunina fram sem lið í umræðu um framtíðarskipulag lögreglunnar. Í fylgiskjali 2 eru sett fram líkön af heildarsameiningu lögreglunnar og kostir og gallar þeirra metnir. Það er mat starfshópsins að ástæða sé til að kanna þessa valkosti nánar og skoða kosti þess að í framtíðinni starfi á landinu eitt sameinað lögreglulið með sex lögreglusvæðum sem njóti ákveðins sjálfstæðis. Við þá stefnumótun er eðlilegt að fjalla jafnframt um mögulegar breytingar á skipulagi ákæruvalds, öryggis- og greiningarmála og fleiri þátta löggæslunnar.

3. Skipulag lögreglunnar
3.1 Núverandi skipulag
    Um starfsemi og skipulag lögreglunnar gilda lögreglulög nr. 90/1996. Meginþættir núverandi skipulags lögreglunnar koma fram á mynd 1. Dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu en ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði hans. Hlutverk embættis ríkislögreglustjóra eru einkum:
*      Ráðgjöf við ráðuneyti.
*      Samhæfing löggæslu.
*      Stoðþjónusta við lögregluembætti.
*      Sérstök löggæsluverkefni á landsvísu.
    Þó ríkislögreglustjóri fari með málefni lögreglunnar í umboði dómsmála- og mannréttindaráðherra er hann ekki yfirmaður lögreglustjóra og fer ekki með almennt boðvald gagnvart þeim.

Mynd 1. Skipulag lögreglunnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur á mynd 2 skiptist lögreglan í 15 lögregluembætti undir yfirstjórn lögreglustjóra og sýslumanna. Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Lögreglustjórar fara einnig með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða í landi.

Mynd 2. Stjórnsýsluumdæmi lögreglunnar.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Samkvæmt lögreglulögum er Lögregluskóli ríkisins sjálfstæð stofnun sem skal starfrækja grunnnámsdeild sem veitir menntun í almennum lögreglufræðum og framhaldsdeild sem annast símenntun, framhaldsmenntun og sérmenntun. Skólinn skal einnig vera vettvangur rannsókna í lögreglufræðum og stjórnvöldum til ráðgjafar um lögreglumálefni.
    Samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ákæruvald í höndum ríkissaksóknara, héraðssaksóknara 1 og lögreglustjóra. Hlutverk ákærenda er að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Ákærendur taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum. Ríkissaksóknari gefur út almennar reglur og fyrirmæli um meðferð ákæruvalds. Auk eftirlitshlutverks þá fer ríkissaksóknar með rannsókn mála vegna meintrar refsiverðrar háttsemi lögreglumanna og getur gefið ákærendum fyrirmæli. Tvöfalt hlutverk lögreglustjóra sem yfirmanna löggæslu og handhafa ákæruvalds þýðir að þeir lúta samkvæmt lögum boðvaldi ráðherra um annað meginhlutverk sitt (löggæslu) en Ríkissaksóknara um hitt (ákæruvald). Þá getur ríkislögreglustjóri í vissum aðstæðum farið með afmarkað boðvald gagnvart lögreglustjórum.
    Gert var mat á skipulagi lögreglunnar þar sem notuð eru almenn viðmið um gæði skipulags. Niðurstöður matsins koma fram í töflu 1.

Tafla 1. Mat á skipulagi lögreglunnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2. Kostir og gallar núverandi skipulags lögreglu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflu 2 kemur almennt yfirlit yfir kosti og galla núverandi skipulags. Í heildina má segja að þó að skipulagið hafi ýmsa kosti, verður að telja að gallarnir séu fleiri og alvarlegri. Augljóst virðist að stefna beri að færri og stærri embættum og tryggja að lögreglan geti unnið sem ein heild. Þetta er í samræmi við þá ákvörðun dómsmálaráðherra að vinna skuli að breyttu skipulagi lögreglu.

3.2 Breytt skipulag lögreglunnar
    Það er álit starfshópsins að stefna beri að stækkun lögregluumdæma og fækkun lögregluembætta. Miðlægum verkefnum verði dreift á embættin í þeim mæli sem unnt er og skynsamlegt þykir. Þessi breyting felur í sér fækkun lögregluumdæma úr 15 í 6 (sjá. mynd 3):

1.      Höfuðborgarsvæðið.
2.      Suðurnes.
3.      Vesturland.
4.      Norðurland.
5.      Austurland.
6.      Suðurland.

Mynd 3. Lögregluumdæmi eftir breytinguHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Það er mat starfshópsins að mörk umdæma skuli ákveðin í reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að tillögum um samræmingu umdæmamarka ólíkra þjónustukerfa ríkisins. Skipting löggæslunnar í embætti mun væntanlega taka mið af þeirri stefnumótun. Ekki eru gerðar tillögur um hvar höfuðstöðvar einstakra umdæma skuli vera. Mikilvægt er að starfsskipulag lögregluembætta sé sveigjanlegt, lögreglustjóri getur t.d. haft starfsaðstöðu á fleiri en einum stað og ekki er þörf á því að öll sameiginleg verkefni séu í einni starfsstöð. Þá var það samróma álit nefndarinnar að ekki ætti að kenna embættin við tiltekna þéttbýliskjarna eða sveitarfélög eða taka með öðrum hætti afstöðu til þess hvar höfuðstöðvar eiga að vera staðsettar eða aðstaða fyrir embættin að öðru leyti. Tækniframfarir og síaukin áhersla á sýnilega löggæslu hafa dregið mjög úr mikilvægi varðstofa og enginn ástæða er til að stilla málum upp með þeim hætti að skipuleggja þurfi nær alla starfsemi embættis í einum höfuðstöðvum á einum stað. Réttara virðist vera að láta lögreglustjórum það eftir að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og stilla þeim og aðstöðu þeirra upp eins og þeir telja þörf krefja og fjárveitingar hrökkva til.
    Eðlilegt er að samhliða fækkun og eflingu lögregluembætta verði gerðar verulegar breytingar á verkefnum embættis ríkislögreglustjóra. Þessar breytingarnar eru um flest í samræmi við hugmyndir Ríkisendurskoðunar í skýrslu hennar frá október 2006 og miða að því að ríkislögreglustjóri verði fyrst og fremst stjórnsýslustofnun innan lögreglunnar sem sinni auk þess sérgreindum verkefnum á sviði öryggismála sem eðli máls samkvæmt falla ekki undir hefðbundna löggæslu og fari með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra hverju sinni. Auk þeirrar yfirstjórnar sem embættið hefur með höndum, verði áherslan þannig á samræmingu og eftirlit. Með þessu verði unnt að skilgreina kröfur sem gerðar eru til deilda sem eiga að veita þjónustu á landsvísu og tryggja þjónustu um allt land.
    Dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóri útfæri tillögur um viðamiklar breytingar á þessum grundvelli. Um leið verði hugað að hagkvæmni þess að sameina ákveðna þætti í rekstrinum á landsvísu hjá einstökum lögregluliðum. Tilfærsla miðlægra löggæsluverkefna til einstakra embætta skapar forsendur fyrir verulegri hagræðingu í löggæslunni.
    Í töflu 3 kemur fram mat starfshópsins á því að hve miklu mæli ofangreindar skipulagsbreytingar taka á göllum núverandi skipulags lögreglu. Eins og fram kemur skapar nýtt skipulag forsendur til að draga verulega úr ágöllum núverandi skipulags. Það er mat hópsins að kostir núverandi skipulags haldi sér hins vegar að flestu leyti.

Tafla 3. Áhrif nýs skipulags á ágalla núverandi skipulags.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.4. Hagræðing

    Með þeim breytingum á skipulagi lögreglunnar sem hér hafa verið ræddar eru skapaðar forsendur fyrir verulegri hagræðingu í löggæslunni. Möguleikarnir liggja ekki síst í minni yfirbyggingu en einnig þarf að huga að margvíslegri hagræðingu á afmarkaðri sviðum.
    Reikna má með að sameining lögregluembætta geti falið í sér kostnað sem líta má á sem fjárfestingarkostnað til að ná fram síðari hagræðingu, til dæmis vegna sameiningar húsnæðis, flutninga, samræmingar tækjakosts, þjálfunar starfsfólks, starfsloka og ráðgjafar. Ónóg fjárfesting í upphafi sameiningar getur dregið úr hagkvæmni hennar til lengri tíma. Einnig tekur nokkurn tíma að fá sameinaða stofnun til að virka sem eina heild. Því má vænta þess að það taki 2–3 ár áður en að bein hagræðing er fullu komin fram.

4.1 Helstu hagræðingarmöguleikar
    Með fækkun og stækkun lögregluumdæma skapast forsendur til að:
*      Einfalda stjórnskipulag, draga úr stjórnunarkostnaði lögreglunnar og kostnaði við hverskyns rekstrarlega stoðþjónustu. 2
*      Auka sérhæfingu og hæfni á ýmsum sérsviðum löggæslunnar og veita lögreglumönnum aukin tækifæri til að þróa og efla faglega færni.
*      Nýta krafta lögreglumanna með sveigjanlegum hætti á þeim sviðum sem mest þörf er á hverju sinni.
*      Bæta möguleika lögreglunnar til að ráða við stór og vandasöm verkefni.
*      Auka sveigjanleika í starfsskipulagi, t.d. með því að færa viðfangsefni sem ekki teljast eiginleg löggæsla frá lögreglumönnum til annarra starfshópa.
*      Draga verulega úr yfirbyggingu löggæslunnar, fækka yfirmönnum til hagsbóta fyrir sýnilega löggæslu.
*      Færa miðlæga löggæslu og stoðþjónustu til einstakra lögregluembætta og skapa möguleika til að samþætta miðlæga og staðbundna löggæslu.
*      Auka áherslu á kjarnaverkefni, t.d. með því að færa afgreiðsluverkefni frá lögreglunni til embætta sýslumanna.
*      Bæta nýtingu húsnæðis og ýmiskonar tækjabúnaðar.
    Þó erfitt geti verið að leggja tölulega mælikvarða á suma þessara þátta má fullyrða að þessir hagræðingarmöguleikar veita lögreglunni góða möguleika til að takast á við sparnaðarkröfur næstu ára án þess að það þurfi að koma niður á þjónustu og árangri lögreglunnar.

4.2 Minni yfirbygging
    Eins og komið hefur fram er yfirbygging lögreglunnar umfangsmeiri en æskilegt er að mati hópsins. Þó verður að gera þann fyrirvara að starfstig innan lögreglunnar endurspegla að nokkru leyti framgang manna í launakjörum, því kjaraumhverfi lögreglumanna hefur fremur boðið upp á að launahækkanir kæmu fram sem hækkanir í starfstigi en annars konar hækkanir. Þannig er það ekki sjálfgefið að t.d. aðalvarðstjóri fari með mannaforráð. Séu þeir sem eru á starfsstigum 1–6 (frá og með aðalvarðstjóra og lögreglufulltrúa) taldir stjórnendur, eru þeir 26% af heildarfjölda lögreglumanna. Almennt má því telja að tæplega þrír almennir lögreglumenn (starfsstig 7–9) séu að meðaltali á hvern stjórnanda en gæta verður þess að sumir þeirra sem raðað er í starfsstig 1–9 hafa ekki mannaforráð eins og fram kemur hér að framan og því eru í reynd fleiri lögreglumenn en 3 á hvern stjórnanda. Miðað við hagkvæma uppbyggingu stjórnskipulags er ekki óvarlegt að reikna með því að almennir starfsmenn geti verið um 10 á hvern stjórnanda. Þetta þýðir að með skipulagsbreytingum væri almennt hægt að fækka stjórnendum (lögreglumanna og annarra starfsmanna) innan lögreglunnar umtalsvert og fækka stjórnunarlögum úr 7 í 4.
    Fræðilegir möguleikar til að fækka stjórnendum, þýða ekki nauðsynlega að hægt sé að fækka starfsmönnum umtalsvert án þess að það bitni á starfseminni, enda sinna stjórnendur innan lögreglunnar fjölþættum verkefnum sem áfram þarf að vinna. Hins vegar má leiða líkur að því að núverandi yfirbygging lögreglunnar feli í sér umtalsverða sóun þar sem starfskraftar svo margra stjórnenda nýtast óhjákvæmilega illa og skapa flækjur í stjórnun og skipulagi sem valda auknum kostnaði. Í ljósi þessa er ekki óvarlegt að áætla að hagræðing af fækkun stjórnenda geti verið umtalsverð án þess að það kæmi niður á umfangi og árangri löggæslunnar.
    Fækkun stjórnenda er ekki einföld í framkvæmd. Bæði þarf að huga að málefnum starfsmanna og innra skipulagi lögreglunnar. Náin tengsl eru á milli stjórnkerfis lögreglunnar, aðgerðastjórnar og framgangskerfis lögreglumanna. Þessi tengsl þarf að rjúfa að hluta til ef unnt á að vera að fækka stjórnendum. Þetta má gera með því að:
1.      Tengsl stjórnunar, aðgerðastjórnunar og framgangs verði bundin við 2–3 efstu stjórnunarlög lögreglunnar.
2.      Ákvæði um stöður aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra verði felld úr lögunum.
3.      Þeir sem ekki tilheyri þremur efstu stjórnunarlögunum teljist ekki gegna stjórnunarstarfi og verði skipað til verka samkvæmt ákvöðunum yfirmanns hverju sinni.
4.      Stjórnun einstakra aðgerða og verkefna teljist verkefnastjórn sem ekki hafi áhrif á stjórnskipulag lögreglunnar. Varðstjórar teljist því verkefnastjórar fremur en stjórnendur.
5.      Stjórnendur ákveði við gerð vaktaáætlunar hver gegni hlutverki við aðgerðastjórnun hverju sinni, stjórni vöktum o.s.frv. Við valið verði byggt á reynslu og hæfni einstakra varðstjóra og eftir atvikum annarra lögreglumanna.
6.      Lögreglumenn sem ekki gegni stjórnunarstarfi eigi kost á framgangi með tilliti til launa og frammistöðu.

4.3 Launagreiðslur til lögreglunema
    Samkvæmt gildandi lögum skal ríkislögreglustjóri sjá þeim nemum sem standast próf á fyrstu námsönninni í lögregluskólanum fyrir launaðri starfsþjálfun í lögreglu ríkisins. Raunin er sú að skólinn hefur skipulagt starfsþjálfunina með samkomulagi við lögregluembætti sem hafa tekið nemendur í starfsþjálfun og greitt þeim laun samkvæmt kjarasamningi. Engum fjármunum hefur verið veitt sérstaklega á fjárlögum til að standa straum af launakostnaði vegna starfsþjálfunar lögreglunema. Námið á fyrstu önninni í skólanum er ólaunað en hefur verið lánshæft nám samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Á lokaönn námsins hafa lögreglunemarnir fengið laun sem Lögregluskóli ríkisins greiðir.
    Rekstur lögregluembætta er erfiður og fyrrgreint fyrirkomulag gengur ekki lengur vegna fjárskorts auk þess sem það hefur ávallt verið sá faglegi galli á fyrirkomulaginu, að fremur hefur verið litið á starfsþjálfunarnema sem afleysingamenn en nemendur, sem á hinn bóginn hefur leitt til þess að Lögregluskóli ríkisins hefur átt erfitt með að fylgja eftir námsskrá starfsþjálfunar annarinnar. Virðist eðlilegt að lögreglunemar fjármagni sitt nám með námslánum eins og aðrir nemar að undanskildum þeim tíma sem þeir eru í starfsnámi.
    Því er lagt til að það verði hætt að greiða lögreglunemum laun á lokaönn námsins í skólanum (bóknámsönn) sem gera verður ráð fyrir að verði lánshæft nám samkvæmt reglum LÍN eins og námið á fyrstu námsönn er. Hins vegar sjái lögregluskólinn þeim nemendum sem standast próf á fyrstu námsönn (bóknámsönn) fyrir starfsþjálfun í lögreglunni í a.m.k. fjóra mánuði og greiði þá mánaðarlaun þeirra.

5. Framkvæmd breytinga

    Helstu verkþættir við framkvæmd breytinga eru:
1.      Lagabreytingar vegna nýrra lögregluembætta.
2.      Fjárveitingar nýrra lögregluembætta.
3.      Almennur undirbúningur sameiningar.
4.      Yfirstjórn nýrra lögregluembætta.
5.      Stofnsetning nýrra lögregluembætta.

5.1 Lagabreytingar vegna nýrra lögregluembætta
    Þó að sameining lögregluembætta sé talsvert flókin í framkvæmd eru lagabreytingar vegna hennar tiltölulega einfaldar. Því má vænta þess að umfjöllun Alþingis um frumvarp um þetta efni beinist fyrst og fremst að þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar tillögum um sameiningu lögregluembætta.

5.2 Fjárveitingar nýrra lögregluembætta
    Samhliða umfjöllun um lagafrumvarpið þarf að vinna að nánari útfærslu á fjárhagsramma einstakra embætta. Í því sambandi þarf að ákveða hvernig boðaður sparnaður skiptist niður á ólík embætti. Meðal annars þarf að taka mið af útfærslu þátta eins og útfærslu meginskipulags, endurskoðun starfsstiga, áhrifa tilfærslu verkefna frá ríkislögreglustjóra o.fl. Einnig þarf að meta fjárhagslegar afleiðingar aðskilnaðar lögregluembætta og sýslumannsembætta.

5.3 Almennur undirbúningur sameiningar
    Nauðsynlegt er að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að stýra breytingaferlinu, samræma framkvæmd og styðja lögreglustjóra við uppbyggingu embætta. Einnig myndi verkefnisstjórnin stýra tilfærslu verkefna frá ríkislögreglustjóra til lögregluembætta.
    Í þessum undirbúningi fellst að móta meginstefnu um uppbyggingu, skipulag og viðfangsefni lögregluembætta. Undir þetta falla þættir eins og gerð skipurita, staðsetning starfsstöðva, húsnæði, breytingar á starfsmannahaldi, endurmat starfsstiga og áætlun um tilfærslu verkefna frá ríkislögreglustjóra. Eitt lykilverkefni í þessu sambandi er greining og útfærsla aðskilnaðar lögregluembætta og sýslumannsembætta.

5.4 Yfirstjórn nýrra lögregluembætta
    Það er einn lykilþáttur í árangri breytinga að til nýrra stofnana ráðist hæfir og reyndir stjórnendur. Mikilvægt er að tryggja samfellu þannig að þeir stjórnendur sem veljast til starfa hafi þekkingu á því löggæslusvæði sem þeir taka við eða sambærilegum svæðum. Hefðbundið fyrirkomulag ráðningar myndi tefja sameiningarferlið. Því er ekki heppilegt að auðlýsa störfin með hefðbundnum hætti heldur verði lögreglustjórar valdir úr hópi þeirra sýslumanna sem nú gegna lögreglustjórn. Þetta yrði gert með þeim hætti að rætt yrði við þessa einstaklinga og fengju þeir þá tækifæri til að láta í ljós óskir sínar um starf. Ráðuneytið myndi síðan meta þessar óskir og velja milli mögulegra lögreglustjóra með svipuðum hætti og ef um hefðbundna skipun væri að ræða og byggja ákvörðun á hlutlægum mælikvörðum.

5.5 Stofnsetning nýrra lögregluembætta
    Við stofnsetningu nýrra lögregluembætta taka við fjölmörg verkefni sem byggja á þeim meginforsendum sem mótaðar verða við almennan undirbúning sameiningar. Gert er ráð fyrir því að embættin verði stofnuð 1. janúar en að þau muni að mestu starfa í óbreyttu formi undir nýrri stjórn þar til nýtt skipulag tekur gildi 1. apríl 2010. Þeir þrír mánuðir sem eru á milli þessara dagsetninga verði nýttir til að móta alla meginþætti starfsemi nýrra embætta. Gert er ráð fyrir því að verkefnahópar starfsmanna muni fá mikilvægt hlutverk í þessu sambandi.
    Starfsmannamál eru lykilatriði í breytingaferli sem þessu. Skipulagsbreytingar, fækkun yfirmanna og hugsanlega annarra starfsmanna fela óhjákvæmilega í sér röskun á högum margra starfsmanna lögreglunnar. Við framkvæmd breytinga þarf að huga að því að lágmarka þessa röskun og reyna að takmarka uppsagnir eins mikið og hægt er. Veita þarf starfsmönnum þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda og tryggja þeim lögfræðilega ráðgjöf. Hafa verður náið samráð við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis um allar stærri ákvarðanir.
    Gert er ráð fyrir því að val á yfirmönnum hvers embættis fari fram með svipuðum hætti og val lögreglustjóra. Lögreglustjóri myndi ræða við stjórnendur, kanna óskir þeirra og velja stjórnendur nýs embættis á grundvelli óska stjórnenda og hlutlægra mælikvarða.

5.6 Drög að yfirliti framkvæmda- og tímaáætlunar
    Helstu verkþættir við framkvæmd breytinga koma fram í drögum að yfirliti framkvæmda- og tímaáætlunar sem sýnd er í mynd 4.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 4. Drög að yfirliti framkvæmda- og tímaáætlunar.
Fylgiskjal 1.

Sjónarmið stjórnenda og starfsmanna löggæslunnar.


    Starfshópurinn hóf vinnu sína í júní með því að funda með einstökum lögreglustjórum, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, sérstökum saksóknara, saksóknara efnahagsbrotadeildar, stjórn Landssambands lögreglumanna, stjórn félags yfirlögregluþjóna, stjórn lögreglustjórafélagsins, stjórn sýslumannafélagsins, tollstjóranum í Reykjavík og fleirum. Í öllum samtölum kynnti starfshópurinn verkefni sitt og hvatti viðmælendur til að lýsa sjónarmiðum sínum og rökstuddum hugmyndum um hvers konar framtíðarskipulag þeir telja að byggja eigi upp fyrir lögregluna í landinu. Starfshópurinn hefur dregið saman helstu sjónarmið sem fram komu.
    Flestir gera ráð fyrir því að lögregluumdæmi verði stækkuð og að þeim verði fækkað í 5–7. Almennt telja menn að með því verði auðveldara að hagræða og bæta starfsemi lögreglunnar. Það sé hins vegar háð því að hæfilega margar starfsstöðvar verði innan hvers umdæmis enda þurfi sérhvert lögreglulið að vera nægilega öflugt til að geta tekist á við skilgreind verkefni sín og boðið upp á hæfilega nærþjónustu. Rannsóknardeildir eigi að vera í öllum umdæmum, nægilega burðugar til að geta annast allar almennar lögreglurannsóknir. Jafnframt þurfi, þrátt fyrir eflingu lögregluliða, að gera ráð fyrir sérdeildum lögreglu sem sinni tilteknum verkefnum sem geti starfað hvar sem er á landinu, en skoðanir eru skiptar um það hvaða málaflokkum slíkar rannsóknardeildir eigi einkum að sinna.
    Varað var við því að ofmeta þann sparnað sem kann að felast í sameiningu og stækkun lögregluembætta því sparnaður kefjist þess að yfirmönnum verði fækkað. Í því sambandi er talið nauðsynlegt að starfsstigum innan lögreglu verði fækkað en að gæta verði þó að samspili starfsstigareglugerðar og kjarasamninga.
    Fram komu áhyggjur af breytingaþreytu hjá lögreglumönnum og var lögð áhersla á samráð við starfsmenn og að skipulega verði unnið að því að afla hugmyndum um breytingar stuðnings innan lögreglunnar.
    Skiptar skoðanir voru um það hvort rétt væri að stefna að því að lögreglan á Íslandi verði eitt lið undir einni stjórn. Sumir töldu að það væri til bóta en aðrir voru vantrúaðir á það og nefndu að það gæti leitt til óheppilegrar miðstýringar.
    Flestir eru þeirrar skoðunar að skilja eigi alveg á milli lögreglustjórnar og sýslumannsstarfa og að jafnframt beri að stækka sýslumannsembættin. Eðlilegt verði þá að sýslumenn hafi með að gera hvers konar leyfamál sem verði háð umsögn lögreglustjóra eftir því sem við á.
    Margir telja að embætti ríkislögreglustjóra eigi fyrst og fremst að sinna stjórnsýslu og eftirliti og að rétt væri að flytja a.m.k. efnahagsbrotadeild og sérsveit annað. Færð voru rök fyrir því sérstaklega að sérsveitarmennina þurfi að nýta betur við lögreglustörf en verið hefur og að þá lúti þeir stjórn lögreglustjóra í umdæmi þar sem þeir starfa.
    Áhersla var lögð á að lögreglustarfið verði betur skilgreint og bent var á að menntaðir lögreglumenn væru að sinna störfum sem aðrir geti sinnt. Boðun og fangaflutningar var nefnt í því sambandi. Sama sjónarmið kom fram varðandi fjarskipamiðstöðina og nefnt að athuga mætti hagræði þess að sameina fjarskipamiðstöðina og Neyðarlínuna.
    Nær algjör einhugur var um að ótímabært væri að gera nú skipulagsbreytingar á fyrirkomulagi ákæruvalds.


Fylgiskjal 2.

Valkostir um breytt skipulag.


    Starfshópurinn skoðaði leiðir til að ná markmiðum um stærri lögregluembætti og eitt lögreglulið. Þó að hópurinn telji ekki tímabært að hefja slíka breytingu er samt sem áður rétt að leggja umfjöllunina fram sem lið í umræðu um framtíðarskipulag lögreglunnar. Starfshópurinn vann með fjögur skipulagslíkön:
1.      Samþættingarlíkan.
2.      Höfuðstöðvarlíkan.
3.      Útibúalíkan.
4.      Forustulíkan.
    Fjallað er um hvert líkan hér á eftir í en í fyrsta kafla er að finna samanburð á megineinkennum núverandi skipulags og skipulagslíkana. Í lokakafla er síðan lagt mat á heildarskipulag.

1. Megineinkenni líkana
    Megineinkenni núverandi skipulags og líkananna eru sýnd í töflu 1. Öll líkönin byggja á því að löggæslunni verði skipt í sex lögreglusvæði og að sett verði upp miðlæg starfsemi, samhæfing og stýring á helstu fag- og stoðsviðum löggæslunnar. Hins vegar eru hlutverk og tengsl svæða og yfirstjórnar breytileg milli valkostanna.

Tafla 1. Megineinkenni núverandi skipulags og skipulagslíkana.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3    Í núverandi skipulagi vísar yfirstjórn til ríkislögreglustjóra og í forustulíkaninu er lögregla höfuðborgarsvæðisins sögð gegna óformlegu forystuhlutverki en hún er ekki formleg yfirstjórn lögreglunnar.
4    Í töflunni er ekki fjallað um hlutverk Ríkissaksóknara gagnvart lögreglunni.
    Svæðin sem koma fram í líkönunum eru (sbr. mynd 1):
1.      Höfuðborgarsvæðið.
2.      Suðurnes.
3.      Vesturland.
4.      Norðurland.
5.      Austurland.
6.      Suðurland.

Mynd 1. Lögregluumdæmi eftir breytinguHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Fagsviðin sem koma fram í líkönunum eru:
1.      Almenn löggæsla.
2.      Rannsóknir.
3.      Öryggismál.
4.      Ákæra og lögfræði.
5.      Stjórnsýsla og fjármál.
6.      Tækni.
    Rétt er að undirstrika að hér er um líkön að ræða en ekki tillögur að skipuriti lögreglunnar, mörkum umdæma, meginfagsviðum eða starfsheitum.
    Í öllum valkostunum er gert ráð fyrir því að verkefni ríkislögreglustjóra verði felld inn í almennt skipulag lögreglunnar. Gert er ráð fyrir innra eftirliti og lögregluskólanum en útfæra þarf hlutverk og skipulagslega staðsetningu þessara eininga nánar.

2. Samþættingarlíkan
    Samþættingarlíkan (sjá mynd 2) byggir á því að auka dreifingu verkefna á tiltölulega sjálfstæð lögreglusvæði undir sameiginlegri yfirstjórn.
    Megineinkenni samþættingarlíkansins eru:
1.      Meginhlutverk yfirstjórnar og fagsviða hennar á sviði löggæslu er stefnumótun, forgangsröðun, samhæfing og eftirlit.
2.      Verkefnum sem skynsamlegt er að vinna á landsvísu er dreift á lögreglusvæðin sem fá leiðandi hlutverk á viðkomandi verkefnasviðum. Landshlutverk innan hvers fagsviðs geta verið hjá fleiri en einu lögreglusvæði.
3.      Yfirstjórnin annist aðeins beina framkvæmd löggæslu þegar skýr rök eru fyrir því að ekki sé skynsamlegt að fela lögreglusvæðum landshlutverk.
4.      Hlutverk stjórnenda lögreglusvæða er skilgreint í lögum og þeir njóta tiltekins sjálfstæðis um innri starfsemi svæðanna.
5.      Lögregluforstjóri 5 er yfirmaður stjórnenda lögreglusvæðanna og hefur boðvald gagnvart þeim.
6.      Lögreglusvæðin fá fjárveitingu vegna staðbundinna hlutverka en stofnunin í heild sinni vegna yfirstjórnar og landshlutverka.
7.      Lögregluforstjóri hefur heimildir til að færa fjárveitingar og starfsmenn milli lögreglusvæða.

Mynd 2. Samþættingarlíkan.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Kostir og gallar samþættingarlíkansins eru sýndir í töflu 2.

Tafla 2. Kostir og gallar samþættingarlíkansins.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Við mótun skipulags samkvæmt samþættingarlíkaninu þarf að taka afstöðu til þess hvaða viðfangsefni eru þess eðlis að hægt væri að fela lögreglusvæðum framkvæmd þeirra. Skipta má viðfangsefnum lögreglunnar samkvæmt samþættingarlíkaninu í nokkra meginþætti:
1.      Yfirstjórn fagsviða sem er í höndum höfuðstöðva.
2.      Verkefni á landsvísu sem geta hvort sem er verið unnin af höfuðstöðvum eða einstökum lögreglusvæðum.
3.      Löggæsla sem í eðli sínu er staðbundin en einstök lögreglusvæði gegna faglegri forustu í krafti sérþekkingar og veita öðrum svæðum ráðgjöf og aðstoð.
4.      Staðbundin löggæsla sem er í höndum lögreglusvæða.
    Á mynd 3 má sjá yfirlit yfir viðfangsefni sem falla undir þrjá fyrstu þættina. Verði skipulag lögreglunnar byggt á samþættingarlíkaninu þarf að taka afstöðu til skiptingar viðfangsefnanna milli höfuðstöðva og einstakra lögreglusvæða. Á myndinni er einnig sýnt hvort líklegt megi telja að viðfangsefni verði best staðsett á stærsta starfssvæði lögreglunnar, þ.e. höfuðborgarsvæðinu eða hvort það geti verið utan þess.

Mynd 3. Möguleg dreifing verkefna í samþættingarlíkani.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3. Höfuðstöðvarlíkan
    Höfðustöðvarlíkanið (sjá mynd 4) byggir á því lögreglusvæðin eru tiltölulega sjálfstæð en sameiginleg verkefni eru að mestu unnin af höfuðstöðvunum.

Mynd 4. Höfuðstöðvalíkan.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Tafla 3. Kostir og gallar höfuðstöðvarlíkansins.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Megineinkenni höfuðstöðvarlíkansins eru:
1.      Sérhæfð löggæsluverkefni (landsverkefni) og stoðþjónusta eru að mestu í höndum höfuðstöðva.
2.      Hlutverk stjórnenda lögreglusvæða er skilgreint í lögum og þeir njóta tiltekins sjálfstæðis um innri starfsemi svæðanna en lúta stjórn höfuðstöðva í sérhæfðum löggæsluverkefnum.
3.      Lögregluforstjóri er yfirmaður stjórnenda lögreglusvæðanna og hefur boðvald gagnvart þeim.
4.      Lögreglusvæðin fá fjárveitingu vegna staðbundinna hlutverka en stofnunin í heild sinni vegna yfirstjórnar og landshlutverka.
5.      Lögregluforstjóri hefur heimildir til að færa fjárveitingar og starfsmenn milli lögreglusvæða.
    Kostir og gallar höfuðstöðvarlíkansins eru sýndir í töflu 3.

4. Útibúalíkan
    Útibúalíkanið (sjá mynd 5) byggir á því að lögreglusvæðin eru undir beinni yfirstjórn höfuðstöðva sem jafnframt annast löggæslu á höfuðborgarsvæðinu.
    Megineinkenni útibúalíkansins eru:
1.      Sérhæfð löggæsluverkefni (landsverkefni) og stoðþjónusta eru að mestu í höndum höfuðstöðva.
2.      Höfuðstöðvarnar annast löggæslu á höfuðborgarsvæðinu.
3.      Hlutverk stjórnenda útibúa er ekki skilgreint í lögum en þeir hafa sjálfstæði innan þess ramma sem lögregluforstjóri ákveður.
4.      Lögregluforstjóri er yfirmaður stjórnenda útibúanna og hefur boðvald gagnvart þeim.
5.      Lögreglustjóri ræður stjórnendur útibúa.
6.      Lögreglusvæðin fá ekki sérstaka fjárveitingu.

Mynd 5. Útibúalíkan.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kostir og gallar útibúalíkansins eru sýndir í töflu 4.

Tafla 4. Kostir og gallar útibúalíkansins.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5. Forustulíkan
    Forustulíkanið (sjá mynd 6) byggir á því að lögreglusvæðin heyri formlega beint undir ráðherra en að lögregla höfuðborgarsvæðisins annist flest sameiginleg verkefni. Þetta felur í sér að lögregla höfuðborgarsvæðisins mun óhjákvæmilega gegna óformlegu forustuhlutverki í löggæslunni í krafti stæðar og sérhæfðra verkefna.
    Megineinkenni forustulíkansins eru:
1.      Lögreglusvæðin eru sérstakar stofnanir sem bera ábyrgð á framkvæmd löggæslu á sínu svæði.
2.      Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í ljósi stærðarinnar forustuhlutverk í löggæslu á landsvísu og annist flest sérhæfð löggæsluverkefni.
3.      Ráðherra er yfirmaður stjórnenda lögreglusvæðanna, skipar þá og hefur boðvald gagnvart þeim.
4.      Lögreglusvæðin fá fjárveitingu vegna þeirra verkefna sem þau annast.

Mynd 6. Forustulíkan.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kostir og gallar forustulíkansins eru sýndir í töflu 5.

Tafla 5. Kostir og gallar forustulíkansins.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


6. Mat á heildarskipulagi

    Almennt mat á þeim fjórum skipulagslíkönum sem fjallað hefur verið um leiðir í ljós að tvö þeirra hafa ágalla sem valda því að ekki er hægt að mæla með þeim:
1.      Útibúalíkanið er of miðstýrt, veikir stöðu löggæslu á landsbyggðinni og felur í sér talsverða áhættu.
2.      Þó forustulíkanið virðist vera dreifistýrt hefur lögregla höfuðborgarsvæðisins svo sterka stöðu að í raun yrði löggæslan miðstýrð. Þrátt fyrir sterka stöðu hefði embættið fá tæki til að samhæfa löggæsluna og því gerir líkanið auknar kröfur til dómsmálaráðuneytisins og eykur miðstýringu, því óhjákvæmilega þyrfti að færa hluta af núverandi hlutverkum ríkislögreglustjóra inn í ráðuneytið.
    Hin líkönin (samþættingarlíkanið og höfuðstöðvarlíkanið) hafa ótvíræða kosti umfram núverandi skipulag. Þau styrkja löggæsluna með stækkun lögreglusvæða, einfalda skipulag, draga úr yfirbyggingu og veita mikil tækifæri til hagræðingar og aukins árangurs.
    Skipulagslíkan felur óhjákvæmilega í sér einföldun og er forsenda að mótun skipulags en ekki hið eiginlega skipulag. Við mótun skipulags þarf að leita hagnýtra lausna sem geta vikið frá líkaninu. Munurinn á samhæfingarlíkaninu og höfuðstöðvarlíkaninu liggur einkum í tveimur þáttum:
1.      Verkefnum á landsvísu er að mestu leyti dreift í samþættingarlíkaninu en að takmörkuðu leyti í höfuðstöðvarlíkaninu.
2.      Í samþættingarlíkaninu felst meginaðferð við yfirstjórn í stefnumótun, áætlanagerð, samhæfingu og eftirliti (almenn yfirstjórn) en í höfuðstöðvarlíkaninu felst hún miklu fremur í beinni stjórn löggæsluverkefna (sértæk yfirstjórn).
    Í ljósi þess að bæði líkönin hafa kosti er eðlilegt að leita möguleika á að finna jafnvægi eða málamiðlun milli þeirra. Þetta mætti t.d. gera með því að dreifa verkefnum, þó að það verði ekki gert í jafn miklum mæli og samþættingarlíkanið gerir ráð fyrir. Við slíka málamiðlun verður að hafa í huga að erfitt getur verið að sameina almenna og sértæka yfirstjórn. Of mörg löggæsluverkefni í höndum höfuðstöðva fela í sér hættu á að almenn yfirstjórn lögreglusvæða verði vanrækt og að upp komi samkeppni milli höfuðstöðva og svæðanna.
    Sú almenna yfirstjórn sem samhæfingarlíkanið byggir á hefur mikla kosti. Með góðri stjórnun má halda þessum kostum þó ekki verði gengið jafn langt í dreifingu verkefna og samhæfingarlíkanið gerir ráð fyrir. Í ljósi þessa er eðlilegt að meginforsendur mótunar nýs skipulags lögreglunnar gæti verið:
1.      Byggt verði á almennri yfirstjórn lögreglusvæða sem byggir að mestu á stefnumótun, áætlanagerð, samhæfingu og eftirliti.
2.      Fundið verði hagkvæmt jafnvægi milli þess að dreifa verkefnum á lögreglusvæði og vinna þau í höfuðstöðvum.


Fylgiskjal 3.

Drög að frumvarpi um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 o.fl.


Frumvarp til laga
um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 o.fl.


(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2008–2009.)


1. gr.

    Við 2. gr. bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. svohljóðandi:
    Lögregla tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem kveðið er á um í alþjóðasamningum eða samstarfi sem ríkisstjórnin felur lögreglunni að taka þátt í.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
1.      g-liður 1. mgr. orðist svo: að annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu á landsvísu eða samstarf við lögreglu í öðru landi. Ríkislögreglustjóra er heimilt að fela lögreglustjórum umsjón tiltekinna verkefna á landsvísu.
2.      4. mgr. fellur brott.

3. gr.

    1. mgr. 6. gr. orðist svo:
    Landið skiptist í 6 lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar sem hér segir:
1.      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
2.      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
3.      Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
4.      Lögreglustjórinn á Norðurlandi.
5.      Lögreglustjórinn á Austurlandi.
6.      Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
    2. mgr. 6. gr. orðist svo:
    Umdæmi lögreglustjóra samkvæmt þessari málsgrein skulu að öðru leyti ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna.
    Í 3. mgr. 6. gr. falli brott orðin „Vaktskipulag og almenn löggæsla í lögregluumdæmum á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi skal í hverjum fjórðungi samhæfð og samræmd eftir því sem við verður komið Ráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag samvinnu og til hvaða umdæma hún skuli ná.“

4. gr.

    2. mgr. 8. gr. falli brott.
    Úr öðrum málslið 3. mgr. 8. gr. falli brott orðið „Önnur“.
    4. mgr. 8. gr. falli brott

5. gr.

    1. mgr. 9. gr. orðist svo:
    Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn fara með lögregluvald.

6. gr.

    1. mgr. 12. gr. orðist svo:
    Í hverju lögregluumdæmi skal starfa samstarfsnefnd um málefni lögreglunnar. Í henni sitja lögreglustjóri viðkomandi lögregluumdæmis sem jafnframt er formaður nefndarinnar og sveitarstjórar þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu. Fundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

7. gr.

    28. gr. orðist svo:
    Ráðherra skipar ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra til fimm ára í senn.
    Lögreglustjóri skal auk almennra hæfisskilyrða til þess að hljóta skipun í embætti á vegum ríkisins jafnframt fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
a.      vera lögráða og hafa aldrei misst forræði á búi sínu,
b.      hafa hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta,
c.      hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi, eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt.
    Lögreglustjórar skipa lögreglumenn til fimm ára í senn. Hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.

8. gr.

    1. mgr. 37. gr. orðist svo: Ráðherra skipar lögreglustjóra til að stýra Lögregluskóla ríkisins
    2. mgr. 37. gr. fellur brott

9. gr.

    4. mgr. 38. gr. orðist svo:
    Grunnnám í Lögregluskóla ríkisins stendur í a.m.k. tólf mánuði og skiptist í þrjár annir, launaða starfsþjálfunarönn og tvær ólaunaðar bóknámsannir sem hvorri um sig lýkur með prófum.

Gildistaka, brottfall laga o.fl.


10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010
    Við gildistöku laganna taka ný embætti lögreglustjóra við öllum réttindum, eignum og skyldum þeirra lögregluembætta sem þau leysa af hólmi. Þar á meðal taka ný embætti við öllum starfsmönnum eldri lögregluembætta á sömu starfskjörum að undanskildum lögreglustjórum eldri embætta en störf þeirra eru lögð niður við gildistöku laga þessara.
    Þeir sem skipaðir eru lögreglustjórar við gildistöku laga þessara skulu hafa forgang til skipunar í ný embætti lögreglustjóra. Dómsmála- og mannréttindaráðherra er heimilt að flytja menn úr eldra embætti í nýtt embætti.

11. gr.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga sem hér segir:
a.      Breyting á lögum um verslunaratvinnu nr. 28/ 1998.
    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
    Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 1. mgr. komi: sýslumanns
    Í stað orðsins „Lögreglustjórum“ í 2. mgr. komi: Sýslumönnum
    Í stað orðanna „lögreglustjóra“ og „lögreglustjóri“ í 3. mgr. komi: sýslumanns og sýslumaður
    Í stað orðsins „lögreglustjóri“ í 4. mgr. komi: sýslumaður
b.      Breyting á áfengislögum nr. 75/1998.
    a.    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
              Í stað orðanna „lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. komi: sýslumanns.
    b.    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
              Í stað orðanna „lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. komi: sýslumanns.
    c.    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
              Í stað orðanna „lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. komi: sýslumanns.
              Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
              Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 3. mgr. komi: sýslumanni.
    d.    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
              Í stað orðanna „lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. komi: sýslumaður
              Í stað orðsins „lögreglustjóri“ í 2. mgr. komi: sýslumaður.
c.      Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007.
         3. mgr. 7. gr. orðist svo: Leyfisveitendur samkvæmt lögum þessum eru sýslumenn.
d.      Lög um opinberar fjársafnanir nr. 5/1977.
         Eftirfarandi breytingar verða á 3 gr. laganna:
         Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 1. og 2. mgr. komi: sýslumanni

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið af starfshópi dómsmála- og mannréttindaráðherra. Með því eru lagðar til lagabreytingar sem einkum er ætlað að gera lögreglunni auðveldara að takast á við þá sparnaðarkröfu sem nú er gerð til hennar. Er lagt til að þetta gerist með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til að lögregluumdæmum verði fækkað þannig að þau verði 6 í stað 15. Í öðru lagi verði lögfest almenn heimild til að fela einstökum lögregluembættum verkefni á landsvísu, en það þykir raunhæft m.a. vegna stækkunar þeirra. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að samhliða lagabreytingunni verði skipurit embætta ýmist samin eða endurskoðuð með það fyrir augum að draga úr kostnaði við yfirstjórn. Eru nokkur sérstök starfsheiti innan lögreglunnar felld úr lögum í samræmi við þá sýn að rétt sé að einfalda og fækka starfstigum.
    Í ársbyrjun 2007 tóku gildi breytingar á skipulagi íslensku lögreglunnar sem áttu sér langan aðdraganda. Þær fólust einkum í stækkun umdæma. Það er mat dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins að þótt þessar breytingar hafi að sumu leyti gengið vel, sé nauðsynlegt að ganga lengra til að settum markmiðum verði náð, sbr. ítarlega skýrslu matsnefndar ráðuneytisins frá apríl 2008. Sumarið 2008 kynnti ráðuneytið hugmyndir um frekari stækkun umdæma og var óskað eftur umsögnum ýmissa aðila um þær hugmyndir sem þar komu fram. Við hrun íslensks efnahagslífs haustið 2008 ásamt þeim átökum sem lögreglan stóð frammi fyrir um veturinn, var þessum áformum frestað. Í ljósi fyrirsjáanlegs niðurskurðar á fjárveitingum til löggæslu og aukinna krafna um hagkvæmni í rekstri lögreglunnar ákvað ráðuneytið að endurskoða fyrri hugmyndir um skipulagsbreytingar innan lögreglunnar. Sumarið 2009 skipaði dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir starfshóp til að yfirfara skipulag lögreglunnar í landinu. Starfshópurinn, sem skipaður var Hauki Guðmundssyni skrifstofustjóra sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Arnari Guðmundssyni skólastjóra lögregluskólans og Ásdísi Ingibjargardóttur skrifstofustjóra, átti fjölmarga fundi m.a. með lögreglustjórum, landssambandi lögreglumanna, félagi yfirlögregluþjóna, félagi rannsóknarlögreglumanna, lögreglustjórafélaginu, félagi ákærenda, ríkssaksóknara, sérstökum saksóknara, tollstjóra og stjórn sýslumannafélagsins, í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið þeirra varðandi fyrirhugaðar breytingar. Varð það eindregin niðurstaða starfshópsins að stækka þyrfti lögregluumdæmi frá því sem nú er, auk þess sem það færi illa saman að fela embætti Ríkislögreglustjóra umfangsmikil löggæsluverkefni, þegar embættinu væri jafnframt ætlað það hlutverk að koma fram sem millistig í stjórnsýslunni á milli embætta lögreglunnar og dómsmála- og mannréttindaráðherra. Þá var það enn fremur niðurstaðan að yfirmenn innan lögreglunnar væru of margir og því væri hugsanlegt að ná fram töluverðum sparnaði með hagræðingu innan lögreglunnar án þess að slíkt kæmi að fullu fram í skertri löggæslu. Á grundvelli niðurstaðnanna ákvað ráðherra að unnið skyldi að tillögum um að stækka lögregluumdæmin í landinu og þau myndu síðan lúta stjórn eins lögreglustjóra á landsvísu. Óskaði ráðherra eftir því við Kjartan Þorkelsson formann lögreglustjórafélagsins og Snorra Magnússon formann landssambands lögreglumanna, að þeir tækju þátt í að útfæra hugmyndir starfshópsins áfram. Þegar leið á vinnuna var það mat hópsins að ekki væri unnt að ráðast í að sameina alla lögregluna í eina stofnun á svo skömmum tíma að það myndi hjálpa lögreglunni við að mæta lækkuðum fjárveitingum. Á hinn bóginn væri skynsamlegt að sameina lögregluembættin strax í 6–8 embætti enda lá fyrir að viðbrögð við þessum hugmyndum voru fremur jákvæð þegar þær voru settar fram árið 2008. Sú skipting styðst m.a. við sjónarmið um að lögreglulið ættu helst ekki telja færri en 30–50 lögreglumenn til að þau geti verið sjálfbær að sem allra mestu leyti um helstu verkefni. Þá hefur verið horft til þeirrar svæðaskiptingar sem rædd hefur verið í stefnumótunarnefnd ríkisins um svæðaskiptingu landsins.
    Gert er ráð fyrir að ný sameinuð embætti taki til starfa um 1. janúar 2010. Um leið verði ráðist í breytingar á fyrirkomulagi einstakra löggæsluverkefna. Þessar breytingar hafi fyrst og fremst aukið hagræði að leiðarljósi en taki mið af þeirri stefnumörkun að draga úr löggæsluverkefnum ríkislögreglustjóraembættisins og skerpa á þeirri sýn að hlutverk þess sé á sviði samræmingar, eftirlits og yfirstjórnar. Er gert ráð fyrir að þessi löggæsluverkefni verði færð út í hin nýju embætti um leið og rekstur einstakra verkefna á embættunum verði sameinaður á einhverjum þeirra eftir því sem henta þykir. Verði embætti ríkislögreglustjóra fyrst og fremst stjórnsýslustofnun innan lögreglunnar sem sinni auk þess sérgreindum verkefnum á sviði öryggismála sem eðli máls falla ekki undir hefðbundna löggæslu og fari með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra hverju sinni. Auk þeirrar yfirstjórnar sem embættið hefur með höndum, verði áherslan þannig á samræmingu og eftirlit. Fremur en að slíku fyrirkomulagi sé komið á með lögum, er lagt til að það verði gert með þeim hætti að ríkislögreglustjóri feli einstökum embættum einstök verkefni. Þannig verður unnt að skilgreina ákveðnar kröfur og koma í veg fyrir tortryggni um að þjónustu við önnur lögregluumdæmi á landsvísu sé forgangsraðað aftan við kjarnastarfsemi viðkomandi lögregluembættis.
    Rétt er að taka fram að ætlunin er að í skipuriti nýrra lögregluembætta verði færri stjórnunarstöður en fleiri lögreglumenn, en nú eru innan lögregluliðanna. Embættum Ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verði svo gert að ráðast í sams konar endurskoðun á fjölda yfirmanna í sínu skipulagi.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til, er fylgt þeirri stefnu, sem að meginstefnu hefur verið framkvæmd undanfarna áratugi í skipulagi lögreglunnar og réttarvörslukerfisins. Skref fyrir skref hefur sérhæfing aukist og einstakar stofnanir orðið öflugri. Fyrir tuttugu árum var löggæslan utan Reykjavíkur á hendi ríflega tuttugu embætta, sem jafnframt sinntu störfum sýslumanna og dómara. Sjálfstæði dómsvaldsins og uppbygging héraðsdómstólanna fól í sér stórt framfaraskref sem fáir myndu vilja að stigið yrði til baka. Hið sama gildir um þá stækkun lögregluumdæma sem framkvæmd var 2007. Með þeirri tillögu sem felst í frumvarpinu hefur verið fallið frá því að sameina alla lögregluna á Íslandi í eina stofnun, en markmiðið er þó að lögreglan vinni í auknum mæli saman sem ein heild. Fækkun liða og áherslubreytingar í rekstri ríkislögreglustjóra skapa forsendur til þess að lögreglustjórar vinni saman með miklu nánari hætti en nú.
    Um leið er þessum breytingum ætlað að hjálpa lögreglunni að ná fram þeim sparnaði í rekstri sínum sem krafist er. Með stærri rekstrareiningum er unnt að ná sparnaði í stoðþjónustu af ýmsu tagi auk þess sem hlutfall stjórnenda af liðsheildinni getur verið lægra en raunhæft er að miða við í mjög fámennum lögregluliðum.

Um framkvæmd breytinganna.
    Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta taki gildi 1. janúar 2010. Samhliða vinnu við lagafrumvarpið þarf að vinna að nánari útfærslu á fjárhagsramma einstakra embætta í dómsmálaráðuneytinu. Í því sambandi þarf að ákveða hvernig boðaður sparnaður skiptist niður á ólík embætti. Meðal annars þarf að taka mið af útfærslu þátta eins og útfærslu meginskipulags, endurskoðun starfsstiga, áhrifa tilfærslu verkefna o.fl. Einnig þarf að meta og útfæra fjárhagslegan aðskilnað lögregluembætta og sýslumannsembætta, en ekki er gert ráð fyrir að stofnað verði til fjögurra nýrra lögregluembætta án tengingar við fyrirhugaðar breytingar á sýslumannsembættum.
    Nauðsynlegt er að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að stýra breytingaferlinu, samræma framkvæmd og styðja lögreglustjóra við uppbyggingu embætta. Einnig myndi verkefnisstjórnin stýra tilfærslu verkefna. Í verkefnisstjórninni ættu sæti fulltrúar ráðuneytisins, lögreglustjóra og lögreglumanna.
    Í þessum undirbúningi felst að móta meginstefnu um uppbyggingu, skipulag og viðfangsefni lögregluembætta. Undir þetta falla þættir eins og gerð skipurita, staðsetning starfsstöðva, húsnæði, breytingar á starfsmannahaldi, endurmat starfsstiga og áætlun um tilfærslu verkefna. Eitt lykilverkefni í þessu sambandi er greining og útfærsla aðskilnaðar lögregluembætta og sýslumannsembætta.
    Það er einn lykilþáttur í árangri breytinga að til nýrra stofnana ráðist hæfir og reyndir stjórnendur. Mikilvægt er að tryggja samfellu þannig að þeir stjórnendur sem veljast til starfa hafi þekkingu á lögreglustjórn og því löggæslusvæði sem þeir taka við eða sambærilegum svæðum. Eðlilegt þykir að þeir menn sem starfa sem lögreglustjórar í dag njóti forgangs til áframhaldandi starfa við lögreglustjórn. Er til hagræðis að líta fyrirfram á þá alla sem umsækjendur um störf lögreglustjóra fremur en að auglýsa sérstaklega eftir umsóknum þeirra en brýnt er að fjárhagsleg og fagleg ábyrgð á nýjum embættum verði skýr sem allra fyrst. Er því gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra beiti flutningsheimildum til að raða núverandi lögreglustjórum til starfa á nýjum embættum. Allt að einu er þó gert ráð fyrir að gæta verði sömu sjónarmiða og ella um mat á hæfni þeirra sem sækjast eftir sömu störfum.
    Rétt er að undirstrika að gert er ráð fyrir að ný lögregluembætti taki við öllum réttindum og skyldum þeirra embætta sem nú eru fyrir. Þar á meðal munu embættin taka við öllum starfsmönnum á sömu kjörum og áður að undanskildum lögreglustjórunum sjálfum. Um starfslok þeirra gilda ákvæði starfsmannalaga um niðurlagningu stöðu.
    Gert er ráð fyrir því að embættin muni að mestu starfa í óbreyttu formi þar til nýtt skipulag þeirra tekur gildi 1. apríl 2010. Þeir þrír mánuðir sem eru á milli þessara dagsetninga verði nýttir til að móta alla meginþætti starfsemi nýrra embætta. Gert er ráð fyrir því að verkefnahópar starfsmanna muni fá mikilvægt hlutverk í þessu sambandi og að fyrrgreind verkefnisstjórn hafi yfirsýn en nýskipaður lögreglustjóri beri þó höfuðábyrgð á sínu embætti.
    Meðal viðfangsefna sem vinna þarf að má nefna stefnumótun, skipurit, fjárhagsáætlun, húsnæðismál, starfsmannamál, vaktaskipulag og fyrirkomulag ýmissa verkefna.
    Starfsmannamál eru lykilatriði í breytingaferli sem þessu. Skipulagsbreytingar, fækkun yfirmanna og hugsanlega annarra starfsmanna fela óhjákvæmilega í sér röskun á högum margra starfsmanna lögreglunnar. Við framkvæmd breytinga þarf að huga að því að lágmarka þessa röskun og reyna að takmarka beinar uppsagnir eins mikið og hægt er. Veita þarf starfsmönnum þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda og tryggja þeim lögfræðilega ráðgjöf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þessi breyting tengist ekki skipulagsbreytingum í lögreglu og er lagabreyting þessi saminn í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Verið að styrkja heimildir lögreglunnar til þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Jafnframt og sérstaklega er með ákvæðinu verið að innleiða reglugerð (EC) nr. 863/2007 um stofnun hraðsveita eða varaliðs landamæravarða (Regulation (EC) No 863/2007 of the European Parliament and of the Council of 11 July 2007 establishing a mechanism for the creation of Rapid Border Intervention Teams and amending Council Regulation (EC) No 2007/2004 as regards that mechanism and regulating the tasks and powers of guest officers)
    Með gerðinni er komið á lagagrundvelli að Evrópurétti undir hraðsveitir landamæravarða. Um er að ræða landamæraverði sem tilnefndir eru fyrirfram en eru síðan sendir þangað sem brýn þörf skapast, eftir ákvörðun landamærastofnunarinnar (með samþykki 3/4 stjórnarinnar, þar sem Ísland á fulltrúa) að fenginni beiðni þess ríkis sem í hlut á. Í gerðinni er að finna ýmsar reglur um réttarstöðu þessa liðs.
    Með samþykki gerðarinnar tekst Ísland á hendur þá skuldbindingu að tilnefna landamæraverði í þetta lið og að senda þá til annarra Evrópulanda til tímabundinna verkefna eftir því sem stjórn EBCA ákveður. Ríkin hafa fullan sjálfsákvörðunarrétt um val á fulltrúum (þ. á m. um fjölda) og lengd dvalar, en skyldan til að tilnefna og senda aðstoð er á hinn bóginn orðuð með afdráttarlausum hætti í gerðinni.
    Gerðin felur á hinn bóginn ekki í sér skyldu til að nýta sér þessar hraðsveitir ef skyndilegur þrýstingur verður á landamærin.

Um 2. gr.


    Fyrr er lýst þeim breytingum sem áætlaðar eru á starfsemi lögreglunnar og þeim áherslubreytingum sem lagt er til að verði á embætti ríkislögreglustjóra. Í samræmi við þær hugmyndir er lagt til að bætt verði í lögin heimild til að fela einstökum lögregluembættum framkvæmd löggæsluverkefna á landsvísu. Er þá gengið út frá því að viðkomandi embætti taki við verkefninu með bréfi þar sem lagðar eru niður ákveðnar kröfur um hvernig verkefninu skuli sinnt, hvaða fjárveitingar verði millifærðar vegna verkefnisins og um mat eða endurskoðun á vistun verkefnisins eftir ákveðinn tíma, t.d. 5–7 ár. Gert er ráð fyrir því að þegar eftir samþykkt þessarar breytingar verði starfshópi falið að fara í gegnum þau löggæsluverkefni sem nú eru unnin á embætti Ríkislögreglustjóra og meta ávinning af því að færa framkvæmd einstakra verkefna til lögregluembættanna. Með sama hætti verði farið yfir ýmis verkefni sem nú eru unnin innan lögreglunnar og metið hvort hagkvæmt sé að vinna þau á landsvísu á einu embætti. Góð reynsla er af því að taka einstök verkefni fastari tökum með því að sameina vinnslu þeirra á einum stað. Má t.d. nefna sektainnheimtu, sem upphaflega var sameinuð hjá ríkislögreglustjóra en síðar vistuð á landsbyggðinni.
    Lagt er til að ákvæði um stöður aðstoðarríkislögreglustjóra verði felld úr lögunum, en í sparnaðarskyni hefur ekki verið skipaður aðstoðarríkislögreglustjóri um nokkurt skeið. Þessi breyting er í samræmi við það markmið að niðurskurði á fjárheimildum verði m.a. mætt með fækkun yfirmanna.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í 6. Þau verði á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, á Vesturlandi og Vestfjörðum, á Norðurlandi, á Austurlandi og á Suðurlandi. Allítarleg grein er gerð fyrir stærð þessara umdæma og lögregluliðanna sem í þeim starfa í fylgiskjali með frumvarpinu. Með þeirri stækkun sem hér um ræðir er stefnt að því að til verði burðug lögreglulið, sem bæði verði hagkvæmari rekstrareiningar en þau sem fyrir eru og njóti styrks af stærri liðsheild. Þá verði unnt að skipuleggja stærri lið með færri yfirmönnum og komast þannig hjá þeim uppsögnum sem ella væru óumflýjanlegar.
    Var það mat starfshópsins sem frumvarpið samdi að óheppilegt væri að fastsetja umdæmin með nákvæmum hætti í lög og því var farin sú leið að veita dómsmála og mannréttindaráðherra heimild til að afmarka þau nánar í reglugerð og eru drög að reglugerð að finna í fylgiskjali með frumvarpinu. Rökin fyrir því eru einkum þau að fjöldi sveitarfélaga í landinu er ekki föst stærð og fjöldi þeirra hefur tekið breytingum undanfarin ár. Gæti verið nauðsynlegt að hnika umdæmum til t.d. vegna sameiningar sveitarfélaga eða jafnvel vegna eindreginna óska heimamanna í einstökum byggðarlögum um að tilheyra öðru lögregluumdæmi. Þá var það samróma álit nefndarinnar að ekki ætti að kenna embættin við tiltekna þéttbýliskjarna eða sveitarfélög eða taka með öðrum hætti afstöðu til þess í lögunum hvar höfuðstöðvar eiga að vera staðsettar eða aðstaða fyrir lögreglu að öðru leyti. Tækniframfarir og síaukin áhersla á sýnilega löggæslu hafa dregið mjög úr mikilvægi varðstofa og engin ástæða er til að stilla málum upp með þeim hætti að skipuleggja þurfi nær alla starfsemi embættis í einum höfuðstöðvum á einum stað. Réttara virðist að láta lögreglustjórum eftir að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og stilla þeim og aðstöðu þeirra upp eins og þeir telja þörf krefja og fjárveitingar hrökkva til.
    Með brottfalli núgildandi 2. mgr. 6. gr. eru embætti aðstoðarlögreglustjóra, sem nú eru á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, felld úr lögum. Er það í samræmi við það stefnumið að ekki þurfi að telja upp í lögum allar stöður yfirmanna í lögreglunni.
    Lagt er til að úr 3. mgr. 6. gr. laganna verði fellt ákvæði er lýtur að samræmingu á starfi lögreglunnar innan landsfjórðunga. Við það er miðað að störf lögreglu eigi að samhæfa eftir því sem kostur er um allt land.

Um 4. gr.


    Í 8. gr. laganna er gerð grein fyrir lögreglurannsóknum. Með þeim breytingum sem gerðar voru árið 2007 var sú skipan tekin upp að rannsóknardeildirnar voru aðeins 7 þótt embættin væru 15. Eru því nú í lögunum ákvæði sem mæla fyrir um hversu brot framin í einu umdæmi geta sætt rannsókn rannsóknardeildar úr öðru umdæmi. Þetta fyrirkomulag þykir ekki hafa gefist vel að öllu leyti og er gert ráð fyrir að sérstakar rannsóknardeildir verði starfræktar í öllum 6 lögregluumdæmunum. Lögreglurannsóknir samþættast almennu lögreglustarfi í umdæmunum og lögregluembættin eru betur í stakk búin til þess að takast á við slík mál með skilvirkum hætti um leið og þau koma upp. Forræði rannsókna verður í því lögregluumdæmi þar sem brot eru framin.
    Hins vegar er lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu áfram gert að starfrækja tæknideild sem er hinum lögregluumdæmunum til aðstoðar ef þörf er á. Ekki er ætlast til að hvert umdæmi setji á laggirnar dýra tæknideild. Langflest eða um 70% hegningarlagabrota voru á árinu 2008 framin á höfuðborgarsvæðinu, um 5–7 % í hverju hinna nýju umdæma á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi/Vestfjörðum og Norðurlandi og innan við 5% á Austurlandi og. Miðað við það að langflest brotin eru framin á höfuðborgarsvæðinu eða um 70% er skynsamlegt að sérstök tæknideild starfi í sem mestri nálægð við og með stærstu rannsóknardeildinni á landinu og viðhaldi með því þekkingu sinni á því sem gerist í rannsóknum þar, haldi sýn á nýjungum í rannsóknum og stuðli að sem bestri samvinnu við aðra rannsakara. Langflest brot eru þeirrar tegundar að rannsókn þeirra krefst ekki flókinna eða sérstakra rannsóknarúrræða.
    Lögreglurannsóknir byggja á stöðugt meira á alþjóðlegum samskiptum og tæknilausnum sem krefjast sérstakrar kunnáttu. Þessi tengsl og sérhæfing verður ekki byggð upp á mörgun stöðum.
    Brotaumhverfi á Íslandi er að breytast þannig að lögreglurannsóknir byggjast í mjög vaxandi mæli á samþættingu upplýsinga hér heima og erlendis sérstaklega á því sviði sem lýtur að rannsóknum brota sem eiga uppruna sinn í skipulagðri glæpastarfsemi. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu veiti öðrum lögregluembættum rannsóknaraðstoð þ.m.t. tæknilega rannsóknaraðstoð vegna brota er tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, vettvangsrannsókna, samanburðarrannsókna og annarra slíkra rannsókna. Þar skal varðveitt fingrafarasafn lögreglu og ljósmyndasafn. Meginröksemdin fyrir þessari tilhögun er að flest alvarleg brot verður að rannsaka með aðkomu sérhæfðrar tæknideildar með rannsóknaraðstoð í formi upplýsinga og tæknilegra úrræða auk þess sem þau krefjast að jafnaði verulegs vinnuframlags (flóknar og tímafrekar rannsóknir auk þess sem vanda þarf sérstaklega alla öflun sönnunargagna vegna alvarleika brotsins og þyngd mögulegrar refsingar). Rannsóknir slíkra alvarlegra brota eru nokkuð sérhæfðar og krefjast sérþekkingar auk þess sem mjög áríðandi er rannsókn slíkra brota gangi hratt og skilmerkilega fyrir sig.

Um 5. gr.


    Breytingin á 9. gr. laganna leiðir af því að stöður aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra verða felldar úr lögum og því að sérstakt starfsheiti stjórnanda lögregluskólans er fellt úr lögum.

Um 6. gr.


    Hér er fjallað um samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga. Er kveðið á um að sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem eru innan umsæmisins sitji í nefndinni í stað þeirra sem nú sitja í henni þ.e. lögreglustjóri viðkomandi umdæmis sem jafnframt er formaður nefndarinnar og tveir sveitarstjórnarmenn tilnefndir af hálfu sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu. Er talið skilvirkara að hafa sveitarstjórana sjálfa í nefndunum.

Um 7. gr.


    Hér er fjallað um hæfisskilyrði ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra.
    Í núgildandi lögum er vísað í hæfisskilyrði sýslumanna um hæfi lögreglustjóra, en í lögum 92/1989 um framkvæmdavald ríkisins í héraði segir um hæfisskilyrði sýslumanna að engan megi „skipa sýslumann, nema hann fullnægi almennum skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara, öðrum en um lágmarksaldur“. Hinar efnislegu reglur um hæfisskilyrði lögreglustjóra er því að mestu að finna í dómstólalögum nr. 15/1989.
    Hér er lagt til að efnisreglurnar um hæfisskilyrði lögreglustjóra verði teknar upp í lögreglulögin. Á hinn bóginn er ekki lagt til að verulegar breytingar verði gerðar á þessum skilyrðum.
    Í 12 gr. dómstólalaganna segir að þann einan megi skipa í embætti héraðdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1.      Hefur náð 30 ára aldri.
2.      Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3.      Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4.      Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5.      Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6.      Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
7.      Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.
    Fyrsta skilyrðið í þessari upptalningu á ekki við um sýslumenn og lögreglustjóra og virðist óþarft að taka það upp. Annað skilyrðið er almenns eðlis og er að finna í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki er talin þörf á að taka þriðja skilyrðið upp í lagatextann, svo sjálfsagt sem það er. Fjórða og fimmta skilyrðið lúta að fortíð viðkomandi og er ekki talin ástæða til að slaka á þeim kröfum sem þar eru gerðar. Síðustu tvö skilyrðin lúta að menntun og reynslu.
    Í ljósi þess að ekki verður skilið milli ákæruvalds og lögreglu er talið rétt að miða við að lögreglustjórar séu lögfræðingar. Á hinn bóginn er skilyrðið í 7. tl. 12. gr. dómstólalaganna nær eingöngu miðað við reynslu af dómstörfum og þykir ástæðulaust að hafa skilyrði af þessu tagi í lögum, enda þykir mega gera ráð fyrir því að hæfustu umsækjendur um starf lögreglustjóra hafi jafnan umtalsverða reynslu.
    Öll þessi hæfisskilyrði ná jafnt til ríkislögreglutjóra og annarra lögreglustjóra.
    Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að ekki verður lengur kveðið á um að staðgengill lögreglustjóra þurfi að uppfylla sömu hæfisskilyrði og hann sjálfur. Með þessu er gengið skrefi lengra á þeirri braut sem mörkuð var með breytingu á lögreglulögum frá 2006, sem kom á embættum aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra, því samkvæmt þessu geta þeir undirmenn lögreglustjóra sem lokið hafa námi frá Lögregluskóla ríkisins verið staðgenglar hans. Slíkt myndi væntanlega einkum eiga við um þá menn sem einnig hafa lokið stjórnunarnámi eða öðru sambærilegu námi, svo sem nú á við um aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra. Í ljósi þess að stærð minnstu embættanna verður töluvert önnur en nú, þykir mega koma málum fyrir með þeim hætti innan þeirra að meðferð ákæruvalds verði ekki teflt í tvísýnu þótt staðgengill lögreglustjóra sé ólöglærður.
    Lagt er til að 3. mgr. 28. gr. verði felld úr gildi, enda gert ráð fyrir að stöður aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra verði felldar úr lögunum..
    Þá er lagt til að lögreglustjórar skipi alla lögreglumenn í sitt embætti og er það gert til að undirstrika stjórnunarheimildir lögreglustjóra yfir starfsliði sínu og gera boðleiðir skýrari. Eðlilegt er að sá sem ber ábyrgð á störfum undirmanna sinna, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna skipi starfsmenn sína, enda er það hann sem hefur heimildir 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til áminningar á sinni hendi.
    Lagt er til að sú heimild sem nú er að finna í 5. mgr. 28. gr. falli niður. Greinin er arfur frá þeim tíma þegar ekki var unnt að manna stöður lögreglumanna með menntuðum mönnum. Vegna mikillar eflingar lögregluskólans hefur þetta vandamál nú verið leyst. Þessi breyting hróflar ekki við störfum þeirra örfáu ómenntuðu lögreglumanna sem enn eru við störf. Nauðsynlegt er að dómsmála og mannréttindaráðuneytið hugi að því hvort rétt sé að breyta reglugerð um héraðslögreglumenn til að fyrirbyggja að þessi breyting leiði til þess að alls ómögulegt verði að halda uppi löggæslu á ákveðnum stöðum og tímum

Um 8. gr


    Skólastjóri Lögregluskóla ríkisins hefur um árabil verið í starfstigi lögreglustjóra í samræmi við þá grundvallarhugsun að skólinn sé eitt af lögregluembættunum og starfsmenn hans og nemendur fari með lögregluvald. Þá hefur verið lögbundið frá 1996 að stjórnandi skuli uppfylla sömu hæfisskilyrði og lögreglustjórar. Í samræmi við þá stefnu að fækka stöðuheitum og starfstigum þykir rétt að fella niður sérstakt starfsheiti skólastjóra í ákvæðinu og í upptalningu á handhöfum lögregluvalds í 9. gr. laganna.
    Brottfall 2. mgr. 37. gr. leiðir af því að óeðlilegt þykir að stilla upp einstökum embættum lögreglumanna við lögregluskólann í lögum, enda er það ekki gert við aðrar stofnanir lögreglunnar.

Um 9. gr.


    Lagt er til að breyting verði gerð á fyrirkomulagi launagreiðslna til lögreglunema sem stunda nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins frá því sem verið hefur frá lögleiðingu lögreglulaganna. Námið á fyrstu önninni í skólanum er ólaunað en hefur verið lánshæft nám samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).
    Samkvæmt gildandi lögum skal ríkislögreglustjóri sjá þeim nemum sem standast próf á fyrstu námsönninni í skólanum fyrir launaðri starfsþjálfun í lögreglu ríkisins. Raunin er sú að skólinn hefur skipulagt starfsþjálfunina með samkomulagi við lögregluembætti sem hafa tekið nemendur í starfsþjálfun og greitt þeim laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna (LL). Fjárveiting hefur hins vegar aldrei verið veitt sérstaklega á fjárlögum til að standa straum af launakostnaði vegna starfsþjálfunar lögreglunema. Á lokaönn námsins hafa lögreglunemarnir fengið laun sem Lögregluskóli ríkisins greiðir.
    Rekstur lögregluembætta er erfiður og fyrrgreint fyrirkomulag gengur ekki lengur vegna fjárskorts auk þess sem það hefur ávallt verið sá faglegi galli á fyrirkomulaginu, að fremur hefur verið litið á starfsþjálfunarnema sem afleysingamenn en nemendur, sem á hinn bóginn hefur leitt til þess að Lögregluskóli ríkisins hefur átt erfitt með að fylgja eftir námsskrá starfsþjálfunarannarinnar. Virðist eðlilegt að lögreglunemar fjármagni sitt nám með námslánum eins og aðrir nemar að undanskildum þeim tíma sem þeir eru í starfsnámi.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og m.t.t. hagræðingar og betri nýtingu fjármuna er talið rétt og eðlilegt að breyta núverandi fyrirkomulagi varðandi launagreiðslur vegna grunnnámsnema við Lögregluskóla ríkisins. Skólinn skuli sjá þeim nemendum sem standast próf á fyrstu námsönn (bóknámsönn) fyrir starfsþjálfun í lögreglunni í a.m.k. fjóra mánuði og greiðir þá mánaðarlaun þeirra. Hins vegar verði hætt að greiða lögreglunemum laun á lokaönn námsins í skólanum (bóknámsönn) sem gera verður ráð fyrir að verði lánshæft nám samkvæmt reglum LÍN eins og námið á fyrstu námsönn er.

Um 10. gr.


    Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2010 en vísað er til almenns hluta greinargerðarinnar um framkvæmd breytinganna. Ákvæðið um forgangsrétt lögreglustjóra til starfa á sér fyrirmynd í 18. gr. laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Um 11. gr.


    Hér eru gerðar breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að koma á aðskilnaði lögreglustjóra og sýslumanna. Eru ýmsar leyfisveitingar faldar sýslumönnum með þessum breytingum, en raunin hefur verið sú að mikill fjöldi leyfa sem krefst aðkomu lögreglustjóra samkvæmt lögum hefur í reynd ekki verið afgreiddur af lögreglumönnum heldur af almennum starfsmönnum sýslumannsembættanna.


Fylgiskjal 4.

Drög að reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra.

REGLUGERÐ
um lögregluumdæmi lögreglustjóra.


1. gr.

    Landinu er skipt í 6 lögregluumdæmi. Þau eru sem hér segir:
1.      Umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu nær yfir:
    Reykjavíkurborg, Seltjarnaneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Kópavogusbæ, Garðabæ, Sveitarfélagið Álftanes og Hafnarfjarðarkaupstað.
2.      Umdæmi lögreglustjóra Vesturlands nær yfir:
    Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Snæfellsbæ, Grundarfjarðarbæ, Helgafellsveit, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhrepp, Árneshrepp, Kaldrananeshrepp, Strandabyggð og Bæjarhrepp.
3.      Umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi nær yfir:
    Húnaþing vestra, Húnavatnshrepp, Blönduóssbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Fjallabyggð, Grímseyjarhrepp, Dalvíkurbyggð, Arnarneshrepp, Hörgárbyggð, Akureyrarkaupstað, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhrepp, Grýtubakkahrepp, Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp, , Norðurþing, Tjörneshrepp, Svalbarðshrepp og Langanesbyggð.
4.      Umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi nær yfir:
    Vopnafjarðarhrepp, Fljótsdalshrepp, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað, Fjarðabyggð, Breiðdalshrepp, Djúpavogshrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð.
5.      Umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi nær yfir:
    Skaftárhrepp, Mýrdalshrepp, Rangárþing ytra, Ásahrepp, Vestmannaeyjabæ, Sveitarfélagið Árborg, Flóahrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Hrunamannahrepp, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Hveragerðisbæ og Sveitarfélagið Ölfus.
6.      Umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum nær yfir:
    Grindavíkurbæ, Sandgerðisbæ, Sveitarfélagið Garð, Reykjanesbæ, Sveitarfélagið Voga og Keflavíkurflugvöll.

2. gr.

    Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, öðlast þegar gildi.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, xx.xxxx 2009.Ragna Árnadóttir.

Fylgiskjal 5.

Lögreglan.


Tölfræði.


    Í júní skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra starfshóp til að fara yfir skipulag lögreglunnar hér á landi, m.a. með tilliti til núverandi aðstæðna í ríkisfjármálum og áherslu á að nýta sem best þá fjármuni sem Alþingi veitir til löggæslu.
    Starfshópurinn fól Jakobi Magnússyni, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Halldóri Halldórssyni, LRH og Jónasi Inga Péturssyni, RLS að vinna greiningarvinnu á samsetningu starfa, rekstrarkostnaði, málafjölda auk annara atriði er lúta rekstri lögreglu.
    Í þessu skjali er ekki vikið að fjárveitingum, en miðað er við að ítarleg greining fari fram áður en fjárveitingum er skipt á milli lögreglu og sýslumannsembætta og ákvörðun tekin um skiptingu á milli umdæma. Sú greining er þegar hafin.

Lögreglan
Breytt skipan lögreglumála
Núverandi skipulag lögreglunnar

    Umdæmi lögreglunnar eru 15 talsins en að auki er embætti ríkislögreglustjóra og Lögregluskóli ríkisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Stjórnsýsluumdæmi lögreglunnar    Hvert umdæmi lögreglunnar hefur sína sérstöðu miðað við landfræði, lýðfræði og aðra þætti sem gera ólíkar kröfur til lögreglunnar. Engu að síður má sjá útfrá afbrotatölfræði að fjöldi afbrota er nokkuð sambærileg að umdæmum lögreglustjóranna á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu undaskildum, fjöldi brota í þeim umdæmum eru um 60% af heildarafbrotum ársins 2008. Sjá nánari sundurliðun í töflu 2, 3 og 4. Þá má einnig sjá upplýsandi og fróðlega tölfræði um fjölda verkefna eftir umdæmum.

Tafla 1. Fjöldi ársverka* lögreglumanna eftir umdæmum


í árslok 2008.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


*Ársverk: Gerir ráð fyrir fullu starf í 12 mánuði, með öllum réttindum til veikinda og orlofs. Sem dæmi, þá gefur 6 mánaða fullt starf af sér ½ ársverk, þannig getamögulega legið margar kennitölur að baki einu ársverki.

Tafla 2. Fjöldi brota í umdæmum.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


* Það er ekki reiknað per 10.000 fyrir embætti ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra en þau brot sem eru skráð á þau embætti eru talin með og reiknuð í heildarfjölda (samtalsreit).
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Breytt skipulag lögreglunnar
    Samkvæmt tillögum starfshóps dómsmálaráðherra þá verður lögregluumdæmum fækkað úr 15 í 6 umdæmi.Mynd 2. Lögregluumdæmi eftir breytingu    Til lögreglunnar teljast þá ríkislögreglustjóri og Lögregluskóli ríkisins og lögreglu umdæmin eftirfarandi: Vesturland, Norðurland, Austurland, Suðurland, Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes. Hér á eftir má sjá ýmsa tölfræði sem tekur mið af nýjum umdæmum.

Tafla 3. Fjöldi brota 2008 m.v. breytt umdæmiHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 4. Fjöldi brota 2008 m.v. breytt umdæmi pr. 10.000* Það er ekki reiknað per 10.000 fyrir embætti ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra en þau brot sem eru skráð á þau embætti eru talin með og reiknuð í heildarfjölda (samtalsreit).

Tafla 5. Fjöldi ársverka lögreglumanna


eftir nýjum umdæmum m.v. árslok 2008.


Fjöldi íbúa miðast við 1. desember 2008Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Tafla 6. Fjöldi og hlutföll ársverka lögreglu


eftir starfsheitum og nýjum umdæmum m.v. árslok 2008.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 7. Fjöldi verkefna lögreglu eftir nýjum umdæmum 2008.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Bílarekstur lögreglunnar 2008

Tafla 8. Bílarekstur lögreglunnarHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1
1     Embætti héraðssaksóknara hafa ekki verið sett á fót.
Neðanmálsgrein: 2
2         Þessa hagræðingu verður að skoða í samhengi við breytingar á embættum sýslumanna og krefst fækkunar á heildarfjölda lögreglu- og sýslumannsembætta.
Neðanmálsgrein: 3
5     Lögregluforstjóri er ekki tillaga að starfsheitinu.