Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 452. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1006  —  452. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Hermann Sæmundsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Karl Björnsson, Gunnlaug Júlíusson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Akureyrarbæ, Bláskógabyggð, Dalabyggð, Eyþingi, Fjallabyggð, Flóahreppi, Grindavíkurbæ, Grímsnes- og Grafningshreppi, Grundarfjarðarbæ, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Norðurþingi, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Svalbarðsstrandarhreppi, Sveitarfélaginu Hornafjörður, Sveitarfélaginu Skagafjörður (byggðarráð) og Vesturbyggð.
    Í frumvarpinu er kveðið á um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á fjármálaupplýsingum til afnota fyrir opinbera aðila auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt er lagt til að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga fái við framkvæmd starfa sinna óhindraðan aðgang að gögnum sveitarfélaga.
    Á fundum nefndarinnar voru ákvæði frumvarpsins rædd með hliðsjón af hlutverki eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og lagaáskilnaðar um jafnvægi í rekstri þeirra. Nefndin ræddi einnig samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði hagstjórnar að teknu tilliti til efnahagsástandsins, lakrar fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga og hlutdeildar sveitarfélaga í heildarútgjöldum hins opinbera.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpið hefði verið unnið í góðu samstarfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga og að það standi í tengslum við heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga sem nú stendur yfir. Með frumvarpinu er leitast við að efla samtímaeftirlit með fjárhag sveitarfélaga og tryggja að söfnun upplýsinga sé með samræmdum hætti og þannig framsett að þær gefi sem gleggsta yfirsýn yfir fjármál hvers sveitarfélags. Það skapi tækifæri til ábyrgari hagstjórnar og auki líkur á að brugðist sé tímanlega við fjárhagsvanda sveitarfélaga.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að reglugerð ráðherra sem vísað er til í frumvarpinu sé ásamt kostnaðarmati þess enn til vinnslu. Unnið verði að því að gera skil á fjármálaupplýsingum sem fyrirhafnarminnst fyrir sveitarfélög.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
         Róbert Marshall, Árni Johnsen, Guðmundur Steingrímsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. apríl 2010.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Ásbjörn Óttarsson.


Ólína Þorvarðardóttir.