Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 440. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1013  —  440. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um förgun og endurvinnslu flokkaðs sorps.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig er staðið að förgun og endurvinnslu flokkaðs sorps? Svar óskað sundurliðað eftir þessum flokkum sorps: bylgjupappi (frá fyrirtækjum annars vegar og heimilum hins vegar), pappír og umbúðir úr sléttum pappa (svo sem mjólkurfernur og aðrar matarumbúðir), filmuplast frá fyrirtækjum, föt og klæði, garðaúrgangur, gras, grófur úrgangur, heyrúlluplast, hjólbarðar, húsbúnaður, jarðvegur, kertaafgangar, kjötvinnslu- og sláturúrgangur, kælitæki, ljósaperur, lyf, málmar, net, kaðlar og troll, plastumbúðir (frá fyrirtækjum annars vegar og heimilum hins vegar), raftæki, rafhlöður, sjónvörp og skjáir, skilagjaldsskyldar umbúðir, skrifstofupappír og hvítur afskurður, skór, spilliefni, steinefni, stór raftæki, timbur, trjágreinar, trúnaðargögn og tölvur.

    Endurvinnsla úrgangs hefur aukist undanfarin ár og dregið hefur úr því magni úrgangs sem hefur farið í endanlega förgun. Árið 1995 voru urðuð um 80% þess úrgangs sem til féll en árið 2007 var þetta hlutfall komið niður í um 40%. Hluti af þeim úrgangi sem er flokkaður til endurnýtingar ber úrvinnslugjald samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, þannig að með hagrænum hvötum er reynt að stuðla að sem mestri endurnýtingu og endurvinnslu. Umbúðir úr pappa, pappír og plasti, heyrúlluplast, veiðarfæri, hjólbarðar og spilliefni falla m.a. undir lögin. Markmið laga um úrvinnslugjald er að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna. Úrvinnslugjald er lagt á tilteknar vörur og stendur það undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð og flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar, enda hafi verið greitt úrvinnslugjald af vörunum. Þá stendur gjaldið undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Stefna stjórnvalda er að ávallt skuli leita leiða til að endurnota eða endurnýta úrgang. Lausnir í úrgangsmálum skulu taka mið af umhverfislegum og efnahagslegum forsendum og skal nota til þess bestu fáanlegu tækni. Tæknilegar lausnir skulu taka mið af eftirfarandi forgangsröðun að svo miklu leyti sem slíkt er mögulegt:
     1.      Að dregið verði úr myndun úrgangs.
     2.      Endurnotkun.
     3.      Endurnýting.
     4.      Endanleg förgun.
    Eftirfarandi upplýsingar eru tiltækar varðandi förgun, endurnotkun, endurnýtingu eða endurvinnslu á flokkuðum úrgangi. Reynt er að skýra sem best stöðu einstakra úrgangsflokka eins og fram kemur í fyrirspurninni þó svo að skiptingin hér á eftir sé ekki sú sama og fram kemur í fyrirspurninni.
          Endurvinnsla alls pappírs og pappa sem safnað er hér á landi, hvort sem er frá fyrirtækjum eða heimilum, fer fram erlendis. Pappír sem fer til förgunar er fargað á viðurkenndum förgunarstöðum hér á landi. Umbúðir úr pappír og pappa bera úrvinnslugjald.
          Umbúðir úr plasti og heyrúlluplast bera úrvinnslugjald. Hreint og blandað plast er í flestum tilvikum sent utan til endurvinnslu. PM endurvinnsla, sem starfrækt er hér á landi, tók á móti um það bil 560 tonnum af plasti til endurvinnslu árið 2009. Þegar verksmiðjan verður komin í fullan rekstur er framleiðslugeta hennar um 4.000 tonn á ári.
          Veiðarfæri úr gerviefnum falla undir lög um úrvinnslugjald, þ.m.t. net, kaðlar og troll. Netafskurður, hlutar úr flottrolli, nótaefni og trollefni, svo og netsteinar og kaðlar sem eru einungis úr einni tegund plasts fara til endurvinnslu. PM endurvinnsla hefur séð um söfnun og endurvinnslu framantalins veiðarfæraúrgangs. Línur og kaðlar úr blönduðu plasti og gúmmí fara til förgunar á viðurkenndum förgunarstöðum hér á landi.
          Fatnaður, ýmis textílvara og skór, sem safnað er og sett í nytjagáma á móttökustöðum fer til endurnotkunar bæði hér á landi og erlendis.
          Garðaúrgangur er endurunninn í moltu, nýttur til landmótunar eða fargað á viðurkenndum förgunarstöðum. Tré og trjágreinar eru kurluð og kurlið notað í beð og stíga.
          Grófur úrgangur (rúmfrekur úrgangur) frá fyrirtækjum fer til förgunar á viðurkenndum förgunarstöðum.
          Hjólbarðar bera úrvinnslugjald. Óheimilt er að urða hjólbarða, hvort sem þeir eru tættir eða heilir. Hjólbarðar sem skilað er inn til endurvinnslu eru flestallir tættir. Tættir hjólbarðar eru m.a. nýttir sem drenlag hjá urðunarstöðum eða þeir brenndir til orkunýtingar, t.d. hjá Sementsverksmiðjunni. Slík nýting er skilgreind sem endurvinnsla samkvæmt reglum ESB. Notaða hjólbarða er í sumum tilfellum einnig hægt að endurnota (með sólun).
          Raf- og rafeindatækjaúrgangur fellur samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, undir ákvæði framleiðendaábyrgðar. Þannig bera framleiðendur og innflytjendur ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir lögin. Undir lögin falla m.a. kælitæki, raftæki, sjónvörp, skjáir og tölvur. Í ábyrgð framleiðenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðvar sveitarfélaga. Raf- og rafeindatæki eru flutt utan til endurvinnslu, oft þarf þó áður að hreinsa úr þeim spilliefni sem er þá skilað til móttökustöðvar. Á stærri móttökustöðum er möguleiki á að skila inn raftækjum til endurnotkunar, t.d. dýrari raftækjum, svo sem sjónvörpum, tölvum og stærri heimilistækjum. Stundum þarf að lagfæra þessi tæki lítilega áður en þau eru seld þriðja aðila til endurnotkunar.
          Um 7.700 tonn af alls 19.000 tonnum af sláturúrgangi fór til endurvinnslu árið 2007. Sláturúrgangur er m.a. nýttur í fóðurgerð (loðdýrafóður), í kjötmjölsvinnslu og til jarðgerðar í þar til gerðum jarðgerðarstöðvum. Afgangurinn sem ekki er endurunninn, er urðaður á viðurkenndum urðunarstöðum.
          Jarðvegur og steinefni eru m.a. endurnýtt til landmótunar, vegagerðar og fleira. Förgun fer fram á viðurkenndum förgunarstöðum.
          Húsbúnaði sem safnað er sérstaklega er komið til endurnotkunar hér á landi.
          Kertaafgöngum sem safnað er, er komið til endurnýtingar hér á landi.
          Ljósaperum sem innihalda kvikasilfur er safnað sérstaklega og þær meðhöndlaðar í sérstökum tækjum þar sem þær eru tættar og kvikasilfrinu safnað. Kvikasilfrið er sent út sem spilliefni til endurvinnslu en glerinu safnað saman og því m.a. blandað saman við annað gler sem notað er sem uppfyllingarefni á urðunarstöðum. Afgangurinn fer til urðunar á viðurkenndum urðunarstöðum.
          Rafhlöðum sem er skilað sérstaklega inn til úrvinnslu er skipt í tvo flokka, annars vegar rafhlöður sem innihalda spilliefni og hins vegar brúnkolsrafhlöður. Rafhlöður með spilliefnum eru sendar utan til endurnýtingar þar sem þær eru brenndar við háan hita hjá viðurkenndum eyðingaraðila, orkan sem myndast við brennslu þeirra er notuð í rafmagnsframleiðslu eða til húshitunar. Brúnkolsrafhlöður eru flokkaðar sérstaklega og þeim komið fyrir í tunnum sem eru urðaðar á urðunarstað Sorpu fyrir sértækan úrgang. Rafhlöður bera úrvinnslugjald.
          Timbur er kurlað niður og m.a. notað sem yfirborðslag á urðunarstöðum og við stígagerð. Mestallt ómálað timbur sem safnað er hjá Sorpu er nýtt sem kolefnisgjafi í Járnblendinu. Þess konar endurnýting á timbri er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Timbur er yfirleitt nýtt sem orkugjafi erlendis en þar sem næg vistvæn orka er til staðar hérá landi, með virkjun vatnsafls, er hægt að nýta timbrið betur á þennan hátt. Íslenska járnblendifélagið þarf þá ekki að flytja inn kol að utan og ekki þarf að farga timbrinu með urðun.
          Lyf eru flokkuð sem spilliefni, þau eru send til eyðingar annaðhvort við háan hita í brennslustöðvum hér á landi eða hjá viðurkenndum eyðingaraðila erlendis. Orkan er nýtt til rafmagnsframleiðslu eða til húshitunar.
          Málmar eru endurnýttir, fyrst og fremst erlendis. Brotamálmur sem safnað er saman fer til rúmmálsminnkunar hjá endurvinnsluaðilum hérlendis. Hann er síðan sendur utan þar sem hann er bræddur og endurnýttur.
          Spilliefni eru nýtt hér á landi sem orkugjafi eða send utan til förgunar eða endurnýtingar. Langflestar vörur sem verða að spilliefnum bera úrvinnslugjald.
          Trúnaðargögnum, þ.e. gögnum sem geyma viðkvæmar upplýsingar, svo sem pappírsskjölum, segulböndum, tölvuum, diskum, snældum og kerfisskjölum, er hægt að koma til eyðingar þar sem gögn og búnaður er tættur og eyðilagður áður en efnið er sent utan til endurvinnslu.