Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 441. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1014  —  441. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um notkun plastpoka.

     1.      Hversu margir plastpokar eru notaðir á ári hverju hér á landi?
    Nákvæmum tölum um notkun plastpoka hér á landi er ekki safnað. Hins vegar hefur verið gengið út frá því að notkunin sé í kringum 15–20 milljónir plastpoka á ári.

     2.      Úr hverju eru þeir pokar framleiddir?
    Plastpokar eru yfirleitt framleiddir úr svokölluðu polyetylen-plasti. Upp á síðkastið hafa einnig verið að koma á markað plastpokar sem unnir eru úr kartöflu- eða maíssterkju sem brotna hraðar niður í náttúrunni.

     3.      Hve langan tíma tekur fyrir plastpoka að brotna niður í umhverfinu?
    Það er yfirleitt áætlað að það taki venjulegan plastpoka um 100 ár að brotna niður í náttúrunni, þetta ferli getur síðan tekið allt að 10 sinnum lengri tíma sé plastpokinn urðaður á viðurkenndum urðunarstað þar sem aðstæður til niðurbrots eru ekki hagstæðar.

     4.      Hefur ráðuneytið gripið til einhverra aðgerða til að draga úr plastpokanotkun?
    Nei, en sérstakt gjald hefur verið lagt á plastpoka í flestum verslunum og hefur það gjald verið hugsað til að draga úr óhóflegri notkun plastpoka.