Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1024  —  371. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmann ráðherra, Hrefnu Gísladóttir lögfræðing og Kristján Frey Helgason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Örn Pálsson framkvæmdastjóra og Arthur Bogason formann Landssambands smábátaeigenda, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Guðmund Þ. Ragnarsson, formann Félags vélstjóra og málmtæknimanna, og Árna Múla Jónasson fiskistofustjóra og Eyþór Björnsson frá Fiskistofu.
    Umsagnir bárust frá Samtökum eigenda sjávarjarða, Sjómannasambandi Íslands, Byggðastofnun, Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Umhverfisstofnun, Viðskiptaráði Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskvinnslustöðva, Hafnarsambandi Íslands og efnahags- og skattanefnd Alþingis.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (þskj. 667, 370. mál). Með frumvarpi þessu er lagt til að auk gjalds vegna almenns leyfis til strandveiða greiði útgerðir fiskiskipa sem leyfi fá til strandveiða sérstakt gjald að fjárhæð 50.000 kr. Verði fjöldi leyfa til strandveiða á yfirstandandi fiskveiðiári svipaður og á því síðasta, eða á bilinu 400–600 leyfi, má gera ráð fyrir að tekjur af strandveiðigjaldinu nemi um 20–30 millj. kr. Gert er ráð fyrir að tekjum þessum verði ráðstafað til hafna þar sem landað hefur verið afla sem fenginn er við strandveiðar. Fiskistofa innheimtir gjaldið og skal hún á grundvelli aflaupplýsinga greiða höfnunum sinn hlut. Hlutfall hverrar hafnar skal vera það sama og hlutfall hafnarinnar er í heildarafla sem fenginn var við strandveiðar og landað var hjá viðkomandi höfn á tímabilinu og skal aflinn reiknaður í þorskígildum. Á þeim tíma sem strandveiðar eru stundaðar þurfa starfsmenn hafnanna, sérstaklega smærri hafna, að vera viðbúnir þeirri auknu umsýslu sem fylgir strandveiðum og þykir því rétt að koma til móts við hafnirnar hvað þetta varðar.
         Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum. Þá ákvað hún að senda málið til umsagnar hjá efnahags- og skattanefnd Alþingis sem telur að skattlagning samkvæmt frumvarpinu standist en benti þó á aðrar leiðir sem hefðu náð sama markmiði, þ.e. að viðkomandi hafnir hefðu hækkað gjaldskrár sínar eða fjárframlög til málalokksins hefðu verið aukin á fjárlögum. Umsagnaraðilar lögðust ekki gegn frumvarpi þessu að því gefnu að framangreint frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða næði fram að ganga en ýmsir umsagnaraðilar lýstu andstöðu við það.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 28. apríl 2010.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Björn Valur Gíslason.



Margrét Pétursdóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Róbert Marshall.