Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1045  —  390. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum (skipun dómara).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Benedikt Bogason frá dómstólaráði, Ingveldi Einarsdóttur frá Dómarafélagi Íslands og Margréti Steinarsdóttur og Kolbrúnu Birnu Árdal frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Umsagnir bárust um málið frá ASÍ, BSRB, Ákærendafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, dómstólaráði, Hæstarétti Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er lögð til breytt skipun dómnefndar til að meta hæfi umsækjenda um dómarastöður og nefndarmönnum fjölgað úr þremur í fimm. Lagt er til að vægi dómnefndarinnar verði aukið og að henni verði einnig falið að meta hæfi umsækjenda um stöðu dómara við Hæstarétt eins og við héraðsdóm. Fellt verði brott ákvæði um að dómsmálaráðherra skuli leita umsagnar Hæstaréttar áður en hann skipar í stöðu við réttinn. Þá er lagt til að dómsmálaráðherra verði bundinn af niðurstöðu dómnefndar en að hann geti vikið frá henni samþykki Alþingi tillögu hans um að skipa í embætti annan hæfan umsækjanda en dómnefnd hefur talið standa fremst.
    Nefndin fjallaði um skipun dómnefndarinnar og fjölgun nefndarmanna. Samkvæmt gildandi lögum eiga þrír menn sæti í nefndinni og eru þeir tilnefndir af Hæstarétti Íslands, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands. Með frumvarpinu er lagt til að Hæstiréttur tilnefni tvo og skal a.m.k. annar þeirra ekki vera starfandi dómari, dómstólaráð tilnefni þann þriðja og Lögmannafélag Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar og tillögur um breytingar á því hverjir ættu að tilnefna nefndarmenn, m.a. að Dómarafélagið, sem er fagfélag dómara, ætti að tilnefna nefndarmenn í stað dómstólaráðs eins og lagt er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur í því sambandi áherslu á að tilnefningaraðilar eru ekki bundnir í tilnefningum sínum af því að tilnefna menn úr tiltekinni starfsstétt fyrir utan að annar þeirra sem Hæstiréttur tilnefnir má ekki vera starfandi dómari. Telur meiri hlutinn að með því að fela Hæstarétti að tilnefna tvo nefndarmenn séu líkur til að annar verði starfandi eða fyrrverandi dómari. Með því að fela dómstólaráði að tilnefna í nefndina má ætla að tilnefning ráðsins komi úr röðum héraðsdómara enda fer ráðið með stjórnsýslu héraðsdómstólanna og kemur fram gagnvart öðrum fyrir þá sameiginlega. Það gæti þá skapað ákveðið mótvægi við tilnefningu Hæstaréttar frekar en að Dómarafélagið tilnefni einn en félagið er félagsskapur allra dómara, bæði hæstaréttar- og héraðsdómara auk fyrrverandi dómara. Meiri hlutinn telur að með því að fjölga í dómnefndinni eins og lagt er til sé verið að tryggja breiðari samsetningu dómnefndar sem muni skila sér í fjölbreyttari hópi dómara.
    Nefndin ræddi einnig hvort félagasamtök ættu að tilnefna fimmta nefndarmanninn sem ætlað er að vera eins konar fulltrúi almennings frekar en Alþingi eins og lagt er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur ljóst að margir gætu tilnefnt slíkan aðila en einnig að erfitt getur verið að velja hverjir ættu umfram aðra að fá það verkefni. Meiri hlutinn fellst á þau rök sem fram koma í frumvarpinu að þegar litið er til þess að á Alþingi sitja þjóðkjörnir fulltrúar sem sækja umboð sitt til þjóðarinnar á fjögurra ára fresti sé eðlilegt að fimmti nefndarmaðurinn verði kosinn af Alþingi.
    Nefndin fjallaði einnig um þá tillögu í frumvarpinu að dómsmálaráðherra verði að afla samþykkis Alþingis til þess að geta skipað annan mann í embætti en þann sem dómnefndin hefur mælt með. Meiri hlutinn telur að þessi tilhögun sé til þess fallin að skapa ákvæðið jafnvægi milli dómnefndar og ráðherra. Nefndin ræddi í því sambandi hvort rétt væri að leggja til að ráðherra þyrfti aukinn meiri hluta þingsins í stað einfalds meiri hluta. Meiri hlutinn tekur fram að það er mjög fátítt að krafist sé aukins meiri hluta Alþingis og enn fremur að það hafa skapast ákveðnar venjur og hefðir um að einfaldur meiri hluti sé nægilegur nema skýrt sé kveðið á um annað, t.d. í stjórnarskrá og lögum um þingsköp Alþingis. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að hann telur það nægilega viðurhlutamikið fyrir ráðherra ef hann vill fara gegn ráðleggingum dómnefndar að hann þurfi að leggja tillögu sína um það fyrir Alþingi og fá samþykki einfalds meiri hluta fyrir henni.
    Meiri hlutinn tekur fram að nauðsynlegt er að gera breytingar á lögum um þingsköp Alþingis svo að það liggi fyrir hvernig með eigi að fara ef ráðherra leggur fram á Alþingi tillögu um skipun umsækjanda í dómaraembætti gegn ráðleggingum dómnefndar. Fyrir nefndinni kom fram að verið er að vinna að nauðsynlegum breytingum.
    Fyrir nefndinni kom einnig fram að frumvarpið fullnægir þeim kröfum sem Evrópusambandið gerir til reglna um val á dómurum þar sem vald dómsmálaráðherra til að velja dómara í andstöðu við valnefnd er takmarkað með því að hann þarf að bera þá ákvörðun undir Alþingi.
    Meiri hlutinn telur að frumvarpið sé til þess fallið að styrkja sjálfstæði dómstólanna gagnvart framkvæmdarvaldi og að það sé mjög mikilvægt til þess að unnt sé að skapa sátt í samfélaginu. Með frumvarpinu er einnig komið til móts við þá gagnrýni sem komið hefur fram síðustu missiri vegna skipunar í embætti dómara. Telur meiri hlutinn að með þessu verði tryggt eins og kostur er að tilhögun á skipun dómara verði gegnsæ og byggð á hlutlægum viðmiðum.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilegar lagfæringar á tilvísunum í lagagreinar og leggur til að brott falli ákvæði sem eru úr gildi fallin.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað orðanna ,,4. mgr. 4. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 4. gr. a.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað orðanna ,,3. og 4. mgr. 12. gr.“ í 3. mgr. 20. gr. laganna kemur: 4. gr. a.
     3.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      40. og 41. gr. laganna falla brott.

Alþingi, 28. apríl 2010.Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Vigdís Hauksdóttir.


Auður Lilja Erlingsdóttir.Róbert Marshall.


Þráinn Bertelsson.