Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 493. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1057  —  493. mál.
Viðbót.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um markaðar tekjur og ríkistekjur.

     1.      Hvernig eru markaðar tekjur ríkisins skilgreindar frá öðrum tekjum ríkisins og hvert er hlutfall þeirra í heildarskatttekjum ríkisins?
    Markaðar tekjur eru skatttekjur ríkisins sem eiga að renna til ákveðinna verkefna eða stofnana samkvæmt sérstökum lögum. Þær greinast frá öðrum tekjum ríkisins að því leyti að ráðstöfun þeirra er mörkuð tilteknum málaflokki eða viðfangsefni. Samkvæmt skilgreiningu eru skatttekjur lögboðin gjöld sem ríkið krefur einstaklinga eða lögaðila um án þess að á móti komi bein framlög eða þjónusta sem svarar beinlínis til gjaldanna. Markaðar tekjur eru því skatttekjur þar sem ekki er veitt þjónusta á móti þó svo að tekjunum sé ráðstafað til tiltekinna aðila í samræmi við það sem Alþingi ákveður hverju sinni við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga.
    Hlutfall markaðra tekna af heildarskatttekjum ríkisins er breytilegt frá einu ári til annars. Samkvæmt ríkisreikningi 2008 voru markaðar tekjur 18,9% af heildarskatttekjum og 15,5% af heildartekjum ríkisins. Árið 2007 námu þær 18,3% af heildarskatttekjum og 15,5% af heildartekjum ríkisins.

     2.      Hverjar eru markaðar tekjur ríkisins og á grundvelli hvaða tilgreindu lagaákvæða eru þær innheimtar og ráðstafað?

    Markaðar tekjur ríkisins eru fjölmargir tekjustofnar og eru þær að öllu jöfnu lagðar á hverju sinni á grundvelli ákvæða í sérstökum lögum. Ráðstöfun þeirra tekna sem er aflað er ákveðin í fjárlögum/fjáraukalögum hverju sinni. Við frágang lokafjárlaga hverju sinni er síðan tekin endanleg ákvörðun um ráðstöfun teknanna í hverju tilviki.
    Birt er tæmandi yfirlit í ríkisreikningi hverju sinni, sjá séryfirlit 9 á bls. 141–144 í ríkisreikningi 2008, en þar kemur fram sundurliðuð staða, álagning, innheimta og afskriftir markaðra tekna eftir rétthöfum. Jafnframt sýnir séryfirlit 4, bls. 111–117 í ríkisreikningi 2008, yfirlit yfir tekjur einstakra fjárlagaliða samanborið við áætlun fjárlaga og fjáraukalaga ársins. Þar fæst góður samanburður á milli áætlunar og útkomu hjá stofnunum þar sem greint er á milli sértekna, markaðra tekna og annarra tekna.
    Ákvæði um mörkun ríkistekna eru í fjölmörgum lögum og það yrði tímafrekara og umfangsmeira verkefni að tína saman allar þær lagatilvísanir en alla jafna er gert ráð fyrir þegar fyrirspurnum er svarað. Fjármálaráðuneytið telur þó fullt tilefni vera til að yfirfara og skoða mörkun ríkistekna almennt og lagagrundvöll þeirra og er reiðubúið að vinna að því með fjárlaganefnd ef óskað verður eftir því.

     3.      Eru markaðar tekjur tæmandi taldar á séryfirliti nr. 3 í fjárlögum þessa árs?
    Séryfirlit 3 í fjárlögum er tæmandi yfirlit yfir markaðar tekjur eins og þær eru áætlaðar í fjárlögum hvers árs. Að öðru leyti er vísað í svar við 2. tölul.

     4.      Telur ráðherra það vera samrýmanlegt 40. gr. stjórnarskrárinnar að marka skatttekjur ríkisins í almennum lögum?
    Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja, breyta né taka af nema með lögum. Þá má ekki taka lán, er skuldbinda ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Í greininni felast engar takmarkanir á því með hvaða hætti skatttekjum er ráðstafað. Því telur ráðherra það ekki ósamrýmanlegt 40. gr. stjórnarskrárinnar að marka skatttekjur ríkisins í almennum lögum.
    Í tengslum við fjárlagagerðina hefur ráðuneytið haft þá stefnu í seinni tíð að auka ekki vægi markaðra tekna í fjármögnun verkefna á útgjaldahliðinni, draga helst úr þeim, og hefur jafnvel verið til skoðunar að hverfa nánast með öllu frá því. Markmið með því væri að tryggja betur fjárstjórnarvald Alþingis, styrkja fjármálastjórn ríkisins og stemma stigu við sjálfvirkni útgjalda.