Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 115. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1081  —  115. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlit með þjónustu og hlutum sem hafa hernaðarlega þýðingu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétu Gunnarsdóttur og Pétur G. Thorsteinsson frá utanríkisráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Flugmálastjórn Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, ríkisskattstjóra, Samtökum hernaðarandstæðinga, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun, tollstjóranum í Reykjavík og Varnarmálastofnun.
    Markmið frumvarpsins er að auka alþjóðaöryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir, með því m.a. að hafa eftirlit með, banna og/eða leyfisbinda útflutning á hlutum sem má nota, með beinum eða óbeinum hætti, til hryðjuverka, bælingar eða í hernaðarlegum tilgangi, svo og eftirlit með þjónustu og fjárfestingum þeim tengdum. Enn fremur er í frumvarpinu kveðið á um reglur um örugga vörslu og geymslu gagna um hluti, þjónustu og fjárfestingar sem hafa hernaðarlega þýðingu, svo og viðurlög og stjórnsýsluleg úrræði við brotum á ákvæðum þess.
    Eftirlit með útflutningi sem hefur hernaðarlega þýðingu er nú byggt á lögum um útflutningsleyfi o.fl., nr. 4/1988. Eftirlitið er haft vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem miða að því að hefta sölu hefðbundinna vopna, gjöreyðingarvopna og hættulegra hluta. Nauðsynlegt er að takmarka dreifingu þeirra til ákveðinna staða, hópa eða einstaklinga til þess að koma í veg fyrir að þau séu notuð til hryðjuverka eða annarrar ólögmætrar starfsemi. Núgildandi löggjöf frá 1988 hefur ekki að geyma nægar heimildir til þess að Ísland geti tekið fullan þátt í alþjóðasamstarfi sem hefur það að markmiði að hefta útbreiðslu þjónustu og hluta sem hafa hernaðarlega þýðingu. Alþjóðleg samvinna um útflutningseftirlit hefur aukist verulega á undanförnum árum. Með ákvæðum frumvarpsins eru gildandi reglur um eftirlit með hlutum og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu hertar og útvíkkaðar í því skyni að Ísland geti uppfyllt fyrirmæli öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði.
    Við umfjöllun utanríkismálanefndar um málið kom fram það sjónarmið að breyting á heiti frumvarpsins yrði til bóta. Margir þeirra hluta sem falla undir eftirlit frumvarpsins hafa tvíþætt notagildi og geta jafnt nýst með lögmætum og friðsamlegum hætti sem í hernaðarlegum tilgangi. Því telur nefndin rétt að heiti frumvarpsins verði „Eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu“ og leggur fram breytingartillögu þar að lútandi.
    Nefndin telur enn fremur að skýra þurfi nánar markmið frumvarpsins og undirstrika í 1. gr. að tilgangur þess sé að auka alþjóðaöryggi og virðingu fyrir mannréttindum í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Nefndin leggur fram tillögu að breyttu orðalagi 1. gr. í þessu skyni.
    Frumvarpið var sett í svokallað „tæknilegt tilkynningarferli“ á grundvelli EES-samningsins. Slíkt er m.a. nauðsynlegt þar sem lög og reglugerðir, sem hefta milliríkjaviðskipti (á grundvelli tilskipunar 98/34/EB) eru annars vegar. Ábendingar sem bárust í ferlinu eru ekki bindandi heldur einungis tillögur um atriði sem viðkomandi umsagnaraðili telur að betur megi fara. Nefndin telur að ábendingar um hugtakaskilgreiningar á mismunandi leyfum í 3. gr. frumvarpsins sem bárust frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og utanríkisráðuneytið kom á framfæri við nefndina séu til bóta. Nefndin gerir því breytingartillögur þar að lútandi.
    Nefndin tók 4. gr. frumvarpsins til sérstakrar skoðunar, en 4. mgr. 4. gr. kveður á um að ráðherra sé heimilt að kveða á um að leyfi þurfi fyrir innflutningi og viðkomu hluta hérlendis sem geta nýst, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn. Nefndin leggur áherslu á að með 4. gr. er ekki verið að opna á heimildir til handa ráðherra til þess að veita leyfi til innflutnings eða útflutnings á gereyðingarvopnum. Þvert á móti er tilgangur 3. og 4. mgr. 4. gr. fyrst og fremst sá að ráðherra geti hamlað inn- og útflutningi hluta sem eru andstæðir markmiðum frumvarpsins og, að því er varðar 3. mgr., eru ekki á listum yfir leyfisskyldar vörur sem birtir verða í B-deild Stjórnartíðinda. Slíkir listar, sem skulu uppfærðir til samræmis við skyldur og skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir sem aðili að alþjóðasamstarfi um bann við útbreiðslu hergagna og hluta sem geta haft hernaðarlegt gildi, geta aldrei verið tæmandi. Því er nauðsynlegt að ráðherra hafi heimild til að takmarka inn- og útflutning á hlutum sem ekki eru á listunum en geta verið andstæðir markmiðum frumvarpsins. Til þess að gera 4. gr. skýrari leggur nefndin til breytingar sem m.a. kveða á um að heimildir ráðherra til að veita leyfi til innflutnings hluta sem geta haft hernaðarlegt gildi séu háðar því að innflutningurinn brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
    Að auki leggur nefndin til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar á frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Bjarni Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. maí 2010.



Valgerður Bjarnadóttir,


varaform., frsm.


Helgi Hjörvar.


Birgitta Jónsdóttir.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Þuríður Backman.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.