Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1114  —  343. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta viðskiptanefndar.    Frá því að lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., eða neyðarlögin eins og þau eru almennt kölluð, voru samþykkt hefur lögum um fjármálafyrirtæki verið breytt alls sjö sinnum.
    Með þessu frumvarpi er verið að leggja til einna umfangsmestu breytingarnar hingað til. Tillögur frumvarpsins byggjast á skýrslu Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins, um lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi. Helstu tillögur Jännäri voru í átta liðum: 1) Fækka ráðuneytum sem sinna málefnum fjármálamarkaðar á Íslandi. 2) Sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, eða a.m.k. setja þessar stofnanir undir einn hatt líkt og í Finnlandi og á Írlandi. 3) Auka valdheimildir Fjármálaeftirlitsins og hvetja stofnunina til að beita þeim af meiri krafti. 4) Koma upp útlánaskrá (e. national registry) hjá Fjármálaeftirlitinu til að draga úr útlánaáhættu í fjármálakerfinu og til að fá betri yfirsýn yfir stórar áhættuskuldbindingar á landsvísu. 5) Strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda og framfylgja þeim af krafti. 6) Fjölga vettvangskönnunum hjá eftirlitsskyldum aðilum til að styðja við skýrslugjöf til Fjármálaeftirlitsins og úttektir þess sem byggjast á innsendum gögnum, einkum að því er varðar útlánaáhættu, lausafjáráhættu og gjaldeyrisáhættu. 7) Innstæðutryggingakerfið endurskoðað og bætt, í nánu samhengi við þróun mála á þessu sviði innan ESB. 8) Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggjafar og eftirlits með fjármálastarfsemi er mikilvæg, einkum innan EES og ESB.
    Þetta frumvarp tekur því fyrst og fremst á 3.–5. tölul. Jännäri-skýrslunnar. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði veittar auknar eftirlitsheimildir, og fleiri heimildir til að setja reglur um tiltekin atriði. Þá er ákvæðum um heimild eftirlitsins til að leggja mat á rekstur eða hegðun eftirlitsskylds aðila fjölgað. Lagt er til að komið verði á fót sérstakri skrá yfir stærri lántakendur, skerpt á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, bann lagt við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum, þrengd ákvæði um eign og meðferð eigin hluta, skýrðar reglur um stórar áhættuskuldbindingar, auknar kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin og bann sett við starfandi stjórnarformönnum, skorður settar við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna auk þess sem settar eru reglur um hvernig má standa að hvatakerfum, kaupaukakerfum og starfslokasamningum.
    Á það skortir að pólitísk stefnumörkun hafi farið fram við vinnslu frumvarpsins, þrátt fyrir ágætis undirbúningsvinnu hjá Kaarlo Jännäri. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir orðrétt: „Sérstaða banka og fjármálafyrirtækja og samfélagsleg staða þeirra og ábyrgð kallaði ekki bara á að þessari atvinnustarfsemi væri sett lagaleg umgjörð. Eðli starfseminnar og sú áhætta sem var fólgin í henni bæði fyrir hagsmuni einstaklinga og hagsmuni samfélagsins í heild kallaði á virkt starf eftirlitsaðila. En hvað sem leið þessari lagalegu umgjörð og starfi hinna sjálfstæðu eftirlitsaðila þurftu þau yfirvöld landsins sem landsmenn höfðu falið að gæta sameiginlegra og samfélagslegra hagsmuna þjóðarinnar að móta sér stefnu um það hvers konar starfsemi á fjármálamarkaði, og þá um leið að hvaða umfangi, gæti samrýmst stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kæmi. Jafnframt þurftu þau að fylgja þeirri stefnu eftir.“
    Fyrsti minni hluti bendir á að stjórnvöld hafa ekki enn mótað sér stefnu um það hvers konar starfsemi eigi að vera á íslenskum fjármálamarkaði og hvert umfang starfseminnar á að vera miðað við stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kemur. Nefna má að íslenskir bankar eru enn að stofna útibú erlendis og auk þess er enn margt óljóst um innstæðutryggingar. Á 137. löggjafarþingi lögðu nokkrir þingmenn fram tillögu til þingsályktunar um endurreisn íslensku bankanna (157. mál). Þar var m.a. lagt til að miða stærð bankanna við innlend innlán, en nýju bankarnir voru stofnaðir út frá stærð innlendra útlána án þess að nokkur skýr rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun lægi fyrir.
    Í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem Gunnar Helgi Kristinsson prófessor fór fyrir, segir: „Meginþungi opinberrar stefnumótunar hvílir á herðum framkvæmdarvaldsins. Þaðan þarf þess vegna að koma sú pólitíska forysta sem stuðlar að vandlega undirbúinni og samhæfðri stefnumótun ríkisvaldsins. Í nálægum ríkjum er vönduð úttekt oftast undanfari meiriháttar opinberrar stefnumótunar (t.d. NOU í Noregi, SOU í Svíþjóð, Statens betænkninger í Danmörku, White papers í Bretlandi). Í slíkum stefnuskjölum eru viðfangsefnin sett í samhengi við grundvallarkenningar, meginreglur laga, fræðilega orðræðu viðkomandi fagsviðs og reynslu annarra landa. Eftir atvikum kann einnig að vera um það að ræða að mismunandi valkostur sé stillt upp og áhrif þeirra séu vegin og metin. Það fer einnig eftir atvikum hvort slík stefnuskjöl eru unnin af sérfræðingum stjórnsýslunnar, utanaðkomandi sérfræðingum eða blöndu af báðu. Í mörgum tilvikum er leitað til utanaðkomandi aðila, s.s. háskólafólks, sem hefur sérþekkingu á viðkomandi sviði um aðkomu að slíkri vinnu. Það er síðan á grundvelli slíkra stefnumótunarskjala sem hin eiginlega pólitíska ákvarðanataka fer fram og löggjafarkostir eru valdir. Loks eru sjálf lagafrumvörpin og skýringar með þeim unnin af stjórnkerfinu á grundvelli þess sem á undan er gengið. Vandaður undirbúningur lýtur ekki bara að skilvirkni og hagkvæmni stefnumótunar heldur dregur einnig úr líkum á stefnureki í framkvæmd og að dómstólar fái óljósa löggjöf til túlkunar. Hann er þannig hluti af lýðræðislegum grundvelli opinberrar stefnumótunar.“
    Nefndin bendir jafnframt á að smæð íslensku stjórnsýslunnar geri framangreind vinnubrögð erfiðari, en þó alls ekki ómöguleg. Það sem hefur þó einkennt vinnu við nýja löggjöf eru afar óljós og illa skilgreind mörk undirbúnings stefnumótunar, pólitískrar ákvarðanatöku um val á kostum og vinnu við gerð lagafrumvarpa.
    Þrátt fyrir smæð stjórnsýslunnar telur 1. minni hluti að bankahrunið hafi sýnt svo sannarlega samfélagslegt mikilvægi þess að stjórnvöld gefi sér tíma í að undirbúa og marka hina pólitísku stefnu er varðar starfsemi og umfang fjármálamarkaðarins á Íslandi í ljósi getu og stærðar þjóðarbúsins.
    Því beinir 1. minni hluti því til ríkisstjórnarinnar að mörkuð verði skýr stefna um starfsemi og umfang fjármálamarkaðarins á Íslandi.

Fjármálaeftirlitið.
    Fjármálaeftirlitið gegnir lykilhlutverki samkvæmt frumvarpinu í að tryggja að fjármálafyrirtæki fari eftir þeim ákvæðum sem í frumvarpinu eru. 1. minni hluti telur það áhyggjuefni að þrátt fyrir aukið svigrúm og valdheimildir Fjármálaeftirlitsins þá endurspegla ítarleg og flókin ákvæði frumvarpsins vantraust á eftirlitinu sem stofnun. Bendir 1. minni hluti á að í skýrslu Jännäri var ekki aðeins að finna tillögur um auknar valdheimildir til Fjármálaeftirlitsins heldur einnig ábendingar um að nauðsynlegt væri að hvetja eftirlitið til að beita þeim heimildum sem það hefði af meiri krafti. Til samanburðar má benda á að löggjöf um sænsk og spænsk fjármálafyrirtæki er minna ítarleg, en eftirlitið þar því mun sjálfstæðara í eftirfylgni við hvað telst til góðra venja og viðskiptahátta á fjármálamarkaði.
    Í ljósi þessa telur 1. minni hluti mjög brýnt að lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, og lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, verði endurskoðuð til að tryggja betur starfsemi stofnunarinnar. Á fundum nefndarinnar var bent á að lítið hefði breyst hvað varðar hæfni stofnunarinnar í að keppa um hæft starfsfólk eftir hrun, nema núna færi hæfasta starfsfólkið til skilanefnda hinna föllnu banka í staðinn fyrir bankana sjálfa.
    Hætta er á að aðilar á fjármálamarkaði, hluthafar, viðskiptavinir og almenningur allur búi annars við falskt öryggi með nýrri lagasetningu.

Breytingartillögur.
    Fyrsti minni hluti tekur undir flestar af þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til og telur þær til bóta.
    Má þar nefna sérstaklega skilmerkilegri reglur um endurskoðunardeild í 6. gr. frumvarpsins, lækkun fjárhæða í 8. gr., breytingar á 10. gr. sem miða að auknu gagnsæi, breytingar á 13. gr. um að takmarka heimildir tiltekinna fjármálafyrirtækja til að reka fyrirtæki í óskyldum rekstri og ákvæði til bráðabirgða um skyldu til að afhenda kröfuskrá.
    Ánægjulegt er að sett eru inn ákvæði um kauprétt eða kaupaukagreiðslur starfsmanna, og þá í samræmi við breytingar sem fyrirhugaðar eru á lögum um vátryggingastarfsemi. Mikilvægt er að launa- og kaupaukakerfi hvetji ekki til áhættusækni og skammtímasjónarmiða hjá starfsmönnum. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um það hvernig fjármálafyrirtækjum verði heimilt að veita starfsmönnum kauprétt eða kaupaukagreiðslur. 1. minni hluti bendir á reglur sænska fjármálaeftirlitsins (Finansinspektionen FFFS 2009:6 sem byggja á tilmælum framkvæmdastjórnar ESB K(2009) 3159 um launa- og hvatakerfi í fjármálageiranum) sem ákveðna fyrirmynd.
    Mikil umræða skapaðist í viðskiptanefnd um hlutverk og starf endurskoðenda í fjármálafyrirtækjum, og hvort setja ætti viðameiri ákvæði um endurskoðendur í sérlög líkt og hér er til umfjöllunar eða endurskoða lög um endurskoðendur heildstætt, í ljósi alvarlegra athugasemda í rannsóknarnefndarskýrslunni. Komu fram ábendingar frá gestum um að sjálfstæði og óhæði endurskoðenda væri ekki tryggt nægilega þótt starfstími þeirra yrði styttur niður í fimm ár. Því er lagt til að ekki þurfi aðeins að skipta um endurskoðendur á fimm ára fresti heldur endurskoðunarfélag líka. Einnig að endurskoðendur verði kjörnir á aðalfundi til fimm ára. Ef víkja á endurskoðanda frá á þessu fimm ára tímabili þarf álit endurskoðendaráðs að liggja fyrir áður en endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi er vikið frá. Það á að vera mjög alvarlegt fyrir endurskoðanda og fjármálafyrirtæki ef víkja þarf endurskoðanda frá og ástæða fyrir Fjármálaeftirlitið að skoða það sérstaklega ef til þess konar atviks kemur.
    Það er skoðun 1. minni hluta að mjög brýnt sé að endurskoða lög um endurskoðendur, og vinna við undirbúning löggjafar og pólitíska stefnumörkun ætti að hefjast sem fyrst ef hún er ekki þegar hafin. Sérstaklega þarf að skilgreina betur hvað endurskoðun á reikningum félaga og stjórnun stjórnar og framkvæmdastjóra í samræmi við góðar reikningsskilavenjur þýðir. Einnig þarf að setja skýr ákvæði í lög um að endurskoðanda beri að tryggja að ársreikningur gefi glögga mynd af rekstri fyrirtækis og þeim eignum og skuldum sem eru til staðar. Fyrirtæki þurfa jafnframt að tryggja að endurskoðendur hafi aðgang að gögnum og upplýsingum og geti sinnt verkefni sínu af kostgæfni.
    Fyrsti minni hluti leggur til breytingartillögu við 43. gr. frumvarpsins um að endurskoðandi skuli sækja aðalfund félagsins og að endurskoðanda sé skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um mikilvæg atriði sem koma upp við endurskoðun fyrirtækisins. Skal það gilda sérstaklega um vankanta á innra eftirliti með fjárhag félagsins. Mjög mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið bregðist af krafti við öllum ábendingum um vankanta á innra eftirliti með fjárhag fjármálafyrirtækisins og þá, líkt og skýrsla Jännäri benti á, ekki aðeins með bréfaskiptum og skýrslugjöf heldur vettvangsrannsóknum og raunverulegum aðgerðum ef ekki er brugðist við ábendingum.

Markmið laganna.
    Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir: „Það viðhorf til laga og starfsreglna sem kemur hvað eftir annað fram í þessara skýrslu er umhugsunarvert. Almennt virðist litið á reglurnar sem hindranir sem eigi að reyna að sniðganga frekar en leiðbeiningar um vandaða starfshætti. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að lögin eru aðeins lágmarksreglur og sem slík geta þau ekki tryggt bestu viðmið um heilbrigða starfshætti. Þá reynir fremur á siðferðilega dómgreind sem á að vera sjálfsagður hluti af faglegum metnaði. Bankarnir hafa verið gagnrýndir fyrir lagahyggju, þar sem frekar hafi verið reynt að fylgja lagabókstafnum en anda laganna.“ Þetta einkenndi ekki bara bankana heldur einnig þær stofnanir sem áttu að hafa eftirlit með þeim, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, og má jafnvel halda því fram að þröng lagahyggja einkenni íslenska stjórnsýslu. Allt of oft túlkuðu lögfræðingar einstakar greinar óháð heildarsamhengi laga.
    Alþingi Íslendinga hefur auðveldað þetta háttalag þar sem oft hefur skort markmið í upphafi laganna, sem aðrar lagagreinar í lagabálknum skulu vera túlkaðar samkvæmt. Í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem Gunnar Helgi Kristinsson prófessor fór fyrir, segir: „Jafnvel þótt ekki hafi verið unnin mikil forvinna í formi ítarlegs stefnumótunarskjals er hægt að bæta lagasetningarhætti töluvert með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Í því sambandi má huga sérstaklega að því hvort ekki beri að leggja meiri rækt við að greina þá meginhagsmuni sem lögum er ætlað að tryggja og að orða bæði markmið og meginreglur í lagatextanum sjálfum með skýrari hætti en tíðkast gjarnan í íslenskum rétti. Í tengslum við þessa áherslubreytingu sé þá jafnframt gerð nánari grein fyrir þessum atriðum í athugasemdum með lagafrumvörpum.“ Í lögum nr. 161/2002 segir í 1. gr.: „Lög þessi gilda um innlend fjármálafyrirtæki og um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi. Með fjármálafyrirtæki er í lögum þessum átt við fyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.“ Engin markmið eru skilgreind og engir meginhagsmunir. Í athugasemdum við frumvarpið segir um 1. gr.:
    „Frumvarp þetta fjallar um kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, svo sem um stofnun, starfsemi, starfsheimildir, stjórn, eigið fé og ársreikninga. Þau fjármálafyrirtæki sem fá starfsleyfi hér á landi lúta lögum um fjármálafyrirtæki. Auk þess geta fjármálafyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi erlendis fengið heimild til að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til að skilyrðum V. kafla frumvarpsins uppfylltum.
    Fjármálafyrirtæki er lykilhugtak í frumvarpi þessu. Fjármálafyrirtæki er samheiti yfir þær sjö tegundir starfsleyfa sem kveðið er á um í 4. gr. Með innleiðingu á hugtakinu fjármálafyrirtæki er búið að sameina í eitt hugtak þær kröfur sem gerðar eru til lánastofnana (e. credit institutions) samkvæmt tilskipun um stofnun og rekstur lánastofnana (2000/12/EB), fjárfestingarfyrirtækja (e. investment firms) samkvæmt tilskipun um fjárfestingarþjónustu (93/ 22/EBE) og tilskipun um eigið fé lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja (93/6/EBE), rafeyrisfyrirtækja samkvæmt tilskipun um rafeyrisstofnanir (2000/46/EB) og rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða samkvæmt breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (2001/107/EB). Með hugtakinu fjármálafyrirtæki fellur út úr íslenskum lögum hugtakið fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem frá árinu 1996 hefur verið notað sem samheiti verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana.“
    Engin markmið eru sett fram í frumvarpinu um meginhagsmuni þess að sett eru lög um fjármálafyrirtæki. Því leggur 1. minni hluti til að sett verið skýr markmið í upphafi laganna og 1. mgr. 1. gr. verði svohljóðandi: „Tilgangur laga þessara er að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.“ Aðrar greinar í frumvarpinu og lögunum í heild eiga að vera túlkaðar út frá 1. gr., og tryggja þannig að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt. Einnig er nauðsynlegt fyrir alla þá sem koma að rekstri fjármálafyrirtækja að hafa í huga að þau eru ekki rekin bara með hagsmuni hluthafa og stofnfjáreigenda að leiðarljósi, heldur viðskiptavina og þjóðarbúsins alls.

Sparisjóðir.
    Nýlega tók ríkið yfir rekstur hinna 100 ára gömlu sparisjóða, Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs. Báðir sjóðirnir rekja sögu sína aftur til upphafs tuttugustu aldar þegar framsýnir menn tóku sig saman og settu á stofn fjármálastofnanir til að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins.
    Einkenni sparisjóðanna eru hin miklu tengsl þeirra við samfélagið sem þeir starfa í. Þessum tengslum náðu þeir í gegnum stofnfjáreigendur, aðkomu sveitarfélaga að stjórn sjóðanna og stuðningi við uppbyggingu og menningarstarf í byggðarlaginu. Sjóðirnir hafa notið mikils velvilja hjá viðskiptavinum sínum og starfsfólki líkt og mælingar íslensku ánægjuvogarinnar hafa sýnt aftur og aftur. Þrátt fyrir þetta er ekki óalgengt að spurt sé hver munurinn sé á sparisjóðum og venjulegum bönkum. Sparisjóðir eru náskyldir samvinnufélögum, gagnkvæmum tryggingafélögum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Meginhugsjónir samvinnunnar eru að fólk nái meiri árangri með því að vinna saman en hvert í sínu horni, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, lýðræðisleg vinnubrögð og að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameiginlegra félaga sem hafa hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi fremur en að hámarka hagnað.
    Sameignarfélög vilja ná rekstrarlegum árangri, en á grunni siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar þar sem hver meðlimur hefur eitt atkvæði.
    Þeir sem nota þjónustuna, t.d. með því að versla, leggja inn peninga eða leigja húsnæði eru jafnframt eigendurnir. Markmið þeirra er þó ekki að taka út hagnað í formi arðgreiðslna heldur fá þeir hagnaðinn með lægri þjónustugjöldum, lægri vöxtum, lægra vöruverði eða hærra skilagjaldi. Mikil áhersla er lögð á samfélagslegt hlutverk fyrirtækjanna, þannig að ákveðið hlutfall af arði rekstrarins fer í samfélagsleg verkefni, sem endurspegla samfélagslega ábyrgð félaganna.
    Einhvers staðar villtust samvinnumenn af leið og töpuðu sér í græðgisvæðingu hins íslenska samfélags. Víða var unnið markvisst að því að eyða sparisjóðum og samvinnufélögum. Fé án hirðis varð að skammaryrði þegar eignir og sjóðir sem stóðu að baki rekstrinum skiluðu ekki beinum hagnaði í vasa eigenda sinna. Fyrir hrunið var stór hluti sparisjóðanna kominn langt í „hlutafélagavæðingu“, enda hvattir áfram með breyttu laga- og rekstrarumhverfi. Áherslan var ekki lengur á samfélagslegan þátt rekstrarins, heldur allt of oft á skammtímagróða og sérhagsmuni.
    Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fjallar dr. Hulda Þórisdóttir um aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins á Íslandi frá sjónarhóli kenninga og rannsókna í félagslegri sálfræði. Þar bendir hún á að fjöldi rannsókna hafi sýnt að fólk er drifið áfram af mun fleiri hvötum en eiginhagsmunum og ekki hvað síst af sanngirni. Auðveldlega er þó hægt að ýta undir eiginhagsmuni einstaklinga og búa til kerfi sem hvetji til sérhyggju og ósanngirni. „Hagfræðinemar komnir langt í námi hegða sér til dæmis mun frekar til samræmis við forsenduna um eiginhagsmunagæslu en aðrir nemendur og þeir sem skemmra eru komnir í hagfræðinámi“ skrifar Hulda. Samfélagsuppbygging sem hvetur fólk til að meta fyrst og fremst efnisleg gæði framar öðrum gildum á borð við réttlæti eða sanngirni laðar fram hegðun hjá fólki í samræmi við forsendur kerfisins.
    Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur mikið talað fyrir mikilvægi þess að byggja upp raunverulegt blandað hagkerfi og hverfa frá nýfrjálshyggju. Hann bendir á að hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar sé eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún sé hreinlega ekki til. Því verði endurreisn hins vestræna heims að byggjast á jafnvægi, raunverulegu blönduðu hagkerfi þar sem einkafyrirtæki, ríkið og sameignarfélög ná að blómstra. Sanngjarnt, heilbrigt og réttlátt samfélag er líklegra til að vaxa og dafna á sjálfbæran máta, hvort sem litið er til félagslegra, pólitískra eða umhverfislegra þátta.
    Á næstu árum verðum við að byggja betra og sanngjarnara samfélag. Lánastofnanir sem eiga náin tengsl við sitt samfélag og leggja áherslu á að þjónusta félagsmenn á sanngjörnum kjörum eru hluti af því.
    Núverandi ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um sparisjóði gefa ekki færi á þessu. Ríkisvæðing sparisjóðakerfisins er þegar hafin og skorið hefur verið á hin nánu tengsl við samfélagið sem sparisjóðirnir starfa í.
    Fyrsti minni hluti leggur því til breytingartillögu til að bæta úr þessu og tryggja að sparisjóðir verði áfram sparisjóðir: „Í stjórn sparisjóðs skulu sitja að lágmarki fimm menn. Stofnfjáreigendur kjósa tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur einn stjórnarmann samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Ef starfssvæði sparisjóðs nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir koma sér saman um tilnefningu stjórnarmanna, þannig að fulltrúi hvers sveitarfélags sitji ekki lengur en tvö ár samfleytt í stjórn sjóðsins. Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa varamenn, jafnmarga aðalmönnum, eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skal vera hlutbundin ef óskað er. Í stjórn sparisjóðs sem er með fleiri en 15 starfsmenn skulu starfsmenn kjósa einn fulltrúa í stjórn sjóðsins. Fulltrúa starfsmanna er ekki heimilt að vera formaður eða varaformaður sjóðsins.
    Jafnframt telur 1. minni hluti nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á löggjöf á sparisjóðum samhliða stefnumörkun um hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi, miðað við stærð og getu þjóðarbúsins.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                   Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
                  Tilgangur laga þessara er að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                   Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Gildissvið. Markmið. Orðskýringar.
     3.      Á undan 35. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                   51. gr. laganna orðast svo:
                  Í stjórn sparisjóðs skulu sitja að lágmarki fimm menn. Stofnfjáreigendur kjósa tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur einn stjórnarmann samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Ef starfssvæði sparisjóðs nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir koma sér saman um tilnefningu stjórnarmanna, þannig að fulltrúi hvers sveitarfélags sitji ekki lengur en tvö ár samfleytt í stjórn sjóðsins.
                  Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa varamenn, jafnmarga aðalmönnum, eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skal vera hlutbundin ef óskað er.
                  Í stjórn sparisjóðs sem er með fleiri en 15 starfsmenn skulu starfsmenn kjósa einn fulltrúa í stjórn sjóðsins. Fulltrúa starfsmanna er ekki heimilt að vera formaður eða varaformaður sjóðsins.
     4.      Við 43. gr. bætist þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Endurskoðanda skv. 2. mgr. er skylt að sækja aðalfund fjármálafyrirtækisins. Endurskoðandi skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um mikilvæg atriði sem koma upp við endurskoðun fyrirtækisins. Skal það gilda sérstaklega um vankanta á innra eftirliti með fjárhag fyrirtækisins.
     5.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Við gildistöku laga þessara skal efnahags- og viðskiptaráðherra skipa nefnd til að móta pólitíska stefnumörkun og tillögur um löggjöf um fjármálamarkaðinn Íslandi. Skal fara fram heildarendurskoðun á löggjöf sparisjóða og stefnumörkun um hvers konar fjármálamarkaður skal vera á Íslandi miðað við stærð og getu þjóðarbúsins. Nefndin skal skila tillögum til ráðherra, eftir atvikum í frumvarpsformi, fyrir 1. janúar 2011.

Alþingi, 11. maí 2010.Eygló Harðardóttir.