Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 511. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1115  —  511. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um embætti sérstaks saksóknara og lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Umsagnir bárust um málið frá ríkissaksóknara, Viðskiptaráði Íslands og ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að skilgreint verði með skýrari hætti hvert sé verksvið embættis sérstaks saksóknara gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds. Þá eru lagðar til smávægilegar lagfæringar á lögum um meðferð sakamála ásamt því að kveðið er skýrt á um að tilteknir úrskurðir héraðsdómara eru kæranlegir til Hæstaréttar.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið sem mælir fyrir um að verksvið embættis sérstaks saksóknara verði ekki lengur takmarkað við rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum og í kjölfar atburða er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, eins og kveðið er á um í 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara. Samkvæmt frumvarpinu skal embættið rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja og þeirra sem átt hafa hlut í þeim, farið með atkvæðisrétt í þeim sem og að rannsaka grun um refsiverða háttsemi stjórnenda, ráðgjafa og starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fyrir nefndinni kom fram að reynslan hefði sýnt að verksvið embættisins hefði verið of þröngt afmarkað og að komið hefði upp skörun milli saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sérstaks saksóknara og setts ríkissaksóknara um valdsvið embættanna. Nefndin telur mikilvægt miðað við tilgang með stofnun embættis sérstaks saksóknara að verksvið verði afmarkað með skýrari hætti gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds svo að ekki geti komið til frávísunar væntanlegra dómsmála. Ríkissaksóknari mun áfram skera úr um valdsviðið en er í frumvarpinu einnig fengin heimild til að fela öðrum ákæranda að fara með mál og byggist það á sjónarmiðum um hagkvæmni við rannsókn mála.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Birgir Ármannsson, Ögmundur Jónasson, Vigdís Hauksdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 17. maí 2010.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Valgerður Bjarnadóttir.



Róbert Marshall.


Þráinn Bertelsson.