Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1117  —  513. mál.
Texti leiðréttur.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Guðmundsson frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og Arnar Guðmundsson frá Lögregluskólanum.
    Umsagnir bárust um málið frá Landssambandi lögreglumanna og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að verði sýslumanni veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum þá geti ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Lagt er til að ákvæðið falli úr gildi 1. janúar 2015.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin fjallaði um frumvarpið sem felur í sér undanþágu frá þeirri meginskyldu að öll störf á vegum ríkisins skuli auglýsa og byggist hún á því að verið er að skoða möguleika til að efla sýslumannsembætti með því að sameina einstök embætti í stækkuðum stjórnsýsluumdæmum en þau eru nú 24 talsins. Nefndin telur að þegar litið er til þeirrar vinnu sem fram undan er við endurskipulagningu sýslumannsembættanna sé eðlilegt að gera þessa undanþágu frá því að skipað sé í sýslumannsembætti sem losna og heimila sýslumanni að gegna fleiri en einu sýslumannsembætti við sérstakar aðstæður. Með því gefist tækifæri til að vinna að endurskipulagningunni í sátt við hlutaðeigandi hagsmunaaðila.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Birgir Ármannsson, Ögmundur Jónasson, Vigdís Hauksdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 17. maí 2010.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Valgerður Bjarnadóttir.



Róbert Marshall.


Þráinn Bertelsson.