Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 529. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1132  —  529. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rögnvaldsson frá fjármálaráðuneyti og Svein Arason og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun. Þá hefur nefndin fengið umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Landspítalanum, Læknafélagi Íslands, Persónuvernd, Ríkisendurskoðun, Seðlabanka Íslands, Tryggingastofnun ríkisins og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarp þetta er lagt fram í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5222/2008 þar sem reyndi á hvort aðili, sem hafði vegna fyrri starfa áunnið sér lífeyrisréttindi í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en greiddi nú iðgjöld í A-deild sjóðsins, gæti samhliða starfi sínu hafið töku lífeyris úr B-deildinni. Umboðsmaður tók til skoðunar hvort lífeyrissjóðnum hefði verið heimilt að synja umsókn þar að lútandi á grundvelli 8. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 37. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Taldi umboðsmaður með vísan til eignarréttarákvæðis stjórnarskrár að fullnægjandi lagastoð hefði ekki verið fyrir hendi eins og atvikum háttaði til í málinu. Aðilinn hefði ekki átt val um að láta iðgjöld vegna starfs síns renna í B-deildina vegna skilyrða 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Í III. kafla álitsins kemur fram að umboðsmaður Alþingis hafi við meðferð málsins óskað upplýsinga um sambærileg mál og fengið þau svör að fjöldi slíkra mála fyrirfinnist. Einnig kemur fram í álitinu að samþykktum lífeyrissjóðsins, nánar tiltekið 54. gr., hefði verið breytt 6. maí 2009 til að koma í veg fyrir töku lífeyris við sambærilegar aðstæður. Umboðsmaður taldi ekki þörf á að skera úr um hvort umrædd breyting á samþykktum ætti sér skýra lagastoð, sbr. einkum 2. mgr. 37. gr., en tók fram að henni yrði í það minnsta ekki beitt afturvirkt, þ.e. um umsóknir sem borist hefðu fyrir tímamark breytingarinnar.
    Tilgangur frumvarpsins er að skýra og styrkja stoðina undir framkvæmd sjóðsins eins og hún endurspeglast í 54. gr. samþykktanna. Nefndin leggur þess vegna áherslu á að ákvæðum frumvarpsins verði ekki frekar en umræddri breytingu beitt afturvirkt.
    Við meðferð málsins fór Ríkisendurskoðun þess á leit að lagðar yrðu til breytingar á reglum um kostnað við endurskoðun opinberra lífeyrissjóða. Nefndin tekur ekki afstöðu til þess að svo komnu máli.
    Nefndin leggur til frumvarpið verði samþykkt.
    Pétur H. Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 18. maí 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Birkir Jón Jónsson.


Lilja Mósesdóttir.



Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Þór Saari.


Ögmundur Jónasson.