Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
2. uppprentun.

Þskj. 1148  —  579. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 85/2008, um opinbera háskóla (almenningsfræðsla).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Þórhall Vilhjálmsson, skrifstofustjóra lagasviðs mennta- og menningarmálaráðuneytis, Ingjald Hannibalsson og Eirík Hilmarsson frá Háskóla Íslands, Orra Frey Rúnarsson frá Vöku og Stefán Rafn Sigurbjörnsson frá Skrökvu. Jafnframt var á símafundur með Stefáni B. Sigurðssyni, rektor Háskólans á Akureyri.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Háskóla Íslands, Sigríði Ólafsdóttur, fulltrúa í háskólaráði Háskóla Íslands, og Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri.
    Vorið 2008 voru samþykkt lög um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Þessu frumvarpi er ætlað að taka til þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra laga með breytingum við ákveðnar greinar þeirra. Í fyrsta lagi er frumvarpinu ætlað, sbr. 3. gr., að draga fram með skýrari hætti það hlutverk opinberra háskóla að miðla fræðslu til almennings og veita samfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Enn fremur er tilgreint í greininni að háskóla sé heimilt að sinna endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi í þeim fræðum sem stunduð eru innan hans. Í annan stað eru lagðar til breytingar á fulltrúum í háskólaráði, hvort tveggja í skólum sem hafa færri nemendur en 5.000 og þeim sem hafa fleiri nemendur. Í báðum tilvikum er fulltrúum háskólasamfélagsins fjölgað á kostnað þeirra fulltrúa sem tilnefndir eru af ráðherra, sbr. 4. gr. Í þriðja lagi er gerð sú breyting að háskólafundur skuli móta og setja fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans að frumkvæði rektors, sbr. 6. gr., í stað þess að fjalla um og taka þátt í að móta hana líkt og núgildandi lög kveða á um. Enn fremur er lögð til sú breyting að kjörtími fulltrúa nemenda á háskólafundi lengist um eitt ár, sbr. 7. gr. Í fjórða lagi er í 8. gr. frumvarpsins háskólaráði veitt heimild að ákveða að í skólaráði sitji fulltrúar tiltekinna kennslugreina sem saman mynda deild, sem og fulltrúar opinberrar stofnunar sem eru í mjög nánu samstarfi um kennslu og þjálfun nemenda. Í fimmta lagi er kveðið á um að ábyrgð á veitingu ótímabundinna akademískra starfa og framgangi akademískra starfsmanna hvíli hjá rektor en ekki forsetum skóla, sbr. 9. gr. Í sjötta lagi er lögð til sú breyting að skipulag og framkvæmd prófa skuli sameiginleg stjórnsýsla hvers háskóla annast, sbr. 10. gr., en ekki hvers skóla líkt og núgildandi lög gera ráð fyrir. Í sjöunda lagi kveður 11. gr. frumvarpsins á um að inn í lögin komi nýtt ákvæði, er 23. gr. a, um endurmenntun og þannig verði gerður skýrari greinarmunur á menntun sem fólgin er í endurmenntun og fræðslu til almennings annars vegar og hinni eiginlegu starfsemi háskóla að veita æðri menntun er leiðir til prófgráðu á háskólastigi hins vegar. Í samræmi við þetta eru lagðar til breytingar á fjármögnunarheimildum laganna á þann hátt að opinberum háskóla verði heimilt að afla sér tekna með gjöldum fyrir endurmenntun samkvæmt nýrri 23. gr. a laganna. Áfram verður einnig heimild til að innheimta gjöld fyrir fræðslu til almennings, þar á meðal þeirra sem hafa ekki lokið háskólagráðu.
    Mikil umræða var innan nefndarinnar varðandi 3. og 11. gr. frumvarpsins. Fram kom í umsögn Háskóla Íslands að skilgreining 3. og 11. gr. frumvarpsins á endurmenntun væri of þröng. Að óbreyttu kemur ákvæðið í veg fyrir að háskólinn gæti boðið upp á menntun í grunnnámi, sem lýkur með BSc- eða BA-gráðu, gegn sérstöku gjaldi. Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins er með hugtakinu endurmenntun átt við tvennt. Í fyrsta lagi námskeið fyrir háskólamenntað fólk á fagsviði þess og í öðru lagi viðbótarnám fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu skv. 22. gr. laganna. Í 3. gr. frumvarpsins er enn fremur hnykkt á þessari skilgreiningu á hugtakinu endurmenntun. Í greininni er jafnframt kveðið á um að opinber háskóli miðli fræðslu til almennings. Það er álit meiri hlutans að rétt sé að skilgreina endurmenntun með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu. Endurmenntun sé ætlað að koma til móts við þá sem lokið hafa háskólamenntun til að viðhalda og bæta við þekkingu sína á viðkomandi fagsviði eða á þverfaglegum grunni. Undir þetta falli ekki grunnnám sem kennt er í staðnámi utan hefðbundins kennslutíma. Meiri hlutinn áréttar að háskólum er frjálst að skipuleggja nám á viðurkenndum fræðasviðum, skv. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, á þann hátt sem þeir kjósa, til að mynda í formi síðdegis- eða kvöldkennslu og fjarnámi. Það er álit meiri hlutans að það eitt að kenna sambærilegt grunnnám og kennt er í dagskóla utan hefðbundins kennslutíma geti ekki talist til endurmenntunar og þar með nýtt sérstaka gjaldtökuheimild í 24. gr. laganna. Meiri hlutinn áréttar að í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að háskóli miðli fræðslu til almennings. Í því felst að háskóli getur boðið upp á nám og tekið fyrir það sérstakt gjald, sbr. e-lið 2. mgr. 24. gr. gildandi laga og 2. tölul. 12. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur mikilvægt að fram komi að hér undir fellur til dæmis nám sem boðið er upp á hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og er ekki miðað að þeim sem hafa lokið háskólaprófi. Enn fremur áréttar meiri hlutinn að þessu sé ekki ætlað að koma í veg fyrir að það nám sem stundað er samkvæmt þessu sé metið til eininga í grunnnámi innan viðurkennds fræðasviðs opinbers háskóla. Meiri hlutinn leggur þó til breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við þá einstaklinga sem nú þegar hafa hafið nám til BSc-gráðu í viðskiptafræði sem skipulagt er utan dagvinnutíma og dreift á fimm skólaár. Nær breytingin skv. 11. gr. frumvarpsins ekki til þeirra sem stunda nám með þessum hætti fyrir gildistöku laganna.
    Í 3. gr. frumvarpsins er jafnframt kveðið á um að opinber háskóli veiti þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Áréttar meiri hlutinn að hér er sérstaklega vísað til samfélagslegrar ábyrgðar fræðimanna innan opinberra háskóla um að miðla af sérþekkingu sinni í opinberri umræðu um samfélagsmál. Hér er m.a. átt við umfjöllun, skýringar og upplýsingagjöf í fjölmiðlum varðandi tiltekin mál. Skýrt dæmi um þetta má sjá af atvikum undanfarinna vikna í tengslum við eldgos á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli þar sem fræðimenn hafa sinnt þessu hlutverki.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 12. gr. Við bætist nýr liður er verði a-liður og orðist svo: Í stað orðsins „menntamálaráðuneyti“ í d-lið kemur: mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     2.      Við 13. gr. Á eftir „1. málsl. 1.“ komi: mgr.
     3.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. og b-liðar 12. gr. laga þessara getur Háskóli Íslands veitt þeim nemendum sem stunda nám með vinnu til BSc-prófs í viðskiptafræði við stofnunina við gildistöku laga þessara kost á að ljúka námi sínu með óbreyttu fyrirkomulagi.

    Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. maí 2010.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lilja Mósesdóttir.



Skúli Helgason.


Ögmundur Jónasson.