Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1149  —  308. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Nefndin hefur farið yfir málið og fengið á fund sinn Guðríði Þorsteinsdóttur, sviðsstjóra laga- og stjórnsýslusviðs heilbrigðisráðuneytisins, Birnu Jónsdóttur og Sólveigu Jóhannsdóttur frá Læknafélagi Íslands, Elsu Friðfinnsdóttur og Aðalbjörgu Finnbogadóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Þorbjörn Jónsson og Aðalbjörn Þorsteinsson frá læknaráði Landspítala, Bylgju Kærnested frá hjúkrunarráði Landspítala, Svanhvíti Jakobsdóttur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Geir Gunnlaugsson, Matthías Halldórsson og Birnu Sigurbjörnsdóttur frá landlæknisembættinu og Sigurð Guðmundsson frá Háskóla Íslands. Jafnframt var haldinn símafundur með Gróu Jóhannesdóttur, Oddi Ólafssyni og Birni Gunnarssyni í læknaráði Sjúkrahússins á Akureyri og Sigríði Síu Jónsdóttur, Hólmfríði Kristjánsdóttur og Sólveigu Skjaldardóttur í hjúkrunarráði Sjúkrahússins á Akureyri.
    Nefndinni bárust einnig umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum, framkvæmdastjóra lækna á Landspítalanum, deildarráði hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hjúkrunarráði Landspítala, landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landspítala, Læknavaktinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkrahúsinu á Akureyri, læknaráði Sjúkrahússins á Akureyri og hjúkrunarráði Sjúkrahússins á Akureyri.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um yfirlækna, yfirhjúkrunarfræðinga og deildarstjóra hjúkrunar verði felld brott úr lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 2. og 3. mgr. 10. gr. laganna falli brott en þær kveða á um að faglegir stjórnendur helstu fagsviða heilbrigðisstofnunar beri faglega ábyrgð, gagnvart næsta yfirmanni, á þeirri þjónustu sem undir þá heyrir. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 2. mgr. 17. gr. laganna falli brott en ákvæðið kveður á um að forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skuli hafa samráð við yfirlækni og yfirhjúkrunarfæðing heilsugæslustöðvar þegar sérmál hennar er til ákvörðunar. Í athugasemdum við frumvarpið segir að því sé ætlað að auka svigrúm til að endurskipuleggja heilbrigðisstofnanir með því að gera kleift að sameina eða breyta stöðum stjórnenda þar sem það er talið auka skilvirkni og draga úr kostnaði.
    Meiri hlutinn telur ekki nauðsynlegt að fella brott 2. og 3. mgr. greinarinnar til að auka möguleika á endurskipulagningu stofnana, draga úr rekstrarkostaði eða gera þær skilvirkari. Meiri hlutinn bendir á að umtalsverðar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar til að mynda á Landspítala þar sem deildir hafa verið lagðar niður eða sameinaðar og stjórnendastörfum bæði lækna og hjúkrunarræðinga verið fækkað. Leggur meiri hlutinn til að 1. gr. frumvarpsins verði felld brott.
    Fram kom á fundum nefndarinnar og í minnisblaði heilbrigðisráðuneytisins sem lagt var fyrir nefndina að 2. mgr. 17. gr. laganna hamlaði sérstaklega hagræðingu og skilvirkni innan heilsugæslunnar og var Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sérstaklega nefnd enda hefur ekki verið talið fært að óbreyttum lögum að stækka rekstrareiningar og hafa til að mynda einn yfirlækni og einn yfirhjúkrunarfræðing yfir fleiri en einni heilsugæslustöð. Það er álit meiri hlutans að ekki sé nauðsynlegt að fella brott ákvæði 2. mgr. 17. gr. laganna til að ná fram þessum möguleika á skipulagsbreytingum. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á 2. gr. frumvarpsins sem er ætlað að tryggja samráð milli æðstu stjórnenda og fagstjórnenda heilsugæslu. Ákvæðið er þá ekki bundið við einstakar heilsugæslustöðvar og opnar þannig á breytingar í átt að aukinni hagræðingu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. Greinin falli brott.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
             2. mgr. 17. gr. laganna verður svohljóðandi:
             Forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skulu hafa samráð við faglega yfirmenn í heilsugæslunni þegar sérmál hennar eru til ákvörðunar.

    Siv Friðleifsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. maí 2010.



Þuríður Backman,


form., frsm.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Skúli Helgason.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.