Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1155  —  641. mál.
Tillaga til þingsályktunarum rýmri fánatíma.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir.    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja reglugerð um notkun þjóðfánans í því skyni að rýmka fánatíma.

Greinargerð.


    Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið eru að stofni til frá árinu 1944 og hafa tekið mjög litlum breytingum frá upphafi og má færa rök fyrir því að þau séu full gamaldags.
    Tillaga sú sem hér er lögð fram snýr að því að rýmka heimildir um notkun þjóðfánans. Í 7. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, kemur fram að með reglugerð skuli kveða á um fánadaga og hve lengi dags megi halda fánanum við hún. Árið 1998 var gerð breyting á fánalögum með lögum nr. 67/1998 og m.a. þessu ákvæði. Í stað forsetaúrskurðar skyldi kveðið á um fánadaga og fánatíma með reglugerð, sbr. 4. gr. breytingalaganna. Í fylgiskjali II með frumvarpi að breytingalögunum var tillaga um efni reglugerðarinnar og var fánatími þar sá sami og er í gildandi forsetaúrskurði, sbr. 7. gr. tillögunnar, en reglugerð um nánari útfærslu á fánalögunum hefur hins vegar aldrei verið sett og er því forsetaúrskurðurinn enn í gildi.
    Í forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma, nr. 5/1991, segir svo í 3. gr.:
    „Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi uppi vera lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
    Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.“
    Flutningsmaður leggur til það svigrúm að hafa megi fánann uppi allan sólarhringinn yfir bjartasta tímann á sumrin, frá 15. maí til 15. ágúst. Hluta þessa tímabils er sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar. Vera má að í framtíðinni verði grundvöllur fyrir því að afnema með öllu hömlur á því hvenær fáninn megi vera uppi, þ.e. að hann megi þá vera á stöng allan sólarhringinn allan ársins hring. Flutningsmaður telur hins vegar eðlilegt að eitt skref verði tekið í einu og reynslan síðan látin skera úr um hvort frekari skref verði tekin. Rétt er að byrja á því að heimila að fáninn sé uppi allan sólarhringinn á sumrin. Íslendingar eru stoltir af fána sínum og vilja margir flagga honum. Þótt flutningsmaður hafi ekki tölulegar upplýsingar um fánanotkun almennings er það skoðun hans að vel færi á því að auka notkun fánans almennt. Líklegt er að þessi breyting feli í sér leiðir til aukinnar notkunar á þjóðfána Íslendinga. Aukin notkun þjóðfánans kæmi sérlega fram á sumrin, bæði í íbúða- og sumarhúsabyggðum þar sem íbúar landsins þyrftu þá ekki að hafa áhyggjur af því að gleyma að taka fánann niður á kvöldin líkt og nú. Mætti því leiða líkur að því að fáninn muni blakta fleiri daga en að óbreyttum lögum.
    Á síðustu árum hefur farið fram umræða í samfélaginu um hvort ekki mætti breyta lögunum þannig að unnt yrði að auka frjálsræði um notkun fánans með tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Hafa meðal annars Bændasamtök Íslands verið því fylgjandi svo að unnt verði að merkja íslenskar landbúnaðarvörur með þjóðfánanum. Með fyrrnefndum breytingalögum frá 1998 var gerð breyting í þá veru en vegna vankanta hefur ekki reynst unnt að koma henni í framkvæmd. Erfitt hefur reynst að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir til að uppfylla skilyrði laganna á fullnægjandi hátt, en lögin kveða á um að gæði þeirrar starfsemi sem markaðssetningin taki til eigi að vera samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir í reglugerð. Reglugerðin hefur því ekki verið sett og þess vegna ekki hægt að nýta heimildina. Nú hefur forsætisráðherra lagt fram frumvarp á þskj. 921, 532. mál, sem miðar að því að hægt verði að gera möguleikann á notkun þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en áður hefur verið. Sníða á af núverandi vankanta. Því er ljóst að fánalögin verða til umræðu í allsherjarnefnd á næstunni. Af þeim sökum telur flutningsmaður rétt að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar og freista þess að hún verði skoðuð á Alþingi samhliða frumvarpi forsætisráðherra.