Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1166  —  517. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að samkomulag hefði verið gert við kröfuhafa Landsbanka Íslands hf. um uppgjör milli hans og NBI hf. 15. desember sl. Í því fólst m.a. að forsenda fyrir kjörum á skuldabréfi útgefnu af NBI hf. til Landsbanka Íslands hf. væri að gild veðtrygging í eignasafni NBI hf. væri til staðar. Það er ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram.
    Kröfuhafar fengu vilyrði frá stjórnvöldum um að frumvarp þetta yrði að lögum innan tiltekinna tímamarka. Var fyrst nefnd dagsetningin 15. apríl 2010, síðan 26. maí og nú er fresturinn til 26. júní nk. Þetta kemur mjög á óvart í ljósi þess að efnahags- og viðskiptaráðherra minntist ekki á þetta í framsöguræðu sinni né heldur kom þetta fram þegar efni frumvarpsins var kynnt fyrir nefndinni.
    Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að verði frumvarpið óbreytt að lögum takmarki það forgang Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ef bú fjármálafyrirtækis verður tekið til gjaldþrotaskipta og það reynir á réttindaröð samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef NBI hf. verður gjaldþrota þá verður erfitt fyrir tryggingarsjóðinn að ná í fjármuni til að greiða út innstæður fyrir sparifjáreigendur.
    Í umræðum um stöðu bankanna í nefndinni hefur komið fram að NBI hf. ætti mjög erfitt með að halda sjó ef áform stjórnvalda um fyrningu aflaheimilda verða að veruleika. Einnig kom fram í nefndinni að líklegt er að við fjármögnun bankanna muni fjárfestar gera kröfu um að njóta forgangs umfram tryggingarsjóðinn með svipuðum hætti og felst í frumvarpinu. Það verður að taka tillit til þessa við umfjöllun og meðferð frumvarps til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (255. mál) og annarra mála sem varða fjármálamarkað.

Alþingi, 1. júní 2010.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Eygló Harðardóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson.