Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 554. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1168  —  554. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar og lögum um húsaleigubætur.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá ríkisskattstjóra, Persónuvernd, Tryggingastofnun ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnueftirlitinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar að framlengdur verði gildistími ákvæða sem heimila greiðslu hlutfallslegra atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli sem rekja má til breyttra aðstæðna á vinnumarkaði, að kveðið verði á um að við framkvæmd þeirra skuli taka tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland á aðild að og að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að hafa starfað á landinu síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili laganna en það er þrír mánuðir samkvæmt gildandi lögum. Þá er lagt til að tekjur úr séreignarlífeyrisssjóðum skerði ekki atvinnuleysisbætur og að Atvinnuleysistryggingasjóður endurgreiði þeim atvinnuleitendum sem hafa fengið skerðingar vegna slíkra greiðslna eftir 1. mars 2009. Lögð er til sambærileg breyting á lögum um húsaleigubætur þannig að tekjur úr séreignarlífeyrissjóðum skerði ekki bæturnar.
    Nefndin fjallaði nokkuð um það fyrirkomulag að einstaklingar sem hefðu fengið skertar atvinnuleysisbætur vegna greiðslna séreignarsparnaðar þyrftu að sækja um það sérstaklega að fá endurgreiðslu og lagði áherslu á að endurgreiðslan yrði sjálfvirk svo tryggt yrði að allir fengju hana. Nefndinni var tjáð að ekki væri mögulegt fyrir Vinnumálastofnun að gera þetta sjálfvirkt þar sem tekjur vegna séreignarsparnaðar væru ekki flokkaðar sérstaklega í kerfi stofnunarinnar. Stofnunin mundi þó gæta þess að senda öllum sem hugsanlega hefðu fengið skerðingu tilkynningu og benda þeim á að sækja um endurgreiðslu fyrir 1. september 2010. Nefndin áréttar mikilvægi þess að endurgreiðslan verði almenn, þeim einstaklingum sem hafi fengið skerðingu verði gert auðvelt um vik að fá endurgreiðsluna og skráning sé einföld. Beinir nefndin því til ráðuneytis og Vinnumálastofnunar að nota allar leiðir til að tryggja að þeir sem rétt eiga geti nýtt sér þessa réttarbót og telur t.d. eðlilegt að hún verði auglýst með einhverjum hætti, a.m.k. á heimasíðu stofnunarinnar, og mögulegt verði að sækja um endurgreiðsluna rafrænt, t.d. með því að samþykkja að leitað sé upplýsinga hjá greiðanda séreignarsparnaðarins. Þá telur nefndin rétt að beina því til stofnunarinnar að haga skráningu á upplýsingum þannig að tryggt verði að gætt sé að réttindum þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur.
    Þeim sjónarmiðum var hreyft í umsögn til nefndarinnar að mikilvægt væri að endurskoða reglur um hlutabætur, sem og að lengja bótatímabil úr þremur árum í fjögur enda mundi stór hluti þeirra sem fá bætur annars missa rétt til atvinnuleysisbóta í árslok. Nefndin telur nauðsynlegt að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar með tilliti til réttindaávinnslu, lengdar bótatímabils og bótaflokka en hefur jafnframt fengið þær upplýsingar frá félags- og tryggingamálaráðuneyti að slík endurskoðun sé þegar hafin. Nefndin áréttar mikilvægi þess að endurskoðun á framangreindum þáttum í atvinnuleysistryggingakerfinu verði lokið haustið 2010 svo unnt sé að gera nauðsynlegar lagabreytingar fyrir árslok.
    Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis kemur fram að áætluð útgjaldaaukning ríkissjóðs gæti orðið um 210 millj. kr. og að félags- og tryggingamálaráðuneytið hafi ekki lagt fram tillögu um hvernig skuli mæta þeirri útgjaldaaukningu. Nefndin áréttar að ákvæði um hlutaatvinnuleysisbætur var ætlað að mæta sérstakri stöðu á vinnumarkaði í kjölfar efnahagshrunsins og því er nauðsynlegt að framlengja ákvæðið meðan enn ríkir óvissa á vinnumarkaði. Áætlað er að útgjaldaaukning vegna framlengingarinnar verði um 200 millj. kr. Nefndin fékk þó þær upplýsingar að atvinnuleysi á árinu hafi verið minna en spáð var og vel hafi gengið í eftirliti auk þess sem dregið hafi úr bótasvikum vegna aukinna úrræða fyrir atvinnulausa. Því sé ekki útlit fyrir að útgjaldaaukning miðað við forsendur fjárlaga ársins 2010 verði eins mikil og segir í umsögn fjármálaráðuneytis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Einar Daðason, Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


varaform., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Margrét Pétursdóttir.



Guðmundur Steingrímsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.