Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1169  —  308. mál.
Nefndarálit
um frv. til l. um breyt. á l. um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðisnefndar    Frumvarp ráðherra gengur út á það að auka svigrúm til endurskipulagningar á heilbrigðisstofnunum með því að hægt verði að sameina eða breyta stöðum stjórnenda þar sem það er talið auka skilvirkni og draga úr kostnaði. Rök ráðherra eru að þetta skapi eðlilegan sveigjanleika innan stofnana án þess að það komi niður á faglegum þáttum. Þetta endurspeglast í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins en þar segir: „Frumvarpinu er ætlað að auka möguleika á að einfalda skipulag og ná fram aukinni hagræðingu og sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana. Heilbrigðisráðuneytið mun í því sambandi hvetja heilbrigðisstofnanir til að endurskoða innra skipulag með það í huga að stjórnendur, þ.m.t. yfirlæknar og deildarstjórar hjúkrunar (yfirhjúkrunarfræðingar) séu ekki fleiri en nauðsynlegt er vegna starfseminnar.“
    Þá hefur landlæknir, sem hefur eftirlit með faglegum þáttum heilbrigðsstarfsemi, lýst sig sammála frumvarpi ráðherra.
    Meiri hlutinn treystir sér ekki til að koma vilja ráðherra í framkvæmd en kemur ekki með nein málefnaleg rök eða aðrar lausnir. Breytingartillögur meiri hlutans fara þvert gegn vilja ráðherrans án þess að koma fram með annan valkost. Frumvarp ráðherrans felur í sér tvær efnisgreinar. Þeirri fyrri er algerlega hafnað og þeirri síðari og efnisminni er breytt til málamynda.
    Það er álit minni hlutans að þær breytingar sem gerðar hafa verið í meðförum þingsins eru skólabókardæmi um hvernig Alþingi afgreiðir mál án nokkurar pólitískrar sýnar. Með breytingum stjórnarflokkana stendur nánast ekkert eftir af upphaflegum tilgangi frumvarpsins, þ.e. að einfalda skipulag, ná fram aukinni hagræðingu og meiri sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana.

Alþingi, 20. maí 2010.Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Óli Björn Kárason.


Siv Friðleifsdóttir.