Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1181  —  495. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

Frá heilbrigðisnefnd.    Málið kom aftur til nefndarinnar fyrir þriðju umræðu þar sem umsagnir um málið bárust eftir að nefndin afgreiddi það fyrir aðra umræðu. Málið var sent til umsagnar 26. apríl 2010 og var frestur til að skila inn umsögnum til 14. maí. Nefndinni bárust umsagnir frá Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Læknafélaginu (Siðfræðiráði LÍ) eftir að umsagnafrestur rann út. Almennt eru þessar umsagnir jákvæðar en Læknafélagið bendir á að þörf sé fyrir að skoða áhrif þeirra lagabreytinga sem átt hafa sér stað á undanförnum árum með sérstöku tilliti til réttindastöðu og líðan þeirra barna sem fæðst hafa áður en lengra er haldið með að bæta rétt fullorðna til að eignast börn. Í umsögn þess segir: „Þessar breytingar allar eru á þann veg að auka réttindi fullorðinna einstaklinga til að eignast afkvæmi en lítið hefur verið hugað að réttindum þeirra barna sem verða til með þessum hætti. Ekki er heldur að sjá að nokkur skoðun hafi farið fram á áhrifum laganna frá 1996 en þá var í fyrsta sinn lagalega rétt að barn fæddist í heiminn sem hefði ekki nokkurn rétt eða möguleika á að fá að vita um líffræðilegt faðerni sitt en það var fram að því réttur sem var (og er) áskilinn í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (athuga sáttmálann og einnig Ottawa samþykktina).“ Sjónarmið Læknafélagsins krefst ýtarlegrar umræðu og telur nefndin eðlilegt að hún verði tekin. Það er hins vegar álit nefndarinnar að með þessu frumvarpi sé verið að jafna stöðu einstaklinga á grundvelli ríkjandi sjónarmiða. Nefndin ítrekar því fyrra álit sitt og telur mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Valgerður Bjarnadóttir og Óli Björn Kárason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2010.Þuríður Backman,


form., frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Skúli Helgason.Siv Friðleifsdóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.