Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1187  —  517. mál.




Frumvarp til laga



um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

(Eftir 2. umr., 1. júní.)



1. gr.


    Fjármálafyrirtæki er heimilt að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim, í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 161/2002. Fjármálafyrirtækinu er enn fremur heimilt að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli, og skipta út einstökum eignum, samkvæmt samkomulagi við veðhafa.

2. gr.

    Að því marki sem veðréttur, sem stofnast á grundvelli 1. gr., varðar kröfuréttindi eða undirliggjandi veð sem tengjast slíkum kröfuréttindum öðlast veðrétturinn réttarvernd við þinglýsingu yfirlýsingar þess efnis að fjármálafyrirtæki hafi nýtt heimild sína skv. 1. gr. á blað fjármálafyrirtækis í lausafjárbók. Er þá ekki þörf á frekari ráðstöfunum til að veðrétturinn öðlist réttarvernd, hvort sem varðar veðsetningu kröfuréttinda eða undirliggjandi veðréttinda.
    Ákvæði 46. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, gilda ekki um veðsetningu almennrar fjárkröfu, sbr. 45. gr. laga um samningsveð, samkvæmt lögum þessum.
    Um veðsetningu viðskiptabréfa á grundvelli 1. gr. skal þó farið eftir ákvæðum 43. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997.

3. gr.

     Veðsetning eigna samkvæmt heimild 1. gr. laga þessara skal ekki sæta riftun samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga er varða ráðstafanir þrotamanns.

4. gr.

    Um annað en kveðið er á um í lögum þessum gilda ákvæði laga um samningsveð, nr. 75/ 1997, um veðsetningu eigna samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

     Ákvæði laga þessara gilda einnig um önnur fyrirtæki, eftir atvikum, sem stofnuð hafa verið til að ganga frá uppgjöri á eignum og skuldbindingum fjármálafyrirtækis vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sem tekin hefur verið á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 161/2002. Leita skal staðfestingar Fjármálaeftirlitsins á að viðkomandi fyrirtæki falli undir ákvæði þessarar málsgreinar áður en því er beitt.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.