Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 510. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1197  —  510. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um nauðungarsölu, lögum um lögmenn og innheimtulögum, með síðari breytingum (réttarstaða skuldara).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Davíð B. Gíslason frá Momentum og Gjaldheimtunni ehf., Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Evu Ómarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu.
    Umsagnir um málið bárust frá ASÍ, BSRB, Bændasamtökum Íslands, Íbúðalánasjóði, Landssamtökum lífeyrissjóða, Momentum og Gjaldheimtunni ehf., ríkisskattstjóra, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og tollstjóranum í Reykjavík.
    Með frumvarpinu eru lagðar til fjölmargar breytingar, m.a. að skiptastjóri í þrotabúi geti heimilað einstaklingi að búa áfram í allt að tólf mánuði í húsnæði í eigu búsins eða halda umráðum einstakra lausafjármuna þess gegn greiðslu leigu. Sama gildi við nauðungarsölu á eign. Þá er lagt til að við nauðungarsölu á fasteignum eða lausafé geti kröfuhafi sem telur sig ekki hafa fengið kröfu sína greidda einungis krafist þess mismunar sem er á eftirstöðvum kröfunnar og því sem er markaðsvirði eignarinnar við samþykki boðsins. Einnig er lagt til að dómsmálaráðherra gefi út leiðbeiningar fyrir lögmenn um það endurgjald sem þeir mega áskilja sér við innheimtu peningakrafna. Þá er löginnheimta skilgreind og enn fremur kveðið á um að lögmanni sé óheimilt að áskilja sér endurgjald af þeim hluta kröfunnar sem gjaldfelld er vegna vanskila á greiðslu afborgunar og vaxta.

Afnot af húsnæði eða lausafé í allt að 12 mánuði.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið sem miðar að því að bæta réttarstöðu skuldara m.a. til þess að einstaklingar geti dvalið áfram í íbúðarhúsnæði um nokkurn tíma eftir gjaldþrotaskipti. Skiptastjóri hafði þessa heimild samkvæmt gjaldþrotalögum en árið 2009 var lögfest ákvæði til bráðabirgða, sem heimilaði að slík ákvörðun gæti gilt fram yfir skiptalok. Sú heimild er fallin brott. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að heimild skiptastjóra verði ekki lengur háð því skilyrði að veðhafar samþykki ráðstöfunina. Þá er einnig lagt til að hún verði rýmkuð að því leyti að hún gildi einnig um lausafjármuni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skiptastjóri geti ákveðið að greidd verði leiga fyrir afnotin sem nemur að minnsta kosti þeim kostnaði sem að þrotabúið ber af eigninni. Með frumvarpinu er einnig lagt til að sama regla gildi við nauðungarsölu á eign, þ.e. að sýslumaður hafi þessa heimild. Við nauðungarsölu geti því gerðarþoli haldið notum gegn greiðslu sem svari að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að erfitt kynni að verða að innheimta leigu hjá þeim sem þurfa á þessu úrræði að halda og enn fremur að húsaleigulög hljóti að gilda um leigugreiðslur þessar. Því sé nauðsynlegt að þrotamaður setji tryggingu fyrir leigugreiðslum og jafnvel fyrir skemmdum á eign. Nefndin tekur fram að reglur gjaldþrotaskiptalaga eru sérreglur um að viðkomandi eigi rétt á að vera áfram í húsnæði því sem verið hefur heimili hans og kveðið er á um að hann skuli greiða fyrir það leigu sem dugi til að greiða kostnað af eigninni. Jafnframt er kveðið á um að það megi setja fram kröfu um að gerðarþoli setji tryggingu fyrir skemmdum á eigninni. Nefndin telur ekki rétt að leggja til breytingu á frumvarpinu í þá veru að skiptastjóri geti áskilið að leigjandi setji tryggingu fyrir leigugreiðslum þar sem hér er um félagslegt úrræði að ræða og því getur slíkur áskilnaður komið í veg fyrir að úrræðið nýtist.
    Ákvæði húsaleigulaga kveða á um lágmarksréttindi og að mörgu leyti eiga þau ekki við í þeim tilvikum sem hér um ræðir svo sem ákvæði um ástand hins leigða þegar það er afhent leigjanda. Í 8. mgr. 1. gr. húsaleigulaga segir: „Loks gilda lög þessi ekki um samninga um afnot húsnæðis sem sérstakar reglur gilda um samkvæmt öðrum lögum.“ Nefndin telur að með vísan til þessa ákvæðis húsaleigulaga gildi þau ekki um þessa leigusamninga þar sem hér sé um að ræða sérreglur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum.
    Nefndin telur í því sambandi rétt að benda á að hér er um heimildarákvæði að ræða fyrir skiptastjóra og getur hann heimilað einstaklingi eða gerðarþola not af eign í allt að 12 mánuði og eru rökin þau að gefa viðkomandi tíma til að leita eftir öðru húsnæði. Skiptastjóri þarf ekki lengur að fá samþykki kröfuhafa um að nýta heimildina, en áður en hann tekur ákvörðun skal hann leita eftir afstöðu þeirra sem njóta tryggingaréttinda í eigninni. Nefndin telur að þegar litið er til þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru í íslensku efnahagslífi sé nauðsynlegt að lögfesta þessa heimild þar sem að hún gefur einstaklingum og fjölskyldum svigrúm til að finna annað húsnæði og tíma til að flytja, t.d. með tilliti til skólagöngu barna.

Trygging fyrir spjöllum.
    Nefndin ræddi um ákvæði frumvarpsins um tryggingu fyrir spjöllum skv. 1. gr. en þar er gert ráð fyrir að skiptastjóri geti við gjaldþrotaskipti heimilað að áskilja að trygging sé sett fyrir spjöllum sem kunna að verða á eign. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að eðlilegt væri að heimild til að áskilja tryggingu væri einnig fyrir hendi í ákvæðum nauðungarsölulaga. Nefndin fellst á þessi sjónarmið og telur eðlilegt að hér sé samræmi við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga og leggur til að við ákvæðið bætist ákvæði þess efnis að sýslumanni sé heimilt að áskilja að gerðarþoli setji tryggingu fyrir spjöllum sem kunna að verða á íbúðarhúsnæði.

Uppgjör skulda við nauðungarsölu.
    Nefndin fjallaði einnig um ákvæði 4. gr. frumvarpsins sem varðar uppgjör skulda við nauðungarsölu á eign. Reglan tekur til allra sem kunna að eiga réttindi yfir eign en ekki eingöngu þess sem hefur gerst kaupandi að eign við nauðungarsölu eins og gildandi lög kveða á um. Þannig er einungis hægt að krefja gerðarþola eða ábyrgðarmann hans um mismun af eftirstöðvum skuldar og markaðsvirði eignar. Nefndin telur að þessi regla leiði til sanngjarnari niðurstöðu fyrir gerðarþola og ábyrgðarmann skuldar sem tryggð hefur verið með veði þar sem sá sem telur sig ekki hafa fengið fulla greiðslu kröfu við nauðungarsölu þarf að sýna fram á að markaðsvirði eignarinnar hafi ekki dugað til greiðslu skuldarinnar. Gildir það hvort sem er fyrir þann sem keypt hefur eign á nauðungarsölu sem og aðra sem átt hafa veð í eigninni. Þá er einnig lagt til að skuldari geti að eigin frumkvæði höfðað mál á hendur kröfuhafa til að fá skuldirnar færðar eða felldar niður í samræmi við framangreinda reglu.

Endurgjald lögmanna.
    Nefndin fjallaði nokkuð um 6. gr. frumvarpsins sem kveður á um að ráðherra skuli að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að heimildir af þessu tagi falli ekki að þeim grundvallarsjónarmiðum samkeppnisréttar að ákvarða skuli verð í viðskiptum í frjálsri samkeppni. Nefndin tekur fram að þeir viðskiptaaðilar sem hér um ræðir, þ.e. innheimtuaðili, kröfuhafi og loks skuldari, eru ekki jafnsettir. Skuldari hefur ekki val um það við hvaða innheimtuaðila hann skiptir og er því ekki í aðstöðu til að veita samkeppnislegt aðhald í þessum viðskiptum. Nefndin telur því nauðsynlegt að ráðherra geti sett slíkar leiðbeiningarreglur þeim til verndar. Þá var einnig bent á að með því að fela ráðherra að leita umsagnar Lögmannafélagsins við útgáfu leiðbeininga um endurgjald sem lögmönnum sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum, úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu, geti haft í för með sér alvarlegar samkeppnishömlur hjá umræddum hagsmunaaðilum. Nefndin fellst ekki á þau sjónarmið og telur eðlilegt að ráðherra leiti til Lögmannafélagsins eins og lagt er til í frumvarpinu enda einungis um umsögn að ræða og ráðherra því ekki bundin af henni.
    Nefndin fjallaði einnig um ákvæði frumvarpsins um breytingar á lögmannalögum og innheimtulögum sem varða skilgreiningu á löginnheimtu og mörk slíkrar innheimtu og milliinnheimtu samkvæmt innheimtulögum. Löginnheimta er innheimtumeðferð sem byggist á grundvelli réttarfarslaga og markast upphaf hennar við aðgerðir byggðar á ákvæðum þeirra eða tilkynningum sem samrýmast góðum lögmannsháttum. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að ekki væri nægilega skýrt að vísa í ákvæðinu til góðra lögmannshátta. Nefndin tekur fram að með þessu er í reynd vísað til siðareglna lögmanna. Tekur nefndin undir athugasemdir um að hér sé m.a. átt við tilkynningu lögmanns til greiðanda um að honum hafi borist beiðni um löginnheimtu og krafist sé greiðslu innan tiltekins tíma, ella verði máli vísað til dómstóla eða sýslumanns að undangenginni greiðsluáskorun eftir eðli kröfu.
    Í frumvarpinu er lagt til að við löginnheimtu sé lögmanni óheimilt að áskilja sér endurgjald af þeim hluta kröfu sem fallin er í gjalddaga vegna gjaldfellingar eftirstöðva skuldar sökum vanefnda á greiðslu afborgunar eða vaxta. Nefndin fjallaði um þessa grein og telur að í þessu ákvæði felist mikil réttarbót sem byggist á sanngirnissjónarmiðum gagnvart skuldara.
    Nefndin telur að í frumvarpinu felist mikilvægar réttarbætur fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 2. gr. Í stað orðanna „Einnig er skiptastjóra“ komi: Þá er skiptastjóra.
     2.      Við 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumanni er heimilt að áskilja að gerðarþoli setji tryggingu fyrir spjöllum sem kunna að verða á íbúðarhúsnæði.

    Birgir Ármannsson og Gunnar Bragi Sveinsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 20. maí 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


varaform., frsm.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson,


með fyrirvara.


Róbert Marshall.



Þráinn Bertelsson.