Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1215  —  485. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Hrefnu Friðriksdóttur frá stofnun Ármanns Snævarr, Helga Guðnason og Vörð Leví Traustason frá Hvítasunnukirkjunni á Íslandi, Eric Guðmundsson frá Kirkju sjöunda dags aðventista, Róbert Badi Baldursson frá Andlegu þjóðarráði Bahá'ía á Íslandi, Snorra Óskarsson frá Betel, Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, Maríu Ágústsdóttur þjóðkirkjuprest, Friðrik Schram frá Íslensku Kristskirkjunni, Guðbjörgu Jóhannesdóttur frá Prestafélagi Íslands, Hjört Magna Jóhannsson frá Fríkirkjunni í Reykjavík, Jón Kjartan Ágústsson, Guðmund Smára Veigarsson, Helgu Kristínu Bjarnadóttur og Sesselju Maríu Mortensen frá Q – félagi hinsegin stúdenta, Guðrúnu Rögnvaldardóttur frá FAS, Jakob Rolland frá Kaþólsku kirkjunni og Kolbrúnu Birnu Árdal frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Andlegu þjóðarráði Bahá'ía á Íslandi, Arnari Haukssyni dr. med., Biskupsstofu, FAS – Samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Finnboga Ástvaldssyni, Fríkirkjunni í Reykjavík, Hagstofu Íslands, Hvítasunnukirkjunni á Íslandi, Íslensku Kristskirkjunni, Jafnréttisstofu, Kaþólsku kirkjunni á Íslandi, Kirkju sjöunda dags aðventista, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúsi glasafrjóvgunardeild, Landssambandi lögreglumanna, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Maríu Ágústsdóttur þjóðkirkjupresti, Prestafélagi Íslands, Q – félagi hinsegin stúdenta, ríkislögreglustjóra, ríkisskattstjóra, safnaðarhirði Hvítasunnukirkjunnar, Siðmennt – félagi siðrænna húmanista, Snorra Óskarssyni í Betel, Steinunni Jóhannesdóttur, Tilveru – samtökum um ófrjósemi, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni barna og velferðarsviði og barnaverndarnefnd Reykjavíkur .
    Með frumvarpinu er lagt til að ein hjúskaparlög gildi fyrir alla. Lagt er til að lög um staðfesta samvist falli brott. Auk þess eru lagðar til breytingar á fjölmörgum lögum. Loks er lagt til að kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun teljist foreldri barns sem þannig er getið í stað kjörmóður.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um efni frumvarpsins. Markmiðið með frumvarpinu er að afmá þann mismun sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestrar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar.
    Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði frumvarpsins um breytingar á hjúskaparlögum, þ.e. að í stað þess að lögin gildi um hjúskap karls og konu er lagt til að lögin gildi um hjúskap tveggja einstaklinga. Fyrir nefndinni komu m.a. fram tillögur um að víkka hugtakið hjón og halda þannig í hugtökin karl og kona í lögunum og tilgreina þannig hjúskap karls og konu, konu og konu, karls og karls. Þannig standi hin hefðbundna skilgreining áfram. Nefndin telur að þessi tillaga gæti hugsanlega mætt sjónarmiðum þeirra sem hafa gagnrýnt frumvarpið. Meiri hlutinn telur hins vegar að með því verði markmiðum frumvarpsins, um að afmá þann lagalega mun sem felst í mismunandi löggjöf, ekki náð. Þannig verði þeim mismun sem er í gildandi lögum í reynd viðhaldið. Þær breytingar sem gerðar hafa verið til að bæta réttarstöðu samkynhneigðra allt frá setningu laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, hafi gegnt mikilvægu hlutverki í því að breyta gildismati þjóðarinnar gagnvart samkynhneigð. Meiri hlutinn telur því að frumvarpið sé eðlilegt næsta skref í þeirri vegferð að jafna stöðu sambúðarforma einstaklinga og að framsetning frumvarpsins um vísun til hjúskapar tveggja einstaklinga sé einföld og skýr.
    Nefndin ræddi einnig um ákvæði sem varða skyldu eða heimild til að vígja pör. Þannig er borgaralegum vígslumanni skylt að vígja pör sem þess óska. Á kirkjulegum vígslumönnum hvílir ekki sams konar skylda. Nefndin ræddi hvort rétt væri að leggja slíka skyldu á kirkjulega vígslumenn en meiri hlutinn telur ekki unnt að leggja til slíka breytingu á frumvarpinu þar sem það geti farið í bága við réttindi viðkomandi presta. Þá bendir meiri hlutinn á að í lögum eru sambærileg ákvæði um heilbrigðisstéttir. Sem dæmi má nefna að lækni er heimilt samkvæmt læknalögum að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðisleg viðhorf hans séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni. Meiri hlutinn tekur einnig fram að með frumvarpinu er réttur einstaklinga til kirkjulegrar vígslu tryggður þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.
    Meiri hlutinn fjallaði einnig um það að hjúskapur er í eðli sínu borgaraleg stofnun og því umhugsunarefni hvort vígsla eigi að vera borgaraleg og að hjón geti leitað eftir blessun af hálfu tiltekinna trúfélaga eftir vígslu en telur að ekki sé rétt að leggja það til að sinni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Þór Saari áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur álitinu.


Alþingi, 2. júní 2010.Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Ögmundur Jónasson.Valgerður Bjarnadóttir.


Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Þráinn Bertelsson.