Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1216  —  578. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 92/2008, um framhaldsskóla (skipulag skólastarfs o.fl.).

Frá minni hluta menntamálanefndar.    Frumvarpið snýst um að veita ríkisvaldinu svigrúm sem þarf vegna fjárskorts til að efna ekki ný lög um framhaldsskóla og bregðast við ýmsum öðrum þáttum sem fundið hefur verið að í nýju lögunum.
    Þegar lög um framhaldsskóla voru samþykkt voru þau hluti af metnaðarfullum breytingum á lögum um önnur skólastig: leikskóla, grunnskóla og háskóla. Framhaldsskólar og háskólar eru á verksviði ríkisins en leikskólar og grunnskólar eru hjá sveitarfélögum.
    Áður hafa verið samþykktar breytingar til að tryggja að ríkið geti áfram innheimt gjöld af framhaldsskólanemum vegna efniskaupa. Þær breytingar og þessar eru gerðar vegna þeirra fjárhagsörðugleika sem íslenska ríkið á í vegna bankahrunsins.
    Við vinnslu málsins sá Samband íslenskra sveitarfélaga ástæðu til að senda inn skriflega umsögn þrátt fyrir að hafa ekki verið formlegur umsagnaraðili. Í umsögninni segir: „Sambandið gerir hins vegar mjög alvarlega athugasemd við að ekki skuli samhliða hafa verið lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla en fulltrúar sambandsins hafa ítrekað óskað eftir því við mennta- og menningarmálaráðherra að slíkt frumvarp verði lagt fram og m.a. unnið að útfærslu þess með sérfræðingum ráðuneytisins. Á fundum með ráðherra hefur komið fram sú afstaða að ráðuneytið muni ekki beita sér fyrir breytingum á grunnskólalögunum nema fyrir liggi sátt um málið milli sambandsins og Kennarasambands Íslands. Viðræður milli þessara aðila þar sem rætt hefur verið um mögulegar breytingar á lengd skólaársins og tímabundna styttingu vikulegs kennslutíma hafa ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að KÍ er ekki tilbúið til neinna breytinga. Þar sem viðræður við KÍ hafa ekki borið árangur og ráðherra hefur ekki reynst tilbúinn til að leggja fram frumvarp til að skapa sveitarfélögunum svigrúm til hagræðingar í grunnskólastarfi telur sambandið óhjákvæmilegt að óska eftir því að menntamálanefnd leggi fram sérstakt frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla.“
    Mörg sveitarfélög hafa orðið mjög illa úti vegna bankahrunsins og því vekur ákveðna furðu sú ákvarðanafælni sem fram kemur hjá ráðherra menntamála er varðar grunnskóla, og er ekki í anda þess sem ráðherra hefur gert gagnvart þeim skólum sem heyra beint undir ráðuneyti menntamála. Í umsögninni er bent á ýmsar leiðir til að koma til móts við erfiðan fjárhag sveitarfélaganna, svo sem með tímabundnum heimildum til frávika frá ákvæðum grunnskólalaga um vikulegan kennslutíma eftir bekkjardeildum og eins að meðaltali. Eins um fjölda skóladaga nemenda, fjölda valgreina á unglingastigi, hlutfallslega skiptingu á milli námssviða og námsgreina og að lokum nám grunnskólanemenda á framhaldsskólastigi. Ráðuneytið tók við síðustu fjárlagagerð einhliða ákvörðun um að leyfa ekki nemendum grunnskóla að stunda nám í einstökum áföngum í framhaldsskólum þrátt fyrir heimild í 26. gr. grunnskólalaga. Einnig bendir sambandið á að eðlilegt væri að leyfa skólastjóra grunnskóla að veita forstöðu fleiri en einum grunnskóla. Einnig hefur verið bent á möguleikann á að samþætta innra og ytra eftirlit í grunnskólum og eftirlit ráðuneytisins, en skv. 38. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, er sveitarfélögum skylt að taka upp ytra eftirlit.
    Mikilvægt er að ríkisvaldið gleymi því ekki að til er annað jafnrétthátt stjórnsýslustig í landinu, sveitarfélögin, og að taka verður tillit til aðstæðna og þeirra krafna sem sveitarfélögin gera. Ef ráðherra menntamála treystir sér ekki til þess að leggja fram nauðsynlegar breytingar á annarri löggjöf um skóla í ljósi efnahagsástandsins þarf menntamálanefnd að íhuga vandlega hvort hún eigi ekki að gera það.
    Nefndin ræddi einnig ákvörðun Menntaskólans við Sund að hætta við boðaðar breytingar á námsbrautum eftir að frumvarpið var tekið til 2. umræðu. Ekki er ljóst hvort frumvarpið er ástæða þess að hætt er við boðaðar breytingar, en tímasetning tilkynningarinnar og tilgreindar ástæður hljóta að teljast áhyggjuefni. Mikilvægt er að ekki sé verið að boða til breytinga á námi, auglýsa það og fá umsækjendur að skólanum á grundvelli breytinganna og draga það svo til baka nánast fyrirvaralaust.

Alþingi, 3. júní 2010.

Eygló Harðardóttir.