Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1222  —  152. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um stjórnlagaþing.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.    Fyrsti minni hluti allsherjarnefndar telur nauðsynlegt að koma til móts við þau sjónarmið að endurskoða þurfi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. 1. minni hluti telur þó að sú leið sem farin er í frumvarpinu að leggja til að kjörnir verði 25 til 31 fulltrúi til þess að sitja á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins sé ekki til þess fallin að auka traust þjóðarinnar gagnvart Alþingi. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins kjósa Íslendingar 63 þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi til að setja landinu lög. Stjórnarskráin heimilar ekki að öðrum þjóðkjörnum fulltrúum sé falið það hlutverk. Þá er það með sama hætti grundvallarhlutverk Alþingis að fjalla um stjórnarskrá og því mikilvæga verkefni getur þingið ekki vísað frá sér. Það er skoðun 1. minni hluta að Alþingi eigi þvert á móti að setja stjórnarskrána á dagskrá með skýrum hætti og í slíkri vinnu komi fram afstaða alþingismanna til þeirra breytinga sem gera þurfi á stjórnarskrá. Það frumvarp sem nú liggur fyrir um stjórnlagaþing er ófullburða. Fjöldamörgum spurningum er ósvarað og er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að málið sé sett fram í miklu óðagoti og taugaveiklun. Engin ástæða er til að fjalla um mál af þessum toga á síðustu dögum þingsins þegar fyrir liggur að meginverkefni Alþingis þessa dagana er að koma heimilum og fyrirtækjum til bjargar. Það er skoðun 1. minni hluta að ýta eigi öllum öðrum málum til hliðar og einhenda sér í það að koma með lausnir fyrir heimilin og fyrirtækin í þessu landi.
    Þar fyrir utan leggur meiri hlutinn til ráðgefandi stjórnlagaþing sem er allt annað en það sem lagt var upp með á síðasta ári. Það er miklu nær fyrir Alþingi að taka málefni stjórnarskrárinnar á dagskrá á vettvangi þingsins, fá mótaðar tillögur frá helstu sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar og leiða málið til lykta á vettvangi Alþingis í kjölfarið.

Kosning níu manna nefndar.
    Á síðasta vorþingi lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokks fram tillögu til þingsályktunar um undirbúning að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í anda þeirrar umræðu sem átti sér stað á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Tillagan var sú að Alþingi kysi hlutfallskosningu 25 manna nefnd sem hefði það verkefni að leggja fyrir Alþingi tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá í tæka tíð fyrir 17. júní 2011 svo að álykta mætti um hana á hátíðarfundi Alþingis í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, sbr. þskj. 950, 474. mál 136. löggjafarþings.
    Fyrsti minni hluti leggur til að skynsamlegt sé að farin sé leið af þessum toga og kosin verði níu manna nefnd fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings. Þannig verði leitað í umboði Alþingis eftir ráðgjöf frá mönnum utan þings án þess að Alþingi afsali sér valdi til að breyta stjórnarskránni. 1. minni hluti leggur áherslu á að vinna nefndarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum og að hún skuli leita samráðs og samtals við almenning, hagsmunaaðila og aðra hópa sem áhuga hafa á þessu mikilvæga máli. Tillaga þessi tekur mið af aðferðum sem beitt hefur verið við endurskoðun stjórnarskrár í nágrannalöndum, þar á meðal í Svíþjóð, og vekur 1. minni hluti sérstaka athygli á fordæmi Svía í þessu máli og hvernig hefur verið staðið að undirbúningi að endurskoðun sænsku stjórnarskrárinnar með því að virkja sem flesta til þátttöku. 1. minni hluti telur að í störfum ráðgjafarnefndarinnar beri t.d. að líta til fordæmis hjá íbúaþingum á vegum sveitarfélaga og að beitt verði svipuðum aðferðum og þar hefur verið gert til að virkja almenning til þátttöku.

Umfjöllun Alþingis um tillögur nefndarinnar.
    Fyrsti minni hluti leggur til að þegar nefndin hefur skilað tillögum sínum til Alþingis verði þær teknar til meðferðar á fyrir fram afmörkuðu tímabili á starfstíma þingsins, þ.e. að þá verði ekkert annað mál til umræðu en breytingar á stjórnarskrá. Með því þarf þingið sjálft og allir þingmenn að móta sér skoðun á framkomnum tillögum nefndarinnar. Með því móti væri einnig tryggt að umræðum um stjórnarskrárbreytingar væri gefinn sá tími í störfum þingsins sem viðeigandi er í ljósi þess að um er að ræða grundvallarlöggjöf lýðveldisins.
    Fyrsti minni hluti telur að með samþykkt tillögunnar væri lagður grunnur að vandaðri endurskoðun stjórnarskrárinnar í þeim anda sem hefur verið til umræðu síðustu missiri og að meiri líkur séu á því að almenn samstaða náist um frumvarp til stjórnarskipunarlaga og afgreiðslu þess. 1. minni hluti tekur jafnframt fram að þessi leið er mun hagkvæmari en sú leið sem er lögð til í frumvarpinu.

Alþingi, 17. maí 2010.Birgir Ármannsson ,


frsm.


Ólöf Nordal.