Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1256  —  485. mál.
Nefndarálitum breyt. á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.    Á undanförnum árum hafa veigamiklar lagabreytingar náð fram að ganga hér á landi með það að markmiði að bæta réttarstöðu samkynhneigðra á sviði fjölskyldu- og sifjamála. Ísland hefur jafnan verið í hópi þeirra ríkja sem stigið hafa hvað stærstu skrefin á þeirri braut. Í því sambandi má einkum rifja upp setningu laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996, víðtækar breytingar á réttarstöðu samkynhneigðra í lögum nr. 65/2006, sem meðal annars fólu í sér stór skref á sviði fjölskyldumála, og loks setningu laga nr. 55/2008, sem kváðu á um heimild vígslumanna trúfélaga til að staðfesta samvist. Segja má að lagabreytingar undanfarinna ára hafi að langmestu leyti afnumið þann lagalega mun sem áður var fyrir hendi á réttarstöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra í þessu sambandi. Um breytingarnar hafa jafnan orðið talsverðar umræður og stundum jafnvel verulegur ágreiningur í samfélaginu en á vettvangi þingsins hefur yfirleitt lánast að ná um þær víðtækri pólitískri samstöðu.
    Frumvarp dómsmálaráðherra, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, felur fyrst og fremst í sér að hjúskaparlögum, sem gilda um hjúskap karls og konu, og lögum um staðfesta samvist samkynhneigðra er steypt saman í einn lagabálk, auk þess sem lagðar eru til breytingar á ákvæðum annarra laga til að samræma orða- og hugtakanotkun. Minni hlutinn styður þessa meginstefnu frumvarpsins sem og þá efnisbreytingu sem felst í 2. gr. Þar er gert ráð fyrir að afnumin verði skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt, ríkisborgararétt í tilteknu landi eða sérstök tengsl við Ísland, sem enn er að finna í lögum um staðfesta samvist en ekki eru fyrir hendi með sama hætti í hjúskaparlögum.
    Minni hlutinn vekur hins vegar athygli á því að ákveðin álitaefni eru uppi varðandi frumvarpið eins og það liggur fyrir. Þannig er ljóst að umsagnaraðilar hafa mjög ólíkar skoðanir á því hvort nota eigi sömu orð og hugtök yfir hjúskap gagnkynhneigðra og staðfesta samvist samkynhneigðra og hvort ávallt eigi að nota orðið einstaklingur þar sem nú er talað um karl og konu. Jafnframt hefur komið fram mismunandi sýn á það hvort ástæða sé til þess að geta þess með skýrum hætti í lagatexta að vígslumönnum trúfélaga sé heimilt að neita að vígja fólk, gangi það gegn trúarsannfæringu þeirra.
    Varðandi samræmingu orða og hugtaka í lagatextanum er ljóst að í huga baráttumanna fyrir réttindum samkynhneigðra er um mikilvægt táknrænt skref að ræða. Að sama skapi er ljóst að innan kirkjunnar og annarra safnaða er mikil andstaða við breytingu í þessa veru sem byggir á trúarlegri sannfæringu. Fyrir liggur að innan þjóðkirkjunnar hefur þessi ágreiningur ekki verið leiddur til lykta og þar eru enn fyrir hendi sterkar fylkingar bæði með breytingum og á móti. Aðrir kristnir söfnuðir, að Fríkirkjunni undanskilinni, leggjast gegn breytingunni og sama má segja um flest önnur trúfélög sem á annað borð hafa tjáð afstöðu sína til málsins.
    Þrátt fyrir að hér sé um viðkvæmt mál, sem snertir djúpa sannfæringu á báða bóga, getur löggjafinn að mati minni hlutans ekki vikist undan því að taka af skarið í þessum efnum. Niðurstaða minni hlutans er að ekki séu efnisleg rök til að nota í lagatexta mismunandi heiti yfir fjölskylduform gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Minni hlutinn telur hins vegar að löggjafinn geti ekki hlutast til um orða- og hugtakanotkun í vígsluathöfnum safnaða og trúfélaga, enda færi slíkt í bága við trúfrelsisákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.
    Því sjónarmiði hefur verið hreyft í umsögnum og á fundum nefndarinnar að ekki sé ástæða til að fella notkun orðanna karls og konu úr lagatextanum og vísa ávallt til einstaklinga, eins og gert er í frumvarpinu. Væri þá notað orðalagið að til hjúskapar geti stofnað karl og kona, karl og karl og kona og kona. Bent hefur verið á að með slíkri breytingu á frumvarpinu væri hugsanlega hægt að koma að nokkru leyti til móts við mismunandi sjónarmið í þessum efnum. Minni hlutinn getur fyrir sitt leyti fallist á þessi sjónarmið og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þessa veru.
    Hitt meginálitaefnið lýtur að því hvort kveða beri á um það með skýrari hætti en nú er gert að vígslumaður trúfélags verði ekki skyldaður til að framkvæma athöfn sem samræmist ekki trúarskoðunum hans. Ótvírætt er að í núgildandi lögum um staðfesta samvist er vígslumanni heimilt en ekki skylt að vígja samvist samkynhneigðra. Með því að steypa saman hjúskaparlögum og lögum um staðfesta samvist fellur þetta tiltekna ákvæði úr gildi. Verði frumvarpið að lögum gilda því ákvæði núgildandi hjúskaparlaga. Þar er í 22. gr. skýrt að borgaralegum vígslumönnum sé skylt að framkvæma hjónavígslur en ekki er með beinum hætti tekið af skarið um stöðu presta og annarra vígslumanna trúfélaga og safnaða. Í 2. mgr. 22. gr. er einungis kveðið á um að dómsmálaráðherra geti, að fenginni tillögu biskups, sett reglur um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslur og hvenær þeim sé það aðeins heimilt. Slíkar reglur hafa ekki verið settar en engu að síður stendur eftir reglugerðarheimildin. Rétt er að undirstrika að sú heimild nær aðeins til þjóðkirkjunnar og ljóst að á þeim grundvelli yrði vígslumönnum annarra safnaða og trúfélaga aldrei gert skylt að framkvæma slíkar athafnir.
    Til þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum, og undirstrika að engum vígslumönnum trúfélaga verði gert skylt að framkvæma athafnir sem brjóta í bága við trúarsannfæringu þeirra, leggur minni hlutinn til að 22. gr. hjúskaparlaga verði breytt þannig að ótvírætt komi fram að prestum og öðrum vígslumönnum trúfélaga sé ávallt heimilt en aldrei skylt að framkvæma hjónavígslu ef það stríðir gegn trúarlegri sannfæringu þeirra.

Alþingi, 9. júní 2010.Birgir Ármannsson,


frsm.


Ólöf Nordal.