Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 659. máls.

Þskj. 1259  —  659. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum
(skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda) .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp er lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimilt að tekjufæra einungis 50% af fengnum eftirstöðvum eftirgjafar skulda vegna rekstrar- og greiðsluerfiðleika á tekjuárunum 2009, 2010 og 2011 allt að samtals 50 millj. kr., og 25% af eftirgjöf umfram samtals 50 millj. kr. á framangreindu tímabili. Skilyrði er að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn.
    Lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að fyrna eignir, sem eru fyrnanlegar skv. 33. gr., um fjárhæð sem nemur eftirstöðvum eftirgjafarinnar, sbr. 1. mgr., að teknu tilliti til ákvæða 42. gr., á því ári sem eftirgjöf er færð til tekna í skattframtali.
    Eigi lögaðilar eða menn sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ekki eignir sem eru fyrnanlegar skal heimilt að færa eftirgjöf skulda til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu þriggja ára frá og með því tekjuári sem skuld var gefin eftir.
    Skilyrði fyrir takmörkun á tekjufærslu skv. 1. mgr., fyrningu skv. 2. mgr. eða frestun á tekjufærslu skv. 3. mgr. er að rekstrartap ársins og yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað.
    Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga.
    Taki kröfuhafi hlutafé í hinu skuldsetta félagi sem gagngjald fyrir kröfu í stað eftirgjafar skal það talið fullnaðargreiðsla hennar, nema að því marki sem eftirgjöf skuldar er færð til tekna hjá skuldara að teknu tilliti til 1. mgr.
    Við eftirgjöf skulda skal kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Sé skilmálum í samningi um lán sem tengjast rekstri lögaðila og sjálfstætt starfandi manna breytt með þeim hætti að endurgreiðsla miðist við íslenskar krónur í stað erlends gjaldmiðils telst það vera skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður. Sama á við ef breyting er gerð á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána, eða hluti af uppreikningi höfuðstóls verðtryggðra lána er felldur niður. Séu gerðar breytingar á uppreiknuðum eftirstöðvum lána, sbr. 1. og 2. málsl., ber rekstraraðila að leiðrétta áður gjaldfærðan fjármagnskostnað til samræmis.

    b. (II.)
    Í stað fullrar tekjufærslu á eftirgjöf veðskulda utan atvinnurekstrar er heimilt að telja ekki til tekna allt að samtals 10 millj. kr. hjá einstaklingi og samtals 20 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum vegna greiðsluerfiðleika á tekjuárunum 2009, 2010 og 2011. Fari eftirgjöf fram úr tilgreindum fjárhæðum, sbr. 1. málsl., má falla frá tekjufærslu sem nemur 50% af eftirgjöfinni að hámarki samtals 20 millj. kr. hjá einstaklingi og samtals 40 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum, og 25% af eftirgjöf umfram samtals 20 millj. kr. hjá einstaklingi og samtals 40 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum á framangreindu tímabili. Ákvæði 1. og 2. málsl. eiga ekki við um eftirgjöf á upprunalegum höfuðstól að teknu tilliti til afborgana. Skilyrði er að um sé að ræða veðskuld sem ekki tengist atvinnurekstri. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd tekjufærslunnar á grundvelli þessa ákvæðis.
    Heimilt skal að fresta tekjufærslu á eftirgjöf veðskulda manna, sbr. 1. mgr., í tvö ár frá og með því tekjuári sem veðskuld er gefin eftir. Heimilt skal að færa eftirgjöf veðskulda til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu fimm ára frá og með því tekjuári þegar veðskuld var sannanlega gefin eftir eða frá og með því ári þegar tveggja ára frestunartímabili lauk.
    Ákvæðið á ekki við gildi 3. tölul. 28. gr. um eftirgjöf veðskulda.
    Við eftirgjöf veðskulda skal kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Þeir sem ekki hafa þegar fengið úrlausn sinna mála skv. 3. tölul. 28. gr. eða óskað eftir því geta sótt um til ríkisskattstjóra sem er heimilt á grundvelli umsóknar að lækka eða fella niður tekjuskattsstofn manns sem myndast hefur vegna eftirgjafar veðskulda, sbr. 1. mgr., að loknu tveggja ára frestunartímabili skv. 2. mgr. þegar fyrir liggur samkvæmt hlutlægu mati á fjárhagsstöðu skuldara, og eftir atvikum maka hans, að eignaaukning hafi orðið lítil eða engin vegna skuldaniðurfærslna, eða eignir séu litlar sem engar eða aflahæfi sé verulega skert. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um hvernig meta skuli fjárhagsstöðu manns og um nánari skilyrði fyrir lækkun tekjuskattsstofns á grundvelli þessa ákvæðis.
    Sé skilmálum í lánasamningi milli lánastofnunar og manns breytt með þeim hætti að endurgreiðsla miðist við íslenskar krónur í stað erlends gjaldmiðils telst það vera skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður. Sama á við ef breyting er gerð á viðmiðunarvísitölu verðtryggðra lána, eða hluti af uppreikningi höfuðstóls verðtryggðra lána er felldur niður. Leiðréttingar á skuldum sem gerðar eru í tengslum við sértæka skuldaaðlögun og sjálfvirka greiðslujöfnun, sbr. lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, teljast til skilmálabreytinga en ekki eftirgjafar skulda, enda sé framkvæmdin í samræmi við verklagsreglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga. Sama á við um leiðréttingu samkvæmt tímabundinni greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er að finna tillögu að tveimur nýjum ákvæðum til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Bæði ákvæðin varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda hjá móttakanda eftirgjafarinnar, annars vegar hjá lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri og hins vegar hjá einstaklingum. Hér er um tímabundnar ráðstafanir að ræða vegna þess óvenjulega ástands sem nú hefur skapast á innlendum lánamarkaði, en lagt er til að þær nái til tekjuáranna 2009–2011.
    Samkvæmt tekjuskattslögum teljast til skattskyldra tekna hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Tekjuákvæði laganna eru því víðtæk og taka til hvers konar verðmæta sem metin verða til fjár, í hvaða formi sem slíkur tekjuauki fellur skattskyldum aðila í hlut. Á móti stendur samsvarandi gjaldfærsla hvort heldur um er að ræða tekjuauka hjá lögaðila eða einstaklingi. Þessi grunnregla hefur verið við lýði svo áratugum skiptir. Undantekningar frá skattskyldu eru sérstaklega tilgreindar í lögunum og ber samkvæmt almennri lögskýringarreglu að túlka þröngt. Kveðið hefur verið á um skattalega meðferð eftirgjafar skulda allt frá lögum nr. 6 frá árinu 1935 til þessa dags. Að meginstefnu til hefur eftirgjöf skulda ekki talist til skattskyldra tekna manna í tengslum við gjaldþrot eða nauðasamninga eða þegar á annan fullnægjandi hátt hefur verið sannað að eignir séu ekki til fyrir skuldum. Annað hefur gilt um eftirgjöf skulda sem tengjast atvinnurekstri.

Aðilar í atvinnurekstri.
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt ber í öllum tilvikum að telja til skattskyldra tekna eftirgjöf skulda sem tengjast atvinnurekstri. Sú regla er ótvíræð og er með frumvarpi þessu ekki lögð til nein breyting þar á, að öðru leyti en því að tímabundið verði að uppfylltum tilteknum skilyrðum heimilt að telja einungis ákveðið hlutfall þeirrar fjárhæðar sem gefin er eftir til skattskyldra tekna. Í flestum tilvikum er staða þeirra rekstraraðila sem fá eftirgefnar skuldir með þeim hætti að rekstrartap er umtalsvert og gengur á móti tekjufærslunni. Við þær aðstæður kemur því í raun ekki til neinnar skattlagningar vegna tekjufærslu á eftirgefnum skuldum. Gert er ráð fyrir að rekstrartap ársins og yfirfært tap vegna fyrri ára verði alltaf jafnað fyrst á móti tekjufærslu áður en fjárhæð skattskyldrar eftirgjafar er ákvörðuð í samræmi við tillögu frumvarpsins, en samkvæmt henni er rekstraraðila heimilt að telja ekki til tekna, þegar rekstrartap hefur verið nýtt, 50% af þannig fenginni eftirgjöf skulda upp að samtals 50 m.kr., og 25% af eftirgjöf skulda umfram samtals 50 m.kr., fyrir rekstrarárin 2009– 2011 samanlagt. Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu um að heimiluð verði sérstök fyrning til viðbótar almennri fyrningu á móti þeirri tekjufærslu sem skapast vegna eftirgjafarinnar, áður en henni er dreift jafnt á þrjú ár. Nýti skattaðili heimild til að dreifa tekjufærslu skal sú ákvörðun tekin á því ári sem skuld er gefin eftir.
    Eftirfarandi dæmi sýnir hvernig skattalegri meðferð á eftirgjöf skuldar yrði háttað samkvæmt frumvarpinu:
Eftirgjöf skuldar 100,0 m.kr.
Rekstrartap ársins/yfirfært frá fyrri árum 40,0 m.kr.
Eftirgjöf að frádregnu rekstrartapi 60,0 m.kr.
Frá dregst 50% af 50 m.kr. 25,0 m.kr.
35,0 m.kr.
Frá dregst 25% af eftirgjöf umfram 50 m.kr., þ.e. að frádregnu rekstrartapi, eða af 10 m.kr. 2,5 m.kr.
Til skattskyldra tekna teljast 32,5 m.kr.
Á móti tekjufærslu má fyrna eignir
Það sem þá stendur eftir má færa til tekna á þremur árum

    Um gjaldfærslu vegna afskrifaðra tapaðra krafna hjá kröfueiganda gilda ákvæði 3. tölul. 31. gr., sbr. 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, og er í engu vikið frá þeim skilyrðum sem um gjaldfærslu rekstrarkostnaðar gilda.
    Gert er ráð fyrir að heimildin til aukafyrninga og dreifingar á tekjufærslu gildi ekki þegar um er að ræða eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga vegna hættu á misnotkun ákvæðisins. Félag telst dótturfélag þegar það er a.m.k. að 50% hluta í eigu annars félags eða tengdra félaga.
    Misjöfn sjónarmið hafa verið uppi um það hvernig fara ber með kröfu þegar henni er breytt í hlutafé og legið hefur fyrir að verðmæti hlutafjárins á þeim tíma hefur verið talið minna en nemur nafnverði kröfunnar. Lagt er til að tekin verði af öll tvímæli um þetta þannig að þegar kröfu er að öllu leyti breytt í hlutafé við aðstæður sem hér er lýst, þá teljist krafan í heild sinni vera kaupverð hlutafjárins. Sé hluta af kröfu breytt í hlutafé og hluti af henni er afskrifaður ber skuldara að tekjufæra sömu fjárhæð og kröfuhafi afskrifar til gjalda, enda séu uppfyllt almenn skilyrði fyrir gjaldfærslunni.
    Sé skuld sem stofnast hefur vegna sölu á virðisaukaskattsskyldri vöru eða þjónustu gefin eftir ber bæði kröfueiganda og skuldara að leiðrétta virðisaukaskattsskil sín til samræmis við það samkvæmt gildandi reglum.
    Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um að ef gerðar eru breytingar á lánskjörum þá teljist slíkt til skilmálabreytinga en ekki eiginlegrar eftirgjafar á skuld í skilningi tekjuskattslaga. Að jafnaði er hér átt við að lán séu núvirt eftir venjubundnum aðferðum og á eðlilegum forsendum og breytt yfir í annars konar lán eða lánakjör, t.d. breyting á gengistryggðu láni yfir í íslenskt krónulán, á sambærilegum kjörum og almennt gerist um slík lán. Við slíka breytingu er gerð leiðrétting á uppreiknaðri lánsfjárhæð, í flestum tilvikum u.þ.b. 25–30% lækkun, og þannig ákvarðaðri fjárhæð breytt í lán í íslenskum krónum. Sé gerð slík skilmálabreyting á láni sem tilheyrir atvinnurekstri, hvort heldur hjá lögaðila eða sjálfstætt starfandi manni, og um lækkun á uppreiknuðum eftirstöðvum lánsins er að ræða, mundi lækkunin ekki hafa í för með sér skattskyldar rekstrartekjur en leiðrétta þarf gjaldfærðan fjármagnskostnað til samræmis við þessa skilmálabreytingu, enda verður ekki færður til gjalda kostnaður sem í raun fellur ekki á rekstraraðilann.

Einstaklingar.
    Sem fyrr segir teljast til skattskyldra tekna hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Sú regla er þó ekki fortakslaus í tilviki einstaklinga því í 3. tölul. 28. gr. í gildandi lögum er að finna ákvæði sem tekur til eftirgefinna skulda og þeirra skilyrða sem þurfa að vera til staðar eigi ekki að koma til tekjufærslu á eignaauka eða aukningu ráðstöfunartekna sem hlýst af eftirgjöfinni. Þannig skapast ekki skattskylda hafi eftirgjöfin orðið til við nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða í sérstökum tilvikum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sbr. reglugerð nr. 534/2009. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur m.a. fram að eftirgjöf skuldar teljist ekki til tekna ef engar eignir eru til fyrir skuldum eða allar eignir manna eru yfirveðsettar. Þá er gert að skilyrði að aflahæfi sé verulega skert. Þannig kemur almennt ekki til skattlagningar þótt skuldir manna séu gefnar eftir ef þeir eru eignalausir eða þeir eru skuldum vafnir, aflahæfi þeirra er skert og þeir því ekki borgunarmenn fyrir skuldunum samkvæmt hlutlægu mati þar um.
    Sértæk skuldaaðlögun, sbr. lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, mun nær undantekningarlaust falla undir þau skilyrði sem er að finna í áðurnefndri reglugerð þegar kemur að uppgjöri skuldanna samkvæmt lögunum, enda sé úrræðið framkvæmt á þann veg sem til var stofnað. Allt að einu er, til að taka af allan vafa, lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að gangi maður í gegnum sértæka skuldaaðlögun teljist slíkt ekki til eftirgjafar skulda í skilningi tekjuskattslaga heldur falli undir skilmálabreytingar sem almennt hafi ekki í för með sér skattskyldu. Öðru máli kann að gegna ef framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar er á skjön við ákvæði laga nr. 107/2009 og þær verklagsreglur sem settar hafa verið um framkvæmd þeirra. Þess utan kemur ekki til skattlagningar ef samið er um almennar skilmálabreytingar á lánum sem bjóðast öllum sem eru í sömu eða álíka fjárhagslegri stöðu, þ.m.t. sjálfvirk greiðslujöfnun samkvæmt lögum nr. 107/2009 og tímabundin greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt þessu, og með hliðsjón af þeim úrræðum sem lánastofnanir og ríkisvaldið hafa boðið skuldurum upp á og sammælst um, skapast almennt ekki skattskylda þótt skuldir séu lækkaðar.
    Með skilmálabreytingum er að jafnaði átt við að lán séu núvirt eftir venjubundnum aðferðum og á eðlilegum forsendum og breytt yfir í annars konar lán eða lánakjör. Þessi almennu úrræði hafa verið auglýst og boðin skuldurum hjá lánastofnunum. Skattyfirvöld hafa nú þegar svarað því til að því er varðar skuldir einstaklinga utan atvinnurekstrar að við slíkar aðgerðir stofnist ekki andlag skattlagningar, enda sé einungis um að ræða breytingu á skilmálum lánsins en ekki eiginlega eftirgjöf skuldar í skilningi tekjuskattslaga. Hér undir falla jafnframt þær aðgerðir lánastofnana að breyta gengistryggðu láni yfir í íslenskt krónulán, á sambærilegum kjörum og almennt gerist um slík lán. Við slíka breytingu er gerð leiðrétting á uppreiknaðri lánsfjárhæð, í flestum tilvikum u.þ.b. 25–30% lækkun, og þannig ákvarðaðri fjárhæð breytt í lán í íslenskum krónum. Þessi leiðrétting telst fela í sér skilmálabreytingu og skapar þannig ekki skattskyldar tekjur í hendi skuldara. Þótt afstaða skattyfirvalda liggi fyrir að því er slíkar skilmálabreytingar varðar er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að leiðrétting á uppreiknuðum eftirstöðvum skulda sem teljast til skilmálabreytinga myndi ekki skattskyldar tekjur í hendi skuldara, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður.
    Almennt tekur fyrrgreind 28. gr. tekjuskattslaga ekki til þeirra tilvika þar sem um er að ræða eftirgjöf skulda í frjálsum samningum milli aðila, án tillits til greiðslu- og eignastöðu skuldara. Því er frumvarpi þessu ætlað að vera viðbótarúrræði við þau formlegu úrræði sem þegar hafa verið talin upp, m.a. við þær aðstæður þegar lækkun skulda manna er framkvæmd með öðrum hætti en það sem beinlínis telst falla undir skilmálabreytingu láns, eins og áður segir, og ákvæði 3. tölul. 28. gr. eiga ekki við um skuldara. Á það m.a. við um þær leiðir sem auglýstar hafa verið sem lækkun skuldar niður í allt að 110% af virði fasteignar. Í slíkum tilvikum kann leiðréttingin t.d. að vera umfram það sem leiðir af breytingu úr gengistryggðu láni í íslenskt krónulán, sbr. framanritað. Þegar svo háttar mundi hluti lækkunarinnar falla undir að vera skilmálabreyting en ákvæði frumvarpsins giltu um það sem eftir stæði. Samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja um skuldastöðu heimilanna kæmi samkvæmt þessu í langflestum tilvikum ekki til neinnar skattskyldu vegna leiðréttingar og eftirgjafar á veðskuldum manna. Á þetta við um veðskuldir hvert sem tilefni lántökunnar var, t.d. hvort heldur þær stafa af húsnæðis- eða bílakaupum.
    Dæmi um slík tilvik gæti verið hjón með yfirveðsett íbúðarhúsnæði en umtalsverðar eignir, sem eru í greiðsluerfiðleikum með afborganir veðskuldar vegna mikilla gengis- eða verðlagsbreytinga. Sé matsverð fasteignar 40 m.kr. og uppreiknað gengistryggt lán stendur í 100 m.kr. gæti eftirgjöf viðskiptabanka hjónanna numið 56 m.kr., þannig að veðhlutfall íbúðarhúsnæðisins færi ekki yfir 110% af markaðsvirði þess, óháð eignastöðu eða aflahæfi viðkomandi að öðru leyti. Miðað við þetta dæmi má ætla að u.þ.b. 30 m.kr. teldist samkvæmt framansögðu vera skilmálabreyting. Eftir standa þá 26 m.kr. Til frekara mótvægis er í þessu frumvarpi síðan lagt til að eftirgjöf veðskulda vegna greiðsluerfiðleika sem ákveðin er á árunum 2009–2011 teljist ekki til skattskyldra tekna að hámarki samtals 10 m.kr. hjá einstaklingi og 20 m.kr. hjá hjónum og samsköttuðum. Skiptir ekki máli hvort eftirgjöfin er ákvörðuð í einu lagi eða dreifist á umrædd ár. Eftirgjöf umfram 10/20 m.kr. verði einnig heimilt að draga frá tekjum miðað við ákveðið hlutfall, eða 50% af fjárhæð milli 10–20 m.kr. hjá einstaklingi og tvöföld sú fjárhæð hjá hjónum og 25% umfram 20 m.kr. hjá einstaklingi og 40 m.kr. hjá hjónum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum yrðu áðurnefnd hjón skattskyld af u.þ.b. 3 m.kr. eftirgjöf. Heimilt yrði að fresta skattlagningu um tvö ár og að þeim tíma liðnum að dreifa tekjufærslunni með jöfnum hætti á fimm ár. Árleg tekjufærsla yrði 600.000 kr. og áætlaður tekjuskattur og útsvar um 240.000 kr. Verði frumvarp þetta að lögum má eins og áður segir ætla að komið hafi verið til móts við meginþorra skuldara sem eru í greiðsluerfiðleikum vegna veðskulda. Samkvæmt skattframtölum 2009 námu heildarskuldir u.þ.b. 90% framteljenda lægri fjárhæð en 30 m.kr. Ætla verður að þeir framteljendur sem skulda meira en þetta nýti sér sérstök skuldaúrræði og að um eftirgjöf skulda þeirra gildi í flestum tilvikum 3. tölul. 28. gr. laganna. Í frumvarpinu er jafnframt til varúðar gert ráð fyrir því að ríkisskattstjóri geti við sérstakar aðstæður lækkað tekjuskattsstofn manna sem myndast hefur vegna eftirgjafar veðskulda. Gera verður ráð fyrir því að þessi heimild yrði nýtt þegar aðstæður manna, svo sem vegna atvinnumissis, eru með þeim hætti að engin efni eru til að greiða skattskuld sem myndast vegna tekjufærslu þessarar. Slík tilvik ættu þó að heyra til undantekninga, enda eru ívilnandi áhrif frumvarpsins á tekjufærslu í þessu sambandi með þeim hætti og taka til þorra skuldara.
    Sé um að ræða eftirgjöf upprunalegs höfuðstóls láns að teknu tilliti til afborgana skal ætíð telja þann hluta til skattskyldra tekna skuldarans. Nánar verður kveðið á um framkvæmdina í reglugerð. Að því er varðar eftirgjöf bílalána verður að álíta að þær fjárhæðir sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði skattfrjálsar séu í öllum tilvikum það háar að slík eftirgjöf rúmist innan þeirra.

Áhrif á tekjur ríkis og sveitarfélaga.
    Í fljótu bragði gæti virst sem ríki og sveitarfélög verði af tekjum í formi tekjuskatts og útsvars vegna þeirra tekna sem alla jafna hefðu talist til skattstofns en gera ekki, svo sem felst í tillögum frumvarpsins verði það óbreytt að lögum. Þar er hins vegar ekki allt sem sýnist. Megintilgangur frumvarpsins er sá að koma þeim einstaklingum, sem alla jafna ættu að geta staðið í skilum með skuldbindingar sínar í venjulegu árferði, til tímabundinnar aðstoðar vegna greiðsluerfiðleika sem ella hefðu getað leitt þá í greiðsluþrot með tilheyrandi tapi fyrir ríki og sveitarfélög. Bætt greiðslustaða almennings ætti einnig að leiða til þess að samdráttur í einkaneyslu verði minni og þar með í hagkerfinu almennt, sem til lengri tíma litið skapar viðbótarskatttekjur hjá hinu opinbera. Þegar allt er lagt saman má þó gera ráð fyrir að skatttekjur ríkis og sveitarfélaga verði eitthvað minni en orðið hefði að óbreyttum lögum, en engin leið er að meta þá fjárhæð með óyggjandi hætti.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði inn í lögin ákvæðum til bráðabirgða um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda hjá móttakanda eftirgjafarinnar, annars vegar hjá lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri og hins vegar hjá einstaklingum. Gert er ráð fyrir því að ákvæði þessi nái til tekjuáranna 2009-2011. Þannig verður í fyrsta lagi lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimilt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að telja til tekna 50% af eftirgjöf skulda vegna rekstrar- og greiðsluerfiðleika upp að samtals 50 m.kr., og 25% af eftirgjöf umfram samtals 50 m.kr. Í öðru lagi verður heimilt að telja ekki til tekna allt að samtals 10 m.kr. hjá einstaklingi og samtals 20 m.kr. hjá hjónum eða samsköttuðum vegna greiðsluerfiðleika. Fari eftirgjöf fram úr tilgreindum fjárhæðum má falla frá tekjufærslu sem nemur 50% af eftirgjöfinni að hámarki samtals 20 m.kr. hjá einstaklingi og samtals 40 m.kr. hjá hjónum eða samsköttuðum, og 25% af eftirgjöf umfram samtals 20 m.kr. hjá einstaklingi og samtals 40 m.kr. hjá hjónum eða samsköttuðum. Þá er ríkisskattstjóra heimilt að lækka tekjuskattsstofn manns sem myndast hefur vegna eftirgjafarinnar að nánari skilyrðum uppfylltum, m.a. að eignir séu litlar sem engar.
    Tilgangurinn er að koma þeim einstaklingum, sem alla jafna ættu að geta staðið í skilum með skuldbindingar sínar, til tímabundinnar aðstoðar vegna greiðsluerfiðleika sem ella hefðu getað leitt þá í greiðsluþrot. Með þessum aðgerðum er leitast við að samdráttur í einkaneyslu verði minni en hefði orðið að óbreyttu og þar með í hagkerfinu almennt sem skapar auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Afar erfitt er að meta hversu þungt þau áhrif gætu vegið og hefur ekki farið fram sérstök skoðun á samanlögðum áhrifum af því og þeirri lækkun tekjustofna lögaðila og einstaklinga sem leitt gæti af ákvæðum þessa frumvarps. Einkum er erfitt að segja fyrir um í hvaða mæli þessi réttur verði nýttur við skattálagningu. Að öllu samanlögðu má þó gera ráð fyrir að skatttekjur verði eitthvað minni en ella hefði orðið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður hins vegar ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.