Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 525. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1260  —  525. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson og Sigurð Örn Guðleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Gísla Gíslason frá Hafnasambandi Íslands, Magnús Karel Hannesson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Friðrik Jón Arngrímsson og Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Fiskistofu, Hafnasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fiskvinnslustöðva.
    Í frumvarpinu er lagt til að grundvelli fyrir innheimtu aflagjalds verði veitt skýrari lagastoð en verið hefur, sbr. nú b-lið 1. tölul. 1. mgr. 17. gr. hafnalaga, nr. 61/2003. Þá er með frumvarpinu stefnt að því að styrkja grundvöll gjaldtöku hafna í opinberri eigu með því að kveða skýrar á um setningu gjaldskrár, forsendur hennar og upplýsingaskyldu til notenda hafna. Að lokum er lagt til að ákvæði til bráðabirgða, um framkvæmdastyrki til hafna, verði framlengt um tvö ár, m.a. í ljósi erfiðra rekstrarskilyrða hafna hér á landi.
    Á fundum nefndarinnar voru ákvæði frumvarpsins rædd og einkum það álitamál hvort d- liður 2. gr. frumvarpsins, er veitir heimild til innheimtu aflagjalds, fæli í sér heimild til innheimtu skatts eða töku þjónustugjalds. Skiptar skoðanir komu fram um framangreint, ekki síst í ljósi þess að ákvæðið felur í sér breytingu á 17. gr. hafnalaga þess efnis að þjónustugjaldaheimildir verði þar tilgreindar ásamt efri og neðri mörkum hlutfalls aflaverðmætis. Munu téð mörk takmarka heimildir hafnanna til gjaldtöku. Fyrir nefndinni kom þó fram nokkur stuðningur við þær breytingar á lögunum sem frumvarpið kveður á um. Var nefndin hvött til þess að leggja til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt enda væri með því komið til móts við fram komnar óskir um breytingar á lögunum. Skilningur nefndarinnar er sá að svo fremi sem gjaldendur geti gengið úr skugga um að eðlilegt samræmi sé á milli álagningar gjalds og raunverulegs kostnaðar við að veita viðkomandi þjónustu þá sé ekkert því til fyrirstöðu að innheimta gjaldsins standi undir slíkum kostnaði að heild eða hluta. Enn fremur hefur verið undirstrikað að við töku þjónustugjalda almennt geti verið erfitt að afmarka kostnaðarliði með mjög nákvæmum hætti í öllum tilvikum og þarf gjaldskyldan þá að vera reist á skynsamlegri áætlun.
    Nefndin ræddi rökin fyrir því að setja neðri og efri mörk á upphæð aflagjalds að teknu tilliti til hagsmuna hafna sem samkvæmt bókstaf laganna eiga í samkeppni hver við aðra og hagsmuna útgerða sem margar eiga mikið undir því að gjaldtaka verði ekki of íþyngjandi. Fram komu sjónarmið um að neðri mörkin reistu skorður við því að hafnir undirbyðu hver aðra en efri mörkin væru sett með hagsmuni viðskiptavina þeirra að leiðarljósi. Einnig var rætt hvort eðlilegra væri að hámark eða lágmark aflagjalds væri miðað við verðmæti eða magn afla. Þá komu þau sjónarmið fram fyrir nefndinni að hlutfall lágmarksgjaldtöku væri of hátt í þeim tilfellum þegar um hafnir fara frystar sjávarafurðir. Þannig kunni það að henda að verðmæti þeirra sjávarafurða er um höfnina fara að teknu tilliti til lágmarksheimildar til töku aflagjalds sé úr samræmi við þann kostnað er gjaldtökunni er ætlað að standa undir. Gæti slíkt, í ljósi meginreglna um gjaldtöku hins opinbera, leitt til þess að höfnum yrði í sumum tilfellum óheimilt að taka gjald af slíkum sjávarafurðum.
    Nefndin ræddi brottfall 2. málsl. 11. gr. laganna og breytingu á orðalagi 5. mgr. 17. gr. eins og lagt er til í 1. gr. og f-lið 2. gr. frumvarpsins og bendir á að af almennum reglum stjórnsýsluréttar leiðir að það sé almennt á ábyrgð þess stjórnvalds sem þjónustu veitir að hlutast til um að fyrir liggi skýr útreikningur á fjárhæð þess áður en ráðist er í innheimtu. Þetta sjónarmið liggur til grundvallar e-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Nefndin ræddi að lokum hvort nauðsynlegt væri að framlengja aðlögunartíma samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum eins og 3. gr. frumvarpsins kveður á um. Fram kom að niðurskurður á fjárlögum undanfarin ár hafi gert það að verkum að markmið téðs bráðabirgðaákvæðis um jafnsetningu hafi ekki náðst. Í því ljósi telur nefndin meginreglu hafnalaga um styrki til framkvæmda í höfnum ekki hæfa til að ná því markmiði sem með henni er að stefnt eins og stendur.
    Loks leggur nefndin til nokkrar tæknilegar breytingar á 2. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      D-liður orðist svo: Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Sé gjaldið innheimt skal það vera minnst 1,25% og mest 3% af heildaraflaverðmæti. Þó skal gjaldið vera minnst 0,70% af heildaraflaverðmæti frystra sjávarafurða. Sjávarafurðir eru sjávarafli, þ.e. sjávardýr önnur en spendýr, þ.m.t. skrápdýr, liðdýr og lindýr, sem og matvæli sem eru unnin að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla.
     b.      Á eftir d-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „skv. a-, c- og d-lið“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: skv. a-, c-, d- og e-lið.
     c.      Í stað orðanna „2.–10. tölul.“ í e-lið komi: 2.–10. tölul. 2. mgr.
     d.      Á eftir e-lið komi nýr stafliður er orðist svo: Í stað orðanna „1. og 2. tölul. 1. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1. og 2. tölul. 2. mgr.

    Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. júní 2010.Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.Guðmundur Steingrímsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Ásbjörn Óttarsson.