Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 645. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1262  —  645. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rúnar Guðmundsson og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Barböru Ingu Albertsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpið er að meginstefnu til þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að tímabundnar heimildir sem innleiddar voru með lögum nr. 134/2008 til að leggja höft á fjármagnsflutninga verði framlengdar. Lagt er til í annan stað að felld verði brott heimild til að kæra synjun Seðlabanka Íslands um að veita undanþágu frá takmörkunum á fjármagnshreyfingum til efnahags- og viðskiptaráðherra. Í þriðja lagi er lagt til að rannsóknir og álagning stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim flytjist frá Fjármálaeftirlitinu til Seðlabanka Íslands og jafnframt að heimildir fyrir beitingu rannsóknarúrræða vegna brota á lögunum verði styrktar að teknu tilliti til fyrirmynda í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og, eftir atvikum, lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands töldu að sú tilfærsla verkefna sem lögð er til í frumvarpinu muni auka skilvirkni og hraða málsmeðferð við rannsókn umræddra brota. Ekki væri gert ráð fyrir að bankinn fengi framlag úr ríkissjóði til að sinna verkefninu.
    Áhyggjur komu fram af því að gjaldeyrishöft yrðu með hliðsjón af reynslu annarra þjóða lengur viðvarandi en áætlanir íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Einnig voru gerðar athugasemdir við að framlenging skv. 13. og 14. gr. frumvarpsins væri bundin við sama tímamark og samstarf stjórnvalda og sjóðsins.
    Nefndin tekur fram af þessu tilefni að við samþykkt laga nr. 134/2008 var miðað við að heimild Seðlabanka Íslands til að gefa út reglur um takmarkanir eða stöðvun fjármagnshreyfinga yrði bundin við tímabil samstarfsáætlunarinnar. Tímamörkin í 13. og 14. gr. frumvarpsins hafa ekki áhrif á lengd samstarfsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal gerir fyrirvara við álitið.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Lilja Mósesdóttir.



Birkir Jón Jónsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Þór Saari.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.