Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1285  —  255. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra, Ástríði Jóhannesdóttur og Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Lindu K. Björgvinsdóttur og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Gunnar Baldvinsson fyrir hönd Landssamtaka lífeyrissjóða, Stefán Árna Auðólfsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Eirík Svavarsson, Kristin Bjarnason og Steinunni Guðbjartsdóttur lögmenn, Perlu Ösp Ásgeirsdóttur og Stefán Þór Sigtryggsson frá Seðlabanka Íslands, Arnald Loftsson, Áslaugu Guðjónsdóttur, Guðjón Rúnarsson, Jóhann Tómas Sigurðsson, Jónu Björk Guðnadóttur og Ólaf Frímann Gunnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Benedikt Jóhannesson frá Talnakönnun hf., Eirík Elís Þorláksson, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Sigrúnu Helgadóttur fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og Harald Inga Birgisson og Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 komu fram margvíslegir gallar á gildandi lögum, nr. 98/1999. Með frumvarpinu verða teknar upp í íslenskan rétt eftirfarandi tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins: 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, 97/9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta og 2009/14/EB um breytingar á tilskipun um innlánatryggingakerfi. Síðastnefnda tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem eru tilkomnar vegna bankahrunsins.
    Þau ákvæði frumvarpsins sem fela í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipana EB eru 7. gr. um hvernig greiðsluskylda sjóðsins verður virk, 9. gr. um innra öryggi, 11. og 12. gr. um vanskil á greiðslu iðgjalds og greiðslufyrirkomulag, 13. gr. um útreikning á tryggðri innstæðu, 14. gr. um takmarkanir á tryggingavernd og 15. gr. um fresti. Ákvæði um verðbréfadeild sjóðsins eru 17., 19., 20., 21., 22. og 23. gr. Auk þess byggjast ákvæði 24. gr. um erlend útibú og 26. gr. um upplýsingagjöf til viðskiptamanna á tilskipunum sem Ísland hefur tekið upp um innstæðutryggingakerfi og bótakerfi fyrir fjárfesta.
    Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði ný deild í Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta, A-deild, sem taki við iðgjaldi frá innlánsstofnunum frá gildistöku laganna verði frumvarpið að lögum og mun þá núverandi innstæðudeild verða B-deild og að meginstefnu starfa samkvæmt gildandi lögum nr. 98/1999, sbr. ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið.
    Að lokinni reifun á helstu atriðum frumvarpsins verður fjallað um þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til.
    Markmiðum frumvarpsins er lýst í 1. gr. þar sem kemur fram að eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu eigi að veita lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Með lágmarksvernd er átt við að viðskiptavinur njóti tryggingar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins upp að vissu marki en þó þannig að viðkomandi geti ekki í öllum tilvikum búist við að geta fengið fullar efndir kröfu sinnar. Í frumvarpinu er í raun fallið frá því að kveða á um lámarkstryggingu og í staðinn kveðið á um hámarkstryggingu að jafnvirði 50.000 evra og að ekki sé hægt að gera frekari kröfur á sjóðinn. Heildarfjárhæð tryggðra innstæðna innstæðueiganda miðast við heildarfjárhæð hans í hlutaðeigandi innlánsstofnun.
    Í 2. gr. er hugtakið innstæða skilgreint og samræmist hún að mestu skilgreiningu fyrri málsliðar 3. mgr. 9. gr. gildandi laga. Leitast er við að skýra betur hvaða tegundir innlána falla undir hugtakið og njóta þar með verndar sjóðsins. Hnykkt er á þeim grundvallarsjónarmiðum að tryggingunni sé fyrst og fremst ætlað að veita neytendum tiltekna lágmarksvernd. Við umfjöllun um málið í nefndinni komu fram áhyggjur af því að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að innlán lífeyrissjóða væru tryggð en aðeins að því marki sem næmi hámarkstryggingunni, þ.e. 50 þús. evrum. Á bak við reikning sem væri skráður á nafn lífeyrissjóðs væru félagar sjóðsins sem gætu eðli máls samkvæmt ekki verið skráðir fyrir reikningunum persónulega. Svipuð vandamál eru uppi hvað varðar safnreikninga sem bankar og önnur fjármálafyrirtæki starfrækja til að halda utan um séreignarsparnað í eigu viðskiptamanna. Vegna þessa leggur nefndin til breytingu sem nánar verður gerð grein fyrir síðar í áliti þessu. Í 26. gr. er gert ráð fyrir því að innlánsstofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu upplýsi viðskiptamenn sína um innstæðutryggingar, þ.m.t. hvað sé undanskilið tryggingavernd o.fl. Ákvæðinu er ætlað að tryggja neytendavernd þannig að viðskiptamaður geti tekið upplýsta ákvörðun um val á þeim fjárfestingarkostum sem honum standa til boða hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta sjálfseignarstofnun. Starfsmenn sjóðsins og stjórnarmenn heyra ekki undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og sjóðurinn er ekki ríkisstofnun. Stjórn sjóðsins er skipuð af efnahags- og viðskiptaráðherra skv. 4. gr. og er henni heimilt að ráða framkvæmdastjóra eða semja við lögaðila um rekstur hans og vörslu. Með frumvarpinu er stjórnarmönnum fækkað úr sex í þrjá. Það er stefnubreyting frá gildandi lögum að stjórnarmenn séu ekki háðir þeim fyrirtækjum sem greiða iðgjöld til sjóðsins og skulu þeir því skv. 2. mgr. 4. gr. uppfylla óhæðis- og hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki. Í frumvarpinu er gerð tillaga um breytt fyrirkomulag á innheimtu iðgjalds, sbr. 10. gr. Gert er ráð fyrir að iðgjald greiðist ársfjórðungslega og að það miðist við bókfærða stöðu tryggðra innstæðna í lok næstliðins ársfjórðungs fyrir gjalddaga. Lagt er til að iðgjald á ársgrundvelli nemi sem svarar 0,3% af tryggðum innstæðum viðkomandi innlánsstofnunar. Þetta er talsverð hækkun þar sem fastagjaldið nú er 0,15%. Einnig er í frumvarpinu lagt til að innlánsstofnanir greiði viðbótariðgjald vegna tiltekinna áhættuþátta. Nefndin leggur til breytingar á 10. gr. sem nánar verður gerð grein fyrir síðar en með tillögum um breytingar á iðgjaldinu er markmiðið að iðgjöld til sjóðsins endurspegli sem best þá áhættu sem til staðar er hverju sinni.
    Í 27. gr. er mælt fyrir um að stjórn sjóðsins ákveði fjárfestingarstefnu hans og að ávöxtun á fé sjóðsins skuli miðast við að hann geti sem best sinnt hlutverki sínu. Í þessu sambandi er vert að árétta meginmarkmið frumvarpsins um vernd hagsmuna neytenda. Fjárfestingarstefnan skal kynnt á ársfundi en rétt til setu á honum eru fulltrúar innlánsstofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem greiða iðgjöld til sjóðsins, fulltrúar hagsmunasamtaka þeirra, fulltrúar hagsmunasamtaka viðskiptamanna þeirra og einnig fulltrúar opinberra aðila. Fundurinn skal auglýstur opinberlega og gefst því þeim sem sækja fundinn kostur á að gera athugasemdir við fjárfestingarstefnuna. Fjárfestingarstefna sjóðsins þarf að vera sveigjanleg og í sífelldri endurskoðun og því óheppilegt að fastsetja ákvæði um hana í lögum. Hún verður m.a. að taka mið af þeim innstæðum sem eru í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Þá verður sjóðurinn að geta innleyst eignir á tiltölulega skömmum tíma án þess að það hafi of mikil markaðsáhrif og geta fjárfest erlendis þar sem markaðir eru virkari og stærri. Í gildandi reglugerð um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 120/2000, segir að ávöxtun á fé sjóðsins skuli miðuð við að sjóðurinn verði sem hæfastur til að gegna hlutverki sínu og að lágmarki fjórðungur af fé sjóðsins skuli bundinn í verðbréfum með ábyrgð ríkissjóðs. Í dönskum lögum um sama efni segir að kveðið skuli á um fjárfestingarstefnu sjóðsins í samþykktum hans. Hvorki er kveðið á um fjárfestingarstefnu tryggingarsjóðs innstæðueigenda í norskri löggjöf né í þeirri sænsku.
    Á grundvelli 33. gr. laga um fjármálafyrirtæki getur fjármálafyrirtæki með staðfestu í ríki utan EES-svæðisins fengið heimild Fjármálaeftirlitsins til að opna útibú hér á landi eða veita þjónustu hér án stofnunar útibús. Skv. 24. gr. frumvarpsins skulu útibú innlánsstofnana eða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem starfa hér á landi en hafa staðfestu í ríki sem er ekki aðildarríki greiða iðgjald til sjóðsins vegna innstæðna, verðbréfa og reiðufjár sem nýtur ekki tryggingar sambærilegs tryggingakerfis í heimaríkinu. Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að gera slíkum útibúum að setja frekari tryggingar fyrir því að þau geti staðið við þær skuldbindingar sem felast í frumvarpinu. Ákvæðið byggist á tilskipunum EB. Innstæður í útibúi viðkomandi fjármálafyrirtækis (þ.e. fyrirtækis utan EES) hér á landi munu því njóta verndar tryggingarsjóðs ef til greiðsluskyldu kemur og ræðst þá neytendavernd innstæðueigenda hér á landi ekki af fyrirkomulagi innstæðutryggingar í heimaríki viðkomandi innlánsstofnunar. Fjármálaeftirlitið getur á grundvelli 34. gr. laga um fjármálafyrirtæki gripið til úrræða vegna starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja. Skv. 1. mgr. greinarinnar getur eftirlitið t.d. bannað slíku fjármálafyrirtæki að stunda hér starfsemi hafi það brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lögð er til breyting á 2. gr. til nánari skýringar á því hvaða aðilar greiða iðgjald til sjóðsins. Sömuleiðis er lagt til að skilgreining á hugtakinu lykilstjórnandi í 8. tölul. falli brott vegna breytinga sem eru lagðar eru til á 14. og 22. gr. Með vísan til þess sem að framan er lýst um séreignarsparnað leggur nefndin til að sjóðurinn tryggi innstæður á safnreikningum vegna séreignarsparnaðar hvort sem vörsluaðili er lífeyrissjóður eða fjármálafyrirtæki. Nefndin leggur til nokkrar breytingar til að tryggja framangreint, t.d. er lagt til að við skilgreiningu á hugtakinu innstæðu í 2. gr. verði bætt að um geti verið að ræða hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Jafnframt er lagt til að við 2. gr. bætist tveir nýjir töluliðir þar sem skilgreint er annars vegar hvað felst í hugtakinu „vörsluaðili lífeyrissparnaðar“ og hins vegar „innlánsleið vörsluaðila lífeyrissparnaðar“. Vegna þessa eru lagðar til nokkrar afleiddar breytingar á frumvarpinu. Einnig er lögð til sú breyting á 2. gr. að lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, peningamarkaðsinnlán, heildsöluinnlán og safnreikningar teljist ekki til innstæðna samkvæmt frumvarpinu. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er tilgangur þess og tilskipunar um innstæðutryggingar fyrst og fremst sá að veita innstæðueigendum ákveðna tryggingavernd fari svo að innlánsstofnun geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hér er leitast við að afmarka með skýrum hætti hvaða fjármálaafurðir njóti umræddrar verndar og teljist þar með til innstæðna í skilningi frumvarpsins. Frumvarpið mun hins vegar ekki leysa allan ágreining um túlkun á því hvaða fjármálaafurðir teljist eða geti talist til innlána. Peningamarkaðsinnlán hafa fyrst og fremst gegnt hlutverki fjárfestingarvalkosts fyrir stærri fjárfesta og fjármálafyrirtækin hafa nýtt þessar afurðir til fjármögnunar. Ljóst er að áhöld eru um það hvort peningamarkaðsinnlán og heildsöluinnlán teljist til innlána. Í frumvarpinu er ekki tekin afstaða til þess ágreinings en hins vegar er tekið fram að umræddar fjármálaafurðir skuli ekki telja til innstæðna í skilningi frumvarpsins og njóti því ekki verndar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þar með geta umræddar afurðir heldur ekki talist til forgangskrafna í þrotabú með sama hætti og almenn innlán gera skv. 12. gr. frumvarpsins. Í þessu sambandi verður að líta til þátta eins og tilgangs tryggingakerfisins, stærðar innlána og afleiðinga þess ef öllum fjármálaafurðum sem að einhverju leyti mætti líkja til innlána yrði veitt sú grundvallarvernd sem er lögð til með frumvarpinu. Því hefur verið haldið fram í þessu samhengi að með því að undanskilja peningamarkaðsinnlán tryggingavernd sé staðfest að neyðarlögin nr. 125/2008 hafi verið framkvæmd rangt þegar peningamarkaðsinnlán annarra en fjármálafyrirtækja voru flutt yfir í nýju bankana sem innstæður. Því er til að svara að frumvarpið mun ekki hafa afturvirk áhrif að þessu leyti og engin afstaða er tekin til fortíðarinnar þótt í frumvarpinu sé tekið af skarið um tryggingavernd innstæðna framtíðarinnar. Einnig má benda á að við flutning innlána yfir í nýju bankanna var ekki í öllum tilfellum litið á peningamarkaðsinnlán sem innstæður. Einnig hefur verið bent á að þessi aðgreining í frumvarpstextanum muni leiða til að peningamarkaðsinnlán teljist ekki til forgangskrafna og standi því aftar en innlán í kröfuröð við gjaldþrot banka. Það mundi leiða til þess að helstu notendur umræddrar fjármálaafurðar, svo sem lífeyrissjóðir og stórir fjárfestar mundu frekar horfa til annarra fjárfestingarkosta, t.d. innlánsreikninga sem ekki væru eins hentugir fyrir þá. Rétt er að vekja aftur athygli á tilgangi frumvarpsins og innstæðutrygginga almennt séð, þ.e. að vernda sparifé almennings en ekki stofnanafjárfesta. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið standa peningamarkaðsinnlán almennum sparifjáreiganda hreinlega ekki til boða þar sem ákveðin skilyrði eru um lágmarksstærð slíkrar fjárfestingar og verður því þegar af þeirri ástæðu að hafna því að rétt sé að veita peningamarkaðsinnlánum tryggingavernd samkvæmt löggjöf um innstæðutryggingakerfi.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 4. gr. um að í stað þess að ráðherra skipi alla þrjá stjórnarmenn án tilnefningar skuli einn stjórnarmaður tilnefndur af Seðlabanka Íslands. Að gefnu tilefni áréttar meiri hlutinn að sá einstaklingur sem er tilnefndur af Seðlabanka Íslands tekur sæti í stjórninni sem fulltrúi bankans. Því verða tveir stjórnarmenn skipaðir án tilnefningar en einn af Seðlabanka Íslands. Vert er að benda á að hæfisskilyrði stjórnarmanna eru mjög ströng eins og kemur fram í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins og er þar um að ræða umfangsmikla breytingu frá skilyrðum gildandi laga.
    Einnig er lögð til breyting á 6. gr. Í 3. mgr. hennar er mælt fyrir um að rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af eignum hans. Lögð er til viðbót við málsgreinina þess efnis að kostnaður við rekstur sjóðsins greiðist af eignum hans í samræmi við hlutfall hverrar deildar í heildarkostnaði. Slíku fyrirkomulagi er ætlað að tryggja að hver deild standi undir þeim kostnaði sem stafar af henni og þannig muni t.d. ekki koma til þess að A-deild þurfi að bera kostnað af rekstri B-deildar. Þetta fyrirkomulag kemur einnig fram í 1. mgr. greinarinnar þar sem mælt er fyrir um að deildir sjóðsins hafi aðskilinn fjárhag og reikningshald og beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.
    Meiri hlutinn leggur til lagfæringu á 1. mgr. 7. gr. Annars vegar er um að ræða orðalagsbreytingu þar sem í 12. gr. er hvorki mælt fyrir um lágmarks- né hámarksfjárhæð heldur miðast verndin við tiltekna fjárhæð. Þar sem að í 1. mgr. 7. gr. er vísað til lágmarksverndar mætti draga þá ályktun að vernd kunni að vera umfram þá fjárhæð sem er tilgreind í 12. gr. Hins vegar er lögð til lagfæring á tilvísun þar sem ranglega er vísað til 13. gr. en á að vera 12. gr.
    Þá eru lagðar til breytingar á 10. gr. sem fela í sér talsverðar breytingar á útreikningi iðgjalda. Lagt er til að ákvæði um iðgjaldagreiðslur verði einfaldað nokkuð frá því sem fram kemur í frumvarpinu, auk þess sem kveðið er á um viðbótariðgjald sem reiknast út frá áhættustuðli hverrar innlánsstofnunar. Með tillögum um breytta 2. mgr. leggur meiri hlutinn til að almennt iðgjald skuli nema á ársgrundvelli sem svari 1% allra innstæðna sem njóta tryggingaverndar hjá viðkomandi innlánsstofnun en í frumvarpinu er hlutfallið 0,3% af tryggðum innstæðum. Álagningargrundvöllur iðgjalds er heildarfjárhæð allra innstæðna að undanskildum þeim sem njóta ekki tryggingaverndar sjóðsins skv. 14. gr. frumvarpsins. Vakin er athygli á því að nú er lagt til að Fjármálaeftirlitið, en ekki Tryggingasjóður innstæðueigenda, reikni út áhættustuðul innlánsstofnana. Aðrar breytingar á 10. gr. leiða í raun af umræddum breytingum á útreikningi iðgjaldsins. Jafnframt leggur nefndin til að gjalddagar iðgjalds í tryggingarsjóð verði færðir til um einn mánuð. Breytingar þessar leiða til nokkurra annarra breytinga á ákvæðum greinarinnar sem skýra sig sjálfar.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á 12. gr. þar sem fjallað er um greiðslur úr A-deild sjóðsins, þ.e. greiðslur til innstæðueigenda. Lagt er til að í stað fjárhæðarinnar 50.000 evrur (EUR) verði vísað til 100.000 evra (EUR) en nefndin leggur þó til að í ákvæði til bráðabirgða verði miðað við 50.000 evrur (EUR) út árið 2010. Öðrum breytingum sem eru lagðar til er ætlað að skýra fyrirkomulagið nánar við greiðslur úr sjóðnum, framsal krafna og forgang. Hér er einnig kveðið á um greiðslur til rétthafa í innlánsleið vörsluaðila lífeyrissparnaðar. Ástæða þessa er sú að ekki þótti sanngjarnt að þeir sem hefðu safnað séreignarlífeyrissparnaði samkvæmt lögum þar um og ættu hlutdeild í safnreikningum hjá innlánsstofnun sem eingöngu fjárfesti lífeyrissparnað í bundnum innlánum, nytu ekki verndar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, á sama hátt og þeir viðskiptavinir sem söfnuðu séreignarsparnaði á sambærilegan reikning á eigin nafni. Litið er svo á að form reikningsins eigi ekki að ráða úrslitum um tryggingarvernd viðkomandi innstæðueiganda, svo framarlega sem í báðum tilvikum sé um að ræða söfnun á bundinn innlánsreikning samkvæmt fjárfestingarstefnu vörsluaðila. Í 4. mgr. er kveðið á um að innstæður samkvæmt lögunum teljist til forgangskrafna skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Litið er svo á að kröfur innstæðueigenda og kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta njóti sama forgangs í þrotabú þar sem um sambærilegar og samkynja kröfur er að ræða. Af því leiðir að framhaldskrafa innstæðueiganda umfram það sem hann fékk bætt frá tryggingasjóðnum og endurkrafa sjóðsins vegna þeirra krafna sem hann fékk framseldar frá innstæðueigendum teljast jafnréttháar. Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur gert athugasemd við þetta sjónarmið en hér er litið svo á að það skipti ekki höfuðmáli hver sé handhafi eða eigandi viðkomandi kröfu. Í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. ræður tegund krafna forgangi þeirra en ekki hver er rétthafi kröfu.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á 14. gr. og 22. gr. sem fjalla um takmarkanir að tryggingavernd. Lagt er til að í 1. tölul. beggja greinanna verði til skýringar tilgreint að átt sé við innstæður (14. gr.) og verðbréf og reiðufé (22. gr.) í eigu fjármálafyrirtækja en ekki í eigu annaðhvort innlánsstofnunar (14. gr.) eða verðbréfafyrirtækis (22. gr.). Jafnframt er lagt til að 6. og 7. tölul. greinanna falli brott. Fram komu sjónarmið um það í nefndinni að kostnaðarsamt yrði að aðgreina þá einstaklinga sem eiga að njóta tryggingaverndar og þá sem eiga ekki að njóta hennar. Slíkt mundi kalla á umfangsmiklar breytingar á tölvukerfum og verkferlum. Að teknu tilliti til þessara ábendinga og eins hins hversu fámennur hópur er tilgreindur í 6. og 7. tölul. leggur nefndin til að töluliðirnir falli brott. Þá þykir rétt að taka af allan vafa um það að þótt innstæður ákveðinna aðila njóti ekki tryggingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta er með hliðsjón af 2. gr. frumvarpsins óumdeilt að um innstæður sé að ræða. Þær innstæður eru jafnréttháar og aðrar innstæður hvað varðar forgang og kröfugerð í þrotabú innlánsstofnunar við slitameðferð hennar. Að öðrum kosti yrði verulega vegið að réttarstöðu innstæðna almennt séð en ljóst er að margir þeirra aðila sem eru undanþegnir tryggingarvernd 1. mgr. 14. gr. eiga ekki aðra kosti en að ávaxta fé sitt á innlánsreikningum og óeðlilegt væri að þeir nytu ekki sama forgangs í þrotabú og aðrir innstæðueigendur.
    Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á orðalagi 2. mgr. 19. gr. til skýringar en svo virtist sem orðalagið í frumvarpinu mætti misskilja á þann veg að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu gætu misst starfsleyfi sitt á grundvelli laganna. Svo er ekki og leggur nefndin því til breytt orðalag.
    Þá er lögð til breyting á 24. gr. um að sjóðnum fremur en Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að gera útibúum innlánsstofnana eða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sem hafa staðfestu í ríki sem er ekki aðildarríki, að setja frekari tryggingar fyrir því að þau geti staðið við skuldbindingar sínar. Sjóðurinn kann að vera í betri aðstöðu en Fjármálaeftirlitið til að leggja nauðsynlegt mat á umrædd fyrirtæki en til grundvallar ákvörðun um að slík stofnun setji frekari tryggingu fyrir því að hún geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögunum verður að liggja mat á viðkomandi stofnun.
    Jafnframt leggur nefndin til að ákvæði 26. gr. um upplýsingagjöf verði ítarlegra. Lagt er til að 1. og 2. mgr. verði sameinaðar og sérstaklega tekið fram að tilgreina eigi fjárhæð tryggingar og að slíkar upplýsingar skuli veita viðskiptamanni við upphaf viðskipta.
    Lögð er til sú breyting á gildistökugrein að frumvarpið öðlist gildi 1. júlí nk. en jafnframt er lögð til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða I að ráðherra geti þó skipað stjórn sjóðsins fyrir þann tíma. Þá eru lagðar til aðrar breytingar á ákvæðum til bráðabirgða sem varða lagaskil, framlengingu á líftíma Tryggingarsjóðs sparisjóðanna út árið 2010 og gildistíma ábyrgðaryfirlýsingar. Þá leggur nefndin til að tvö ný ákvæði til bráðabirgða bætist við frumvarpið, annars vegar um að tryggingaverndin nemi 50.000 evrum (EUR) til 31. desember 2010 og hins vegar að við frumvarpið bætist ákvæði um að lögin skuli endurskoðuð innan tveggja ára.
    Í frumvarpinu er ekki kveðið á með beinum hætti um mynt iðgjaldagreiðslna til sjóðsins en það leiðir af ákvæðum 7. mgr. 12. gr. að greiðsla til innstæðueiganda sem átti innlánsreikning í erlendri mynt skuli vera í þeirri mynt. Þá er kveðið á um að eigi sjóðurinn ekki fyrir útborgun sinni í þeirri mynt skuli greitt í íslenskum krónum það sem vantar upp á. Unnt er að takmarka gengisáhættu sjóðsins með því að tilgreina að við iðgjaldaútreikning og greiðslu iðgjalds skuli umreikna í íslenskar krónur þær fjárhæðir sem á að greiða til sjóðsins vegna erlendra reikninga á gengi þess dags þegar iðgjaldið er greitt. Þá þarf jafnframt að taka fram að greiðslur úr sjóðnum til rétthafa verði undantekningarlaust í íslenskum krónum. Með slíku fyrirkomulagi er gengisáhættan færð frá sjóðnum yfir á innstæðueiganda.
    Á vegum vinnunefndar hjá Evrópusambandinu er unnið að endurskoðun innstæðutryggingakerfisins og er almennt miðað við að innstæðutryggingakerfi teljist fjármögnuð á fullnægjandi hátt þegar þau ráða yfir handbæru fé sem nemur tæpum 2% af heildarupphæð tryggðra innstæðna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sambærilegt hlutfall verði 4%. Tryggingafræðilegar líkur á því að innstæðutryggingakerfið íslenska geti staðið við skuldbindingar sínar þegar sjóðsmyndun hefur náð 4% af tryggðum innstæðum eru því töluvert hærri en það sem aðrir telja fullnægjandi. Frumvarpið gerir ráð fyrir óvenjuhraðri sjóðsmyndun og einnig er gengið frá því í frumvarpinu að sjóðurinn geti aflað sér lánsfjár. Ekki er því nauðsynlegt að hann hafi yfir að ráða handbæru fé til þess að geta mætt stóráföllum. Miðað við lögbundið tekjuinnstreymi sem leiðir af innheimtu iðgjalda, sem er unnt að veðsetja, ættu möguleikar sjóðsins til lántöku að vera góðir, hvort sem hann nyti ríkisábyrgðar eður ei við slíka lántöku.
    Fyrir nefndinni liggur frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki en þar eru lagðar til þrengdar hæfisreglur auk þess sem möguleikar aðila í nánum tengslum til að stunda viðskipti sín milli eru þrengdir. Jafnframt er skerpt á möguleikum Fjármálaeftirlitsins til að gripa inn í rekstur fjármálafyrirtækja og hafa eftirlit með þeim.
    Bæði á fundum og í umsögnum sem nefndinni bárust var bent á að eðlilegt væri að kveða á um það í sjálfum frumvarpstextanum að fjárskuldbindingar sjóðsins nytu ekki ábyrgðar ríkisins. Meiri hlutinn bendir á að sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og ekki í eigu ríkisins. Tryggingarsjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar enda er ekki tekið fram að svo sé.
    Ríkisstjórnin lýsti því yfir 9. desember 2009 að yfirlýsing hennar frá 3. febrúar 2009 væri enn í fullu gildi, þ.e. að allar innstæður í innlendum bönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru tryggðar. Fram kom að yfirlýsingin yrði ekki dregin til baka fyrr nýtt íslenskt fjármálakerfi, með breyttri umgjörð, hefði sannað sig og þá yrði gefinn aðlögunartími. Með frumvarpinu er tryggingaverndin aukin og hækkun iðgjaldagreiðslna í sjóðinn flýtir sjóðsmyndun. Því má gera ráð fyrir að ekki verði þörf á viðbótarábyrgð í náinni framtíð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. júní 2010.Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Björn Valur Gíslason.Mörður Árnason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.