Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1288  —  343. mál.
1. minni hluti.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta viðskiptanefndar.    Nefndin hefur farið vel yfir málið og unnið mikið og gott starf síðustu mánuði. Gott samstarf hefur verið meðal nefndarmanna um málið og styður 1. minni hluti þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur lagt fram en mundi engu að síður vilja ganga enn lengra.
    Fyrsti minni hluti hefur nokkrar áhyggjur af störfum fjármálaeftirlitsins en verði frumvarpið samþykkt mun það leggja auknar kröfur á herðar þess án þess að eftirlitið hafi verið styrkt svo að það geti sinnt þessum auknu skyldum.
    Meginathugasemdir 1. minni hluta lúta þó að því að ekki er skilið á milli fjárfestingarbanka (lánafyrirtækja) og viðskiptabanka. Í kjölfar hrunsins hefur farið fram mikil umræða um slíkan aðskilnað á heimsvísu og er hann nú m.a. til umfjöllunar í bandaríska þinginu. Þegar fjárfestingarbanki og viðskiptabanki eru reknir í sama fyrirtækinu án aðskilnaðar eru í raun innlán almennings lánuð eða veðsett í áhættusömum viðskiptum sem felast í starfsemi fjárfestingarbanka. Hvergi hefur þetta verið skýrara en í Icesave-málinu svokallaða þar sem Landsbankinn safnaði innlánum í milljarðavís frá almenningi í Bretlandi og Hollandi og lánaði vildarvinum og eigendum bankans í áhættusamar fjárfestingar.
    Fyrir þinginu er einnig lagafrumvarp um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta (mál 255). Í vinnu nefndarinnar við það mál hefur komið fram að Evrópusambandið hyggst hækka þá fjárhæð sem tryggð er upp í 100.000 evrur frá næstu áramótum og er orðalag tilskipunarinnar mun ákveðnara um að ríkjum beri skylda til að tryggja að allar innstæður séu í raun tryggðar. Ekki er hægt að skilja tilskipunina öðru vísi en svo að í raun sé ríkisábyrgð á innstæðum í bönkum. Auk þess hefur það sýnt sig að ríki, meðal annars það íslenska, hafa tilhneigingu til að hlaupa undir bagga með bönkum sem riða til falls eða með því að ábyrgjast allar innstæður eins og íslenska ríkið gerði við fall íslenska bankakerfisins og Bretland og Holland gerðu þar en krefjast svo greiðslu frá tómum innstæðutryggingarsjóði. Ljóst er að ný deild í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta mun ekki geta mætt falli eins af stóru íslensku viðskiptabönkunum næstu hundrað árin eða svo og því mundi fall slíks banka, svo ekki sé minnst á heilt bankakerfi, lenda á skattgreiðendum. 1. minni hluta finnst því í meira lagi óábyrgt að heimila fjármálafyrirtæki að starfa bæði sem viðskiptabanki og lánafyrirtæki (fjárfestingarbanki) og leggur til að það verði óheimilt. Þar sem slíkt fyrirkomulag er nú heimilt er ljóst að gefa þyrfti tímafrest til að koma slíkum breytingum á.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:     1.      Á eftir 5. gr. komi ný grein sem orðist svo:
                      Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fjármálafyrirtæki getur ekki fengið starfsleyfi bæði sem viðskiptabanki og lánafyrirtæki (fjárfestingarbanki).
     2.      Við 55. gr. bætist: nema 6. gr. sem öðlast gildi 1. júlí 2011.

Alþingi, 9. júní 2010.Margrét Tryggvadóttir.