Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 663. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1294  —  663. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunarum samvinnuráð um þjóðarsátt.

Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson,
Höskuldur Þórhallsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að koma á fót samvinnuráði, vettvangi stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, til að ræða og leita leiða í anda þjóðarsáttar til langtímastyrkingar atvinnuvega landsins og efnahags þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu sitji fulltrúar allra þingflokka, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands. Ráðið leggi tillögur fyrir forsætisráðherra eigi síðar en 31. desember 2010 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög ef þörf krefur. Markmið ráðsins verði eftirfarandi:
     1.      Almenn skuldaleiðrétting, með jafnræði, réttlæti og hagkvæmni að leiðarljósi, sem gagnist öllum.
     2.      Lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.
     3.      Trygging stöðugs verðlags.
     4.      Atvinnuskapandi framkvæmdir.
     5.      Jöfnun áhættu í skiptum lánveitenda og lántaka.
     6.      Stytting fyrningarfresta krafna eftir gjaldþrot.
     7.      Jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.
     8.      Sköpun stöðugleika og festu í rekstri ríkisins.
     9.      Gerð langtímaáætlana um útgjöld ríkisins.
     10.      Endurskipulagning ríkisfjármála og endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Greinargerð.


    Íslenskum stjórnmálaflokkum hefur ekki tekist að vinna saman að úrlausn þeirra vandamála sem steðja að íslensku samfélagi, jafnvel þótt mörg þeirra vandamála varði grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Allar forsendur eru til staðar fyrir bjartri framtíð þrátt fyrir þann vanda sem steðjar að íslenskum heimilum, atvinnulífi og þjóðarbúi en einungis ef stöðugleiki er skapaður, gripið sé til aðgerða og ráðist í ýmis verkefni svo að heimilin og atvinnulífið geti byggt framtíð sína á traustum grunni. Ákveðinnar stöðnunar gætir nú í stjórnmálum og er þingsályktunartillögu þessari ætlað að höggva á þann hnút sem myndast hefur og skapa grundvöll fyrir samvinnu sem nauðsynleg er til að ná árangri við úrlausn vandamála. Því er lagt til að allir flokkar á Alþingi sammælist um að fela forsætisráðherra að koma á fót samvinnuráði sem leiti leiða til að styrkja atvinnuvegi landsins og efnahag þjóðarinnar til frambúðar í anda þjóðarsáttar. Lagt er til að í ráðinu sitji fulltrúar allra þingflokka ásamt fulltrúm atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands. Reynslan hefur sýnt að samstarf og samvinna er lykilatriði til að ná árangri við úrlausn vandamála og til að mynda náðist strax mikill árangur við úrlausn Icesave-deilunnar þegar loks var fallist á samstarf allra flokka um lausn í því erfiða máli. Slíkt samstarf hafði Framsóknarflokkurinn lagt til frá því í tíð minnihlutastjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Þingsályktunartillagan byggist á tillögum þingflokks framsóknarmanna að aðgerðum til endurreisnar íslensks efnahagslífs í samvinnu stjórnmálaflokka sem gefnar voru út í mars 2010 undir fyrirsögninni Þjóðarsátt 2010 samstaða um endurreisn. Þar er lögð áhersla á að allir flokkar á Alþingi vinni saman og sammælist um afdráttarlausar aðgerðir í þágu íslenskra heimila og atvinnulífs.

1. Almenn skuldaleiðrétting.
     Almenn viðurkenning: Nauðsyn þess að ráðist verði í leiðréttingu skulda er nú orðin flestum ljós. Þau rök sem framsóknarmenn færðu fyrir mikilvægi skuldaleiðréttingar hafa nú fengið mikinn hljómgrunn og flest af því sem þar var lagt til grundvallar komið á daginn. Til að mynda hefur verið staðfest að lán heimila og fyrirtækja voru færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju á miklum afslætti. Þingmenn úr öllum flokkum hafa nú tekið undir að sanngjarnt og eðlilegt sé að þær afskriftir verði að verulegu leyti látnar ganga áfram til lántakenda.
    Jafnræði: Ókostir og óréttlæti þess að beita eingöngu sértækum skuldaleiðréttingum hefur jafnframt sannast rækilega síðastliðið ár. Þannig hefur komið á daginn að mikill misskilningur var í því fólginn að almenn skuldaleiðrétting (þar sem öll lán eru leiðrétt fyrir áhrifum hins óeðlilega og ófyrirsjáanlega verðbólguskots) fæli einkum í sér fyrirgreiðslu til þeirra sem fóru óvarlega. Þvert á móti hafa þær sértæku aðgerðir sem ráðist hefur verið í einkum falið í sér afskrift skulda hjá þeim sem mest höfðu umleikis á meðan almenningur hefur fengið litla eftirgjöf.
     Réttlæti: Með almennri skuldaleiðréttingu er réttlæti aðgerðarinnar augljóst enda eru lán allra færð aftur í þá upphæð sem þau hefðu staðið í ef ekki hefði komið til sá forsendubrestur sem fólst í falli gjaldmiðilsins og verðbólguskoti.
     Hagkvæmni: Hagkvæmnin felst í því að skuldaleiðréttingin eyðir kröfum sem bættust við eðlilegar lánsfjárhæðir og voru þannig úr samræmi við áætlanirnar sem lántakan byggðist á. Slíkar skuldir valda skekkju í hagkerfinu og draga úr virkni þess. Óeðlileg hækkun lána skekkir eðlilegt samband lántaka og lánveitanda og tekur í raun úr umferð fjármagn sem ætti að vera laust í hagkerfinu. Það dregur úr verslun og viðskiptum og ýtir undir gjaldþrot (og veldur þar með lánveitandanum tjóni). Losni um þetta fjármagn eykur það veltu og snýr ofan af spíral eignarýrnunar, gjaldþrota og atvinnuleysis. Með því verða heimtur á endanum betri. Það er allra hagur að afskrifa skuldir sem aldrei var innstæða fyrir.
     Eigið fé: Flóknar og ólíkar afskriftaaðferðir hafa iðulega vakið spurningar um jafnræði auk þess sem hagkvæmni slíkra aðgerða er oft mjög á reiki. Margar þeirra aðferða sem verið hafa til umræðu eða í framkvæmd fela í sér eyðingu eigin fjár enda sitja þeir sem settu eigið fé í fjárfestingar ekki við sama borð og þeir sem fjármögnuðu kaup að mestu eða öllu leyti með lánum. Það að eyða þannig eigin fé millitekjufólks felur í sér afar óæskilega þjóðfélagsbreytingu.
     Skattamál: Með almennri aðgerð til skuldaleiðréttingar má jafnframt komast hjá álitamálum sem ella vakna um skattlagningu afskrifta, enda augljóslega ekki tilefni til að skattleggja það sem aðeins er eðlileg leiðrétting.
     Samstarf: Ljóst má vera að það er orðið mun flóknara að hrinda skuldaleiðréttingu í framkvæmd en það var þegar framsóknarmenn lögðu til að sú leið yrði farin. Enn má þó finna leiðir til að koma á réttlæti og hagkvæmni við leiðréttingu skulda. Lagt er til að samvinnuráðið geri tillögur um framkvæmd almennrar skuldaleiðréttingar þar sem gengið er út frá því að sú hækkun sem varð á lánum vegna forsendubrests gangi til baka.

2. Vaxtalækkun.
    Hið háa vaxtastig Seðlabankans er afar óheppilegt við núverandi aðstæður og illskiljanlegt. Ljóst er að heimili og fyrirtæki standa ekki undir svo háum vöxtum.
    Vaxtastigið er einkum til þess ætlað að halda aftur af verðbólgu og verja gengi krónunnar. Samtök atvinnulífsins og fjöldi hagfræðinga hefur hins vegar fært fyrir því rök að í raun hafi vaxtastefnan þveröfug áhrif við núverandi aðstæður. Mikið af vaxtagreiðslunum rennur enda til erlendra eigenda krónubréfa. Á sama tíma og lönd um allan heim hafa fært stýrivexti nálægt 0% er heimsins hæstu vöxtum viðhaldið á Íslandi, landi sem þarf á því að halda umfram önnur lönd að koma efnahagslífinu á skrið.
    Hátt á annað þúsund milljarða króna liggja nú á reikningum í íslenskum bönkum á sama tíma og bráðnauðsynlegt er fyrir efnahagslífið að fá endurfjármögnun og auka við fjárfestingu og neyslu svo að skapa megi fleiri atvinnutækifæri.
    Við bætist beinn kostnaður ríkisins af því að greiða bönkum vexti fyrir að geyma fjármagn í Seðlabankanum. Þannig er ríkið að greiða háar upphæðir fyrir að halda fjármagni úr vinnu.
    Óhjákvæmilegt er að endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans og þær aðferðir sem þar eru notaðar við ákvarðanatöku. Sjálfstæði bankans var varpað fyrir róða í kjölfar efnahagshrunsins auk þess sem sú stefna sem nú er rekin í peningamálastjórnun bankans er á margan hátt pólitísk. Ómögulegt er að láta þetta ástand óátalið í ljósi þess að vaxtastigið hefur áhrif á flestar aðrar aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Alþingi ætti því að sammælast um breytingar á peningamálastefnu og vaxtastigi Seðlabankans. Eðlilegt er að vextir á Íslandi séu ekki meira en þremur prósentustigum hærri en hjá evrópska seðlabankanum.

3. Stöðugt verðlag.
    Mikilægt er að ná sátt milli löggjafans, framkvæmdarvaldsins og aðila vinnumarkaðarins um að haldið verði aftur af verðhækkunum. Þar getur ríkið verið leiðandi með því að hækka ekki gjöld og neysluskatta. Slíkar hækkanir lyfta enda vísitölu neysluverðs og bæta þannig við höfuðstól verðtryggðra lána.
    Í ljósi þess hversu hratt hefur dregið úr kaupmætti er mikilvægt að sporna við áframhaldandi verðhækkunum. Það að hækka skatta á neysluvörur er auk þess þjóðhagslega óhagkvæmt þegar nauðsynlegt er að leita allra leiða til að auka neyslu. Efnahagsleg óhagkvæmni verðhækkana felst einnig í því að þegar höfuðstóll lána heimila og fyrirtækja hækkar eykst fjárstreymi frá íslenskum almenningi til banka sem að mestu leyti eru í eigu erlendra kröfuhafa. Það má því gera ráð fyrir að verðbólguáhrif leiði til aukins útstreymis úr hagkerfinu.

4. Framkvæmdir strax.
    Langt er um liðið síðan ríkisstjórnin hét því að beita sér fyrir mannaflsfrekum framkvæmdum. Lítið hefur farið fyrir þeirri atvinnusköpun til þessa. Á sama tíma hefur fjölmörgum atvinnuskapandi verkefnum einkaaðila verið haldið í þarflausri biðstöðu um margra mánaða skeið. Mikilvægt er að ríkisvaldið liðki tafarlaust fyrir slíkum verkefnum og innleiði skattastefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim.

5. Áhættu skipt milli lánveitenda og lántaka (verðtrygging og ábyrgðir).
    Fyrir fáeinum áratugum var áhætta vegna verðbólgu öll á hendi lánveitanda. Mikil verðbólga olli því að lánveitendur fengu ekki nema brot af útlánum sínum endurgreitt. Þetta breyttist með lögum um verðtryggingu en með þeim færðist áhættan af verðlagsþróun öll yfir á lántakann. Við bankahrunið varð almenningur fyrir verulegum skakkaföllum vegna áhrifa verðbólgu á höfuðstól lána.
    Hefðbundin íbúðalán eru flest með þeim skilmálum að lántaki tryggir endurgreiðslur með öllum eigum sínum vegna persónulegrar ábyrgðar. Við hrunið féll fasteignaverð á sama tíma og lánin hækkuðu umtalsvert, hvort sem um var að kenna verðtryggingu og hárri verðbólgu eða gengistryggingu og falli krónunnar. Þetta tjón hafa heimilin borið ein.
    Endurskoða þarf nauðungarsölulög, nr. 90/1991, þannig að þau taki mið af þeim aðstæðum sem uppi eru í kjölfar bankahrunsins. Meðal þess sem þarf að skoða er búseturéttur og ákvæði um lágmarksverð við nauðungarsölu.
    Núverandi löggjöf hvetur til áhættusækni hjá lánveitanda auk þess sem aðstöðumunur veldur því að gjarnan hallar á lántaka. Mikilvægt er að jafna þessa stöðu og nota það tækifæri sem nú gefst til að skapa raunhæfa fjármögnunarkosti án verðtryggingar.

6. Breyting fyrningarfresta krafna.
    Nú þegar veruleg fjölgun gjaldþrota virðist óumflýjanleg er mikilvægt að fyrningarlögum verði breytt með þeim hætti að ekki verði hægt að viðhalda kröfum á gjaldþrota einstaklinga endalaust. Æskilegt væri að gefa fólki færi á að byrja með hreint borð að þremur eða fjórum árum liðnum. Fyrningartími almennra krafna er til að mynda fjögur ár.
    Slík breyting er mikilvæg til að draga úr þeim harmi sem fylgir gjaldþroti og gefa fólki annað tækifæri. Auk þess væri breytingin líkleg til að leiða af sér ábyrgari útlánastarfsemi en ella.
    Loks er það grundvallaratriði að skuldir sem fást seint eða aldrei greiddar haldi ekki aftur af kröftugri endurreisn í samfélagi þar sem fjöldi gjaldþrota hefur riðið yfir. Mikilvægt er að nýta framtakssemi og starfskrafta duglegra og hugmyndaríkra einstaklinga við endurreisn efnahagslífsins. Nefna má að víða erlendis er alþekkt að frumkvöðlar sem stofna verðmæt fyrirtæki eða finna upp mikilvægar nýjungar hafa oft mátt þola persónulegt gjaldþrot áður en þeir náðu tilætluðum árangri.

7. Meðferð banka á rekstrarfélögum.
    Í kjölfar efnahagshrunsins fara fjármálastofnanir nú með eignarhluti í fjölmörgum rekstrarfélögum. Tryggja verður að fjármálastofnanir skekki ekki samkeppnisstöðu á markaði gagnvart þeim félögum sem áfram standa ein og óstudd.
    Í því skyni þarf að leiða viðmiðunarreglur í lög og kanna möguleika á borð við að setja hámarkstíma á hversu lengi bankar megi reka fyrirtæki. Einnig gæti reynst nauðsynlegt að gera kröfu um arðsemi og jákvætt eigið fé hjá félögum sem eru á forræði bankastofnana.

8. Að nýta sérfræðiráðgjöf og skapa stöðugleika í stjórnsýslunni.
    Það er mikilvægt fyrir Ísland að erlendir fjárfestar öðlist trú á jákvæðri þróun íslensks efnahagslífs. Þar er grundvallaratriði að skapa festu í stjórnsýslunni og eyða óvissu um efnahagsstöðu landsins og stefnu stjórnvalda, t.d. hvað varðar skatta og aðra þætti í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Í því efni og við lausn annarra vandamála sem þjóðin stendur frammi fyrir er mikilvægt að leitað verði aðstoðar færustu sérfræðinga á hverju sviði fremur en að leggja áherslu á að setja pólitíska samherja í áhrifastöður. Íslendingar þurfa nú að takast á við mörg úrlausnarefni sem þeir þekkja ekki af eigin reynslu. Það er því mikilvægt að stjórnvöld veigri sér ekki við að leita til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði. Fjölmargir erlendir fræðimenn og aðrir sérfræðingar hafa boðið Íslendingum aðstoð. Sumir eru með því að leita að verkefnum en aðrir líta á vandræði landsins sem áhugavert úrlausnarefni eða bera einfaldlega hag Íslendinga fyrir brjósti.
    Mikilvægt er að nýta sérfræðiþekkingu sem best. Það skapar trúverðugleika og eykur líkurnar á að teknar verði réttar ákvarðanir til lengri og skemmri tíma.

9. Gerð langtímaáætlunar í útgjöldum ríkisins (aðgreining fjárfestingar og rekstrar).
    Nauðsynlegt er að gera strax útfærða langtímaáætlun um útgjöld ríkisins og aðgreina rekstrarkostnað annars vegar og fjárfestingu hins vegar. Borið hefur á því að skorið hafi verið niður í fjárfestingum sem að öllum líkindum hefðu skilað meiri ávinningi en kostnaði til lengri tíma litið. Sem dæmi um slíkt má nefna framlög til kvikmyndagerðar en fyrir hverja krónu sem íslenska ríkið setur í stuðning við kvikmyndagerð skilar sér andvirði tveggja eða þriggja króna að utan í erlendri mynt. Augljóst er að slíkur niðurskurður felur ekki í sér raunverulega hagræðingu heldur þvert á móti. Það er því mikilvægt að þegar leitað er leiða til að spara sé kannað hvort um raunverulegan sparnað er að ræða eða hvort verið er að draga úr hagnaði til lengri tíma litið. Slíkt verður ekki gert nema með því að skoða heildaráhrif niðurskurðar eða fjárfestingar, aðgreina arðbæra fjárfestingu annars vegar og rekstrarkostnað hins vegar og gera áætlanir til langs tíma.
    Það sama getur átt við á hinn veginn, þ.e. að réttlætanlegt sé að ráðast í útgjöld nú skapi það ávöxtun eða sparnað til framtíðar.
    Löggjöf um skattlagningu og annað sem lýtur að atvinnurekstri þarf að miða að því að ýta undir nýfjárfestingu, vöruþróun og rannsóknir hjá fyrirtækjum. Afar brýnt er að þær aðgerðir sem ráðist er í til að vinna á efnahagsvandanum skapi jákvæða hvata í stað þess að veita aðeins úrræði fyrir þá sem þegar eru komnir í verulegar ógöngur.

10. Ríkisfjármál.
    Endurskoða þarf samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ljósi atburða og breyttra aðstæðna frá því að upphaflegur samningur var gerður við sjóðinn. Í því felst ekki að slitið verði samstarfi við sjóðinn án þess að fyrir liggi aðrar lausnir á þeim vanda sem ætlunin var að vinna á með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hins vegar er löngu orðið tímabært að leita annarra leiða til að leysa umrædd vandamál. Hætta er á að sú nálgun sem nú er unnið út frá geti gert illt verra. Verði t.d. komið upp gjaldeyrisforða fyrir lánsfé sem svo er notaður í að halda uppi gengi krónunnar til skamms tíma mun það reynast dýrkeypt. Um það vitna ótal dæmi frá öðrum löndum. Ógjörningur er að verja gengi gjaldmiðils með lánsfé.
    Leggja þarf áherslu á endurskipulagningu skulda fremur en nýjar lántökur. Ljóst þarf að vera hvernig farið verður með hugsanleg lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum og hvort raunveruleg þörf sé á lántökunni. Aðrar leiðir gætu reynst mun hagkvæmari.