Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1317  —  447. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Rúnarsson, Gunnar Viðar og Guðlaugu B. Ólafsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Svein Óskar Sigurðsson, Friðrik Ó. Friðriksson og Arinbjörn Sigurgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Umsagnir um málið bárust frá ASÍ, BSRB, Félagi atvinnurekenda, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, sýslumanninum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, tollstjóranum í Reykjavík og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til margvíslegar breytingar á lögum um aðför og lögum um gjaldþrotaskipti, m.a. að rýmkaðar verði heimildir til að gera árangurslaust fjárnám og einfalda ferli nauðasamninga. M.a. er lagt til að kveðið verði á um hvernig meta á að hvaða marki krafa sem tryggð er með veði teljist veðkrafa og að hvaða marki samningskrafa þegar veð hrekkur ekki til greiðslu kröfunnar að fullu. Þá er lagt til að hugtakið nákomnir í skilningi gjaldþrotaskiptalaga verði rýmkað þannig að það nái einnig til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri fyrirtækja. Einnig eru lagðar til breytingar sem koma í veg fyrir að skuldari geti á óeðlilegan hátt komið sér hjá gjaldþrotaskiptum með aðgerðaleysi. Þá er rýmkuð heimild til að láta erlenda ákvörðun um gjaldþrotaskipti eða nauðasamninga ná til eigna hér á landi þannig að hún sé ekki bundin við að gerður hafi verið alþjóðasamningur um slíkt.
    Nefndin fjallaði um helstu breytingar frumvarpsins.

Árangurslaust fjárnám.
    Nefndin fjallaði um breytinguna sem lögð er til í 1. gr. sem felur í sér að kröfuhöfum verði auðveldað að fá staðfestingu á að skuldari eigi ekki eignir sem unnt er að gera fjárnám í. Þannig verði komið í veg fyrir að skuldari geti með eigin aðgerðaleysi komið í veg fyrir að kröfuhafi geti gert árangurslaust fjárnám, sem getur m.a. verið undanfari gjaldþrotaskipta. Fyrir nefndinni kom fram að áskilnaður um viðveru gerðarþola eða málsvara til að fjárnámi verði lokið án árangurs hefur reynst mjög erfitt í framkvæmd og valdið miklum töfum á málsmeðferð í fjárnámsmálum hjá sýslumönnum landsins og mikill málafjöldi uppsafnaður. Hafi boðun reynst árangurslaus í fjölda tilvika hefur það neyðarúrræði verið nýtt að lögreglan færi skuldara nauðugan til fyrirtöku mála hjá sýslumanni. Nefndin tekur undir að þau úrræði eru nokkuð harkaleg fyrir skuldara en einnig tímafrek og kostnaðarsöm fyrir sýslumannsembætti og lögreglu og taki tíma frá brýnni málum sem lögreglu er ætlað að sinna. Nefndin telur að breytingin sé tímabær og eingöngu er verið að greiða fyrir því að unnt verði að gera árangurslaust fjárnám án þess að leita þurfi uppi skuldara og færa til sýslumanns, eftir atvikum með aðstoð lögreglu. Úrræðið er því til hagsbóta fyrir kröfuhafa verði það að lögum en tekið er fram að vernd skuldara er engu síður tryggð þar sem einnig er lagt til að hann geti krafist endurupptöku gerðar sem lokið hefur verið án árangurs á þennan hátt ef hann bendir á eignir til fjárnáms.

Einföldun nauðasamningsferlis.
    Nefndin fjallaði um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti sem varða í meginatriðum réttarstöðu fyrirtækja. Eins og fram kemur í greinargerð byggist frumvarpið á skýrslu réttarfarsnefndar en dómsmála- og mannréttindaráðuneyti fól nefndinni að kanna hvort ástæða væri til að endurskoða ákvæði í lögum um aðför og gjaldþrotaskipti meðal annars vegna ábendinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrir nefndinni kom fram að úrræðin væru sérstaklega mikilvæg við endurskipulagningu á lífvænlegum fyrirtækjum og að markmið breytinganna er að einfalda það ferli til þess að fyrirtæki sem eru í vandræðum geti komist aftur í rekstur og tekur nefndin undir mikilvægi þess.

Samþykki 60% kröfuhafa eftir höfðatölu.
    Nefndin fjallaði einnig um breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og varða samþykki frumvarps til nauðasamnings. Í 33. gr. gjaldþrotaskiptalaga er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða atkvæðisrétt eftir höfðatölu eða kröfufjárhæð. Þannig eiga þeir lánardrottnar sem eiga samningskröfur á hendur skuldara og lýsa þeim við nauðasamningsumleitanir atkvæðisrétt um nauðasamning. Hver atkvæðismaður fer með eitt atkvæði eftir höfðatölu nema tveir eða fleiri eigi samningskröfu saman, þá fara þeir saman með eitt atkvæði eftir höfðatölu. Þegar atkvæði eru greidd eftir kröfufjárhæðum á að leggja saman heildarfjárhæð krafna allra atkvæðismanna og reikna síðan hundraðshluta kröfu hvers og eins þeirra af heildarfjárhæðinni. Samkvæmt gildandi reglum verður frumvarp til nauðasamnings að hljóta sama hlutfall atkvæða eftir höfðatölu atkvæðismanna og nemur eftirgjöf af samningskröfum, þó aldrei lægra en 60%. Þannig er viðmiðið 60% að lágmarki hvort sem hlutfall atkvæða er reiknað eftir höfðatölu eða kröfufjárhæð.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að fullnægjandi sé að nauðasamningsfrumvarp hljóti atkvæði 60% kröfuhafa eftir höfðatölu án tillits til efnis frumvarpsins. Sem dæmi má nefna að ef farið er fram á 80% niðurfellingu krafna þarf samþykki 80% hlutfalls atkvæða eftir fjárhæð krafna en 60% hlutfalls atkvæða eftir höfðatölu. Ef farið er fram á 40% niðurfellingu þarf 40% hlutfall atkvæða eftir fjárhæð krafna en 60% eftir höfðatölu þar sem að það verður áfram lágmark. Nefndin fjallaði nokkuð um þetta viðmið en fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að rétt hefði verið að ganga lengra, þ.e. lækka það í 50%. Nefndin telur hins vegar að með tillögunni sé komið til móts við það sjónarmið að einfalda ferli nauðasamninga og gera þeim sem þurfa á úrræðinu að halda auðveldara að fá frumvarp að nauðasamningi samþykkt en fyrir nefndinni kom fram að stór fyrirtæki hefðu farið í þrot þar sem ekki hefði tekist að afla samþykkis samkvæmt höfðatölu.

Forgangsréttur vinnulaunakrafna.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að regla gjaldþrotaskiptalaga um forgang launakrafna verði takmörkuð þegar um er að ræða kröfu um bætur vegna starfsloka. Í 2. tölul. 1. mgr. 112. gr. gildandi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er mælt fyrir um forgang þeirra bótakrafna sem hafa orðið til vegna slita á vinnusamningi. Almennt fer réttur launþega til bóta vegna slita á vinnusamningi eftir reglum vinnuréttar og ræðst ýmist af ráðningar- eða launakjörum. Þó hafa dómstólar takmarkað slíkan rétt þegar um hefur verið að ræða samningsákvæði sem hafa verið óvenjuleg og lengri en venjulegt getur talist. Er hér lagt til að þessi framkvæmd komi ótvírætt fram í lögum og að forgangur bótakrafna sem verða til við slit á vinnusamningi taki mið af því sem leiðir af lögum eða kjarasamningi, en ekki sérstökum ákvæðum samninga um lengri uppsagnarfrest sem kunna að vera gerðir við starfslok. Nefndin fellst á mikilvægi þess að skýrt sé kveðið á um þetta í lögum.

Nákomnir.
    Í frumvarpinu er lagt til að hugtakið nákomnir í skilningi gjaldþrotaskiptalaga verði rýmkað en það hefur einkum áhrif í tengslum við reglur um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, sbr. XVII. kafla laganna, og riftun ráðstafana þrotamanns, sbr. XX. kafla. Með breytingunni er lagt til að hugtakið verði rýmkað þannig að það nái einnig til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri fyrirtækja en samkvæmt gildandi lögum nær reglan eingöngu til þeirra sem hafa átt verulegan hlut í félagi eða stofnun. Nefndin tekur fram að þeir sem teljast til nákominna njóta ekki forgangs fyrir launakröfum sínum í þrotabú og telur eðlilegt að þeir sem stýra daglegum rekstri fyrirtækja og eru þar í stjórn verði taldir með í þessum hópi nákominna þar sem þeir eru nátengdir fyrirtækjum þó að þeir séu t.d. ekki eigendur.

Skylda til að gefa bú upp til gjaldþrotaskipta.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að það verði gert að skyldu fyrirsvarsmanns lögaðila að hlutast til um gjaldþrotaskipti á búi lögaðilans að viðlagðri skaðabótaskyldu. Er lagt til að þeir sem eiga að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta á búi félaga og vanrækja þá skyldu sína beri þannig skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum. Eru hér tekin af öll tvímæli um bótaskyldu stjórnenda lögaðila auk þess sem lagt er til að það verði hlutverk stjórnanda lögaðila að sýna fram á að vanrækslan hafi ekki verið honum saknæm, svokölluð sakarlíkindaregla. Nefndin tekur fram að markmið þessarar reglu er að skerpa á ábyrgð stjórnenda félaga að sinna þeirri skyldu sem á þeim hvílir að gildandi lögum. Nefndin telur að úrræðið muni verða hvetjandi fyrir eigendur og stjórnendur fyrirtækja og kröfuhafa til að meta rekstrargrundvöll fyrirtækja á raunhæfan hátt og jafnvel liðka fyrir samningum þeirra í milli.

Erlend ákvörðun um gjaldþrotaskipti eða nauðasamning.
    Nefndin fjallaði loks um þá rýmkuðu heimild sem lögð er til í frumvarpinu um að láta erlenda ákvörðun um gjaldþrotaskipti eða nauðasamninga ná til eigna hér á landi þannig að hún sé ekki bundin við að gerður hafi verið alþjóðasamningur um slíkt. Fyrir nefndinni kom fram að þessi heimild sé mjög mikilvæg í því alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem fyrirtæki starfa í.
    Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ný grein þar sem nauðsynlegt er að leggja til samsvarandi breytingu á 2. mgr. 150. gr. gjaldþrotaskiptalaga og gerð er á 35. gr. laganna í 7. gr. frumvarpsins: þ.e. að í stað orðanna „bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum“ í 2. mgr. 150. gr. laganna komi: eftir fjárhæðum krafna þeirra.
    Nefndin telur að í frumvarpinu felist mikilvægar breytingar sem gefi lífvænlegum fyrirtækjum möguleika til að komast áfram í rekstri og hvetji þá sem ábyrgð bera á fyrirtækjum að meta rekstrargrundvöll fyrirtækja á raunhæfan hátt og grípa til viðeigandi ráðstafana.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir 19. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Í stað orðanna „bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum“ í 2. mgr. 150. gr. laganna kemur: eftir fjárhæðum krafna þeirra.

    Ögmundur Jónasson og Birgir Ármannsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Mörður Árnason og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu með fyrirvara.

Alþingi, 3. júní 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Valgerður Bjarnadóttir.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Vigdís Hauksdóttir.



Þráinn Bertelsson.