Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1345  —  447. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 14. júní.)



I. KAFLI
Breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989.
1. gr.

    62. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Eftir kröfu gerðarbeiðanda verður fjárnámi lokið án árangurs ef:
     1.      gerðarþoli eða málsvari hans er staddur við gerðina og lýsir yfir að hann eigi engar eignir eða ekki nægar til fullnustu kröfu, sbr. 63. gr.,
     2.      enginn mætir til gerðarinnar af hálfu gerðarþola þótt hann hafi sannanlega verið boðaður til hennar og engin vitneskja liggur fyrir um eign sem gera mætti fjárnám í, eða
     3.      gerðarþoli hvorki finnst né nokkur sem málstað hans getur tekið.

2. gr.

    Við 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna bætist: eða gerðinni hefur verið lokið án árangurs.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við 4. tölul. bætist: eða þar sem hann eða maður honum nákominn situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.
     b.      5. tölul. verður svohljóðandi: tvö félög eða stofnanir ef annað þeirra á verulegan hluta í hinu eða maður nákominn öðru þeirra á slíkan hluta í hinu, situr þar í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.

4. gr.

    Í stað 2. mgr. 6. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Án tillits til þess hvort samningur hefur verið gerður eftir 1. mgr. verður ákvæðum þessara laga um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings sjálfkrafa beitt um útibú erlends félags, sem er starfrækt og á skráð varnarþing hér á landi, ef félagið ber ábyrgð á skuldbindingum útibúsins og hefur áður fengið sömu eða fyllilega sambærilega heimild í sínu heimaríki. Bú slíks útibús verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi, nema bú erlenda félagsins hafi áður verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Ef annað leiðir ekki af 1. eða 2. mgr. hafa heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og gjaldþrotaskipti í öðru ríki ekki áhrif hér á landi nema skuldari eða þrotabú hans afli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að sama eða sambærileg heimild eða fullnustugerð, sem kveðið hefur verið á um með dómsúrlausn í heimaríki hans, hafi eftir því sem átt getur við réttaráhrif hér á landi eftir ákvæðum IV. kafla, 1. og 2. mgr. 40. gr. eða 74. og 116. gr. Beiðni um slíkan úrskurð skal vera skrifleg og greint þar skýrlega frá hverrar heimildar sé leitað, auk nauðsynlegrar reifunar á atvikum máls og þeim erlendu réttarreglum sem átt geta við. Með beiðninni skulu fylgja viðhlítandi gögn um heimildina sem fengin hefur verið í öðru ríki, þar með talið staðfest endurrit úrlausnar dómstóls ásamt þýðingu og staðfesting hans á að heimildin sé enn í gildi og hversu lengi hún muni standa.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 1. mgr. verður svohljóðandi: kröfur sem trygging er fyrir í eign skuldarans að því leyti sem tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins, en að skuldaranum verður ekki gengið vegna slíkrar kröfu í frekara mæli en greinir í 4. mgr. 60. gr.
     b.      1. málsl. 2. mgr. verður svohljóðandi: Lánardrottinn skuldarans getur að tilteknu leyti eða öllu afsalað sér réttindum skv. 1. mgr., þannig að nauðasamningur hafi áhrif á kröfu hans, með yfirlýsingu sem hann gefur við undirbúning skuldarans að öflun heimildar til að leita nauðasamnings eða í kröfulýsingu við nauðasamningsumleitanir.

6. gr.

    Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lánardrottinn fer þó ekki með atkvæðisrétt um nauðasamning nema að því leyti sem hann hefur afsalað sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni, sbr. 2. mgr. 28. gr.

7. gr.

    Í stað orðanna „bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum“ í 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laganna kemur: eftir fjárhæðum krafna þeirra.

8. gr.

    Við 1. mgr. 45. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í kröfulýsingu getur atkvæðismaður að auki greitt atkvæði um frumvarp skuldarans að nauðasamningi, sbr. 1. mgr. 50. gr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                  Jafnframt því sem að framan greinir skal umsjónarmaðurinn gera skrá um kröfur, sem trygging er fyrir í eign skuldarans, án tillits til þess hvort þeim hafi verið lýst. Í skránni skal koma fram fjárhæð hverrar kröfu, gjalddagi, hvort og eftir atvikum að hverju leyti hún er í vanskilum, til hverrar eignar trygging taki og hvort hlutaðeigandi lánardrottinn hafi fallið frá tryggingarréttindum sínum að hluta eða öllu leyti.
     b.      Í stað orðanna „skrá skv. 1. mgr.“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: skrár skv. 1. og 2. mgr.

10. gr.

    2. málsl. 47. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tveggja“ í 1. mgr. kemur: fjögurra.
     b.      4. tölul. 2. mgr. verður svohljóðandi: skrám sínum skv. 1. og 2. mgr. 46. gr. og hvort einhverra krafna, sem hefur verið lýst, sé ekki getið í þeim, sbr. 3. mgr. 46. gr.

12. gr.

    Fyrri málsliður 49. gr. laganna verður svohljóðandi: Frumvarp að nauðasamningi telst samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða, og jafnframt 60 hundraðshluta atkvæða eftir höfðatölu allra atkvæðismanna.

13. gr.

    1. mgr. 50. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Atkvæðismenn mega greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi í kröfulýsingu eða skriflega á annan hátt og skal tekið tillit til slíkra atkvæða sem berast umsjónarmanninum í síðasta lagi áður en atkvæðagreiðslu er lokið. Atkvæði þessi skulu þó því aðeins tekin gild að vafalaust sé að þau varði það frumvarp sem til atkvæðagreiðslu er og ótvíræð og skilyrðislaus afstaða atkvæðismanns til þess komi þar fram. Sé annað ekki tekið fram í skriflegu atkvæði skal það standa þótt breyting hafi síðar verið gerð á frumvarpi skuldarans sé breytingin atkvæðismönnum í hag. Sé atkvæði greitt skriflega á annan hátt en í kröfulýsingu skal undirskrift atkvæðismanns vottuð af tveimur vitundarvottum, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða lögbókanda. Atkvæðismaður sem greitt hefur atkvæði skriflega getur dregið það til baka með skriflegri yfirlýsingu, sem vottuð er á sama hátt, ef hún berst umsjónarmanninum áður en atkvæðagreiðsla hefst á fundi eða með því að sækja fundinn og óska eftir að fá að greiða þar atkvæði á nýjan leik.

14. gr.

    Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í kröfunni skal meðal annars gerð ítarleg grein fyrir því hvernig skuldarinn telji sig munu geta staðið í skilum við lánardrottna ef nauðasamningur verður staðfestur, þar á meðal með kröfur sem samningurinn hefði ekki áhrif á.

15. gr.

    Á eftir 3. mgr. 60. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Að því leyti sem lánardrottinn, sem hefur samningsveð fyrir kröfu sinni í eign skuldarans, hefur ekki afsalað sér tryggingarréttindunum skv. 2. mgr. 28. gr. getur lánardrottinn á engu stigi eftir staðfestingu nauðasamnings leitað fullnustu fyrir kröfunni gagnvart skuldaranum á annan hátt en með því að ganga að þeirri eign.

16. gr.

    Við 2. mgr. 64. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú láta þeir sem bærir eru um að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta á búi slíks skuldara sem ekki er einstaklingur það hjá líða og bera þeir þá skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum skuldarans að því leyti sem þeir fara af þessum sökum á mis við fullnustu krafna sinna, enda sýni þeir ekki fram á að sú vanræksla hafi ekki verið þeim saknæm.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Orðin „og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans“ í niðurlagi 1. tölul. 2. mgr. falla brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
        5.    að skuldarinn hafi ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin.

18. gr.

    Við 5. tölul. 1. mgr. 85. gr. laganna bætist: nema dómari ákveði lengri frest við skipun skiptastjóra.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
     a.      Við 2. tölul. 1. mgr. bætist: en slík krafa getur þó ekki numið hærri fjárhæð en svara mundi til launa í uppsagnarfresti sem gilda ætti um vinnusamninginn eftir lögum eða kjarasamningi.
     b.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                 Þeir sem nákomnir eru þrotamanni eða félagi eða stofnun sem er til gjaldþrotaskipta njóta ekki réttar skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. fyrir kröfum sínum.

20. gr.

    Í stað orðanna „bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum“ í 2. mgr. 150. gr. laganna kemur: eftir fjárhæðum krafna þeirra.

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.
21. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

22. gr.

    Ákvæðum 3. gr. verður ekki beitt til skilgreiningar á orðinu nákomnir að því leyti sem reynt getur á merkingu þess varðandi atvik sem gerðust fyrir gildistöku laga þessara, sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar.
    Ákvæði 5.–7. gr., 9. gr., 11.–12. gr. og 14.–15. gr. taka ekki til nauðasamningsumleitana sem leitað hefur verið fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði a-liðar 17. gr. tekur ekki til tilvika þar sem leitað er gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningar, löggeymslu eða fjárnáms sem lokið er fyrir gildistöku þessara laga.
    Ákvæði 19. gr. gilda ekki um kröfu sem fallið hefur í gjalddaga fyrir gildistöku laga þessara.