Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1346  —  424. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (byggðakvóti, ráðstöfun aflaheimilda).

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmann sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ingimar Jóhannsson og Sigríði Norðmann frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Adolf Guðmundsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Árna Múla Jónasson og Auðun H. Ágústsson frá Fiskistofu, Jónu Björk Guðnadóttur, Ara Wendel, Brynhildi Georgsdóttur, Benedikt Orra Einarsson, Sigurð Þór Snorrason, Helga Bragason, Birgi Runólfsson og Bjarka Bragason frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Umsagnir bárust frá Byggðastofnun, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi fiskeldisstöðva, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fjármálafyrirtækja og Sjómannasambandi Íslands.
    Frumvarp þetta felur í sér tvær efnisgreinar sem fjalla annars vegar um byggðakvóta og reglur varðandi meðferð hans og hins vegar um heimild ráðherra til að setja skilyrði eða koma í veg fyrir framsal eða ráðstöfun aflaheimilda. Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 10. gr. laganna. Annars vegar er þar um að ræða breytingar er hafa þann tilgang að árétta heimildir ráðherra til að setja sérstakar takmarkanir á úthlutun byggðakvóta í einstökum byggðarlögum, telji hann tilefni til slíks. Hins vegar er þar að finna ákvæði er heimilar ráðherra að flytja byggðakvóta á milli fiskveiðiára. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um það til bráðabirgða að ráðherra skuli fengin tímabundin heimild til að grípa til tiltekinna aðgerða. Er gildistími ákvæðisins ákvarðaður tvö og hálft fiskveiðiár. Með heimildinni er gert ráð fyrir að ráðherra geti bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum sem tilheyra gjaldþrota einstaklingum og fyrirtækjum eða einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar, þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsal eða önnur ráðstöfun þeirra út fyrir sveitarfélagið eða byggðarlagið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Þá er skiptastjórum í þrotabúum og aðstoðarmönnum skuldara gert skylt að tilkynna ráðuneytinu og Fiskistofu séu uppi áform um að framselja eða ráðstafa aflaheimildum frá sveitarfélagi eða byggðarlagi innan eins mánaðar áður en slíkt fer fram. Þá hefur ráðherra einn mánuð til að taka ákvörðun um slíka ráðstöfun.
    Í umsögnum Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssambands íslenskra útvegsmanna kom fram sú gagnrýni á 2. gr. frumvarpsins að heimild ráðherra gæti haft neikvæð áhrif á stöðu kröfuhafa og endurskipulagningu og endurfjármögnun sjávarútvegsfyrirtækja. Þá bentu Samtök fjármálafyrirtækja á að í sameiginlegum verklagsreglum sem settar eru á grunni laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, sé gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki líti til byggðasjónarmiða þegar kemur að ákvarðanatöku tengdri endurskipulagningu fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum. Við meðferð málsins hjá nefndinni var leitað leiða til að koma til móts við framangreind sjónarmið. Voru Samtök fjármálafyrirtækja og fulltrúar ráðuneytisins hvattir til að ná samkomulagi um ásættanlega niðurstöðu. Viðunandi samkomulag náðist ekki.
    Meiri hlutinn áréttar að 2. gr. frumvarpsins mælir fyrir um ákveðið neyðarréttarúrræði á tímum óhefðbundinna markaðsaðstæðna sem ætlað er að hefta verulega neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi sjávarbyggða og koma í veg fyrir búferlaflutninga. Um bráðabirgðaákvæði er að ræða og ná réttaráhrif þess því einungis til þess sem eftir lifir núverandi fiskveiðiárs auk fiskveiðiáranna 2010/2011 og 2011/2012. Þá skal fram tekið að heimild ráðherra er bundin ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi verður að vera um umtalsverðan hluta aflaheimilda að ræða, a.m.k. fimmtung eða meira. Í öðru lagi verður staðan að vera sú að ætla megi að framsal eða önnur ráðstöfun hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Telur meiri hlutinn rétt að benda á að þær ákvarðanir sem ráðherra tekur á grundvelli ákvæðisins verða ávallt bundnar af skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Skal hann af þeim sökum m.a. byggja ákvarðanatöku sína á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum að meðalhófi gættu. Að framangreindu sögðu telur meiri hlutinn rétt að taka fram að skilningur hennar er sá að þau úrræði sem lögð eru til í 2. gr. frumvarpsins séu í samræmi við almennan áskilnað 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga þess efnis að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þá eru markmið téðra laga m.a. að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.
    Nefndinni hafa borist upplýsingar um að um 20% sjávarútvegsfyrirtækja séu nú þegar í miklum greiðsluvanda sem líkur benda til að muni valda röskun á atvinnustarfsemi tengdri sjávarútvegi og tilflutningi aflaheimilda á milli byggðarlaga. Ljóst er að óbeinar afleiðingar slíkrar stöðu geta einnig orðið miklar og haft til að mynda áhrif á aðra atvinnustarfsemi í sömu byggðarlögum, lífsgæði og búsetu. Ljóst verður að telja að staða margra byggðarlaga og sveitarfélaga verður mjög erfið flytjist aflaheimildir brott vegna gjaldþrots, annars konar eignauppgjörs eða endurskipulagningar einstakra fyrirtækja. Álit meiri hlutans er í þessu ljósi að við ákvarðanatöku samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verði að fá mati á samfélagsáhrifum í byggðarlögum sem geta átt allt sitt undir sjávarútvegi aukið vægi. Telur meiri hlutinn brýnt í ljósi allra framangreindra atriða að veita ráðherra heimild sem þessa en leggur til eftirfarandi breytingar á ákvæði til bráðabirgða:
     1.      Lagt er til að þær heimildir sem ráðherra eru veittar með ákvæðinu gildi um öll tilvik þegar áformað er að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr byggðarlögum eða sveitarfélögum. Þannig verði téðar heimildir ekki takmarkaðar við að aflaheimildir tilheyri gjaldþrota einstaklingum og fyrirtækjum eða einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar. Í ljósi þess markmiðs frumvarpsins að tryggja atvinnu og búsetu í byggðarlögum og koma í veg fyrir þá röskun sem átt getur sér stað þegar aflaheimildir flytjast burt úr byggðarlögum eða sveitarfélögum er það mat meiri hlutans að ekki sé ástæða til að takmarka heimildir ráðherra til við slík tilvik.
     2.      Af framangreindum breytingum á gildissviði ákvæðisins leiðir að jafnframt er lagt til að tilkynningarskylda um áformað framsal eða aðra ráðstöfun aflaheimilda verði lögð á handhafa aflahlutdeilda (aflaheimilda) í stað skiptastjóra í þrotabúum og aðstoðarmanna skuldara við greiðslustöðvun.
     3.      Enn fremur er lagt til að einungis beri að tilkynna áform um framsal eða ráðstöfun aflaheimilda til Fiskistofu en ekki einnig til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins eins og ráðgert er í frumvarpinu. Fiskistofa skal hins vegar þegar í stað tilkynna ráðherra ef framsal eða önnur ráðstöfun aflaheimilda fer yfir fimmtung eða meira. Er breyting þessi lögð til í þeim tilgangi að stuðla að einfaldari og skilvirkari framkvæmd ákvæðisins.
     4.      Loks er lagt til að frestur ráðherra til að taka ákvörðun um setningu skilyrða fyrir framsali eða hvort hann banni framsal eða aðra ráðstöfun verði lengdur úr einum mánuði í tvo. Er ráðherra með þeirri tilhögun veitt svigrúm (frestur) til að leita vægari úrræða og lausna á þeim vandamálum sem upp kunna að koma vegna áforma um framsal eða aðra ráðstöfun aflaheimilda, í samstarfi við sveitarfélög, hagsmunaaðila og fjármálafyrirtæki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

    Róbert Marshall var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. júní 2010.Atli Gíslason,


form., frsm.


Ásmundur Einar Daðason.


Björn Valur Gíslason.Helgi Hjörvar.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.