Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1358  —  568. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um aðkomu Íslands að stríðsrekstri í Írak og Afganistan.

     1.      Hver er aðkoma Íslands að stríðsrekstri í Írak og Afganistan, ef einhver er, og hver hefur hún þá verið frá því að stríðsreksturinn hófst?
    Ísland hefur enga aðkomu að hernaðaraðgerðum hvorki í Írak né Afganistan. Engin þátttaka er af Íslands hálfu í aðgerðum Atlantshafsbandalagsins í Írak. Enginn íslenskur friðargæsluliði starfar í Írak og engar fyrirætlanir eru um að senda þangað friðargæsluliða.
    Í Afganistan er Ísland þátttakandi í störfum alþjóðaliðsins (International Security Assistance Force, ISAF), ásamt 46 öðrum ríkjum, þar á meðal öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. Ólíkt Írak þá hefur alþjóðaliðið í Afganistan ávallt starfað á grundvelli umboðs frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar starfar alþjóðaliðið á grundvelli ályktunar nr. 1510 þar sem öryggisráðið veitir því fullt umboð til að aðstoða afgönsk yfirvöld við að koma á öryggi í landinu til að uppbyggingar- og mannúðarstarf geti farið fram með eðlilegum hætti. Í Afganistan starfa nú fjórir borgaralegir sérfræðingar á vegum Íslensku friðargæslunnar. Enginn þeirra er vopnaður eða ber einkennisbúning.

Fyrri verkefni í Írak.
    Þáverandi stjórnvöld settu Ísland á lista þeirra ríkja (Coalition of the Willing) sem studdu innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak, en fyrst var greint frá listanum á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu 18. mars 2003. Hinn 20. mars, sama dag og innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak hófst, upplýsti blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta að Ísland væri á lista yfir þau ríki sem lýst hefðu yfir stuðningi við innrásina. Í aðdraganda ákvörðunarinnar flutti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum tvær ræður, sem haldnar voru á opnum fundum öryggisráðs SÞ vegna Íraks, 19. febrúar og 11. mars 2003, þar sem sjónarmiðum þáverandi ráðamanna á Íslandi vegna Íraks var komið á framfæri. Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hélt einnig ræðu í öryggisráði SÞ 26. mars 2003 þar sem ákvörðun íslenskra stjórnvalda er rökstudd með eftirfarandi hætti: ,,Iceland has given its political support to the coalition of states for the immediate disarmament of Iraq. This is due to our conviction that action was necessary to ensure an implementation of all relevant UN resolutions regarding the disarmament of Iraq“ eða í íslenskri þýðingu: ,,Ísland hefur veitt bandalagi ríkja, sem vilja tafarlausa afvopnun Íraks, stuðning. Ástæðan er sannfæring okkar um að aðgerð var nauðsynleg til að tryggja framkvæmd allra viðeigandi ályktana Sameinuðu þjóðanna um afvopnun Íraks.“
    Í framangreindum ræðum fastafulltrúa Íslands hjá SÞ var sérstök áhersla lögð á að stjórnvöld í Írak virtu og innleiddu ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1441 frá árinu 2002 um framkvæmd fyrri skuldbindinga Íraks um afvopnun og alþjóðlegt eftirlit með þeim.
    Frá 17. desember 2003 til 19. febrúar 2004 störfuðu tveir sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslunni á vegum Íslensku friðargæslunnar í Írak. Danir höfðu frumkvæði að því að biðja um aðstoð frá Íslandi á grundvelli samstarfs Landhelgisgæslunnar og danska hersins um þjálfun í sprengjueyðingu.
    Á vormánuðum 2004 var greitt fyrir 8–9 flugferðir með vopn, skotfæri og annan varning frá Slóveníu til Íraks vegna þjálfunaráætlunar NATO fyrir alls 500 þús. evrur (u.þ.b. 44 millj. ísl. kr. á þeim tíma).
    Friðargæslan mannaði stöðu upplýsingafulltrúa þjálfunarverkefnis Atlantshafsbandalagsins í Bagdad frá apríl 2005 til september 2007 er þáverandi utanríkisráðherra tók ákvörðun um að því yrði hætt í samræmi við stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem harmaði stríðsreksturinn í Írak.

Fyrri verkefni í Afganistan.
    Hlutverk alþjóðaliðsins (ISAF) í Afganistan, sem byggir á framlögum og samstarfi 46 ríkja, grundvallast á ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1510. Ísland hefur tekið þátt í starfi alþjóðaliðsins frá því Atlantshafsbandalagið tók að sér forustu þess 11. ágúst 2003.
    Þátttakan hófst með ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar 31. október 2003 að bjóða Atlantshafsbandalaginu að Ísland tæki að sér leiðandi samræmingarhlutverk á flugvellinum í Kabúl. 1. júní 2004 tók fjölþjóðlegt lið NATO undir forustu Íslendinga við stjórn flugvallarins. Aðildarþjóðir NATO lögðu til mannskap en tæki og búnaður ásamt rekstrarkostnaði var greiddur af NATO. Íslendingar fóru með yfirstjórn flugvallarins til 2005.
    Frá því síðla árs 2005 til apríl 2007 voru friðargæsluliðar starfandi í endurreisnar- og uppbyggingarsveitum á vegum friðargæsluliðs Atlantshafsbandalagsins í Norður- og Vestur- Afganistan. Starf íslensku sveitarinnar fólst einkum í að kanna aðstæður í þorpum og sveitum og gera tillögur um úrbætur til viðeigandi hjálparsamtaka og alþjóðastofnana.
    Íslendingar hafa einnig starfað í höfuðstöðvum alþjóðaliðsins í Kabúl, á upplýsingaskrifstofu þess og skrifstofu sérstaks fulltrúa aðalframkvæmdastjóra NATO í Afganistan, á alþjóðaflugvellinum í Kabúl og bækistöð við hann. Í framhaldi af álitsgerð tveggja fyrrverandi hæstaréttardómara, sem lögð var fram í ágúst 2008, um sprengjuárás á íslenska friðargæsluliða í Kabúl í október 2004 ákvað þáverandi utanríkisráðherra að hætt yrði að manna stöður þar sem íslenskir friðargæsluliðar þyrftu að bera vopn. Frá nóvember 2008 hafa íslenskir friðargæsluliðar hvorki klæðst einkennisbúningi né borið vopn.
    Til að styðja aðgerðir alþjóðaliðsins til að tryggja öryggi og aðbúnað á vettvangi voru greidd framlög til loftflutninga vegna liðsafla á vegum alþjóðaliðsins. Áhersla var lögð á að styðja starf og flutninga þeirra þjóða sem störfuðu á svæðum í Afganistan sem Ísland hafði ekki tök á að styðja með öðrum hætti, einkum í suðurhluta Afganistan.
    Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar frá 24. október 2002 lýsti þáverandi forsætisráðherra því yfir á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í nóvember 2002 að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin til að leggja sitt af mörkum vegna hugsanlegra aðgerða bandalagsins með því að hafa milligöngu um loftflutninga á búnaði eða liðsafla. Tekið var fram að íslensk stjórnvöld gætu af þessu tilefni greitt hámarkskostnað að jafnvirði 300 millj. kr. Var þá miðað við allt að 20 flugferðir, sem mundu kosta að jafnaði 15 millj. kr. Þetta fyrirheit var ítrekað á leiðtogafundum Atlantshafsbandalagsins í júní 2004 af þáverandi forsætisráðherra og í nóvember 2006 af þáverandi forsætisráðherra.
    Á árunum 2004–2007 var um að ræða framlag til eftirfarandi flutninga:
    Í mars 2004 var flogið frá Hollandi til Kabúl með Apache-þyrlur fyrir um 25 millj. kr. Í ágúst sama ár var flogið frá Vilníus til Kabúl með liðsafla og varning fyrir tæpar 14 millj. kr. og í desember var flogið frá Slóvakíu til Kabúl með liðsafla og búnað fyrir 20 millj. kr. Árið 2006 var flogið með búnað frá Eistlandi fyrir afganska herinn í Kabúl fyrir tæplega 13 millj. kr. Í september 2007 var flogið með vopn, sem ætluð voru afgönskum hersveitum, frá Litháen til Afganistan fyrir 16 millj. kr. og Bretar fengu framlag til að flytja svissneskar slökkvibifreiðar til alþjóðaflugvallarins í Kabúl. Árið 2008 lagði Ísland til 500 þús. evrur í svokallaðan þyrlusjóð, sem Bretland og Frakkland settu fót í því augnamiði að fjölga þyrlum í Afganistan. Upphæðin skiptist síðar til helminga milli Tékklands og Ungverjalands og var fénu varið til að uppfæra þyrlukost og þjálfa áhafnir í löndunum tveimur, svo að þær gætu tekið þátt í aðgerðum í Afganistan.

     2.      Í hverju felast aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Írak og Afganistan og á hvaða réttarheimildum byggjast þær?
Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Írak.
    Aðkoma Atlantshafsbandalagsins í Írak einskorðast við þjálfunarverkefni sem sett var á fót árið 2004 að beiðni bráðabirgðastjórnar Íraks og á grundvelli ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1546. Í upphafi gekk þjálfunarverkefnið ekki síst út á að þjálfa háttsetta aðila í her- og öryggissveitum Íraka og embættismenn í varnarmálaráðuneyti Íraks. Árið 2008 var ákveðið, að beiðni íraskra yfirvalda, að verkefnið næði einnig til þjálfunar á lögreglu, sjóher og flugher á æðri stigum. Þá hefur verið ákveðið, einnig að beiðni íraskra yfirvalda, að þjálfunarverkefnið nái yfir landamæravörslu og hefst sú þjálfun á þessu ári.

Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan.
    Atlantshafsbandalagið tók að sér að leiða alþjóðaliðið í Afganistan (ISAF) 11. ágúst 2003. Alþjóðaliðið hafði verið sett á stofn í desember 2001 á ráðstefnu um Afganistan í Bonn á grundvelli ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1386 frá 20. desember 2001, til þess að stuðla að stöðugleika og varanlegum friði í landinu. Í upphafi fóru einstakar bandalagsþjóðir með forustu í ISAF. Í fyrstu náði ábyrgðarsvæði ISAF aðeins til Kabúl og næsta umhverfis, en með ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1510 frá 13. október 2003 var ábyrgð á öryggismálum í landinu öllu færð til ISAF.
    Meginmarkmið Atlantshafsbandalagsins og alþjóðaliðsins í Afganistan er að aðstoða afgönsk yfirvöld við að ná frekari tökum á öryggisástandi í landinu, svo að hægt sé að búa í haginn fyrir uppbyggingu og þróunarstarf og forða því að Afganistan verði á ný griðastaður hryðjuverka og hryðjuverkasamtaka.
    Atlantshafsbandalagið og alþjóðaliðið eru í Afganistan að beiðni afganskra stjórnvalda og í umboði SÞ á grundvelli allmargra ályktana öryggisráðs SÞ (þ.m.t. ályktana nr. 1386, 1413, 1444, 1510, 1563, 1623, 1707, 1776, 1883, 1890 og 1917). Alls leggja 46 ríki aðgerð alþjóðaliðsins til liðsafla, ýmist herafla eða borgaralega sérfræðinga. Síðan Atlantshafsbandalagið tók við stjórn alþjóðaliðsins árið 2003 hefur aðgerðin í Afganistan, sem upphaflega var bundin við höfuðborgina Kabúl, orðið umfangsmeiri og nær nú til alls landsins. Má segja að aðgerðirnar nái yfir átta svið:
          Aðgerðir sem miða að því að stuðla að auknu öryggi og stöðugleika í Afganistan. Þessar aðgerðir eru umfangsmestar í suður- og austurhluta landsins, en ná jafnframt til annarra landsvæða og njóta í auknum mæli liðsinnis og jafnvel forustu afganskra öryggissveita.
          Umfangsmikil þjálfun á afganska hernum. Þjálfunarteymum hefur fjölgað á undanliðnum missirum eftir að afganski herinn hefur tekið frumkvæði og forustu í sameiginlegum aðgerðum. Einnig styður alþjóðaliðið afganska herinn með búnaði.
          Þjálfun afgönsku lögreglunnar. Þar samræmir alþjóðaliðið aðgerðir sínar við aðgerðir Bandaríkjanna og ESB sem einnig sinna lögregluþjálfun í landinu.
          Sprengjuleit og sprengjueyðing og stuðningur við verkefni sem ætlað er að auka öryggi á vopnageymslum afganska hersins.
          Sérstakur styrktarsjóður sem ætlað er að veita Afgönum aðstoð í kjölfar aðgerða og átaka. Ísland hefur stutt sjóðinn fjárhagslega á umliðnum árum.
          Sérstök uppbyggingarteymi, ekki síst í hinum dreifðari byggðum landsins, þar sem unnið er að uppbyggingar- og þróunarstarfi til skemmri tíma eða þar sem öryggisástand leyfir ekki öðrum og hefðbundnari aðilum á sviði þróunarstarfs að taka við uppbyggingarstarfinu.
          Aðstoð við afgönsk yfirvöld og aðra sem sinna neyðaraðstoð við að koma aðstoðinni til þeirra sem á þurfa að halda.
          Samvinna við afgönsk yfirvöld í baráttunni gegn eiturlyfjaframleiðslu og dreifingu.
    Að auki má nefna að alþjóðaliðið hefur sinnt öryggisgæslu til stuðnings afgönsku öryggissveitunum við kosningar, t.a.m. við forseta- og héraðskosningarnar á síðasta ári.

     3.      Er um að ræða þróunaraðstoð af Íslands hálfu við þessi lönd, og ef svo er, hvernig er þeim fjármunum varið?
Írak.
    Ísland er ekki með neina þróunaraðstoð við Írak.

Afganistan.
    Ísland er með umtalsverða þróunaraðstoð við Afganistan. Eftirfarandi eru nú starfandi á vegum Íslensku friðargæslunnar að þróun og uppbyggingu: Einn sérfræðingur er staðsettur í höfuðstöðvum alþjóðaliðsins (ISAF) í Kabúl og sinnir starfi aðstoðardeildarstjóra þróunardeildar alþjóðaliðsins. Deildin sinnir samhæfingu og samskiptum við afgönsk stjórnvöld, alþjóðastofnanir og hjálparsamtök vegna endurreisnar í landinu. Tveir starfsmenn eru staðsettir í bækistöð alþjóðaliðsins við Kabúlflugvöll, þ.e. starfsmannastjóri og staðgengill yfirmanns rekstrar- og skipulagsmála. Einn þróunarfulltrúi starfar í norsku héraðsuppbyggingarteymi í norðurhluta landsins við endurreisnarstörf með sérstaka áherslu á málefni kvenna.
    Fjárframlög til þróunarstarfs í Afganistan eru eftirfarandi 2010:
          3,9 millj. kr. vegna þróunarverkefna (vatnsaflsvirkjana) í Chaghcharan.
          6,0 millj. kr. styrkur til heilsugæsluverkefnis á vegum Rauða krossins.
          12,5 millj. kr. framlag til UNIFEM til stuðnings við starfsemi kvennamálaráðuneytisins, við flóttamenn, og við stofnun kvennamiðstöðva.
          9,0 millj. kr. framlag til neyðaraðstoðarsjóðs ISAF.
    Á síðasta ári tók til starfa alþjóðlegur jafnréttisskóli við Háskóla Íslands sem er kostaður af utanríkisráðuneytinu í samvinnu við HÍ. Fyrstu nemendurnir voru frá Afganistan og í ár er áformað að taka aftur við nemendum frá Afganistan.

     4.      Stendur til að breyta aðkomu Íslands á einhvern hátt að þessum málum, þ.e. ef hún er einhver?
    Engar ákvarðanir hafa verið teknar um það.