Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1363  —  670. mál.
Frumvarp til lagaum greiðsluaðlögun einstaklinga.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið laganna.

    Markmið laga þessara er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.
    Að uppfylltum skilyrðum laga þessara er einstaklingum heimilt í kjölfar gagnaöflunar að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að hann samþykki umsókn um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa.

2. gr.
Hverjir leitað geta greiðsluaðlögunar.

    Einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar getur leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lög þessi.
    Einstaklingur telst ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
    Hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð geta í sameiningu leitað greiðsluaðlögunar.

3. gr.
Kröfur sem greiðsluaðlögun tekur til.

    Greiðsluaðlögun tekur til allra annarra krafna á hendur skuldara en þeirra sem hér greinir:
     a.      krafna sem orðið hafa til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina,
     b.      krafna um annað en peningagreiðslu sem verður fullnægt eftir aðalefni sínu,
     c.      krafna sem nytu stöðu skv. 109., 110. eða 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á þeim degi sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var tekin til greina,
     d.      krafna sem yrði fullnægt með skuldajöfnuði ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta,
     e.      krafna að óverulegri fjárhæð sem eru sérstaklega undanþegnar áhrifum greiðsluaðlögunar með því að þær greiðist að fullu,
     f.      fésekta sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, krafna um vangoldinn virðisaukaskatt, krafna um afdregna vangoldna staðgreiðslu og krafna um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi,
     g.      skulda vegna námslána að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma,
     h.      áfallandi meðlags og lífeyris sem skuldara ber að greiða samkvæmt hjúskapar- eða barnalögum sem og uppsafnaðra skulda við opinbera aðila vegna meðlags og fer um uppsafnaða skuld samkvæmt ívilnunarúrræðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971.
    Lánardrottinn skuldarans getur afsalað sér réttindum skv. 1. mgr. þannig að greiðsluaðlögun hafi áhrif á kröfu hans, en það skal gert með skriflegri yfirlýsingu sem gerð er við undirbúning umsóknar um greiðsluaðlögun eða meðan á umleitunum til hennar stendur. Binda má slíka yfirlýsingu því skilyrði að hún feli því aðeins í sér endanlegt réttindaafsal að greiðsluaðlögun nái fram að ganga.
    Greiðsluaðlögun leiðir til brottfalls skulda sem yrði skipað í skuldaröð skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Með greiðsluaðlögun má kveða á um algera eftirgjöf einstakra krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, skilmálabreytingar, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn.

II. KAFLI
Heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
4. gr.
Umsókn um greiðsluaðlögun.

    Skuldari skal leggja umsókn um greiðsluaðlögun fram hjá umboðsmanni skuldara. Í umsókninni skal koma fram:
     1.      Fullt nafn skuldara, kennitala hans, lögheimili og dvalarstaður ef hann er annar en lögheimili.
     2.      Sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara.
     3.      Sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda og ábyrgða og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra.
     4.      Hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skal greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
     5.      Hvort skuldari hafi borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, einn eða í félagi við aðra, og ef svo er, hve stór hluti skulda hans stafi frá atvinnurekstrinum.
     6.      Mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda sinna, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum.
     7.      Mat skuldara með hliðsjón af framansögðu á því hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa við skuldbindingar sínar.
     8.      Lýsing skuldara á því hvað valdið hafi skuldastöðu hans og hvers vegna hann geti ekki eða sjái ekki fram á að geta staðið að fullu við skuldbindingar sínar.
     9.      Hvort einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar sem kynnu að vera riftanlegar við gjaldþrotaskipti á búi skuldara.
     10.      Hverjir kunna að vera ábyrgðarmenn skuldara, samskuldarar eða hafa veitt veð fyrir skuldum hans og hvort hann beri sjálfur ábyrgð á skuldbindingum annarra.
     11.      Yfirlýsing um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga, án þess að þagnarskylda þeirra sem búa yfir slíkum upplýsingum hindri það, sé talin þörf á því.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skal einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum, ef slíks er þörf til að afmarka upplýsingar um útgjöld og tekjur skuldara.
    Umsókninni skulu fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara.
    Skuldari á rétt á endurgjaldslausri aðstoð frá umboðsmanni skuldara við að semja umsókn um greiðsluaðlögun og afla gagna í samræmi við ákvæði laga þessara. Skuldari skal þó jafnan sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.
    Umboðsmaður skuldara skal að fengnu samþykki skuldara og eftir atvikum maka skuldara og annars heimilisfólks, sbr. 2. mgr., afla nauðsynlegra gagna frá opinberum stofnunum sem og þekktum lánardrottnum. Skylt er þeim aðilum að senda umboðsmanni skuldara umbeðin gögn.

5. gr.
Rannsóknarskylda umboðsmanns skuldara.

    Umboðsmaður skuldara skal ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum.
    Umboðsmaður skuldara skal auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara, áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Komi til þess skal veita skuldara fræðslu í samræmi við ákvæði 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða. Ef þörf krefur er umboðsmanni skuldara heimilt að kalla skuldara eða aðra sem málið varðar á sinn fund til að afla upplýsinganna.

6. gr.
Aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.

    Synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar ef:
     a.      fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga þessara til að leita greiðsluaðlögunar,
     b.      fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar,
     c.      aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar,
     d.      skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu,
     e.      skuldari hefur áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Þó er umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
    Einnig er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á slíku skal taka sérstakt tillit til þess hvort:
     a.      stofnað hafi verið til meginhluta skuldanna nýlega og ekki sé um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
     b.      stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar,
     c.      skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
     d.      skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu,
     e.      skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
     f.      skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
     g.      skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

7. gr.
Ákvörðun um greiðsluaðlögun.

    Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún liggur fyrir fullbúin.
    Samþykki umboðsmaður skuldara umsóknina skal hann upplýsa skuldara um skyldur hans skv. 12. gr.
    Ekki er unnt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að honum berst tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara.
    Skuldari getur hvenær sem er á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana dregið umsókn sína um greiðsluaðlögun til baka og fellur þá niður greiðslufrestur skv. 11. gr. Hafi umsjónarmaður verið skipaður skal hann tilkynna þeim kröfuhöfum sem vitað er um ákvörðun skuldara um að draga umsókn til baka. Hafi umsjónarmaður ekki verið skipaður skal umboðsmaður skuldara tilkynna um þetta.

8. gr.
Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana.

    Með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefst tímabil greiðsluaðlögunarumleitana og getur það orðið allt að þrír mánuðir.

III. KAFLI
Upphaf greiðsluaðlögunarumleitana.
9. gr.
Skipun umsjónarmanns.

    Hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun skal hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður getur verið starfsmaður umboðsmanns skuldara og skal hann þá hafa lokið embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði, en ella skal hann vera lögmaður sem umboðsmaður skuldara ræður til verksins.

10. gr.
Innköllun til lánardrottna.

    Umsjónarmaður skal tafarlaust eftir skipun sína gefa út og fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði innköllun þar sem skorað er á þá, sem telja sig eiga kröfur á hendur skuldaranum, að lýsa kröfum fyrir umsjónarmanni innan fjögurra vikna frá því að innköllunin birtist fyrra sinni.
    Nú nýtur lánardrottinn veðréttar eða ábyrgðar annars aðila fyrir kröfum á hendur skuldaranum án þess að veðið eða ábyrgðin taki til ákveðinnar skuldar, og skal þá lánardrottinn tiltaka í kröfulýsingu hvaða skuld eigi þar undir.
    Vanlýst krafa skal falla undir greiðsluaðlögunina, en viðkomandi kröfuhafa er þá ekki heimilt að hafa afskipti af greiðsluaðlögunarumleitunum.
    Þeim kröfuhöfum sem vitað er um, þar á meðal ábyrgðarmönnum og samskuldurum skuldara, skal kunngert að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar með því að umsjónarmaður sendir þeim afrit af innkölluninni. Þar skal einnig upplýst hvaða kröfur skuldari hefur gefið upp að viðkomandi kröfuhafi eigi og tilkynna þeim um frestun greiðslna skv. 11. gr.

11. gr.
Frestun greiðslna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

    Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn hefst tímabundin frestun greiðslna, sbr. þó 3. mgr. Á meðan á frestun greiðslna stendur er lánardrottnum óheimilt að:
     a.      krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum,
     b.      skuldajafna kröfu skuldarans við kröfu sína nema því aðeins að aðalkrafan og gagnkrafan séu af sömu rót runnar,
     c.      gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum,
     d.      gera fjárnám í eigum skuldarans eða láta selja þær nauðungarsölu,
     e.      neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilismanna vegna fyrri vanefnda,
     f.      krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans.
    Vextir falla á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur en þeir eru ekki gjaldkræfir. Vextir af kröfum sem tryggðar eru með veði í eign sem skuldari fær að halda gjaldfalla þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svarar til verðmætis hinnar veðsettu eignar.
    Frestun greiðslna nær ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt.

12. gr.
Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun.

    Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari:
     a.      leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða,
     b.      segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg honum eða heimili hans til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds,
     c.      ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla,
     d.      ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.
    Telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður skv. 15. gr.

13. gr.
Sala eigna skuldara.

    Umsjónarmaður getur ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin.
    Eignir skal selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Umsjónarmaður ákveður hvernig sala fer fram og annast söluna sjálfur, nema hann feli það öðrum. Er skuldara skylt að annast söluna ef umsjónarmaður ákveður það.
    Umsjónarmaður skal gera þeim sem njóta veðréttar í eign skuldarans viðvart um ákvörðun um sölu hennar með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Þegar fram er komið tilboð í eignina sem umsjónarmaður telur fært að taka skal hann tafarlaust kynna það fyrir þeim veðhöfum í eigninni sem ekki mundu fá fullnustu krafna sinna af söluverðinu og gefa þeim kost á að gera hærra boð eða ganga eftir atvikum inn í fram komið boð. Skulu veðhafar hafa frest í þessu skyni svo lengi sem boð er skuldbindandi fyrir tilboðsgjafa.
    Að sölu lokinni falla niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu sé um veðsettar eignir að ræða. Umsjónarmaður skal óska eftir aflýsingu veðkrafna gegn staðfestingu umboðsmanns skuldara á að umsókn skuldara til greiðsluaðlögunar hafi verið samþykkt, yfirlýsingu umsjónarmanns um að sala eignarinnar hafi verið gerð vegna greiðsluaðlögunar og afriti samnings um söluna.
    Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 15. gr.

14. gr.
Mat á eignum sem skuldari heldur eftir.

    Umsjónarmaður skal eftir þörfum afla mats á verðmæti þeirra eigna sem skuldara er ekki gert að selja.
    Lánardrottinn getur á eigin kostnað óskað mats sérfræðings fallist hann ekki á mat umsjónarmanns. Afli lánardrottinn slíks mats skal umsjónarmaður eftir atvikum endurmeta verðmæti eigna eða staðfesta fyrra mat.

15. gr.
Niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana.

    Ef fram koma upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga þessara skal umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana getur skuldari kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðunin barst honum og skal þá tímabil greiðsluaðlögunarumleitana standa þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir.
    Umboðsmaður skuldara skal tilkynna þekktum lánardrottnum um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana.

IV. KAFLI
Samningur um greiðsluaðlögun.
16. gr.
Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun.

    Umsjónarmaður skal, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.
    Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skal kveðið á um lengd greiðsluaðlögunartímabils, en það skal að jafnaði vera eitt til þrjú ár frá því að samningur tekur gildi. Tiltaka skal viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, m.a. upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Þá skal fylgja listi yfir allar kröfur sem vitað er um og tillaga umsjónarmanns um hvernig farið verði með kröfurnar, í samræmi við 3. og 21. gr. Jafnframt skal tiltaka allar verðmætar eignir sem skal selja eða halda eftir og verðmæti þeirra, sbr. 13. og 14. gr. Þá skal koma fram í frumvarpinu sá frestur sem lánardrottnar hafa til að taka afstöðu til þess.
    Frumvarp umsjónarmanns skal vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.
    Feli frumvarp umsjónarmanns í sér að skuldari inni af hendi reglulegar afborganir á tilteknu tímabili skal umsjónarmaður miða við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum að dugi til að sjá honum og heimilisfólki hans farborða og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu við samkvæmt lögum. Skal umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Ef skuldari hefur rétt til umgengni við börn skal tekið tillit til eðlilegra útgjalda í tengslum við hana.
    Afborgunarfjárhæð skv. 4. mgr. skal bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar.
    Ef umsjónarmaður telur það nauðsynlegt eða lánardrottinn krefst þess getur hann boðað til sérstaks fundar með þeim og skuldara til að ræða greiðsluaðlögunina áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er gert. Sé ástæða til skulu einnig boðaðir á fundinn ábyrgðarmenn skuldara, samskuldarar hans og þeir sem veitt hafa veð í eignum sínum til tryggingar kröfu á hendur skuldaranum.

17. gr.
Samþykki samnings um greiðsluaðlögun.

    Umsjónarmaður sendir frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun á sannanlegan hátt til allra lánardrottna sem þekktir eru og málið varðar. Lánardrottnum skal gefinn þriggja vikna frestur til að taka afstöðu til frumvarpsins frá því að það er sent og skal skýrlega koma fram í frumvarpi hvenær fresturinn er á enda.
    Umsjónarmaður skal að eigin frumkvæði leitast við að fá samþykki lánardrottna fyrir frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.
    Hafi lánardrottinn athugasemdir við frumvarpið eða leggist hann gegn því skal hann láta umsjónarmanni í té skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni innan frestsins sem hann nýtur til að taka afstöðu til frumvarpsins. Komi ekki á þennan hátt fram upplýsingar sem valdið geta að niðurfellingu umleitana til greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottinn til að endurskoða afstöðu sína, eftir atvikum með því að gera í samráði við skuldara breytingar á frumvarpinu sem skal þá sent öðrum lánardrottnum á nýjan leik. Stjórnvöld, innheimtumaður eða fyrirsvarsmaður stofnunar eða félags í opinberri eigu geta samþykkt frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun án tillits til ákvæða í öðrum lögum, reglugerðum eða samþykktum hvað varðar aðrar kröfur en sektir.
    Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun telst samþykkt þegar allir lánardrottnar sem málið snertir hafa samþykkt það. Lánardrottinn sem hefur fengið senda tilkynningu í samræmi við 1. mgr. og hefur ekki lýst yfir við umsjónarmann að hann leggist gegn frumvarpinu áður en þriggja vikna fresturinn rann út telst hafa samþykkt það.
    Ef frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun telst samþykkt skulu skuldari, umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara undirrita það og tekur samningurinn þá þegar gildi. Hann skal þegar í stað sendur öllum þekktum lánardrottnum skuldarans.

V. KAFLI
Undirbúningur nauðasamningsumleitana til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
18. gr.
Ákvörðun um að leita nauðasamnings og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.

    Nú hefur samningur ekki tekist um greiðsluaðlögun eftir ákvæðum IV. kafla, en skuldari hefur lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings í því skyni og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Skal umsjónarmaður þá innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, en áður skal hann gefa skuldaranum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka.
    Mæli umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal hann tilkynna það skuldara tafarlaust. Skuldari getur skotið þeirri ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðun var tekin og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan tveggja vikna. Staðfesti nefndin ákvörðun umsjónarmanns lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum þá þegar og skal umboðsmaður skuldara tilkynna þekktum lánardrottnum skuldarans um þau málalok. Hrindi kærunefndin ákvörðun umsjónarmanns skal hann fara svo að sem í 19. og 20. gr. segir.
    Meðan beðið er ákvörðunar skv. 1. eða 2. mgr. um hvort leitað skuli nauðasamnings og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna haldast áhrif greiðsluaðlögunarumleitana skv. 11. gr. Sé síðan eftir því leitað skulu þau áhrif standa áfram þar til þeirri málaleitan lýkur.

19. gr.
Frumvarp til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

    Þegar afráðið er að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður innan tveggja vikna gera frumvarp til samningsins sem taka skal til annarra krafna á hendur skuldara en þeirra sem tryggðar eru með veði eða annars konar tryggingarréttindum í eignum hans, en í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram:
     a.      hvað skuldari bjóðist til að greiða af skuldum sínum, sem frumvarpið tekur til, og með hvaða kjörum,
     b.      hvaða þekktir lánardrottnar eigi þessar kröfur og hversu mikið þeir fái í sinn hlut,
     c.      hvort trygging verði sett fyrir greiðslum og hver hún þá sé.
    Frumvarp skv. 1. mgr. skal ásamt greinargerð umsjónarmanns og eftir atvikum úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála skv. 18. gr. sent til allra þekktra lánardrottna skuldarans.
    Um framhald máls fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

20. gr.
Frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

    Þegar afráðið er að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafa á íbúðarhúsnæði, hvort sem það er gert samhliða því að leita nauðasamnings skv. 19. gr. eða án þess, skal umsjónarmaður gera frumvarp til slíkrar greiðsluaðlögunar og boða veðhafa innan tveggja vikna til fundar eftir fyrirmælum 5. gr. laga um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Um framhald máls fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í þeim lögum.

VI. KAFLI
Greiðsla til lánardrottna.
21. gr.
Skipting greiðslna milli lánardrottna.

    Greiðslur sem skipta skal milli lánardrottna samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun skiptast hlutfallslega eftir fjárhæð krafna með eftirfarandi undantekningum:
     a.      Ef skuldari heldur eftir eignum sem tryggðar eru með veði skal hann greiða fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum á tímabili greiðsluaðlögunar. Fastar mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur. Sá hluti veðtryggðra krafna sem er yfir matsverði þeirrar eignar sem stendur til tryggingar skal greiddur samkvæmt greiðsluaðlöguninni á sama hátt og óveðtryggðar kröfur. Falla þær niður að öðru leyti þegar skuldari hefur fullnægt skyldum sínum og greiðsluaðlögun lýkur nema um annað sé samið í samningi um greiðsluaðlögun í samræmi við 4. mgr. 3. gr.
     b.      Kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til, sbr. 1. mgr. 3. gr., skulu greiðast að fullu.
    Efndir kröfu í samræmi við samning um greiðsluaðlögun hafa sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu.
    Umsjónarmaður skal sjá til þess í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni.

22. gr.
Umdeildar kröfur.

    Ef krafa er umdeild að mati umsjónarmanns skal leggja fjármuni til hliðar til að mæta henni í samræmi við skilmála samnings um greiðsluaðlögun. Komi í ljós að skuldara beri að greiða kröfuna fellur hún undir ákvæði samningsins. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir, með málshöfðun eða öðrum aðgerðum, til þess að fá skorið úr gildi kröfunnar innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á skal fjármununum skipt milli þeirra lánardrottna sem hann nær til.

23. gr.
Ábyrgðarkröfur.

    Ef skuldari er skuldbundinn til að greiða fé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sem hann hefur gefið áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt, en skylda samkvæmt þeirri yfirlýsingu er enn ekki virk þegar samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi, skal ekki gert ráð fyrir skuldbindingunni við greiðsluaðlögunina. Verði ábyrgðarskuldbinding virk síðar skal farið eftir ákvæðum laga þessara um breytingar á greiðsluaðlögun eins og við getur átt. Skuldara ber þó ekki að greiða meira af þeirri skuld sem hann hefur tekið ábyrgð á en nemur því hlutfalli af óveðtryggðum kröfum sem honum ber að greiða samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

VII. KAFLI
Breyting, riftun eða ógilding samnings um greiðsluaðlögun.
24. gr.
Breyting á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu skuldara.

    Skuldari getur krafist þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun ef á greiðsluaðlögunartímabilinu koma upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.
    Ef skuldara hefur eftir að greiðsluaðlögunartímabil hófst verið gert kunnugt um skuld sem stofnaðist áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt verður skuldin felld undir greiðsluaðlögunina. Skal greitt af henni í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum, þó einungis frá þeim tíma sem krafan var kynnt skuldara. Skuldara er óheimilt að greiða kröfuna utan greiðsluaðlögunar.
    Ekki er unnt að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun í samræmi við 1. mgr. fyrr en skuldari hefur fullreynt að ná þeim fram með samningum við alla lánardrottna. Náist slíkt samkomulag skal það lagt fyrir umboðsmann skuldara og taka breytingarnar ekki gildi fyrr en umboðsmaður skuldara hefur samþykkt þær. Telji umboðsmaður skuldara breytingarnar ósanngjarnar eða óhæfilegar skal hann hafna þeim. Ákvörðun umboðsmanns skuldara þess efnis getur skuldari eða lánardrottnar kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim.

25. gr.
Breyting, riftun eða ógilding samnings um greiðsluaðlögun að kröfu lánardrottins.

    Lánardrottinn, sem greiðsluaðlögunin nær til, getur krafist þess að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Hafi fjárhagsstaðan batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli lánardrottna án þess að samningnum um greiðsluaðlögun sé breytt að öðru leyti.
    Lánardrottinn, sem samningur um greiðsluaðlögun nær til, getur krafist þess að honum verði rift eða hann ógiltur ef skuldari hefur vanrækt verulega skyldur sínar samkvæmt samningnum.

26. gr.
Málsmeðferð vegna breytinga, riftunar eða ógildingar
á samningi um greiðsluaðlögun.

    Kröfu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun skal beint til umboðsmanns skuldara með skriflegu erindi. Umboðsmaður skuldara sendir aðilum sem málið varðar fram komið erindi og kallar eftir nauðsynlegum upplýsingum. Boðað skal til fundar ef lánardrottinn eða skuldari krefst þess eða umboðsmaður skuldara telur það nauðsynlegt. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um erindið innan mánaðar frá því að krafa berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara getur skuldari eða lánardrottinn kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim.
    Kröfu um riftun eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun getur lánardrottinn haft uppi fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldaranum.

27. gr.
Upplýsingaskylda skuldara gagnvart lánardrottnum.

    Ef upp koma aðstæður sem veita lánardrottnum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun, ógildingu hans eða riftun skal skuldari innan eins mánaðar og á tryggan hátt upplýsa lánardrottna um þær aðstæður.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
28. gr.
Skráning greiðsluaðlögunar o.fl.

    Umsjónarmaður skal óska eftir því að athugasemd um samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn skuldara um greiðsluaðlögun verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á. Skal sú skráning vera gjaldfrjáls.
    Umboðsmaður skuldara skal halda skrá yfir alla sem fengið hafa heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
    Þegar greiðsluaðlögunartímabil er liðið skulu yfirvöld og eftirlitsaðilar einungis nota upplýsingar um greiðsluaðlögun skuldara til að kanna hvort skuldari hafi áður fengið greiðsluaðlögun í samræmi við lög þessi.
    Hafi skuldari fengið að halda eftir veðsettum eignum meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur samkvæmt lögum þessum og eignirnar eru skráðar í opinberum skrám skal skrá athugasemd um greiðsluaðlögunina þar.

29. gr.
Veðbönd afmáð eftir að greiðsluaðlögunartímabili er lokið.

    Þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið getur skuldari gegn framvísun samnings um greiðsluaðlögun og yfirlýsingar umboðsmanns skuldara um að greiðsluaðlögun sé lokið krafist aflýsingar á veðkröfum sem greiddar eru á sama hátt og óveðtryggðar kröfur og aflýsingar athugasemdar skv. 1. mgr. 28. gr.

30. gr.
Greiðsla kostnaðar.

    Umboðsmaður skuldara ber kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar bera þann kostnað sem á þá fellur af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar.

31. gr.
Kröfur sem hefur ekki verið tilkynnt um.

    Kröfur sem urðu til áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt og skuldari hefur ekki verið krafinn um á greiðsluaðlögunartímabilinu falla niður þegar því lýkur.

32. gr.
Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.

    Félags- og tryggingamálaráðherra skal skipa kærunefnd greiðsluaðlögunarmála til fjögurra ára í senn. Heimilt er að skjóta til hennar ákvörðunum í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Í kærunefnd greiðsluaðlögunarmála sitja þrír menn. Skulu að minnsta kosti tveir þeirra hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og annar uppfylla hæfisskilyrði til að vera héraðsdómari. Ráðherra skipar nefndarmann sem fullnægir þeim skilyrðum til að vera formaður kærunefndar.
    Úrskurðir kærunefndar greiðsluaðlögunarmála eru endanlegir á stjórnsýslustigi.
    Ráðherra setur reglugerð um störf nefndarinnar.

33. gr.
Áhrif greiðsluaðlögunar á rétt skuldara til greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.

    Sá hluti skulda sem felldur er niður samkvæmt greiðsluaðlögun skerðir ekki rétt skuldara til hvers konar greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.

34. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2010.

35. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breyting á öðrum lögum:
     1.      Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. breytast sem hér segir:
                  a.      63. gr. a laganna orðast svo:
                      Sá sem árangurslaust hefur leitað samnings við lánardrottna sína eftir ákvæðum laga um greiðsluaðlögun einstaklinga getur samkvæmt fyrirmælum þessa kafla leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, en slíkur samningur getur aðeins haft áhrif á kröfur sem nauðasamningur eftir almennum ákvæðum laga þessara tekur til, sbr. 28. gr.
                      Einstaklingur sem ber ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn eða í félagi við aðra, getur þó ekki leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt þessum kafla nema skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.
                      Sá sem leita vill nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skal leggja fyrir héraðsdómara frumvarp umsjónarmanns með greiðsluaðlögun til slíks samnings ásamt kröfu um staðfestingu nauðasamnings samkvæmt frumvarpinu innan viku frá því að umsjónarmaður lét það frá sér fara, en frumvarpið hefur þá sömu áhrif og ef það hefði verið samþykkt af lánardrottnum við atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp eftir almennum reglum laga þessara.
                      Með beiðni um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skulu fylgja samrit allra gagna sem lágu fyrir við umleitanir til að koma á samningi um greiðsluaðlögun ásamt greinargerð umsjónarmanns.
                  b.      63. gr. b laganna orðast svo:
                      Eftir því sem átt getur við skal farið eftir ákvæðum 55.–59. gr. við meðferð kröfu um staðfestingu nauðasamnings skv. 63. gr. a. Reglur X. kafla gilda um nauðasamning til greiðsluaðlögunar að frátalinni 3. mgr. 60. gr.
                  c.      63. gr. c – 63. gr. i laganna falla brott.
                  d.      Fyrirsögn X. kafla a laganna verður: Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar.
                  e.      Í stað orðanna „41., 42. eða 2. mgr. 63. gr. g“ í 3. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna kemur: 41. eða 42. gr.
     2.      3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, orðast svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og samningur um greiðsluaðlögun, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka eða aðalskuldara hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.
     3.      2. málsl. 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, orðast svo: Hið sama á við um eftirgefnar skuldir sem mælt er fyrir um í samningi um greiðsluaðlögun skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga eða nauðasamningi til greiðsluaðlögunar skv. X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með áorðnum breytingum, eða á annan fullnægjandi hátt er sannað að eignir eru ekki til fyrir, að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur um hlutlægt mat á forsendum eftirgjafar, skilyrði þess að eftirgjöf teljist ekki til tekna, upplýsingagjöf skv. 92. gr. o.fl.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skal ljúka meðferð beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem lögð hefur verið fyrir héraðsdóm fyrir gildistöku laga þessara, enda falli skuldari ekki frá beiðni sinni. Réttaraðstoð má veita á grundvelli laga nr. 65/1996 til að ljúka meðferð slíkrar beiðni.

Greinargerð.


I. Vinna nefndarinnar að nýju frumvarpi.
    Frumvarp þetta er byggt á grundvelli frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (þskj. 950, 560. mál) um heilsteypta löggjöf um frjálsa og þvingaða greiðsluaðlögun. Eftir að félags- og tryggingamálanefnd fékk það frumvarp til umfjöllunar hélt nefndin fjölda funda um málið, fékk á fund sinn marga gesti og vann drög að breytingum á frumvarpinu. Í samráði við félags- og tryggingamálaráðherra og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti fól nefndin réttarfarsnefnd að gera drög að breytingum á frumvarpinu. Þegar sú vinna lá fyrir taldi nefndin ljóst að rétt væri að leggja fram nýtt frumvarp um greiðsluaðlögun einstaklinga til að lagaákvæðin og skýringar á þeim væru öllum aðgengileg, jafnt almenningi sem fagaðilum. Allnokkuð er þó byggt á frumvarpstexta ráðherra en með því að leggja fram nýtt frumvarp taldi nefndin að einfaldara yrði fyrir almenning að kynna sér efni laganna, framkvæmd þeirra og reglur sem um greiðsluaðlögun gilda og þá yrði engum vafa undirorpið hvaða reglur giltu á þessu sviði.
    Knýjandi þörf er á skilvirkum og raunhæfum úrræðum til að takast á við þann vanda sem til kom vegna efnahagshrunsins. Mikilvægt er að lagasetning taki á vandanum, nái fram því sem til er ætlast, sé skilvirk og tryggi úrræði sem hægt sé að beita á samræmdan hátt.
    Mikilvægt er að samfélagsleg sátt ríki um lagasetningu af þessu tagi því henni er m.a. ætlað að vera grundvöllur endurreisnar og þess að hægt verði að styrkja efnahagsbata landsins. Lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er þar að auki ætlað að standa áfram og lögfesta úrræði til handa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum óháð þeim erfiðu aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins. Nefndin hefur því við vinnu sína lagt áherslu á að tryggt verði að hér sé um að ræða vandað, skilvirkt og varanlegt úrræði til að greiða úr skuldavanda þeirra heimila sem eru hvað verst stödd.
    Helstu breytingar sem gerðar eru frá framangreindu frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra eru að frumvarpið tekur núna eingöngu til frjálsrar greiðsluaðlögunar, þ.e. samninga um greiðsluaðlögun, en útfærð er tenging við réttarfarsleg úrræði til greiðsluaðlögunar. Náist ekki samningar með skuldara og lánardrottnum í samræmi við reglur frumvarpsins getur skuldari óskað eftir því að ganga beint til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. lög nr. 50/2009. Þá er fellt brott ákvæði um að einstaklingur sem borið hefur ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi geti ekki leitað greiðsluaðlögunar nema skuldir sem stafi af atvinnurekstrinum séu lítill hluti heildarskulda. Að auki hefur nefndin reynt að minnka vægi matskenndra atriða í textanum, t.d. með því að taka í auknum mæli upp atriði sem er að finna í X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og komin er reynsla af og þar af leiðandi dómvenja. Þar sem þörf krefur eru þær breytingar sem nefndin gerir frá ákvæðum frumvarps ráðherra skýrðar nánar í athugasemdum við einstakar greinar.
    Við gerð frumvarps þessa fól félags- og tryggingamálanefnd réttarfarsnefnd, félags- og tryggingamálaráðuneyti og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti yfirferð og nánari skoðun einstakra þátta. Við umfjöllun um frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra og vinnu að nýju frumvarpi fékk nefndin á sinn fund Árna Pál Árnason félags- og tryggingamálaráðherra, Agnar Frey Helgason, Rán Ingvarsdóttur og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Ásu Ólafsdóttur og Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Ingimar Jóhannsson og Arnór Snæbjörnsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur lögmann, Þórð Bogason lögmann, Ástu S. Helgadóttur, Elnu S. Sigurðardóttur, Margréti Valdimarsdóttur, Pálma Rögnvaldsson og Söru Jasonardóttur frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Jón Ingvar Pálsson, Árna Haraldsson og Guðmund Þór Bjarnason frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Marinó T. Njálsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Magnús Norðdal frá Alþýðusambandi Íslands, Elías Blöndal Guðjónsson, Ernu Bjarnadóttur og Jóhönnu Lind Elíasdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Þorgerði Erlendsdóttur og Unni Gunnarsdóttur frá Dómarafélagi Íslands, Jónu Björk Guðnadóttur, Helga Bragason, Odd Ólason, Kolbrúnu Garðarsdóttur og Ástrúnu Björk Ágústsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Gísla Jafetsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Hrafn Magnússon, Stefán Árna Auðólfsson og Tómas M. Möller frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur og Ingvar J. Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Snorra Olsen og Eddu Símonardóttur frá tollstjóra, Tryggva Axelsson og Þórunni A. Árnadóttur frá Neytendastofu, Hildi Jönu Júlíusdóttur og Kristínu Fjólu Fannberg Birgisdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Sigrúnu Jóhannesdóttur frá Persónuvernd, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd, Evu Helgadóttur frá Lögmannafélaginu, Guðrúnu Ragnarsdóttur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Lúðvík Þráinsson endurskoðanda og Sigurð Arnar Jónsson og Bjarna Þór Óskarsson frá Intrum.
    Þá bárust umsagnir frá Guðmundi Lárussyni sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, Innheimtustofnun sveitarfélaga, ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fjármálafyrirtækja, Bændasamtökum Íslands, Íbúðalánasjóði, Neytendasamtökunum, Persónuvernd, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, tollstjóra, Viðskiptaráði Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Dómarafélagi Íslands, Dómstólaráði, Hagsmunasamtökum heimilanna og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.

II. Almennar athugasemdir.
    Frumvarpið sem hér er lagt fram er, líkt og að framan greinir, byggt á grundvelli frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra um greiðsluaðlögun einstaklinga (þskj. 950). Markmiðið er að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum. Skilyrði fyrir greiðsluaðlögun er að skuldari sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð.
    Skuldari þarf að safna saman og leggja fram gögn sem leiða í ljós ógjaldfærni hans og leggja í kjölfarið inn umsókn til umboðsmanns skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samþykki umboðsmaður skuldara umsóknina er skuldara og lánardrottnum ætlaður ákveðinn tími til að ná samkomulagi um uppgjör skulda, þ.e. samningi um greiðsluaðlögun. Lagt er til að tímabil greiðsluaðlögunar skuli að jafnaði standa í eitt til þrjú ár eftir að greiðsluaðlögun er komið á. Að loknu greiðsluaðlögunartímabili skulu samningskröfur afskrifaðar nema um annað sé samið í samningi til greiðsluaðlögunar, en áfram skal greitt af veðkröfum sem rúmast innan matsvirðis eignar sem þær hvíla á.
    Takist ekki að ná samningi til greiðsluaðlögunar getur skuldari í samræmi við ákvæði frumvarpsins óskað eftir því við umsjónarmann að hann semji frumvarp og leiti eftir nauðasamningi um greiðsluaðlögun í samræmi við X. kafla a gjaldþrotaskiptalaga, nr. 21/1991, en slíkur nauðasamningur tekur til annarra krafna en þeirra sem tryggðar eru með veði eða annars konar tryggingarréttindum í eignum skuldara. Því getur skuldari einnig eftir atvikum óskað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna íbúðarhúsnæðis í samræmi við lög nr. 50/2009.
    Greiðsluaðlögun er ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Greiðsluaðlögun er að þessu leyti ólík gjaldþrotaskiptum sem eru fyrst og fremst sameiginleg fullnustugerð allra lánardrottna, enda starfar skiptastjóri í raun í umboði lánardrottna og honum ber sem slíkum að gæta hagsmuna þeirra í störfum sínum við uppgjör búsins. Við skuldauppgjör samkvæmt þessu frumvarpi eru hagsmunir skuldara hins vegar hafðir að leiðarljósi. Með frumvarpinu er ætlunin að festa í lög sértækar reglur, m.a. að norskri fyrirmynd (lov, av 17. juli 1992 nr. 99, om frivillig og tvungen gjeldsordning for privatpersoner (gjeldsordningsloven)), sem er ætlað að ná því markmiði að færa raunvirði fjárkrafna að veruleikanum. Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.
    Eftir gjaldmiðils- og bankahrunið haustið 2008 eiga margir í miklum greiðsluvanda enda þótt vandinn verði ekki í öllum tilvikum rakinn til hrunsins. Fjöldi einstaklinga stendur ekki lengur undir greiðslubyrði lána, sem hefur þyngst mjög undanfarin missiri, enda hafa skuldbindingar fólks í mörgum tilvikum vaxið langt umfram virði eigna sem standa þeim til tryggingar. Löggjöfin mun hraða endurreisn efnahagslífsins með því að auðvelda endurskipulagningu fjárhags einstaklinga.
    Afleiðingar hrunsins í október 2008 birtast í margvíslegum myndum. Þar vegur þyngst atvinnuleysi, hækkun gengistryggðra lána, lækkun launa, verðlækkun eigna og mikil verðbólga í kjölfar falls krónunnar. Hrunið hafði í för með sér snöggan samdrátt í framleiðslu og minnkandi eftirspurn í hagkerfinu. Sá samdráttur hefur haft alvarleg áhrif á atvinnustig og eftirspurn eftir vinnuafli. Þar sem stærstur hluti fjárskuldbindinga er verðtryggður eða gengistryggður jukust skuldir lántakenda mjög við hrunið. Því er brýnt að góð greiðsluaðlögunarlöggjöf sé fyrir hendi til að forða gjaldþrotum og nauðungarsölum íbúða og koma í veg fyrir óþarft samfélagslegt tjón.
    Þegar umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar felst í því viðurkenning eða mat stjórnvalda á að litlar sem engar líkur séu á að lánardrottnar fái fullar efndir krafna sinna og nauðsynlegt sé að afskrifa þær að hluta eða í heild. Krafa sé því ekki meira virði en þær greiðslur sem skuldari getur staðið undir. Eftir þær hamfarir sem dunið hafa á íslensku efnahagslífi er nauðsynlegt að aðlaga virði eigna og krafna að veruleikanum og eðlilegri greiðslugetu skuldara.
    Sú breyting sem gerð var á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. með lögfestingu X. kafla a um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar hefur um margt reynst vel. Það hefur þó verið gagnrýnt að lögin taki um of mið af skuldaskilaréttinum og hagsmunum kröfuhafa, skilyrði til greiðsluaðlögunar séu of ströng, mun fyllri ákvæði vanti um framkvæmdina sjálfa og þau kveði ekki nægilega skýrt á um það hvernig breytingum verði háttað eftir að nauðasamningur um greiðsluaðlögun hefur tekið gildi. Þá taki lögin ekki til veðkrafna. Það gera hins vegar að hluta til lög nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Hið mikla álag sem er á dómstólum landsins um þessar mundir hefur valdið því að löng bið er eftir því að sumir dómstólar afgreiði beiðnir um heimild til að leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Þá blasir einnig við að álag á dómstóla muni aukast á næstu missirum. Í frumvarpi þessu er lagt til að heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði að hluta færð frá dómstólum til umboðsmanns skuldara og skuli hann að jafnaði afgreiða umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún er fullbúin.
    Þau úrræði sem hér er ætlunin að leiða í lög hafa þegar verið lögfest annars staðar á Norðurlöndum. Fyrst voru reglur þessa efnis lögfestar í Danmörku árið 1984. Þar var þeim skipað í 4. þátt gjaldþrotaskiptalaganna. Danir nefna þetta réttarúrræði „gældssanering“. Næst var sams konar úrræði lögleitt í Noregi 1992 og er þar nefnt „gjeldsordning“. Eins og áður hefur komið fram var einkum höfð hliðsjón af norsku lögunum við samningu þessa frumvarps. Þá voru lög um þetta efni sett í Finnlandi 1993 og í Svíþjóð 1994, en í þeim löndum er úrræðið nefnt „skuldsanering“.

III. Úrræði sem standa einstaklingum til boða.
    Frá hruninu í október 2008 hefur löggjafinn leitað ýmissa leiða til að takast á við og leysa úr greiðsluvanda einstaklinga og fyrirtækja. Markmið aðgerðanna hefur verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Á síðasta ári voru vaxtabætur hækkaðar um tæp 40% með lögum nr. 128/2009 og kemur sú hækkun almennt til útborgunar 1. ágúst nk. Að auki var fólki með tímabundið eignarhald á tveimur íbúðum veittur réttur á vaxtabótum fyrir báðar eignir hafi sala reynst ómöguleg. Með lögum nr. 24/2009 var gerð breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., með innleiðingu X. kafla a, en sá kafli tekur til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar vegna samningskrafna. Með samningskröfum er vísað til 1. mgr. 29. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en með þeim er átt við allar kröfur á hendur skuldara, aðrar en þær sem eru undanþegnar áhrifum af nauðasamningi eða falla niður við staðfestingu hans, sbr. 1. og 3. mgr. 28. gr. laganna. Enn fremur tekur nauðasamningur til greiðsluaðlögunar ekki til krafna sem hefði verið skipað eftir 114. gr. laganna ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Verði frumvarp þetta að lögum verður ekki hægt að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar fyrr en fullreynt hefur verið að ná fram samningi um greiðsluaðlögun samkvæmt frumvarpi þessu. Með lögum nr. 159/2008 var vanefndaálag við útreikning dráttarvaxta lækkað úr 11% í 7% með tilheyrandi lækkun á dráttarvöxtum. Einstaklingum var gefin heimild til úttektar séreignarsparnaðar að fjárhæð 1 millj. kr. með lögum nr. 13/2009 sem svo var hækkuð í 2,5 millj. kr. með lögum nr. 130/2009. Þá hafa einnig verið samþykkt lög um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga, sbr. lög nr. 32/2009, auk laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins þar sem m.a. er kveðið á um greiðslujöfnun verðtryggðra lána, þar á meðal verðtryggðra bílalána, og sértæka skuldaaðlögun. Í kjölfar þess að þau lög voru samþykkt gerðu flest fjármálafyrirtæki landsins með sér samkomulag um að setja upp verkferla um sértæka skuldaaðlögun til að fella meðferð og afgreiðslu skuldamála einstaklinga og fyrirtækja í sambærilegan farveg innan flestra fjármálafyrirtækja. Framgangur mála í sértækri skuldaaðlögun hefur þó ekki verið eins hraður og vonast var til. Mikilvægt er að allir kröfuhafar átti sig á því að ekki þýðir í frjálsum samningum um skuldaskil að bjóða skuldurum lakari rétt en þeir geta fengið með greiðsluaðlögun. Því fyrr sem sú staðreynd verður ljós, þeim mun betur mun ganga við meðferð skuldamála í frjálsum samningum.
    Þá hafa verið tekin upp ýmis önnur úrræði sem verður tæpt á hér þótt ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Þar má til að mynda nefna að fjármálafyrirtæki innleiddu með samkomulagi greiðsluerfiðleikaúrræði sambærileg þeim sem Íbúðalánasjóður býður upp á. Lántökum stendur því nú til boða möguleiki á frystingum, skuldbreytingu vanskila og lengingu lánstíma. Einnig hefur verið sett hámark á innheimtukostnað.
    Auk þeirra laga sem þegar hafa verið samþykkt eru í meðförum þingsins nokkur mál sem ætlað er að lögfesta úrræði til að aðstoða einstaklinga í greiðsluvanda og er frumvarp þetta um greiðsluaðlögun einstaklinga eitt þeirra. Þá leggur félags- og tryggingamálanefnd samhliða fram frumvarp sem tryggja á úrræði fyrir einstaklinga sem keyptu fasteign til búsetu fyrir efnahagshrunið en hafa ekki getað losað sig við fyrri eign og eru því að greiða fasteignaveðkröfur af tveimur eignum. Þetta er mörgum fjölskyldum þungur baggi og mikilvægt að gera þeim kleift að losa sig við aðra eignina enda getur það í mörgum tilvikum verið nægilegt til að leysa fjárhagsvanda þeirra. Það frumvarp er byggt á a–f-lið 9. gr. í frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra á þskj. 951 í 561. máli. Í því máli eru jafnframt lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, til að festa það úrræði í sessi. Þá hefur félags- og tryggingamálaráðherra mælt fyrir frumvarpi um skilmálabreytingu bílalána (þskj. 1176 í 646. máli) sem miðar að því að eftirstöðvar myntkörfulána vegna bílakaupa verði endurreiknaðar með tilliti til verðlagsþróunar í stað gengisþróunar. Algeng lækkun höfuðstóls verði það frumvarp óbreytt að lögum er 25–40% og algeng lækkun greiðslubyrði 20–25%. Í frumvarpinu er jafnframt lögð til heimild til að óska eftir að lán lengist í allt að 24 mánuði til viðbótar til að létta greiðslubyrði enn frekar.

IV. Málsmeðferð.
    Einstaklingur sem hyggst sækja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar skal senda umsókn til umboðsmanns skuldara. Í frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra til laga um umboðsmann skuldara sem félags- og tryggingamálanefnd hefur haft til meðferðar (þskj. 952 í 562. máli) er lagt til að stofnun með því heiti verði komið á fót á grundvelli Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Gert er ráð fyrir að umboðsmaður skuldara veiti skuldara endurgjaldslausa aðstoð við útfyllingu umsóknar og öflun nauðsynlegra gagna og er í frumvarpinu nánar greint frá þeim gögnum og upplýsingum sem skuldara ber að leggja fram. Þrátt fyrir að kveðið sé á um aðstoð umboðsmanns skuldara er lögð áhersla á að gagnaöflun fyrir umsóknina sé á ábyrgð skuldarans enda markmiðið með lögunum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þegar allra gagna hefur verið aflað telst umsókn fullbúin og hefur umboðsmaður skuldara þá tvær vikur til að taka ákvörðun um samþykki eða synjun umsóknarinnar. Hafni umboðsmaður skuldara umsókn skal hann rökstyðja það skriflega og má kæra þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Samþykki umboðsmaður skuldara umsókn um greiðsluaðlögun skal hann þegar í stað tilnefna umsjónarmann með greiðsluaðlögun sem auglýsir innköllun krafna í Lögbirtingablaðinu. Frestur til að lýsa kröfum er fjórar vikur í samræmi við innköllunarfrest í lögum um gjaldþrot o.fl. Þeir lánardrottnar sem lýsa kröfum innan frestsins eiga einir rétt á því að láta málið til sín taka. Vanlýstar kröfur falla þó undir greiðsluaðlögunina.
    Að lokinni innköllun leggur umsjónarmaður fram frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun fyrir lánardrottna og skuldara sem unnið er í samráði við skuldara. Frumvarpið skal taka mið af því hvað raunhæft sé að ætla að skuldari geti greitt að teknu tilliti til fjárhags og framfærslukostnaðar. Við útreikning framfærslu skal notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur.
    Hafi lánardrottnar athugasemdir við frumvarpið eða leggist þeir gegn því senda þeir umsjónarmanni skriflegan rökstuðning með afstöðu sinni innan þriggja vikna frá því að frumvarpið var sannanlega sent þeim. Hafni lánardrottinn frumvarpinu skal umsjónarmaður leitast við að fá hann til að endurskoða afstöðu sína, t.d. með því að gera breytingar á frumvarpi í samráði við skuldara. Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun telst samþykkt þegar allir lánardrottnar hafa samþykkt það. Hafi lánardrottinn ekki lýst því yfir við umsjónarmann innan þriggja vikna frestsins að hann leggist gegn frumvarpinu telst hann hafa samþykkt það.
    Takist ekki samningar um greiðsluaðlögun getur skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings um greiðsluaðlögun og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Skal þá umsjónarmaður innan tveggja vikna taka rökstudda skriflega afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Mæli hann gegn því skal hann tilkynna það skuldara tafarlaust sem getur kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Mæli umsjónarmaður með því að leitað verði nauðasamnings til greiðsluaðlögunar fer um það eftir X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem verður einfaldaður til muna enda byggt á þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin við að koma á samningi um greiðsluaðlögun. Einstaklingur leggur þá fyrir héraðsdóm frumvarp umsjónarmanns til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ásamt samriti allra gagna sem lágu fyrir þegar reynt var að koma á samningi um greiðsluaðlögun. Um meðferð dómstólsins um kröfu á staðfestingu nauðasamnings um greiðsluaðlögun fer eftir því sem við á reglum IX. kafla laga um gjaldþrot o.fl. Mæli umsjónarmaður með því að leitað verði eftir greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna fer um það skv. lögum nr. 50/2009, um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, og eru til samræmis lagðar til breytingar á frumvarpi sem breytir þeim lögum.

V. Gildissvið og skilyrði greiðsluaðlögunar.
    Forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Greiðsluerfiðleikar verða að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Gert er að skilyrði að skuldari sýni fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum og ekki má samþykkja greiðsluaðlögun veiti gögnin ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þarf að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna ber umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Þá telst það ekki viðvarandi greiðsluvandi þó að skuldari verði skyndilega atvinnulaus. Í Noregi hefur m.a. verið horft til þess að einstaklingur þurfi að hafa verið atvinnulaus í a.m.k. eitt ár svo hægt sé að tala um viðvarandi greiðsluvanda. Það er nokkuð langur tími. Þetta þarf þó að meta í hverju tilviki og hugsanlegt er að umsókn um greiðsluaðlögun verði samþykkt þótt greiðsluvanda megi rekja til atvinnuleysis sem hafi staðið stutt séu líkur á því að framtíðartekjur verði skertar, t.d. vegna hás aldurs skuldara, veikinda hans eða annarra aðstæðna. Þegar um tímabundna greiðsluerfiðleika er að ræða nægir oft að breyta greiðsluskilmálum lánasamninga til þess að einstaklingar ráði við skuldabyrði sína. Samhliða frumvarpi þessu leggur félags- og tryggingamálanefnd til breytingar á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sem festir það úrræði í sessi og rýmkar frekar heimildir fólks til að njóta þess. Ef skuldari verður fyrir slysi og hlýtur af varanlega örorku má gera ráð fyrir að greiðsluerfiðleikar hans verði varanlegir. Ekki er gert að skilyrði fyrir því að heimilt sé að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun að skuldir hafi náð tiltekinni upphæð eða að skuldari hafi náð tilteknum aldri. Það kann þó í einhverjum tilvikum að kalla á sérstaka rannsókn af hálfu umboðsmanns skuldara ef upphæð skulda er óvenju lág þegar sótt er um heimild. Ekki er þó ástæða til að leggja mikla rannsóknarkvöð á umboðsmann af þessu tilefni.
    Ekki má samþykkja umsókn ef hún telst á einhvern hátt óeðlileg. Það á t.d. við ef skuldasöfnun á rætur að rekja til ólögmætra eða ósiðlegra athafna skuldara. Í því samhengi má nefna að ef greiðsluerfiðleikar stafa af brotastarfsemi eða margvíslegri misnotkun kemur ekki til álita að samþykkja greiðsluaðlögun. Einnig ber að hafna greiðsluaðlögun ef skuldari gefur í umsókninni rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína. Enn fremur ber að hafna umsókn ef skuldari hefur fært eignir yfir á aðra, ef það var gert í því skyni að láta efnahaginn líta verr út en ella. Við mat á umsókn verður einnig að taka tillit til þess hvort nýverið hafi verið stofnað til skuldanna – jafnvel í þeim tilgangi að fá greiðsluaðlögun. Nýleg endurfjármögnun eldri lána, t.d. vegna húsnæðis, telst þó ekki til nýfenginna lána og því ekki ástæða til að hafna umsókn af því tilefni. Ef skuldari sýnir lítinn sem engan áhuga á að leysa mál sín eftir bestu getu, eða hann hefur efnt til fjárfestinga sem væru riftanlegar eða gert ráðstafanir sem væru riftanlegar ef bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta, ber að hafna umsókn. Að auki ber að hafna umsókn hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans þegar hann stofnaði til skuldbindinganna eða hafi hann stofnað til þeirra þegar hann var greinilega ófær um að standa við þær.

VI. Einstaklingar í atvinnurekstri.
    Í gildandi X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er kveðið á um að einstaklingur sem hefur borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnurekstri geti einungis fengið nauðasamning til greiðsluaðlögunar séu skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum lítill hluti af heildarskuldum. Í frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra var lagt til að ákvæðið yrði víkkað nokkuð þar sem ekki var gert að skilyrði að einstaklingur hefði hætt atvinnurekstri. Í frumvarpi þessu er takmörkunin með öllu felld brott. Við umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar var mikið rætt um málefni einyrkja og bænda sem eru með atvinnurekstur á sinni eigin kennitölu enda jafnt brýnt að leysa greiðsluerfiðleika þeirra og annarra einstaklinga. Ótakmörkuð ábyrgð þýðir að rekstrargrundvöllur hefur bein áhrif á fjárhag einstaklingsins og fjölskyldu hans. Taldi nefndin því mikilvægt að einstaklingum í atvinnurekstri með ótakmarkaðri ábyrgð væri gert kleift að leita nauðsynlegra úrræða væru þeir ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða yrðu það um fyrirsjáanlega framtíð.
    Nefndin leggur áherslu á að mikilvægt sé að einstaklingum sé gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem er til þess fallinn að skapa heimili einstaklings raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar til framtíðar. Við vinnslu frumvarpsins var mikið rætt um málefni bænda og huga þarf að þeirri staðreynd að heimilisrekstur bænda og tekjuöflun eru oft og tíðum óaðgreinanleg auk þess sem rík byggðasjónarmið eru fyrir því að forða því að jarðir fari í eyði. Frumvarpinu er þó fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en mikilvægt er að mæta aðstæðum þeirra sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það er þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eiga í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði. Með því að fella brott þá takmörkun sem felst í því að skuldir einstaklings megi ekki nema að litlum hluta rekja til atvinnurekstrar er gengið nokkuð langt til að mæta þeim óvenjulegu aðstæðum sem uppi eru í íslensku samfélagi. Því leggur nefndin áherslu á að fylgst verði náið með þróun þessa úrræðis til að tryggja að löggjöfin þjóni því markmiði að gera einstaklingum en ekki atvinnurekstri kleift að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Vert er í þessu sambandi að geta þess að verði skuld gefin eftir við greiðsluaðlögun telst það einstaklingi ekki til tekna nema skuldin sé tilkomin vegna atvinnureksturs. Sé hún tilkomin vegna atvinnureksturs myndar eftirgjöf hennar skattstofn enda er það í samræmi við skattalega meðferð eftirgjafar á rekstrargjöldum og mikilvægt að skattaleg meðferð verði ekki mismunandi eftir því hvernig eftirgjöf ber að.
    Frumvarpið tekur til greiðsluaðlögunar einstaklinga. Slíkir greiðsluerfiðleikar geta varðað atvinnustarfsemi að hluta til. Ekki verður hins vegar séð að frumvarpið fari í bága við samkeppnislög. Er þá horft til þess að úrræðið svipar um margt til nauðasamningsumleitana og til þeirra er stofnað að frumkvæði viðkomandi skuldara. Úrræðin standa jafnframt öllum skuldurum til boða, sem uppfylla almenn og hlutlæg skilyrði. Þá má nefna að Samkeppniseftirlitið hefur fjallað talsvert um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, sbr. umræðuskjal eftirlitsins nr. 2/2009, Bankar og endurskipulagning fyrirtækja. Þar er bent á að það sé neytendum og atvinnulífinu almennt til hagsbóta að bankar afskrifi skuldir eða á annan hátt dragi úr skuldabyrði rekstrarhæfra fyrirtækja í stað þess að þau fari í þrot. Beiting samkeppnislaga eigi ekki að vinna gegn þessu.
    Við vinnu nefndarinnar kynnti hún sér m.a. úrræði sem standa þessum hópi til boða sem og efni frumvarps til breytinga á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem einfalda á ferli nauðasamninga hvað varðar samþykki frumvarps til nauðasamnings (447. mál). Telur nefndin þau úrræði sem til staðar eru ekki nægileg en að mati nefndarinnar getur sú breyting sem lögð er til í 447. máli auðveldað einstaklingum í atvinnurekstri að leita nauðasamninga. Þrátt fyrir það ákvað nefndin að fella brott þá takmörkun sem var að finna í frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra á möguleikum einstaklinga í atvinnurekstri til að leita greiðsluaðlögunar. Við þá ákvörðun horfði nefndin m.a. til þess að ákvæði 6. gr. frumvarpsins sem kveður á um hvenær synja skuli umsókn og hvenær heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun girðir fyrir það að einstaklingur í atvinnurekstri fái greiðsluaðlögun hafi hann hagaði fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans eða tekið á sig fjárskuldbindingar sem hann var greinilega ófær um að standa við þegar hann stofnaði til þeirra.
    Þá er frumvarpið sem nú er lagt fram nokkuð breytt og fjallar nú að meginstefnu um frjálsa samninga til greiðsluaðlögunar. Lánardrottnar sem ekki vilja gera slíkan samning geta hafnað honum og skuldari verður þá að leita annarra leiða, t.d. með því að ganga til nauðasamninga. Að lokum er rétt að geta þess að þær skyldur sem lagðar eru á einstakling sem fengið hefur samning um greiðsluaðlögun gera það að verkum að hann getur ekki stofnað til nýrra skuldbindinga meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur. Fyrirgreiðsla sem oft er nauðsynleg í rekstri er því vart möguleg og úrræðið hentar því ekki öllum einstaklingum í atvinnurekstri. Frumvarp til einföldunar á ferli nauðasamninga sem nú er til umfjöllunar á Alþingi ætti þó að skapa einfaldara nauðasamningaúrræði sem nýst getur fleirum en nú er.

VII. Allar fjárskuldbindingar einstaklings.
    Samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt frumvarpinu tekur til allra fjárskuldbindinga nema sérstaklega sé kveðið á um annað og tekur þannig bæði til veð- og samningskrafna. Í sumum tilvikum er ekki fullljóst hvort krafa telst vera veð- eða samningskrafa. Til að skera úr um það þarf í einhverjum tilvikum að fara fram sala eða mat á virði veðsettra eigna. Ef eign er seld eru veðkröfur greiddar í samræmi við andvirði hinnar seldu eignar. Áhvílandi kröfur sem ekki fást greiddar af andvirði eignarinnar teljast til samningskrafna. Það sama á við þegar veðsett eign er metin til verðs. Sá hluti kröfu sem fellur innan matsverðs telst veðkrafa en sá hluti sem er utan matsverðs telst samningskrafa. Greiðsluaðlögun tekur jafnt til krafna einkaaðila sem opinberra aðila. Lögin taka þó ekki til skatta og gjalda sem verða til eftir að heimild umboðsmanns skuldara til greiðsluaðlögunar hefur verið fengin. Fésektir sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt ber að greiða að fullu og er því haldið utan greiðsluaðlögunar. Hið sama á við um kröfur um vangoldinn virðisaukaskatt og kröfur vegna refsiverðs verknaðar. Greiðslur og uppsöfnuð skuld vegna framfærslu og meðlag með börnum eru undanþegnar greiðsluaðlögun. Ef skuldari hefur fyrir börnum að sjá skal reyna við mat á framfærslukostnaði að tryggja þeim sambærileg tækifæri og öðrum börnum á sama aldri á sama svæði eins og nokkur kostur er. Skal þá miða við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur.

VIII. Lagarammi og skipting greiðslna milli lánardrottna.
    Frumvarp þetta setur samningsferlinu um greiðsluaðlögun ákveðinn ramma, kveða á um aðkomu umboðsmanns skuldara af hálfu stjórnvalda, aðstoð umsjónarmanns, afborgunarfjárhæð, greiðsluaðlögunartímabil, réttaráhrif, gildistíma o.fl. Eins og áður hefur komið fram er markmiðið að aðstoða skuldara við að ná tökum á fjármálum sínum. Áherslur við greiðsluaðlögun eru því aðrar en við gjaldþrotaskipti. Þegar ákvarða skal hversu mikið af tekjum skuldara fer til greiðslu skulda skal fyrst taka mið af nauðsynlegum kostnaði skuldara við að sjá sér og sínum farborða. Að jafnaði skal gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt vegna stærðar eða verðmætis þess o.fl. Ef sala á húsnæði er óhjákvæmileg verður að tryggja að skuldari geti útvegað sér annað húsnæði, með kaupum eða leigu eftir atvikum. Ef ákveðið er að selja eign skuldara fer tillaga umsjónarmanns eftir því hvort greiðist upp í veðkröfur eða ekki. Ef allar veðkröfur fást greiddar skal það sem eftir stendur renna til skuldara svo hann geti keypt eða leigt nýtt húsnæði eftir atvikum. Annars verður umsjónarmaður að meta nauðsynina hverju sinni. Þegar gert hefur verið ráð fyrir nauðsynlegum framfærslu- og rekstrarkostnaði skuldara og fjölskyldu hans liggur fyrir hve mikið stendur eftir til að greiða lánardrottnum. Greiðsla til hvers lánardrottins skal vera í réttu hlutfalli við hlutfallslega stærð kröfu hans af heildarfjárhæð krafna. Á því eru þó undantekningar. Mánaðarlegar greiðslur vegna veðkrafna mega t.d. ekki vera lægri en sem nemur fjárhæð sem umsjónarmaður ætlar að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina. Er þetta til samræmis við lög nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Í frumvarpi nefndarinnar til breytingar á þeim lögum sem og í frumvarpi þessu er þó gerð sú undantekning að séu sérstakar og tímabundnar aðstæður fyrir hendi sé þó heimilt að leggja til lægri greiðslu en þó ekki lægri en sem nemur 60% af markaðsleigu. Með því er gert mögulegt að mæta sérstökum aðstæðum skuldara án þess þó að leiða megi að því líkur að skuldari haldi eign sem hann muni ekki til frambúðar standa undir. Skipting greiðslna milli lánardrottnar ræðst að öðru leyti af frumvarpi umsjónarmanns til samnings um greiðsluaðlögun og endanlegri afgreiðslu. Í aðalatriðum gilda sömu reglur um opinber gjöld og samningskröfur nema lög kveði sérstaklega á um annað.
    Hafni lánardrottnar samningi um greiðsluaðlögun og heimild veitt til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna og nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ber þó að athuga að batni hagur skuldara svo um muni geta lánardrottnar ekki krafist breytinga á þeim en slík heimild er til staðar sé um samning til greiðsluaðlögunar að ræða.

IX. Sala á eignum skuldara.
    Umsjónarmaður getur ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Umsjónarmaður skal þó ekki taka slíka ákvörðun nema að vel athuguðu máli og koma þá einkum til skoðunar þau áhrif sem sala eigna hefði á skuldarann og heimilishald hans. Sérstakt tillit skal þá tekið til áhrifa eignasölu á fjölskylduhagi skuldara þannig að tryggt sé að salan leiði ekki af sér að fjölskyldan búi við skert tækifæri, t.d. hvað varðar menntun og tómstundastarf. Komi sala eigna til athugunar skulu einnig bornir saman hagsmunir lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir verðmæti eignarinnar og fjölda lánardrottna. Er þá almennt miðað við að ekki verði krafist sölu nema hún hafi áhrif svo um munar á greiðslur eða greiðsluhlutfall samkvæmt skilmálum frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Í ljósi hins skamma tíma sem greiðsluaðlögunarumleitunum eru ætlaðar er jafnframt mikilvægt að umsjónarmaður kynni sér markaðsaðstæður eins og kostur er og leggi mat á hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan þess tíma. Er því miðað við að umsjónarmaður kynni skuldara ekki ákvörðun um eignasölu fyrr en slíkt mat hefur farið fram. Ekki er nauðsynlegt að sala fari fram meðan greiðsluaðlögunarumleitun fer fram. Umsjónarmanni er heimilt að taka tillit til markaðsaðstæðna og mæla fyrir um að sala fari fram síðar á greiðsluaðlögunartíma og hvernig söluverði skuli þá ráðstafað.
    Viðbúið er að í þessu sambandi komi fyrst og fremst til skoðunar sala fasteigna, einkum íbúðarhúsnæðis, og verðmætra lausafjármuna eins og bifreiða. Í því samhengi má minna á að í sértækri skuldaaðlögun er gengið út frá því að skuldari haldi eftir hóflegu húsnæði og einni bifreið. Í ljósi mikillar nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Til að sala íbúðarhúsnæðis komi til athugunar verða því almennt að vera uppi þær aðstæður að veðskuldir séu undir söluverði íbúðarinnar og að söluandvirðinu verði, að frádreginni greiðslu veðskulda, unnt að ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýju húsnæði fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Grundvallarforsenda er því ávallt sú að skuldari verði ekki skilinn eftir í óvissu um heimili sitt eftir sölu íbúðar. Því skulu markaðsaðstæður metnar sérstaklega vel í þessum tilfellum. Enn fremur skal taka sérstakt tillit til fjölskylduhaga skuldara og skal síður ákveða sölu íbúðar ef hún er talin hæfa skuldara og fjölskyldu hans að stærð og staðsetningu. Þó verður að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði. Komi sala til athugunar er einnig rétt að hafa í huga hvaða áhrif búferlaflutningar geta haft á skuldara og fjölskyldu hans, einkum hvað varðar starfsstöð og félagslegar aðstæður eins og skólagöngu barna. Ofangreind sjónarmið koma hins vegar síður til álita ef um er að ræða aðrar fasteignir en þá sem skuldari býr í, svo sem aðrar íbúðir, sumarbústaði o.fl.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að skuldari eigi rétt á að halda eftir lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verða undanþegnar við fjárnám samkvæmt lögum nr. 90/1989, um aðför. Sé sala lausafjármuna ákveðin skal almennt miðað við að um svo verðmæta muni sé að ræða að sala þeirra sé lánardrottnum verulega til hagsbóta. Þá skal eins og áður var nefnt ávallt miðað við að skuldari geti bersýnilega verið án munanna, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Hér kæmi til dæmis til skoðunar að krefjast sölu bifreiða þegar skuldari hefur fleiri en eina bifreið til ráðstöfunar. Um óskráða lausafjármuni má ætla að umsjónarmaður krefjist eingöngu sölu í undantekningartilvikum, þ.e. þegar um verulega verðmæta muni er að ræða. Allt er þetta þó háð mati hverju sinni.
    Telji umsjónarmaður ástæðu til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en hann tekur ákvörðun um sölu eigna, enda ekki ástæða til að krefjast sölu ef lánardrottnar fallast á að skuldari fái að halda viðkomandi eignum eftir. Fallist skuldari ekki á ákvörðun umsjónarmanns um sölu eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir að af sölu verði skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður.
    Mikilvægt er að umsjónarmanni sé gert heimilt að kveða á um sölu eigna skuldara. Þá er einnig sá möguleiki fyrir hendi að við athugun umsjónarmanns komi í ljós að sala slíkra eigna leiði til þess að hægt sé að leysa greiðsluerfiðleika skuldara að fullu, án greiðsluaðlögunar.

X. Lengd greiðsluaðlögunartímabils og skipulag greiðslna.
    Á tímabili samnings um greiðsluaðlögun greiðir skuldari af öllum skuldum. Samningur kveður á um hversu háa afborgunarfjárhæð skuli greiða og hvort greiðsla skuli innt af hendi í einu lagi eða mánaðarlega. Í gildandi lögum um greiðsluaðlögun, X. kafla a gjaldþrotaskiptalaga, er ekki kveðið á um hversu langt þetta greiðsluaðlögunartímabil skuli vera. Samkvæmt reynslu á Norðurlöndunum er nú algengast að greiðslutímabilinu sé ætlað að standa í þrjú til fimm ár. En þar, m.a. í Svíþjóð, hefur verið til umræðu að stytta tímabilið jafnvel niður í eitt ár. Í þessu frumvarpi er lagt til að tímabilið verði að jafnaði eitt til þrjú ár. Er það í samræmi við þá þróun sem verið hefur í Svíþjóð. Í frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra var gert ráð fyrir því að tímabilið yrði þrjú til fimm ár en mikilvægt er að hafa tímabilið hæfilegt til að hraða uppgjöri á skuldavanda heimilanna. Þá eru efri mörk þess tímafrests í samræmi samræmdar reglur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs um sértæka skuldaaðlögun.
    Við ákvörðun um lengd tímabilsins hverju sinni ber að hafa ýmis sjónarmið í huga. Fjárhæð skulda skiptir þar að sjálfsögðu máli. Einnig er rétt að taka tillit til þess hvort skuldari hefur börn á framfæri. Mikilvægt er að fjárhagsstaða forsjáraðila takmarki ekki um of möguleika barna til náms og aðhlynningar. Þá verður skuldari að geta tekist á við óvænt útgjöld, t.d. læknis- og tannlækningakostnað. Leitast skal við að tryggja að börn skuldara geti tekið fullan þátt í almennu tómstundastarfi barna á sama aldri í samfélaginu. Ef skuldari fer með forsjá barns ætti það frekar að verða til þess að stytta greiðslutímabilið en hitt. Ef þrengingar skuldara eru á hinn bóginn ekki miklar á þessu tímabili og breytingar á lífsgæðum hans eða fjölskyldu eru afar takmarkaðar er það frekar til þess fallið að lengja tímabilið en hitt. Aldur skuldara skiptir hér einnig máli. Augljóst er að ef skuldari er kominn nærri eftirlaunaaldri er aflahæfi hans orðið afar takmarkað, það mælir með að greiðsluaðlögunartímabilið geti verið enn styttra. Þá þarf að hafa í huga þau sálrænu áhrif sem tímalengd greiðsluaðlögunarinnar hefur á greiðslugetu og vilja skuldara til tekjuöflunar. Þetta verður að meta í hverju tilviki. Í athugasemdum um 16. gr. er fjallað sérstaklega um þau sjónarmið sem hafa skal til hliðsjónar við mat á því hversu langt þetta tímabil skuli vera.
    Í samningi þarf að koma skýrt fram hvaða fjárhæð renni til greiðslu skulda, hvort sem um er að ræða eina afborgunarupphæð eða mánaðarlegar greiðslur. Enn fremur þarf að liggja ljóst fyrir hvernig þær greiðslur skiptast milli lánardrottna. Lagt er til í 21. gr. frumvarpsins að umsjónarmaður skuli áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun sjá til þess í tæka tíð að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði í lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði og hefur gefist vel.

XI. Hlutverk umboðsmanns skuldara og umsjónarmanns.
    Umboðsmanni skuldara er ætlað mikilvægt hlutverk í greiðsluaðlögunarferlinu. Umboðsmaður skuldara veitir viðtöku umsókn frá skuldara og tekur ákvörðun um hvort heimila skuli honum að leita eftir greiðsluaðlögun. Þá er honum falið að skipa umsjónarmann með greiðsluaðlögun. Það kemur í hlut umboðsmanns að taka ákvörðun um hvort fella eigi niður heimild til að leita greiðsluaðlögunar, svo sem ef síðar kemur í ljós að skuldari uppfyllir ekki skilyrði laganna. Ef breytinga er síðar krafist á samningi um greiðsluaðlögun kemur það í hlut umboðsmanns skuldara að taka endanlega ákvörðun um breytingarnar.
    Umsjónarmaður auglýsir og innkallar kröfur, auk þess að leggja fram útfærða tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir skuldara. Umsjónarmaður skal hafa samráð við skuldara áður en hann gerir endanlega tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður leggur til við umboðsmann skuldara að heimild til greiðsluaðlögunarumleitana falli niður ef síðar kemur í ljós að skuldari uppfyllir ekki skilyrði til að fá greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður skal hafa frumkvæði að því að leita niðurstöðu í málefnum skuldara með samningum við lánardrottna. Mikilvægt er að hann reyni með öllum ráðum að ná samkomulagi milli lánardrottna og skuldara þegar honum hefur verið veitt heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður tekur ákvörðun um og annast sölu eigna skuldara. Ef ekki tekst samningur um greiðsluaðlögun og skuldari lýsir því yfir að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna kemur það í hlut umsjónarmanns að taka afstöðu til þess og mæla með eða á móti því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Mæli umsjónarmaður með því útbýr hann frumvörp til nauðasamnings og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Umsjónarmaður skal einnig sjá um að ganga frá öllum lausum endum, t.d. að sjá til þess að skuldari semji um greiðslumiðlun eftir að greiðsluaðlögun er komin á, gæta að þinglýsingum o.s.frv.

XII. Breyting, riftun eða ógilding greiðsluaðlögunar.
    Skuldari og lánardrottnar geta náð fram breytingum á samningi til greiðsluaðlögunar á tímabilinu. Margvíslegar breytingar geta orðið á högum skuldara sem kunna að réttlæta breytingar á greiðsluaðlögun. Í fyrsta lagi getur fjárhagsstaða skuldara batnað eða versnað eftir atvikum á tímabilinu. Í öðru lagi kann skuldari að hafa brugðist skyldum sínum eða hegðað sér á þann hátt, t.d. með auknum lántökum á greiðsluaðlögunartímabilinu, að lánardrottnar telji á sér brotið og krefjist breytinga, riftunar eða ógildingar greiðsluaðlögunar. Þá getur sviksamleg hegðun eða vanefndir leitt til þess að greiðsluaðlögunarsamningi verði rift eða hann ógiltur að kröfu lánardrottins og hann getur jafnvel krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara í framhaldinu. Í þriðja lagi getur viljað svo til að skuldari fái óvænta eingreiðslu, t.d. arf eða annað þess háttar, sem ástæða er til að lánardrottnar fái hlutdeild í, án þess að greiðsluaðlögun sé tekin upp að öðru leyti. Þá er sama afborgunarfjárhæð greidd áfram, en lánardrottnar fá hlutdeild í ávinningnum samkvæmt samkomulagi. Takist ekki samkomulag geta lánardrottnar óskað eftir því við umboðsmann skuldara að hann ákveði hlutdeild þeirra í ávinningnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Markmiðið með greiðsluaðlögun er að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og byrja upp á nýtt. Greiðsluaðlögun er ætlað að gefa einstaklingum kost á því að endurskipuleggja fjármál sín og aðlaga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að ætla að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar. Markmið og tilgangur greiðsluaðlögunar er því annað en gjaldþrotaskipta, sem er sameiginlegt uppgjör kröfuhafa á búi skuldara, þar sem hagsmunir kröfuhafa eru leiðarljós við uppgjör búsins.
    Forsenda þess að skuldari geti sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er sú að hann eigi við verulega greiðsluerfiðleika að etja og sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Skuldari verður að sýna fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum. Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þarf að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna ber umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð.
    Þegar umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar felst í því viðurkenning stjórnvalda á að litlar sem engar líkur séu á að lánardrottnar fái fullar efndir krafna sinna og nauðsynlegt sé að afskrifa þær að hluta eða í heild. Krafa er ekki meira virði en þær greiðslur sem skuldari getur staðið undir. Sú niðurstaða er bæði lánardrottnum og skuldurum í hag enda blasi að óbreyttu ekkert annað við en að bú viðkomandi skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, þar sem vænta mætti þess að kröfuhafar fengju minna eða ekkert upp í sínar kröfur.

Um 2. gr.

    Til að umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt er það skilyrði sett í 1. mgr. að skuldari sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Hér er um tvö aðskilin skilyrði að ræða, þótt við það sé miðað að um viðvarandi greiðsluvanda verði að ræða. Með því er átt við að sá skuldari sem lendir í tímabundnum greiðsluerfiðleikum, svo sem vegna atvinnumissis eða annarra ástæðna, geti ekki umsvifalaust leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum þessum heldur skuli hann áður leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar að tímabundnum aðstæðum, svo sem með greiðslufresti eða öðrum skilmálabreytingum eða með greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Sé um atvinnuleysi að ræða er því miðað við að það þurfi að hafa varað um nokkurn tíma og að ólíklegt sé að úr uppsöfnuðum greiðsluvanda skuldarans megi leysa hefji skuldari störf á ný. Í Noregi hefur m.a. verið miðað við að einstaklingur þurfi að hafa verið atvinnulaus í a.m.k. eitt ár svo hægt sé að tala um viðvarandi greiðsluvanda. Það er nokkuð langur tími en þetta þarf þó að meta í hverju tilviki. Oft nægir í tilvikum sem þessum að breyta greiðsluskilmálum lánasamninga til þess að einstaklingar ráði við skuldabyrði sína. Ef skuldari verður fyrir slysi og hlýtur af varanlega örorku má gera ráð fyrir að greiðsluerfiðleikar hans verði varanlegir. Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita frjálsrar greiðsluaðlögunar þarf að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna ber umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Ekki er það gert að skilyrði fyrir því að heimilt sé að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun að skuldir hafi náð tiltekinni upphæð eða að skuldari hafi náð tilteknum aldri.
    Í gildandi lögum um greiðsluaðlögun er gert að skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili á Íslandi. Slíkt skilyrði er ekki í frumvarpi þessu þegar leitað er samnings um greiðsluaðlögun, enda er um frjálsa samninga að ræða. Þvert á móti mæla öll rök með því að gera fólki kleift að leita greiðsluaðlögunar sem flutt hefur til útlanda til náms eða í atvinnuleit, m.a. til að tryggja að fólk treysti sér til að flytja aftur til landsins.
    Samkvæmt 3. mgr. er hjónum eða einstaklingum í óvígðri sambúð heimilað að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu, séu þeir í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hver annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign er eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti skal slíkt heimilt, en þetta er þó háð mati hverju sinni.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er kveðið á um að greiðsluaðlögun skuli ná til allra fjárskuldbindinga skuldara, nema kveðið sé sérstaklega á um annað í frumvarpinu. Undir greiðsluaðlögun falla því bæði veðkröfur og samningskröfur og er markmiðið með frumvarpinu að skapa heildarlausn fyrir skuldara hvað varðar bæði veðkröfur og samningskröfur. Í 1. mgr. eru þó tilteknar ákveðnar kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til og eru þar í a-lið fyrst nefndar kröfur sem orðið hafa til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina.
    Samkvæmt b-lið tekur greiðsluaðlögun ekki til krafna um annað en peningagreiðslu sem verður fullnægt eftir aðalefni sínu. Reglan byggist á því að kröfurnar samræmast ekki markmiði laganna enda er greiðsluaðlögun úrræði sem ætlað er að ráða bót á greiðsluvanda og rétta af fjárhagslega stöðu skuldara. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um kröfur sem standa óhaggaðar af nauðasamningi.
    Í c-lið 1. mgr. er kveðið á um að greiðsluaðlögun tekur ekki til krafna sem nytu stöðu 109., 110. og 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á þeim degi sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var tekin til greina. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og liggja sambærileg rök að baki því að undanþiggja þessar kröfur greiðsluaðlögun. Reglan byggist á því viðhorfi að greiðsluaðlögun eigi ekki að hagga stöðu þess sem nyti forgangsréttar á fyrri kröfu sinni við gjaldþrotaskipti. Þær kröfur sem um ræðir eru m.a. eignir þriðja manns, kostnaður við útför, kröfur um laun og aðrar launatengdar kröfur, kröfur maka, fyrrverandi maka eða barns um lífeyri eða meðlag eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina og kröfur um þóknun umsjónarmanns. Vert er að árétta að þrátt fyrir þetta er þóknun umsjónarmanns vegna greiðsluaðlögunar greidd af umboðsmanni skuldara, sbr. 30. gr. frumvarpsins.
    Kröfur sem fullnægt yrði með skuldajöfnuði ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta falla ekki undir greiðsluaðlögun, sbr. d-lið. Eigi lánardrottinn kröfu á skuldarann en skuldar honum jafnframt getur hann því dregið skuld sína frá kröfunni hafi hann eignast kröfuna þremur mánuðum áður en umsókn til greiðsluaðlögunar var tekin til greina, hafi hann hvorki vitað né mátt vita að skuldari átti ekki fyrir skuldum og hafi hann ekki fengið kröfuna til þess eins að skuldajafna. Þó ber að hafa í huga að þegar frestun greiðslna skv. 11. gr. er komin á er lánardrottnum óheimilt að skuldajafna kröfu skuldarans við kröfu sína nema því aðeins að aðalkrafa og gagnkrafa séu af sömu rót runnar.
    Í e-lið er kveðið á um að kröfur sem nema óverulegri fjárhæð megi greiða að fullu og falla þær þá ekki undir greiðsluaðlögun. Verður þá að miða við að fjárhæð slíkra krafna sé óveruleg í ljósi efnahags skuldara. Við mat á því hvað teljist óverulegt er eðlilegt að miða við sambærileg atriði og fram koma í athugasemdum við 2. mgr. 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., m.a. að hliðsjón sé höfð af heildarfjárhæð samningskrafna, andvirði eigna skuldara, fjölda lánardrottna sem fengju fulla greiðslu og hvort slíkt mismuni óhæfilega lánardrottnum.
    Greiðsluaðlögun tekur skv. f-lið ekki til fésekta sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, krafna um vangoldinn virðisaukaskatt, krafna um vangoldna staðgreiðslu og krafna um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi. Því þarf að greiða þessar kröfur að fullu. Hvað viðkemur vanskilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu er vert að árétta að skuldabréf sem eru gefin út til að gera upp slík vanskil falla þá ekki heldur undir greiðsluaðlögun. Er hér t.d. horft til laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Skuldabréf um greiðsluuppgjör samkvæmt lögunum eru gefin út á grundvelli lagaheimildar um ívilnandi uppgjör vegna vanskila. Sé um að ræða vanskil krafna sem ekki falla undir greiðsluaðlögun fellur slíkt skuldabréf því ekki undir greiðsluaðlögun einstaklinga.
    Í g-lið er kveðið á um að greiðsluaðlögun taki ekki til námslána. Ástæða þess er sú að námslán eru nátengd aflahæfi skuldara og ekki veitt á viðskiptalegum forsendum. Um helmingur útgjalda Lánasjóðs íslenskra námsmanna kemur nú úr ríkissjóði og því er um ríkisstyrkt framfærslukerfi að ræða. Þá er endurgreiðsla tengd launum skuldara. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir þeirri almennu reglu að afborganir námslána verði felldar niður á greiðsluaðlögunartíma og öðrum kröfuhöfum þannig skapað sanngjarnt svigrúm.
    Í h-lið er kveðið á um að áfallandi meðlag og lífeyrir sem skuldara ber að greiða samkvæmt hjúskapar- eða barnalögum falli ekki undir greiðsluaðlögun. Hið sama gildi um uppsafnaða skuld við opinbera aðila vegna meðlags og því fari um slíkar skuldir samkvæmt ívilnunarúrræðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971. Meðlagskröfur hafa nokkra sérstöðu enda er um framfærslueyri að ræða og meðlagsgreiðslur tryggðar til móttakanda mánaðarlega hvort sem greiðandi stendur í skilum eður ei. Því er um að ræða framfærslukerfi sem er styrkt af sveitarfélögum landsins og því mikilvægt að þau hafi möguleika á að fá þessi framlög til baka frá meðlagsskyldum aðilum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að lánardrottinn geti með skriflegri yfirlýsingu afsalað sér þeim réttindum sem getið er um í 1. mgr. þannig að greiðsluaðlögun hafi áhrif á kröfu hans þótt hún sé samkvæmt ákvæðinu undanþegin greiðsluaðlögun.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að greiðsluaðlögun leiði til brottfalls skulda sem yrði skipað í skuldaröð skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af þeim kröfum sem getið er í 114. gr. munar mest um kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu sem fellur til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina.
    Í 4. mgr. er að finna skilgreiningu á því hvað felst í greiðsluaðlögun og er þar að mestu miðað við þá skilgreiningu sem finna má í gildandi lögum. Fram kemur í greininni að með greiðsluaðlögun megi kveða á um algera eftirgjöf einstakra krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist reglulega á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. frumvarpsins eru ákvæði um umsókn um greiðsluaðlögun. Lagt er til að þeir einstaklingar sem eiga í greiðsluerfiðleikum og vilja leita greiðsluaðlögunar skuli beina erindi sínu til umboðsmanns skuldara. Í frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara er lagt til að stofnun með því heiti verði byggð á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
    Í 2. mgr. eru í ellefu liðum dregnar saman þær upplýsingar sem skulu koma fram í umsókn til umboðsmanns skuldara. Gert er ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 2. mgr. er ekki tæmandi, enda er gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu. Upplýsingar skv. 2. mgr. skal skv. 3. mgr. eftir atvikum einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum, ef skuldari eða umboðsmaður skuldara telja slíkt nauðsynlegt. Slíkar upplýsingar kunna eftir atvikum að varpa skýrara ljósi á rekstrarkostnað við heimilishald skuldara, jafnvel þótt ljóst sé að allir heimilismenn skuldarans beri ekki gagnkvæma framfærsluskyldu gagnvart honum og taki þátt í greiðslu skulda hans, enda ber hvorki maki hans né aðrir sem halda heimili með honum ábyrgð á skuldbindingum hans nema það leiði annaðhvort af lögum, svo sem vegna samábyrgðar hjóna á greiðslu vissra skatta, eða þess að viðkomandi hafi gengist í ábyrgð fyrir skuld.
    Í 4. mgr. kemur fram að umsókninni skuli fylgja gögn til staðfestingar upplýsingum í henni og er þar meðal annars vísað til vottorðs um hjúskaparstöðu og fjölskyldu til að fyrir liggi staðfesting á fjölskylduhögum skuldara. Þá er gerður áskilnaður um að fjögur síðustu skattframtöl skuldara fylgi umsókninni.
    Í 5. og 6. mgr. er fjallað um rétt skuldara til að fá endurgjaldslausa aðstoð við að útbúa umsókn um greiðsluaðlögun og afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru við framlagningu umsóknar. Gert er ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd og þá fræðslu sem hann þarf á að halda. Þó er ljóst að margir skuldarar munu þurfa aðstoð við þetta og því lagt til að það verði hlutverk umboðsmanns skuldara að aðstoða skuldara við gagnaöflun auk þess sem skuldari geti veitt umboðsmanni skuldara heimild til að afla nauðsynlegra gagna frá opinberum stofnunum og lánardrottnum sem þeim verði þá skylt að senda stofnuninni. Hér er horft til þess að gagnaöflun getur verið tímafrek og auðveldlega má afla ýmissa gagna með rafrænum hætti. Þó verður eflaust ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og er þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Í greininni er ekki kveðið á um sérstakan tímaramma sem umboðsmaður skuldara hefur til að undirbúa umsókn skuldara, enda er undirbúningurinn að mörgu leyti háður því hvenær nauðsynlegar upplýsingar berast, m.a. að tilhlutan skuldara sjálfs.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er fjallað um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Kveðið er á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar. Lagt er til að umboðsmaður geti krafið skuldara um staðfestingu á upplýsingum í umsókn með skriflegum gögnum.
    Þá er í greininni heimild fyrir umboðsmann skuldara til að afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita eigi heimild til greiðsluaðlögunar. Jafnframt er kveðið á um að komi til þess skuli umboðsmaður skuldara tilkynna skuldara það og veita honum fræðslu í samræmi við fræðsluskyldu ábyrgðaraðila þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða, sbr. 21. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Gert er ráð fyrir því að ef þörf krefur sé umboðsmanni skuldara heimilt að kalla skuldara eða aðra aðila á sinn fund til að afla upplýsinganna.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er fjallað um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.
    Í 1. mgr. eru taldar upp þær ástæður sem leiða til þess að umboðsmaður skuldara skuli hafna umsókn skuldara. Þar er í a-lið nefnt að umsókn skuli hafnað ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. ákvæði I. kafla. Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið er samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar er þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
    Samkvæmt c-lið skal umboðsmaður skuldara hafna umsókn skuldara ef sýnt þykir að ráðstafanir skuldara fram að umsókn hans bendi ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta fallið undir skilyrði um greiðsluaðlögun. Skal umboðsmaður skuldara eins og kostur er, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um tekjur og skuldbindingar skuldara, leggja mat á hvort ákvæðið eigi við. Með þessu er komið í veg fyrir að fyrir umsókn um greiðsluaðlögun geti einstaklingur ráðstafað tekjum sínum umfram efni til ónauðsynlegra hluta og látið ógert að greiða af þeim skuldbindingum sem hann hafði áður gengist undir, í því skyni að fá þær skuldbindingar lækkaðar eða niðurfelldar með greiðsluaðlögun. Á þetta ákvæði fyrst og fremst við um skuldara sem hefur haft svo háar tekjur að ljóst megi vera að honum hafi verið unnt að ráðstafa þeim til greiðslu skuldbindinga sinna og eðlilegrar framfærslu sinnar og fjölskyldu.
    Samkvæmt d-lið skal hafna umsókn skuldara ef hann hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Tengist þessi liður að mörgu leyti framangreindri umfjöllun um c-lið enda má ætla að tilgangur skuldara með því að leggja fram rangar upplýsingar sé að geta talist falla undir skilyrði greiðsluaðlögunar.
    Að lokum er þess getið í e-lið að synja skuli umsókn hafi skuldari áður fengið samþykktan samning um greiðsluaðlögun í samræmi við lögin eða fengið samþykktan nauðasamning til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skal þar einkum miðað við þau tilvik þar sem skuldari hefur ratað í greiðsluerfiðleika á nýjan leik sökum veikinda eða aldurs. Ljóst er að nauðasamningar um greiðsluaðlögun hafa fengið mjög misjafna meðferð hjá umsjónarmönnum, í einhverjum tilvikum hafa einstaklingar ekki náð að standa við nauðasamning vegna þess að hann var óraunhæfur frá upphafi og að auki er mismunandi hvernig farið er með kröfu að loknu greiðsluaðlögunartímabili í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar samkvæmt gildandi lögum. Því gæti svo farið að í einhverjum tilfellum þurfi að endurmeta þá samninga sem gerðir hafa verið. Sé ljóst að samningur hafi frá upphafi verið óraunhæfur verður að telja að um sérstakar aðstæður sé að ræða. Þá séu jafnframt sérstakar aðstæður fyrir hendi hjá skuldara sem lýkur greiðsluaðlögunartímabili og stendur við nauðasamning sinn en er þá vegna ófullnægjandi nauðasamnings enn í slíkum vanda að ljóst er að hann verði um fyrirsjáanlega framtíð enn ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Ekki er skylt að synja umsókn hafi áður verið leitað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna eftir lögum nr. 50/2009. Þetta er í samræmi við heimild sem er í þeim lögum þess efnis að skuldari geti þegar líður að lokum tímabils greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna óskað eftir því að veðkröfur umfram 100% matsverð eignarinnar verði afmáðar, sýni hann fram á að hann verði um ófyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með þær en geti staðið í skilum með þær sem eftir standa. Til að leysa vanda skuldara við þessar aðstæður er eðlilegt að hann geti að nýju sótt um greiðsluaðlögun einstaklinga. Heimildin ætti að auki að vera lánardrottnum hvati til að semja við skuldarann.
    Í 2. mgr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt væri að veita hana. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Að hluta til er þar miðað við gildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. enda komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja á beitingu þeirra, t.d. hefur Hæstiréttur skýrt 4. tölul.1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga í dómi frá 20. janúar 2010, í máli 721/2009, þegar hann komst að því skuldari sem skapað hafði sér skuldbindingu sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi sem varðaði refsingu hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. D-liður 2. mgr. 6. gr. er samhljóða því ákvæði. Í máli 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hafði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
    Ástæðurnar sem taldar eru upp í 2. mgr. eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Þá er í e-lið 2. mgr. almenn heimild til synjunar ef um er að ræða aðila sem mjög hafa farið offari í skuldsetningu, sem og í þeim tilvikum þegar rót skulda er af þeim toga að samfélagslega óásættanlegt er að greiðsluaðlögun nái til skuldara. Sem dæmi um slíkt má nefna skuldir vegna viðskipta í aðdraganda falls bankanna haustið 2008 og þá sérstaklega skattskuldir tengdar slíkum viðskiptum. Á vegum skattyfirvalda er nú unnið að rannsókn á viðskiptum í föllnu bönkunum og grunur leikur á stórfelldum skattundanskotum. Álagning skatta á slík viðskipti eða á niðurfellingar af stórtækri skuldsetningu á grundvelli kaupréttarsamninga er dæmi um skuldsetningu sem ekki er þess eðlis að sanngjarnt sé að ákvæði greiðsluaðlögunar nái til hennar, enda álagningunni sannanlega ætlað að afla samfélaginu sanngjarns endurgjalds fyrir þá aðstöðu sem skuldari naut. Það skal áréttað að ekki er gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni eru til. Miða skal eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar er komin á og dómvenju en jafnframt hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hlýtur vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. 7. gr. segir að umboðsmaður skuldara skuli taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara. Í ljósi aðstæðna skuldara er mikilvægt að umsókn hans fái greiða meðferð og er í ákvæðinu miðað við að umboðsmaður skuldara taki ákvörðun innan tveggja vikna frá því að fullbúin umsókn liggur fyrir. Umsókn telst fullbúin þegar nauðsynleg gögn liggja fyrir í samræmi við 4. og 5. gr. þannig að unnt sé að taka ákvörðun um hvort umsókn er samþykkt eða synjað. Í þeim tilvikum þegar umboðsmaður telur þörf frekari gagna eða upplýsinga frá skuldara skal honum umsvifalaust gert viðvart um slíkt og gefinn kostur á að bregðast við þeim tilmælum. Samþykki umboðsmaður skuldara umsókn skuldara skal hann upplýsa skuldara um skyldur hans meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stendur, sbr. 12. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ekki sé hægt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn um greiðsluaðlögun. Ef umboðsmaður synjar hins vegar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Gert er ráð fyrir að kæra þurfi innan viku frá því að skuldara barst tilkynning um synjun umboðsmanns skuldara.
    Dragi skuldari umsókn sína til baka í samræmi við 4. mgr. skal umboðsmaður tilkynna það lánardrottnum sem vitað er um. Hafi umsjónarmaður verið skipaður sér hann um tilkynninguna. Frestun greiðslna skv. 11. gr. fellur niður ef skuldari dregur umsókn sína til baka.

Um 8. gr.

    Í ljósi stöðu skuldara er mikilvægt að málsmeðferð greiðsluaðlögunarumleitana sé eins stutt og mögulegt er. Miðað skal við að allar ákvarðanir í ferlinu verði teknar eins fljótt og unnt er. Í greininni er lagt til að umleitunum um samning um greiðsluaðlögun skuli lokið innan þriggja mánaða frá samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Í samræmi við það ferli sem kveðið er á um í frumvarpinu getur innköllun krafna og umþóttunarfrestur kröfuhafa numið sjö vikum og því ætti að gefast nægur tími fyrir umsjónarmann til að taka afstöðu til allra atriða um stöðu skuldarans og leggja fram frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun.

Um 9. gr.

    Samkvæmt 9. gr. skal umboðsmaður skuldara skipa óháðan umsjónarmann með greiðsluaðlögun um leið og umsókn skuldara um að leita greiðsluaðlögunar er samþykkt. Umsjónarmaður getur verið starfsmaður umboðsmanns skuldara og skal þá hafa lokið embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði. Ljóst er að ásókn í greiðsluaðlögun getur orðið mikil á fyrstu stigum og er því jafnframt gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti gert samninga við lögmenn um að vera umsjónarmenn. Gert er að skilyrði að þeir hafi þá málflutningsréttindi enda ber þeim þá lagaleg skylda til að hafa starfsábyrgðartryggingu í samræmi við 12. gr. laga nr. 77/1998. Kostnaður vegna starfsemi umsjónarmanna greiðist af umboðsmanni skuldara, sbr. 30. gr.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. er kveðið á um að umsjónarmaður birti innköllun í Lögbirtingablaði þar sem skorað er á lánardrottna skuldarans að lýsa kröfum sínum fyrir umsjónarmanninum innan fjögurra vikna frá fyrri birtingu innköllunar. Með hliðsjón af skömmum tíma greiðsluaðlögunarumleitana er afar mikilvægt að umsjónarmaður sendi auglýsingu þessa efnis tafarlaust eftir skipan sína. Fjögurra vikna fresturinn kemur þó ekki að sök enda ljóst að umsjónarmaður getur nýtt þann tíma til vinnu að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.
    Innköllunin hefur ekki þau réttaráhrif að vanlýst krafa falli niður, en kröfuhafi sem lýsir ekki kröfu sinni fer hins vegar á mis við heimild til að hafa afskipti af meðferð málsins fyrir umsjónarmanni. Lýsi hann kröfunni eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn fellur krafan því eins og aðrar kröfur undir greiðsluaðlögunina. Sama á við um kröfur sem vitað er um en ekki er lýst. Viðkomandi kröfuhafa skal þó sent frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun skv. 1. mgr. 16. gr. og skal litið svo á að frumvarpið sé samþykkt af hans hálfu.
    Á grundvelli 24. gr. skal krafa sem skuldara er gert kunnugt um eftir að greiðsluaðlögunartímabil hófst falla undir greiðsluaðlögunina. Ef það er gert skal krafa metin í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunar og af henni greitt í samræmi við sambærilegar kröfur. Í 31. gr. er kveðið á um að samningskröfur sem stofnuðust fyrir upphaf greiðsluaðlögunarumleitana og skuldari hefur ekki verið krafinn um að greiða falli niður þegar greiðsluaðlögunartíma lýkur.
    Í 2. mgr. er lagt til það nýmæli að sá lánardrottinn sem telur sig eiga kröfur á hendur skuldara og nýtur veðs eða ábyrgð annars aðila fyrir kröfum á hendur skuldara, án þess þó að tekið sé fram hvaða skuld eða skuldum veðinu eða ábyrgðinni er ætlað að tryggja, skal þá tiltaka í kröfulýsingunni hvaða skuld heyri þar undir. Ákvæðið er m.a. tilkomið vegna svokallaðra tryggingarbréfa með allsherjarveði í eign skuldara sem valdið hafa nokkrum vandkvæðum við framkvæmd greiðsluaðlögunar samkvæmt gildandi lögum. Tryggingarbréf með allsherjarveði tryggja, samkvæmt orðalagi sínu, allar kröfur sem veðhafi á eða kann að eignast í skiptum hlutaðeigandi aðila, svo sem algengt er í skiptum manna við banka og aðrar lánastofnanir. Til þess að tryggingarbréf með allsherjarveði njóti réttarverndar samkvæmt íslenskum rétti þarf í bréfinu að vera tilgreint hámark þeirrar fjárhæðar sem veðinu er ætlað að tryggja, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997 og 23. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978. Veðsett eign í tryggingarbréfi stendur aðeins til fullnustu tilgreindrar hámarksfjárhæðar tryggingarbréfsins auk vaxta og kostnaðar, skv. 1. mgr. 4. gr., sbr. a- og b-lið 5. gr. laga um samningsveð. Þegar kröfur eru tryggðar með tryggingarbréfi með allsherjarveði kann að leika vafi á um það hvaða fjárskuldbindingar falla undir veðtrygginguna og hverjar ekki. Lagt er til að lánardrottnar meti hagsmuni sína að þessu leyti sjálfir og taki skýra afstöðu til tryggingarbréfa. Með þessu ákvæði er einnig leitast við að taka af allan vafa um það hvort fjárskuldbinding telst til veðkröfu eða samningskröfu við lok kröfulýsingarfrests.
    Til að stuðla að skilvirkari málsmeðferð er mælt fyrir um það í 4. mgr. að umsjónarmaður skuli senda þekktum kröfuhöfum afrit af auglýsingunni. Ábyrgðarmönnum skuldara og samskuldurum hans skal jafnframt sent afrit auglýsingarinnar til upplýsingar enda getur samþykkt greiðsluaðlögun haft áhrif á hagsmuni þeirra.

Um 11. gr.

    Í 11. gr. er kveðið á um að þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykk umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabundin frestun greiðslna. Í samræmi við markmið frumvarpsins þykir eðlilegt að skuldara sé veittur frestur á greiðslu viðkomandi skulda á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
    Í 1. mgr. er nánar kveðið á um það hvað kröfuhöfum er óheimilt að gera á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir fara fram. Þar segir að lánardrottnum sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum og á það við hvort sem um fulla greiðslu eða hluta af greiðslu er að ræða. Þá er lánardrottnum óheimilt að skuldajafna kröfu umsækjanda við kröfu sína nema því aðeins að aðalkrafan og gagnkrafan séu af sömu rót runnar, gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum, gera fjárnám í eigum umsækjanda eða láta selja þær á nauðungaruppboði, neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilismanna vegna fyrri vanefnda á greiðslum eða krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni. Bann við sölu á nauðungaruppboði á þá jafnframt við hafi þegar verið leitað eftir nauðungarsölunni við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að vextir af viðkomandi kröfum skuli reiknaðir meðan á frestun greiðslna stendur, en að þeir falli þó ekki í gjalddaga á meðan. Vextir af kröfum sem tryggðar eru með veði í eign sem skuldari fær að halda gjaldfalla þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svarar til verðmætis hinnar veðsettu eignar.
    Í 3. mgr. kemur fram að greiðslufresturinn nái ekki til krafna sem falla til eftir að umsókn skuldara hefur verið samþykkt og meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Um 12. gr.

    Ákvæði 12. gr. snúa að því hvernig skuldari skal haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi nefnt að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem fer umfram það sem hann þarf til framfærslu sinnar, fjölskyldu og heimilis síns. Sökum ákvæða 11. gr. um greiðslustöðvun á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana er viðbúið að slík staða geti komið upp. Í öðru lagi skal skuldari segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru, þjónustu eða eðlilegu heimilishaldi sem er nauðsynleg skuldaranum eða heimili hans til lífsviðurværis. Hér skal einkum litið til útgjalda sem nema umtalsverðum fjárhæðum og óumdeilt má vera að sanngjarnt sé að skuldari geti verið án. T.d. mundi áskrift að dagblaði ekki falla hér undir. Í c- og d-lið er kveðið á um það að skuldari skuli ekki grípa til umfangsmeiri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.
    Ef umsjónarmaður telur að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 12. gr. skal hann óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 15. gr.

Um 13. gr.

    Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils er rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Í 13. gr. er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir og þá muni sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án. Við mat á slíku skal umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skal þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Einnig skal umsjónarmaður meta hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma, með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Hér er viðbúið að til skoðunar komi fyrst og fremst fasteignir, einkum íbúðarhúsnæði, og verðmætir lausafjármunir eins og bifreiðir.
    Við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skal umsjónarmaður m.a. líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði íbúðarinnar má ætla að til álita komi að íbúðin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Litið skal í þessu sambandi til fjölskylduhaga skuldara. Umsjónarmaður skal einnig líta til aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni og meta hvort af sölu íbúðar, og þar af leiðandi kaupum eða leigu á nýrri íbúð, geti orðið innan tímabils greiðsluaðlögunarumleitana. Megi ætla að sala eða kaup íbúðar muni dragast á langinn eða sé með öllu óvíst um hvaða söluverð fæst samþykkt skal umsjónarmaður síður kveða á um sölu íbúðar samkvæmt greininni. Umsjónarmaður er þó ekki bundinn af því að sala fari fram á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og getur mælt fyrir um að sala fari fram einhvern tíma á greiðsluaðlögunartímanum. Almennt skal umsjónarmaður einnig síður kveða á um sölu íbúðar ef hann telur hana að stærð og staðsetningu hæfa skuldara og fjölskyldu hans. Einnig skal líta til áhrifa þess á skuldara og fjölskyldumeðlimi hans að þurfa að flytja milli staða, með tilliti til starfsstöðva þeirra, skólagöngu og félagslegra aðstæðna.
    Skuldarinn getur hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafa lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skal því almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar íbúðar. Þó skal litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir auk þess sem miklar líkur þurfa að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur.
    Í þeim tilvikum þar sem skuldari á aðrar fasteignir en íbúðarhúsnæði sem hann býr í skal almennt miðað við að skuldara verði gert að selja slíkar eignir, að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða. Getur þar t.d. verið um að ræða annað íbúðarhúsnæði, sumarbústaði eða jarðeignir.
    Um lausafjármuni skal gengið út frá því að skuldari eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verða undanþegnar við fjárnám skv. 43. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Komi til kröfu um sölu lausafjármuna skal almennt miðað við að um verðmæta muni sé að ræða, að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta og að skuldari geti bersýnilega verið án þeirra, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Nærtækasta dæmið er bifreiðir en sé um það að ræða að skuldari hafi sjálfur, eða ásamt fjölskyldumeðlimum, tvær bifreiðir til ráðstöfunar, getur umsjónarmaður eftir atvikum kveðið á um sölu annarrar bifreiðarinnar.
    Umsjónarmaður getur einnig kveðið á um sölu óskráðra lausafjármuna telji hann slíkt til hagsbóta svo um muni fyrir kröfuhafa. Í slíkum tilvikum skal liggja fyrir með óyggjandi hætti að skuldari eigi viðkomandi lausafjármuni og getur umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum frá skuldara í því skyni. Almennt má segja að umsjónarmaður skuli einungis beita þessari heimild ef um verulega verðmæta muni er að ræða.
    Í síðari málslið 1. mgr. segir að þyki umsjónarmanni ástæða til geti hann leitað afstöðu lánardrottna til sölu eignanna enda skal ekki krafist sölu þeirra eigna sem allir lánardrottnar samþykkja að skuldari fái að halda eftir.
    Að lokum skal þess getið að ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna getur leitt til þess að þau verðmæti sem þar með safnast saman nægi til að leysa greiðsluerfiðleika skuldara að fullu. Komi slík staða upp skal umsjónarmaður, að því gefnu að sölu eignanna eða samningum um sölu þeirra sé lokið, tilkynna umboðsmanni skuldara um að skilyrði fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana séu fyrir hendi í samræmi við 15. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram sú grundvallarregla að eignir skuli selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Skal umsjónarmaður ákveða hvernig sala eigna fer fram og annast söluna sjálfur eða fela öðrum hana. Er umsjónarmanni því heimilt að láta sérfróða aðila, svo sem fasteignasala eða bílasala, annast söluna að fullu eða aðstoða umsjónarmann við söluna. Eftir atvikum kemur til greina að skuldari hlutist til um sölu eigna óski skuldari þess og telji umsjónarmaður líklegra að sala náist fram með þeim hætti. Eðlilegt er að skuldari sýni þá viðleitni að aðstoða við leit að kaupendum að viðkomandi eignum enda leiði sala eigna frekar til þess að umsjónarmaður leggi fram frumvarp til greiðsluaðlögunar. Kostnaður vegna sölu eignar greiðist af söluandvirði þeirrar eignar sem seld er, sbr. 30. gr.
    Kveðið er á um það í 3. mgr. að ákveði umsjónarmaður að selja skuli eign skal hann gera þeim sem njóta veðréttar í eigninni viðvart um það með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Þá er mælt fyrir um að þegar komið er tilboð í eignina sem umsjónarmaður telur fært að taka skuli hann kynna það fyrir þeim veðhöfum í eigninni sem ekki mundu fá fullnustu krafa sinna af söluverðinu. Er þetta gert með það að sjónarmiði að þeir geti gert hærra boð eða eftir atvikum gengið inn í fram komið boð. Þeim er því veittur frestur til þess sé tilboðið ekki bindandi fyrir tilboðsgjafann. Telji síðari veðhafar, sem samkvæmt sölutilboði fengju ekki greitt upp í kröfu sína, að tilboð í eignina sé of lágt eða vilji þeir verja rétt sinn og eignast sjálfir eignina til hugsanlegrar endursölu síðar gefur ákvæðið þeim kost á að kaupa veðsettu eignina sjálfir.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að þegar eign hefur verið seld falli niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu þegar um veðsettar eignir er að ræða. Umsjónarmaður skal hlutast til um aflýsingu veðkrafna og aflýsa þeim gegn staðfestingu umboðsmanns skuldara á að umsókn skuldara um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt, yfirlýsingu umsjónarmanns að sala eignarinnar hafi verið gerð vegna greiðsluaðlögunar og afrit samnings um söluna.
    Loks segir í 5. mgr. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 15. gr. Samþykki umboðsmaður skuldara niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana er skuldara heimilt að kæra þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sbr. 15. gr.

Um 14. gr.

    Í ljósi mismunandi meðferðar og stöðu veðkrafna og samningskrafna við samning um greiðsluaðlögun er mikilvægt að fyrir liggi hvaða kröfur eða hvaða hlutfall krafna fellur í hvorn flokkinn. Í tilvikum þar sem óljóst er hvort veðið er hærra en verð eignarinnar er því nauðsynlegt að umsjónarmaður skeri úr um nákvæma skiptingu viðkomandi kröfu í veðkröfu og samningskröfu. Í 14. gr. er því mælt fyrir um að umsjónarmaður skuli eftir þörfum verðmeta þær eignir sem skuldara er ekki gert að selja. Ef um fasteign er að ræða ætti matið að jafnaði ekki að vera lægra en fasteignamat Fasteignaskrár Íslands, en þetta er þó háð mati umsjónarmanns hverju sinni sem almennt séð á að taka mið af markaðsverði eigna hverju sinni. Verðmat annarra veðsettra eigna skal umsjónarmaður annast sjálfur. Fallist lánardrottinn ekki á mat umsjónarmanns getur hann á eigin kostnað óskað mats sérfræðings. Umsjónarmanni er skylt að taka afstöðu til mats sem lánardrottinn hefur aflað og skal eftir atvikum endurmeta verðmæti eigna eða staðfesta fyrra mat.

Um 15. gr.

    Samkvæmt 15. gr. skal umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana koma upp tilvik eða aðstæður sem hann telur munu hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Er hér fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiða til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar skv. I. og II. kafla. Eins og kveðið er á um í frumvarpinu skal umsjónarmaður einnig tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef skuldari hefur með vísvitandi hætti brugðist skyldum sínum eða komið í veg fyrir að ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna verði framfylgt. Áður en umboðsmaður skuldara tekur endanlega ákvörðun um erindi umsjónarmanns skal skuldara þó gefinn skammur frestur til að láta álit sitt í ljós eða koma með viðeigandi skýringar. Skuldari getur kært ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana innan viku frá því að ákvörðunin barst honum. Þá framlengist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir sem gerir það m.a. að verkum að frestun greiðslna framlengist meðan kærunefndin hefur málið til meðferðar en fellur niður staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara.
    Falli greiðsluaðlögunarumleitanir niður skal umboðsmaður skuldara tilkynna þekktum lánardrottnum um niðurfellinguna.

Um 16. gr.

    Í 16. gr. er kveðið á um að umsjónarmaður skuli svo skjótt sem auðið er að lokinni innköllun krafna leggja fyrir kröfuhafa, að höfðu samráði við skuldara, frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun.
    Í frumvarpinu skal kveðið á um lengd greiðsluaðlögunartímabilsins sem skal að jafnaði vera eitt til þrjú ár frá því að samningur tekur gildi.
    Við mat á lengd greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður m.a. taka tillit til þess hvort hagir skuldara og fjölskyldu hans séu með þeim hætti að þriggja ára greiðsluaðlögunartímabil hefði í för með sér sérstakt álag eða óvenjulega miklar fórnir fyrir skuldara. Við ákvörðun um lengd tímabilsins ber að líta m.a. til fjárhæða skulda, fjölskyldugerðar og hvort skuldari hefur börn á framfæri enda mikilvægt að fjárhagsstaða forsjáraðila takmarki ekki um of möguleika barna til náms og aðhlynningar. Ef skuldari fer með forsjá barna ætti því frekar að horfa til styttra greiðsluaðlögunartímabils. Meta þarf áhrif greiðsluaðlögunar á lífsgæði og tryggja að veruleg breyting á þeim standi ekki of lengi. Sé um litla breytingu að ræða mælir það fremur með lengra tímabili. Þá skiptir aldur og heilsa skuldara máli. Sé aflahæfi takmarkað eða félagslegar aðstæður erfiðar mælir það með enn styttra greiðsluaðlögunartímabili en kveðið er á um í ákvæðinu. Þá skal fremur miða við styttra greiðsluaðlögunartímabil ef verulegur hluti af skuldum skuldarans er á grundvelli tryggingarábyrgðar. Hafi skuldarinn um langa hríð staðið við skuldbindingar sínar í samræmi við breytta skilmála eða aðra skuldaaðlögun utan þessara laga skal fremur miðað við styttra greiðsluaðlögunartímabil en lengra. Umsjónarmaður skal miða við að greiðsluaðlögunartímabil skuli vera lengra ef skuldarinn fær að halda eftir eigin íbúð þar sem veðkröfur nema umtalsvert minni fjárhæð en virði íbúðarinnar. Þá skal einnig fremur miðað við lengra tímabil ef takmarkaður hluti af fyrirsjáanlegum arði fer til þess að greiða skuldbindingar. Það sama á við ef greiðsluaðlögun telst hafa umtalsverð áhrif gagnvart samábyrgum skuldurum.
    Þá skal í frumvarpinu tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, m.a. upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Einnig skal skrá allar kröfur sem vitað er um og tillögu umsjónarmanns um hvernig farið verði með kröfurnar, þ.e. hvort um sé að ræða tillögu um eftirgjöf, hlutfallslega lækkun, gjaldfrest, skilmálabreytingar, breytt form á greiðslu eða greiðslu með hlutdeild í reglulegri afborgunarfjárhæð. Þá skal í samræmi við 1. mgr. 3. gr. og 21. gr. tiltaka þær kröfur sem greiðast að fullu sem og hvaða hluti, ef einhver, af veðkröfum stendur utan matsverðs eignar og verður að almennri kröfu og þá hvernig skuli farið með þá kröfu. Að lokum er mælt fyrir um að í frumvarpinu skuli koma fram sá frestur sem lánardrottnar hafa til að taka afstöðu til frumvarpsins þegar þeir hafa fengið það sannanlega sent, sbr. skýringar við 17. gr.
    Afborgunarfjárhæð er sú fjárhæð sem skuldari greiðir af veð- og samningskröfum meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur. Annars vegar er um að ræða afborgunarfjárhæð sem eingreiðslu sem skuldari innir af hendi. Hún skiptist milli samningskröfuhafa samkvæmt samkomulagi. Þeir teljast til samningskröfuhafa sem ekki njóta tryggingaréttinda í eignum skuldara eftir að eign hefur verið seld eða metin af umsjónarmanni eða sérfræðingum til verðs.
    Hinn möguleikinn er sá að skuldari greiði reglulegar afborganir á tilteknu tímabili meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur. Afborgunarfjárhæðin skal bundin við launavísitölu eða aðra vísitölu sem aðilar koma sér saman um að afborganir skuli miðaðar við. Ákvæði laga um vexti og verðtryggingu standa því ekki í vegi, enda hér um sérlög að ræða sem ganga framar almennu lagaákvæði. Við val á verðtryggingarkosti er einnig eðlilegt að líta til möguleika skuldara sjálfs til tekjuöflunar á greiðsluaðlögunartíma. Þetta á sérstaklega við þegar um skuldara er að ræða sem er við aldur og hefur takmarkaða möguleika til tekjuöflunar.
    Í frumvarpinu skal einnig tiltaka framfærslu skuldara og skal umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Við mat á framfærslukostnaði skal einnig taka mið af tekjum annarra fjölskyldumeðlima, ef fjölskylduhagir skuldara gefa tilefni til þess. Þá skal umsjónarmaður horfa til þess að skuldari geti staðið undir þeim skuldbindingum sem frumvarpið leggur á hann á greiðsluaðlögunartímabilinu. Umsjónarmaður skal horfa sérstaklega til þess hvort skuldari er framfærsluskyldur með börnum og taka sérstakt tillit til þess við ákvörðun framfærslu.
    Að greiðsluaðlögunartímabilinu loknu er gert ráð fyrir því að tekist hafi að endurskipuleggja fjárhag skuldara. Það er eitt þeirra atriða sem umsjónarmaður horfir til við frumvarpsgerðina. Umsjónarmaður skal vinna frumvarpið í samráði við skuldara, enda verður að líta svo á að tillagan sé tilboð frá skuldara til kröfuhafa um uppgjör.
    Telji umsjónarmaður það nauðsynlegt eða ef lánardrottinn krefst þess getur umsjónarmaður boðað til fundar með lánardrottnum og skuldara til að ræða greiðsluaðlögunina áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er gert. Fundur sem þessi getur til að mynda verið þarfur til að leggja grunn að raunhæfum greiðsluaðlögunarsamningi. Þá er heimilt að boða jafnframt á fundinn ábyrgðarmenn skuldara, samskuldara hans og þá sem veitt hafa skuldara lánsveð í eignum sínum.

Um 17. gr.

    Í 17. gr. er fjallað um samþykki samnings um greiðsluaðlögun og mælt fyrir um að umsjónarmaður skuli leitast við að fá samþykki lánardrottna fyrir frumvarpi til samningsins. Í einhverjum tilvikum getur þetta orðið til þess að gera þarf breytingar á frumvarpinu og skal það þá gert í samráði við skuldara. Kveðið er á um það að umsjónarmaður skuli senda öllum þekktum lánardrottnum á sannanlegan hátt frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður sendir lánardrottnum frumvarpið í sínu nafni eftir samráð við skuldara og eftir að hafa metið sjálfstætt greiðslugetu hans, framfærslukostnað og hvaða skuldbindingar teljast má líklegt að skuldari geti staðið við. Lánardrottnum er gefinn þriggja vikna frestur til að taka afstöðu til frumvarpsins. Leggist lánardrottinn gegn frumvarpinu eða hafi hann við það athugasemdir skal hann innan þess frests skila umsjónarmanni skriflegum rökstuðningi fyrir afstöðu sinni. Hafi skriflegur rökstuðningur ekki að geyma upplýsingar sem valdið geta niðurfellingu umleitana til greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottin til að endurskoða afstöðu sína. Í einhverjum tilvikum gæti þurft að gera breytingar á frumvarpinu í samráði við skuldara og skal það þá sent öðrum lánardrottnum að nýju.
    Við breytingar á frumvarpinu skal umsjónarmaður tryggja að framfærsla skuldara og eftir atvikum heimilismanna hans sé tryggð. Ef ekki er hægt að mæta athugasemdum lánardrottna með eðlilegum breytingum á frumvarpi og umsjónarmaður hefur reynt til þrautar, en árangurslaust á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, að fá lánardrottna til að samþykkja samning um greiðsluaðlögun er ljóst að frumvarp til samningsins fæst ekki samþykkt.
    Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun telst samþykkt þegar allir lánardrottnar hafa samþykkt það. Hafi lánardrottinn ekki lýst því yfir innan þriggja vikna frestsins að hann leggist gegn frumvarpinu telst hann hafa samþykkt það. Telja verður líklegt að á grundvelli þeirrar faglegu vinnu sem átt hefur sér stað muni lánardrottnar ekki nema í einstökum tilvikum setja sig upp á móti því af rökstuddum ástæðum að greiðsluaðlögun nái fram að ganga. Að auki ætti lánardrottinn almennt að miða við það að leggjast ekki gegn frumvarpi nema hann hafi ástæðu til að ætla að skuldari geti greitt meira. Það er hagur skuldara og lánardrottins að ná fram samningi um greiðsluaðlögun. Verði afstaða lánardrottins til þess að skuldari leiti eftir og fái nauðasamning til greiðsluaðlögunar er ekki hægt að gera breytingar á nauðasamningi batni hagur skuldara. Slíkra breytinga getur lánardrottinn þó krafist á samningi um greiðsluaðlögun í samræmi við 25. gr.
    Það flýtir því mjög fyrir ferlinu að setja ekki skilyrði um að samþykki allra lánardrottna þurfi til að samningur um greiðsluaðlögun komist á þar sem þeir lánardrottnar sem eru samþykkir frumvarpinu þurfa ekki að tjá það sérstaklega. Þá er eðlilegt að gera þá kröfu að lánardrottnar gæti hagsmuna sinna hvað þetta varðar. Mælt er fyrir um að stjórnvöld, innheimtumaður, stofnanir og opinber félög geti án tillits til ákvæða í öðrum lögum samþykkt frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hvað varðar aðrar kröfur en sektir. Forsvarsmönnum er heimilt að samþykkja tillögu umsjónarmanns ef lánardrottinn er opinber aðili. Þar sem litið er á þögn lánardrottins sem samþykki fyrir frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun þurfa þessir aðilar þó ekki að veita samþykki sitt heldur einungis andmæla taki frumvarpið til sektarkrafna. Af sömu ástæðu er mikilvægt að frumvarpið sé ávallt sent öllum lánardrottnum á sannanlegan hátt, t.d. með ábyrgðarpósti eða boðsendingu.
    Teljist frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samþykkt skulu skuldari, umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara undirrita það og tekur samningurinn þá þegar gildi. Hann skal senda öllum þekktum kröfuhöfum. Í samræmi við 3. mgr. 21. gr. skal umsjónarmaður sjá til þess í tæka tíð, áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun, að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt honum.

Um 18. gr.

    Náist ekki samningur um greiðsluaðlögun í samræmi við IV. kafla getur skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði eða hvors tveggja í senn. Í 18. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með slík tilvik. Umsjónarmaður skal gefa skuldara kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Þá skal umsjónarmaður innan tveggja vikna frá yfirlýsingu skuldara taka rökstudda afstöðu til þess hvort hann mælir með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á eða eftir atvikum hvoru tveggja í senn. Umsjónarmaður skal við mat á því m.a. líta til þess hvort nokkuð hefur komið fram sem í upphafi hefði átt að standa í vegi fyrir greiðsluaðlögun, hvort skuldari leitar eftirgjafar umfram það sem eðlilegt er í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Hér er horft til þess að lánardrottnar skuli almennt ekki setja sig upp á móti frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun nema þeir telji með sanngirni að skuldari geti greitt meira. Séu þær aðstæður fyrir hendi er ósanngjarnt að skuldari geti sett sig upp á móti breytingum á frumvarpinu og krafist svo nauðasamnings. Slíkar aðstæður ættu því að leiða til þess að umsjónarmaður mæli gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Þá skal umsjónarmaður líta til þess hvort skuldari hefur sinnt skyldum sínum skv. 12. gr., m.a. hvort hann hefur lagt til hliðar af tekjum sínum fé umfram framfærsluþörf sína og fjölskyldu sinnar og ekki gripið til stærri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Þá ber umsjónarmanni að líta til þess að skuldari hafi staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir, hvort raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem hafa látið greiðsluaðlögunarumleitanirnar sig varða. Umsjónarmaður skal því horfa til þess hver rökstuðningur lánardrottna var fyrir því að leggjast gegn frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun en ljóst er að hann getur ekki einvörðungu staðið í vegi fyrir því að umsjónarmaður mæli gegn nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og þurfa ríkar ástæður að vera fyrir afstöðu lánardrottna.
    Mæli umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal hann tilkynna það skuldara tafarlaust sem getur skotið þeirri ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðunin var tekin og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan tveggja vikna. Skammur frestur kærunefndarinnar endurspeglar þá ríku hagsmuni sem í húfi eru. Að auki er ljóst að þegar málið kemur til kærunefndarinnar hefur fjárhagur skuldara þegar verið kortlagður og að auki liggja fyrir ítarlegar upplýsingar í samræmi við lögin. Ólíklegt er því að nefndin þurfi að fara í rannsóknarvinnu heldur geti hún tekið ákvarðanir á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir enda fái hún öll gögn frá umsjónarmanni um mál skuldara. Staðfesti kærunefndin ákvörðun umsjónarmanns lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum þá þegar og skal umboðsmaður skuldara tilkynna þekktum lánardrottnum skuldara um það. Hrindi kærunefndin ákvörðun umsjónarmanns skal hann vinna frumvörp til nauðasamnings og eftir atvikum til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna í samræmi við 19. og 20. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að meðan beðið er ákvörðunar umsjónarmanns og eftir atvikum kærunefndar haldast áhrif greiðsluaðlögunarumleitana þannig að frestun greiðslna skv. 11. gr. helst. Ákveði umsjónarmaður eða kærunefnd að skuldara sé heimilt að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna framlengjast áhrifin þar til þeirri málaleitan er lokið.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. er fjallað um hvernig málsmeðferð er háttað þegar afráðið hefur verið að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Skal umsjónarmaður þá innan tveggja vikna gera frumvarp til samningsins. Samningurinn skal taka til annarra krafna á hendur skuldara en þeirra sem tryggðar eru með veði eða annars konar tryggingarréttindum í eignum hans og skal í frumvarpinu koma fram hvað skuldari býðst til að greiða af skuldum sínum sem frumvarpið tekur til og með hvaða kjörum, hvaða þekktir lánardrottnar eiga þessar kröfur og hversu mikið þeir fá í sinn hlut, hvort trygging verður sett fyrir greiðslum og hver hún þá sé.
    Frumvarpið ásamt greinargerð umsjónarmanns skal sent til allra þekktra lánardrottna skuldarans. Hafi umsjónarmaður mælt gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar en kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hrundið þeirri ákvörðun skal jafnframt fylgja úrskurður kærunefndarinnar.
    Um framhald máls fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en í 34. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á kaflanum til að tengja ferlin betur saman.

Um 20. gr.

    Í 20. gr. er kveðið á um að þegar afráðið er að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafa á íbúðarhúsnæði, hvort sem það er gert samhliða því að leita nauðasamnings skv. 19. gr. eða án þess, skuli umsjónarmaður gera frumvarp til slíkrar greiðsluaðlögunar og boða veðhafa innan tveggja vikna til fundar. Um þann fund skal fara eftir fyrirmælum 5. gr. laga nr. 50/2009. Heiti þeirra laga var tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði en samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til breytingar á lögum nr. 50/2009. Um framhald málsins fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í þeim lögum.

Um 21. gr.

    Í 21. gr. er kveðið á um skiptingu greiðslna milli kröfuhafa. Meginreglan er að þær eignir eða afborganir sem skipta skal milli kröfuhafa skiptast hlutfallslega eftir fjárhæð krafna. Í ákvæðinu eru þó gerðar nokkrar undantekningar frá þessari meginreglu sem taldar eru upp í a- og b-lið.
    Fyrri undantekningin snýr að kröfum sem tryggðar eru með veði. Segir í a-lið að ef skuldari heldur eftir eignum sem tryggðar eru með veði skuli hann greiða af þeim fastar mánaðargreiðslur sem mega ekki nema lægri fjárhæð en umsjónarmaður metur að samsvari húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögunin varðar. Er þetta ákvæði samsvarandi ákvæði í lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur falla því ekki dráttarvextir, vanskilagjöld eða innheimtukostnaður á veðkröfur, en vanskilaþáttur kröfunnar sem ekki fæst greiddur leggst við ógjaldfallinn höfuðstól kröfunnar og á lánstíminn að lengjast sem því nemur til jafnlengdar þeim tíma sem greiðsluaðlögunin stendur.
    Við útreikning leigunnar er heimilt að taka tillit til gjalda sem leigjandi mundi að jafnaði ekki greiða, svo sem fasteignagjalda, hússjóðs, trygginga, hita og rafmagns. Þrátt fyrir þá meginreglu að skuldari greiði af veðkröfum sem samsvari leiguverði er gert ráð fyrir því að séu sérstakar tímabundnar aðstæður fyrir hendi sé umsjónarmanni heimilt að lækka þessar greiðslur. Þá undanþáguheimild ber þó að skýra þröngt. Miða verður við að ekki sé verið að aðstoða skuldara til að halda húsnæði sem hann hefur ekki efni á að halda heldur mæta tímabundnum erfiðleikum þegar sýnt er að einstaklingur muni þó til frambúðar standa undir greiðslum. Koma þar m.a. til álita tímabundin veikindi eða atvinnuleysi sem staðið hefur til lengri tíma en þó séu líkur á að tekjuöflunarmöguleikar muni glæðast. Er sú takmörkun gerð að ekki megi þó ákvarða greiðsluna lægri en sem samsvarar 60% af hæfilegri húsaleigu og einungis tímabundið. Það er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til á lögum nr. 50/2009 í frumvarpi til breytinga á þeim.
    Í a-lið er einnig kveðið á um að sá hluti veðtryggðra krafna sem er yfir matsverði þeirra eignar sem stendur til tryggingar skuli greiddur samkvæmt greiðsluaðlöguninni á sama hátt og óveðtryggðar kröfur. Þær falla þá niður að öðru leyti þegar skuldari hefur fullnægt skyldum sínum og greiðsluaðlögun lýkur nema um annað sé samið í samningi um greiðsluaðlögun í samræmi við 4. mgr. 3. gr. Samkvæmt þeirri málsgrein er gert ráð fyrir að í samningi um greiðsluaðlögun sé heimilt að semja um hlutfallslega lækkun og eftirgjöf krafna en einnig t.d. gjaldfrest og skilmálabreytingu. Við gerð frumvarps um greiðsluaðlögun þarf þó alltaf að gæta þess að uppfyllt sé ákvæði 3. mgr. 16. gr. um að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Gæta verður þess við gerð frumvarps um greiðsluaðlögun að við lok tímabilsins sé hann fær um að standa við skuldbindingar sínar.
    Síðari undantekningin snýr að þeim kröfum sem greiðsluaðlögun tekur ekki til, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er kveðið á um að umsjónarmaður skuli sjá til þess að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt greiðsluaðlögun í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt henni.

Um 22. gr.

    Í 22. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með umdeildar kröfur við greiðsluaðlögun, en þegar skuldari leitar eftir greiðsluaðlögun kunna að vera til staðar kröfur á hendur honum sem eru umdeildar. Þá kunna þess háttar kröfur að falla á hann á greiðsluaðlögunartímabilinu. Í þeim tilvikum ber að taka frá fjárhæð sem hefði farið til að greiða af kröfunum, eftir atvikum hlutfallslega, í samræmi við skilmála samnings um greiðsluaðlögun ef þær hefðu verið viðurkenndar. Ef lánardrottinn hefur hafið mál til að fá skorið úr um gildi kröfunnar með málshöfðun eða öðrum aðgerðum innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á skal skipta fjármununum milli annarra lánardrottna.

Um 23. gr.

    Í 23. gr. er kveðið á um ábyrgðarkröfur, þ.e. þau tilvik þar sem skuldari er skuldbundinn til að greiða fé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sem hann hefur gefið áður en meðferð beiðni um greiðsluaðlögun hófst en skylda samkvæmt yfirlýsingunni er ekki orðin virk þegar greiðsluaðlögun tekur gildi. Í slíkum tilvikum er lagt til að ekki skuli gert ráð fyrir skuldbindingunni við greiðsluaðlögunina. Ef ábyrgðarskuldbindingin verður virk síðar er möguleiki að breyta greiðsluaðlöguninni í samræmi við ákvæði frumvarpsins þar um. Þá er gert ráð fyrir að skuldari greiði sama hlutfall af skuld samkvæmt ábyrgðinni og hann greiðir af óveðtryggðum kröfum samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

Um 24. gr.

    Í 24. og 25. gr. er kveðið á um heimild til breytinga á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun, en á greiðsluaðlögunartímanum getur ýmislegt komið upp sem breytir aðstæðum og leiðir til þess að endurskoða þarf forsendur greiðsluaðlögunar.
    Í 24. gr. er kveðið á um heimild skuldara til að krefjast þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun. Skilyrði þess að skuldari geti óskað eftir því að gerðar verði breytingar á skilmálunum eru að á greiðsluaðlögunartímabilinu komi upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt skilmálum samningsins. Kröfu skuldara skal ekki taka til greina ef tilefni breyttra forsendna verður rakið til óábyrgrar hegðunar hans. Hér koma því einkum til skoðunar tilvik eins og þau þar sem skuldari verður fyrir slysi, viðvarandi atvinnuleysi, o.s.frv. Þetta þarf þó að meta hverju sinni.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ef fram kemur skuld, sem stofnaðist áður en umsókn skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar var samþykkt og skuldara var ekki kunnugt um þegar skilmálar samnings um greiðsluaðlögun voru ákveðnir og samningurinn tekur ekki til, verður skuldin felld undir greiðsluaðlögunina og greitt af henni í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum. Aðeins er greitt af henni frá þeim tíma sem breyting á skilmálum greiðsluaðlögunar tekur gildi. Skuldara er hins vegar óheimilt að greiða kröfuna utan greiðsluaðlögunar. Lánardrottinn sem hefur vanrækt að lýsa kröfu sinni eða hafa hana uppi við skuldara getur þannig ekki skapað sér betri rétt en aðrir lánardrottnar og krafist greiðslu kröfunnar. Hann er þá jafnsettur og þeir lánardrottnar sem við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana voru þekktir en lýstu ekki kröfu sinni þar sem hann hefur ekkert um skilmála samnings til greiðsluaðlögunar að segja og getur ekki sett sig upp á móti henni en fær þó greitt í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunar frá þeim tíma sem hann kynnir kröfuna skuldara.
    Áður en skuldari krefst breytinga á samningi um greiðsluaðlögun skv. 1. mgr. skal hann hafa leitað eftir samkomulagi þar um við aðra lánardrottna. Náist slíkt samkomulag skal það borið undir umboðsmann skuldara, sem skal samþykkja það nema í sérstökum undantekningartilfellum. Ef ekki næst samkomulag getur skuldari lagt til við umboðsmann skuldara að skilmálum samnings um greiðsluaðlögun verði breytt samkvæmt kröfu skuldara. Hafni umboðsmaður skuldara samþykki á breytingum á skilmálum geta skuldari eða lánardrottnar kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim.

Um 25. gr.

    Í greininni er fjallað um tilvik þegar lánardrottinn getur lagt fram kröfu um breytingu á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun á greiðsluaðlögunartímabilinu. Þetta getur einkum orðið þegar fjárhagsstaða skuldara hefur batnað mikið frá því sem var þegar skilmálar samningsins voru samþykktir. Lánardrottnar geta ekki sett fram slíka kröfu nema fjárhagsstaða skuldara hafi batnað verulega. Meta þarf hverju sinni hvort fjárhagsstaða skuldara hafi breyst svo að það veiti kröfuhöfum möguleika á því að gera slíka kröfu. Við skýringu á þessari grein verður þó að horfa til þess að greiðsluaðlögun var komið á miðað við fjárhagsstöðu skuldara á þeim tíma. Hugsunin er sú að skuldari geti endurskipulagt fjármál sín og byrjað upp á nýtt. Greinina má ekki skýra á þann hátt að það letji skuldara til að afla eins mikilla tekna og honum er kostur. Því skal ekki taka tillit til þess ef fjárhagsstaða skuldara batnar vegna eigin vinnu skuldara eða bættra launakjara hans, nema um verulega aukningu tekna sé að ræða. Þegar skuldarinn fær háa eingreiðslu á greiðsluaðlögunartímabilinu, t.d. arf eða annað þess háttar, getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli kröfuhafa án þess að greiðsluaðlöguninni sé breytt að öðru leyti. Þá er sama afborgunarfjárhæð greidd áfram en lánardrottnar fá hlutdeild í ávinningnum samkvæmt samkomulagi við skuldara eða ákvörðun umboðsmanns.
    Ef skuldari stendur ekki við þær skuldbindingar sem á honum hvíla, og skýringar verða raktar til aðstæðna sem skuldari hefur stjórn á, geta lánardrottnar krafist riftunar eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun. Ef greiðsluaðlögun er rift eða hún ógilt verður réttarstaðan eins og greiðsluaðlögun hafi aldrei komist á.

Um 26. gr.

    Í 26. gr. er fjallað um málsmeðferð þegar skuldari eða kröfuhafar krefjast breytinga, riftunar eða ógildingar á greiðsluaðlögun, sbr. 24. og 25. gr. Umboðsmaður skal taka ákvörðun innan mánaðar frá því að krafa um breytingu berst og er því mikilvægt að senda þá þegar þeim aðilum sem málið varðar erindið og kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum. Slíkar upplýsingar geta t.d. verið fjárhagslegar upplýsingar, upplýsingar um breytta stöðu og afstöðu skuldara og lánardrottna. Áður en til töku ákvörðunar kemur getur umboðsmaður skuldara að kröfu skuldara eða lánardrottins haldið fund telji hann það nauðsynlegt. Ákvörðun umboðsmanns skuldara getur skuldari eða lánardrottinn kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því ákvörðun berst þeim.

Um 27. gr.

    Í greininni er fjallað um upplýsingaskyldu skuldara gagnvart kröfuhöfum. Komi þannig upp aðstæður sem veita lánardrottnum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun, ógildingu hans eða riftun skal skuldari upplýsa lánardrottna á tryggan hátt og innan eins mánaðar um þær aðstæður.

Um 28. gr.

    Í 28. gr. er kveðið á um skráningu greiðsluaðlögunar og fleiri atriði sem huga þarf að þegar greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að umsjónarmaður skuli óska eftir því að athugasemd um samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun verði skráð í þinglýsingabækur og aðrar opinberar bækur vegna fasteigna, skipa, lausafjár og bifreiða sem eru í eigu skuldara. Þetta á við um þær eignir skuldara sem skráðar eru á hans nafn. Veðbönd á eignum sem umsjónarmaður ákveður að selja og eru seldar meðan leitað er greiðsluaðlögunar falla niður í samræmi við 13. gr. Meðan leitað er samnings um greiðsluaðlögun, og á greiðsluaðlögunartímabilinu sjálfu, getur lánardrottinn ekki fengið þinglýst betri rétti en hann hafði þegar umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn um greiðsluaðlögun. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt hefst ákveðið ferli sem miðar að því að gera upp fjárhag skuldara með það að leiðarljósi að jafnvægi náist milli greiðslugetu og skulda, miðað við fjárhagsstöðuna eins og hún var þegar heimild var veitt. Samningskröfuhafar geta því ekki fengið stöðu veðkröfuhafa eftir að samþykki umboðsmanns skuldara liggur fyrir. Lánardrottnar geta ekki fengið tryggingarrétt í eignum skuldara eftir að umsókn skuldara hefur verið samþykkt. Skráning að frumkvæði umsjónarmanns í þinglýsingabækur um að heimild skuldara til að leita greiðsluaðlögunar liggi fyrir er gjaldfrjáls.
    Enn fremur skal umsjónarmaður þinglýsa athugasemd um að greiðsluaðlögunarumleitanir hafi verið felldar niður eða að samningi um greiðsluaðlögun hafi verið komið á og hversu langt greiðsluaðlögunartímabilið er. Skráningar af þessu tagi eru einnig gjaldfrjálsar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli halda skrá yfir alla sem fengið hafa heimild til greiðsluaðlögunar. Í 3. mgr. er kveðið á um að þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið skuli yfirvöld og eftirlitsaðilar einungis nota upplýsingar um greiðsluaðlögun skuldara til að kanna hvort skuldari hafi áður fengið greiðsluaðlögun, enda eru það einu upplýsingarnar sem ástæða er fyrir stjórnvöld og eftirlitsaðila að halda utan um varðandi greiðsluaðlögun. Aðrar upplýsingar á ekki að skrá í opinberar bækur. Oft getur verið um að ræða persónulegar upplýsingar sem engin ástæða er til að yfirvöld haldi utan um með því að skrá þær sérstaklega.

Um 29. gr.

    Eftir að greiðsluaðlögunartímabili er lokið getur skuldari gegn framvísun samnings um greiðsluaðlögun og yfirlýsingar umboðsmanns skuldara um að greiðsluaðlögun sé lokið krafist aflýsinga á veðkröfum sem falla niður eftir að tímabilinu er lokið samkvæmt skilmálum samnings um greiðsluaðlögun. Að auki getur skuldari krafist þess að aflýst verði athugasemd sem þinglýst hefur verið þess efnis að umboðsmaður hafi samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 28. gr. Forsendan er sú að skuldari hafi staðið við sínar skuldbindingar. Skuldari á rétt á því að fá kvittun frá lánardrottni um að hann hafi staðið við sínar skuldbindingar ef nauðsyn krefur, en annars eiga kvittanir um greiðslur samkvæmt skilmálum samnings um greiðsluaðlögun og yfirlýsing umboðsmanns skuldara að duga til að fá veðkröfum aflýst.

Um 30. gr.

    Í greininni er kveðið á um að umboðsmaður skuldara beri kostnað af meðferð umsókna um greiðsluaðlögun og starfa umsjónarmanna með greiðsluaðlögun. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að lánardrottnar greiði þann kostnað sem á þá fellur af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Þá er kveðið á um að kostnaður við sölu eigna skuli greiðast af söluandvirði þeirrar eignar sem seld er.

Um 31. gr.

    Hér er kveðið á um að kröfur sem urðu til áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt, en skuldari hefur ekki verið krafinn um að greiða, falli niður þegar greiðsluaðlögunartímabilinu lýkur. Lýsi lánardrottinn ekki yfir kröfu við innköllun og tilkynni hann ekki skuldara um kröfuna á greiðsluaðlögunartímabili er mikilvægt að hann geti ekki á grundvelli þessa tómlætis krafist fullra efnda kröfunnar eftir að greiðsluaðlögunartímabilinu lýkur.

Um 32. gr.

    Í 32. gr. er mælt fyrir um að félags- og tryggingamálaráðherra skipi þriggja manna kærunefnd greiðsluaðlögunarmála til fjögurra ára í senn sem heimilt verði að kæra til ákvarðanir umboðsmanns skuldara í samræmi við ákvæði laganna. Kveðið er á um að tveir nefndarmanna skuli hafa embættispróf eða meistarapróf í lögfræði. Annar þeirra skal jafnframt uppfylla hæfisskilyrði til að vera héraðsdómari og skal ráðherra skipa hann formann nefndarinnar. Ekki er kveðið á um sérstök hæfisskilyrði fyrir þriðja nefndarmanninn en mikilvægt er að hann hafi þekkingu sem nýtist í störfum nefndarinnar. Þannig getur komið til greina að hann sé löggiltur endurskoðandi en einnig gæti hann búið yfir sérþekkingu eða reynslu á sviði skuldamála.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að úrskurðir kærunefndarinnar séu endanlegir á stjórnsýslustigi og verði því ekki kærðir til ráðherra. Í 4. mgr. er ráðherra svo falið að setja reglugerð um störf nefndarinnar, lögunum til fyllingar.

Um 33. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að sá hluti skulda sem felldur er niður samkvæmt greiðsluaðlögun skerði ekki rétt skuldara til hvers konar greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.

Um 34. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. ágúst 2010 og er gildistíminn í samræmi við tillögur félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara. Gildistakan ræðst eðlilega af gildistöku þess frumvarps þar sem umboðsmanni skuldara er falið viðamikið hlutverk við greiðsluaðlögun.

Um 35. gr

    Í 35. gr. er kveðið á um breytingar á öðrum lögum og lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, lögum um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Lagt er til að X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. verði breytt þannig að fyrirsögn kaflans verði nauðasamningur til greiðsluaðlögunar. Þá eru ákvæði kaflans skorin ansi mikið niður enda er nú gert að skilyrði fyrir því að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar að áður hafi árangurslaust verið leitað samnings til greiðsluaðlögunar í samræmi við frumvarp þetta. Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar getur einungis tekið til þeirra sömu krafna og nauðasamningur skv. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti tekur til. Veðkröfur eru því undanþegnar og þarf því að óska eftir greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í samræmi við lög nr. 50/2009 þurfi skuldari samhliða nauðasamningi greiðsluaðlögun veðkrafna sinna.
    Í 19. gr. frumvarpsins er kveðið á um að mæli umsjónarmaður með því að skuldari fái nauðasamning til greiðsluaðlögunar eða hrindi kærunefnd ákvörðun umsjónarmanns skuldara hafi hann mælt gegn því að nauðasamningur kæmist á skuli hann útbúa frumvarp til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Frumvarpið skal umsjónarmaður senda til allra þekktra lánardrottna skuldara. Skal skuldari þá leggja það fyrir héraðsdóm innan viku frá því að umsjónarmaður sendi það út ásamt kröfu um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Með beiðninni skal fylgja samrit allra gagna sem lágu fyrir við umleitun til að koma á samningi um greiðsluaðlögun ásamt greinargerð umsjónarmanns.
    Þrátt fyrir breytt ákvæði 63. gr. a er haldið inni þeirri takmörkun að einstaklingur sem borið hefur ótakmarkaða ábyrgð á atvinnurekstri geti ekki nýtt sér úrræði um nauðasamning til greiðsluaðlögunar nema lítill hluti skulda hans stafi frá atvinnurekstri. Sú breyting er þó lögð til frá gildandi lögum að atvinnurekstri þurfi ekki að hafa verið hætt. Verður hér að líta til þess að í gjaldþrotaskiptalögum er til staðar nauðasamningaúrræði fyrir atvinnurekstur og þetta ferli er einfaldað í frumvarpi til breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (447. mál, þskj. 768) sem afgreitt hefur verið frá allsherjarnefnd á yfirstandandi þingi. Þó svo að eðlilegt sé að þessir einstaklingar geti til jafns við aðra, uppfylli þeir skilyrði laganna að öðru leyti, nýtt sér lögin til að leita frjálsra samninga um greiðsluaðlögun verður að tryggja að ekki skapist ójafnræði með þeim einstaklingum í rekstri sem leita nauðasamnings eða nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Er því miðað við gildandi takmörkun og áskilið að einungis lítill hluti skulda stafi frá atvinnurekstri. Þetta þarf að meta hverju sinni en þó má t.d. hafa hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli 721/2009 þar sem 15% heildarskulda voru talin lítill hluti heildarskulda.
    Í frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra var lagt upp með að ekki væri skylda að hafa lögheimili á Íslandi til að fá greiðsluaðlögun. Sá háttur er hafður á hvað varðar samning um greiðsluaðlögun en ef ekki nást samningar fer eftir X. kafla a gjaldþrotaskiptalaga. Í 4. gr. þeirra laga er gert að skilyrði að lögheimili sé á Íslandi. Þar sem ekki er til staðar samningur við önnur ríki um gagnkvæma viðurkenningu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er ekki unnt að fella brott það skilyrði. Árétta verður þó mikilvægi þess að einstaklingar sem sannanlega uppfylla skilyrði greiðsluaðlögunar fái lausn mála sinna og er því lögð áhersla á að þeir sem eiga lögheimili erlendis fái aðstoð umboðsmanns skuldara varðandi upplýsingar um möguleg sambærileg úrræði í búsetulandi sínu vegna skulda sinna hérlendis. Slík aðstoð yrði þó einungis í formi upplýsinga en ekki ráðgjafar eða aðstoðar við að leita viðeigandi úrræðis.
    Lagt er til að um málsmeðferð fyrir dómi fari eftir ákvæðum 55.–59. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en í þeim ákvæðum er kveðið á um staðfestingu nauðasamnings. Þá er kveðið á um að almennar reglur um nauðasamninga í X. kafla laganna gildi að frátalinni 3. mgr. 60. gr. sem gerir það að verkum að hlutaðeigandi lánardrottnar geta ekki krafist fjárnáms til fullnustu á kröfur sínum eftir nauðasamningnum ef vandefndir yrðu af hendi skuldara.
    Þá er lögð til breyting í þá veru að ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, gildi einnig um samning um greiðsluaðlögun.
    Á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 er lögð til sú breyting að í 3. tölul. 28. gr. verði tiltekið að eignaauki sem stafar af eftirgjöf skulda við samning um greiðsluaðlögun teljist ekki til tekna. Ákvæði 3. tölul. 28. gr. skattalaga á einungis við um tekjur einstaklinga og því ljóst að verði eftirgjöf á skuldum sem stafa frá atvinnurekstri myndar slík niðurfelling skattstofn.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þrátt fyrir að frumvarp þetta verði samþykkt verði unnt að ljúka meðferð beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem lögð hefur verið fyrir héraðsdóm fyrir gildistöku laganna enda falli skuldari ekki frá beiðni sinni. Þá verði heimilt að veita til þess réttaraðstoð á grundvelli laga nr. 65/1996. Skuldari getur þó fallið frá beiðni sinni og hafið nýtt ferli í samræmi við frumvarp þetta og greiðist þá kostnaður vegna meðferðar umsóknar um greiðsluaðlögun og starfa umsjónarmanns af umboðsmanni skuldara í samræmi við 30. gr. frumvarpsins.