Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 671. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1364  —  671. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „greiðsluaðlögun“ í 1. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.
     b.      Í stað orðanna „fimm ár“ í 1. mgr. kemur: þrjú ár.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                   Með fyrirsvar laga þessara fer félags- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna tekið til fasteignar skuldara þótt hann haldi þar ekki heimili, enda þurfi hann tímabundið að sækja nám eða vinnu fjarri heimili. Sama gildir þurfi skuldari að dveljast erlendis vegna veikinda. Skal þá eftir atvikum krefjast úrlausnar héraðsdóms í því umdæmi þar sem fasteign skuldara er staðsett. Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis.
     b.      2. tölul. 3. mgr. orðast svo: Krafna sem tryggðar eru með samningsveði, enda sé krafan þegar orðin til og greiðsluskuldbindingin hvílir á skuldaranum sjálfum eða einhverjum eigenda séu þeir fleiri en einn.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem hann á lögheimili“ í 1. mgr. kemur: umboðsmanns skuldara.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Hafi skuldari áður leitað samnings við lánardrottna sína eftir ákvæðum laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og leiti hann greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna í samræmi við 18. og 20. gr. þeirra laga fer um beiðni hans eftir þeim lögum. Um framhald slíks máls fer eftir ákvæðum laga þessara eftir því sem við á.

4. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún liggur fyrir fullbúin.
     b.      Í stað orðsins „Héraðsdómari“ í upphafi 2. mgr. kemur: Umboðsmaður skuldara.
     c.      Í stað orðanna „tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna“ í 4. tölul. 2. mgr. kemur: greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.
     d.      Í stað 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ekki er unnt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að honum berst tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara.
                  Taki umboðsmaður skuldara til greina beiðni eða kærunefnd hrindir ákvörðun hans um að synja skal hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna sem uppfyllir skilyrði 9. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þóknun umsjónarmanns ásamt öðrum kostnaði af greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna greiðist í samræmi við 30. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.
                  Njóti skuldari á sama tíma heimildar til nauðasamningsumleitana til greiðsluaðlögunar skal að öðru jöfnu sami umsjónarmaður fara með bæði málin.
     e.      Í stað orðsins „Dómsmálaráðherra“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: Ráðherra.
     f.      Í stað orðanna „tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.
     g.      Í stað orðanna „úrskurður skv. 3. mgr. er genginn“ kemur: ákvörðun skv. 4. mgr. hefur verið tekin.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.
     b.      Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu.
     c.      Í stað orðsins „greiðsluaðlögunartímanum“ í 2. tölul 2. mgr. kemur: tímabili greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.
     d.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Að því gerðu sem að framan segir boðar umsjónarmaður með sannanlegum hætti til fundar með veðhöfum sem haldinn skal innan fjögurra vikna frá skipun hans, en innan tveggja vikna hafi skuldari leitað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna í framhaldi af árangurslausri umleitan um samning til greiðsluaðlögunar í samræmi við lög um greiðsluaðlögun einstaklinga.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „greiðsluaðlögunartíma“ í 3. og 4. málsl. 1. mgr. og orðsins „greiðsluaðlögunartímanum“ í 4. mgr. kemur: tímabili greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.
     b.      3. málsl. 5. mgr. orðast svo: Á tímabili greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna verður ekki krafist nauðungarsölu á fasteigninni.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna unnið á grundvelli 20. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga skal fundarboð, sbr. 5. gr., jafngilda ákvörðun umsjónarmanns.
     b.      6. mgr. orðast svo:
                  Nú hefur umsjónarmaður ákveðið að af greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna verði og getur þá veðhafi innan tveggja vikna frá því að sú ákvörðun var tekin tilkynnt umsjónarmanni að hann krefjist úrlausnar héraðsdóms um hana. Sé frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna unnið á grundvelli 20. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga skulu veðhafar eigi síðar en viku eftir veðhafafund, þar sem ákvörðun umsjónarmanns um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hefur verið staðfest af umboðsmanni, tilkynna umsjónarmanni að krafist sé úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun umsjónarmanns. Þær tilkynningar sem getið er í málsgreininni skulu vera skriflegar og rökstuddar, en að öðru leyti fer um meðferð máls samkvæmt sömu reglum og gilda um meðferð ágreinings um frumvarp skiptastjóra til úthlutunar við gjaldþrotaskipti.
     c.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skuldara er heimilt að óska eftir því að umsjónarmaður sé viðstaddur meðferð máls fyrir héraðsdómi og skal umsjónarmaður þá verða við því.

8. gr.

    Orðin „að viðbættum 10 hundraðshlutum“ í 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. falla brott.

9. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2010. Þó skal 7. gr. öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Félags- og tryggingamálanefnd leggur frumvarp þetta fram samhliða frumvarpi um greiðsluaðlögun einstaklinga og frumvarpi um tímabundið úrræði fyrir einstaklinga sem eiga tvær eignir til heimilisnota. Frumvörpin byggjast öll á frumvörpum félags- og tryggingamálaráðherra sem nefndin hafði til umfjöllunar en taldi að gera þyrfti miklar breytingar á og varð það því niðurstaða nefndarinnar að leggja fram ný frumvörp. Auk framangreindra frumvarpa leggur nefndin til breytingar á frumvarpi um umboðsmann skuldara.
    Frumvarpi þessu er ætlað að festa í sessi úrræði laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, þannig að ekki verði lengur um tímabundið úrræði að ræða og er m.a. lögð til breyting á heiti laganna í þá veru. Að auki er lagt til að úrræðið verði nefnt greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna til að aðgreina það frá greiðsluaðlögun einstaklinga og eftir atvikum nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Mikilvægt þykir að aðgreina úrræðin á þennan hátt þrátt fyrir að þau séu af sama meiði og miði að því að gera einstaklingi sem er í greiðsluerfiðleikum kleift að laga skuldastöðu sína að greiðslugetu.
    Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við frumvarp nefndarinnar um greiðsluaðlögun einstaklinga. Meðal annars er umboðsmanni skuldara falið virkt hlutverk við mat umsókna um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og skipun umsjónarmanns en þetta verkefni er samkvæmt gildandi lögum falið héraðsdómi. Einnig er lagt til að tímabil greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna geti verið mest þrjú ár en samkvæmt gildandi lögum nr. 50/2009 getur það verið allt að fimm árum. Breytingin er til samræmis við greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kveðið er á um að tímabil greiðsluaðlögunar skuli að jafnaði vera eitt til þrjú ár.
    Að auki er lögð til sú breyting að tilkynni veðhafi að hann krefjist úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun umsjónarmanns að af greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna verði getur skuldari óskað eftir því að umsjónarmaður sé viðstaddur meðferð máls fyrir héraðsdómi. Mikilvægt getur verið fyrir hagsmuni skuldara að hafa umsjónarmann viðstaddan enda er það ákvörðun umsjónarmannsins sem krafist er úrlausnar dómstóls um auk þess sem mikill aðstöðumunur getur verið á skuldara og veðhöfum.
    Loks er frumvarpinu ætlað að tryggja samfellu og skilvirkni í greiðsluaðlögunarmálum ef ekki næst samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga þannig að unnt verði í beinu framhaldi að leita eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og samhliða um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Breytingar eru lagðar til sem tryggja eiga að mæli umsjónarmaður með því að leitað verði greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna hafi áður verið árangurslaust reynt að ná samningi um greiðsluaðlögun geri hann frumvarp sem um fer eftir atvikum samkvæmt lögum nr. 50/2009. Þannig þurfi ekki að hefja allt ferlið að nýju, t.d. vegna gagnaöflunar og kortlagningar fjárhags skuldara, heldur verði hægt að byggja á þeirri miklu vinnu sem umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður hafa þegar innt af hendi.
    Er gert ráð fyrir því í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga að náist ekki samningur um greiðsluaðlögun og umsjónarmaður mælir með því að skuldari fái að sækja um nauðasamning til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna saman útbúi hann frumvörpin til samræmis við þau lög, sbr. 19. og 20. gr. frumvarps um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í greinargerð með frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra um breytingu á lögunum (þskj. 951, 561. mál) segir: „Hafa ber í huga að frumvarpi þessu er ætlað að vera liður í niðurjöfnun þess gífurlega tjóns sem íslenskt samfélag varð fyrir við hrunið og nánar er lýst hér að framan. Enginn einn hópur þjóðfélagsins getur borið slíkt tjón og enginn getur heldur verið ósnortinn af því. Það er skylda ríkisvaldsins að kveða í raun á um niðurjöfnun tjónsins eins og kostur er, t.d. milli skuldara og kröfuhafa eins og gert er í þessu frumvarpi. Um leið er stuðlað að eðlilegu mati á verðmæti eigna og endurreisn efnahagslífsins hraðað. Mikilvægt er að skapa sátt og samstöðu í þjóðfélaginu í kjölfar þess áfalls sem hrunið er. Úrræði fyrir skuldara, á borð við þau sem hér eru kynnt til sögunnar, eru nauðsynlegur þáttur í slíkri sátt og sönnun þess að litið er til hagsmuna bæði skuldara og kröfuhafa.“ Eiga þessi sjónarmið jafnt við um frumvarp þetta og áréttar nefndin mikilvægi þess að gripið verði til skilvirkra og raunhæfra aðgerða sem sátt ríki um svo að hægt sé að aðstoða þá einstaklinga og heimili sem eru í vanda og hraða efnahagsbata landsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að hugtakið greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna verði notað um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009 til aðgreiningar frá greiðsluaðlögun einstaklinga.
    Sú breyting er lögð til í b-lið að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna geti að hámarki staðið í þrjú ár. Er þetta til samræmis við frumvarp nefndarinnar um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kveðið er á um að greiðsluaðlögun einstaklinga skuli að jafnaði standa í 1–3 ár.
    Í greininni er gerð tillaga um að með fyrirsvar laganna fari félags- og tryggingamálaráðherra sem er í samræmi við að yfirstjórn þeirra mála sem lögin fjalla um færist frá dómsmála- og mannréttindaráðherra til félags- og tryggingamálaráðherra.

Um 2. gr.


    Í gildandi lögum er það gert að skilyrði að til þess að geta fengið greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna þurfi skuldari að hafa heimili í viðkomandi eign. Markmið laganna er að tryggja einstaklingum virkt úrræði til að gera þeim eftir fremsta megni kleift að endurskipuleggja fjármál sín með það að markmiði að þeir geti búið áfram í fasteign sinni sé þess nokkur kostur. Ljóst er þó að málefnalegar ástæður geta legið að baki því að rýmka um lögheimilisskilyrðin dvelji einstaklingur tímabundið erlendis, t.d. vegna veikinda, náms eða vinnu. Þá sé mikilvægt að þeir sem fara utan af þessum ástæðum eigi afturkvæmt í heimili sitt. Í a-lið er því lögð til sú breyting að þrátt fyrir að gert sé að skilyrði að skuldari haldi heimili og hafi lögheimili í fasteigninni sem greiðsluaðlögunin varðar sé unnt að falla frá þeim skilyrðum þurfi hann tímabundið að dveljast erlendis vegna náms, vinnu eða veikinda. Þá er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra verði falið að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, t.d. um þau gögn sem skila þarf inn. Í þeim tilvikum sem einstaklingur á lögheimili erlendis er kveðið á um að mál hans skuli tekið til úrskurðar í héraðsdómi í því umdæmi þar sem fasteign hans er staðsett.
    Í b-lið er lögð til breyting á 2. tölul. 3. mgr. sem miðar að því fella undir gildissvið laganna þær kröfur sem tryggðar eru með samningsveði í fasteign skuldara á grundvelli tryggingarbréfs með allsherjarveði. Ákvæðið í gildandi lögum tryggir að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna tekur til krafna sem tryggðar eru með samningsveði í fasteigninni, enda taki veðrétturinn til ákveðinnar skuldar sem þegar er orðin til og greiðsluskuldbindingin hvílir á skuldaranum sjálfum eða einhverjum eigenda séu þeir fleiri en einn. Í framkvæmd hefur skilyrðið um ákveðna skuld verið skýrt þannig að það geri kröfu um að í veðskjali þurfi að koma fram rækileg tilgreining á þeirri peningakröfu sem veðinu er ætlað að tryggja. Tryggingarbréf með allsherjarveði tryggja samkvæmt orðalagi sínu allar kröfur sem veðhafi á eða kann að eignast í skiptum hlutaðeigandi aðila, svo sem algengt er í skiptum manna við banka og aðrar lánastofnanir. Ekki eru þar tilteknar hvaða kröfum bréfinu er ætlað að tryggja og hafa bréfin því skapað vandræði í framkvæmd.

Um 3. gr.


    Með a-lið er umboðsmanni skuldara falið að hluta til hlutverk héraðsdómstóls til samræmis við víðtækt hlutverk hans samkvæmt frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara.
    Í b-lið er lögð til ný málsgrein sem kveður á um hvernig fara skuli með beiðni skuldara hafi hann áður sótt árangurslaust um samning um greiðsluaðlögun og beiðni hans um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna eigi því rætur að rekja til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Skuldari hefur þá í samræmi við þau lög þegar skilað inn nauðsynlegum gögnum og fengið samþykkta umsókn sína um greiðsluaðlögun einstaklinga og er því ekki nauðsynlegt að hann fari í gegnum það ferli að nýju. Tilgangur ákvæðisins er því að skýra tengsl milli laganna um greiðsluaðlögun einstaklinga og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Hafi skuldari því í samræmi við 18. gr. frumvarps um greiðsluaðlögun einstaklinga lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna og umsjónarmaður mælt með því að hún nái fram að ganga er í 20. gr. kveðið á um að umsjónarmaður skuli þá boða veðhafa innan tveggja vikna á sinn fund eftir fyrirmælum 5. gr. laga nr. 50/2009. Um framhald málsins fer svo eftir ákvæðum þeirra laga.

Um 4. gr.


    Í a- og b-lið er lögð til breyting á 4. gr. laganna til samræmis við breytingu í a-lið 3. gr. frumvarpsins.
    Í d-lið er m.a. lögð til sú breyting að ekki sé unnt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn en að skuldari geti innan viku frá því honum berst ákvörðun umboðsmanns skuldara kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála ákvörðun umboðsmanns synji hann um samþykki umsóknar. Er þetta í samræmi við ákvæði frumvarps um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þá eru lagðar til breytingar á skipun umsjónarmanns. Lagt er til að hann þurfi að uppfylla ákvæði 9. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, þ.e. sé löglærður starfsmaður umboðsmanns skuldara eða lögmaður sem umboðsmaður skuldara gerir þjónustu- eða verksamning við.
    Í ljósi þess að samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp um greiðsluaðlögun einstaklinga auk þess sem lagt hefur verið fram frumvarp um stofnun embættis umboðsmanns skuldara þykir eðlilegt að stuðla að samræmi um málskostnað vegna starfa umboðsmanns skuldara og umsjónarmanna með greiðsluaðlögun. Er því lagt til að um kostnað af störfum umsjónarmanns fari skv. 30. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, þ.e. umboðsmaður skuldara greiðir þann kostnað. Þó er til staðar sá möguleiki að veðhafa eða veðhöfum, sem krefjast úrlausnar héraðsdómstóls um ákvörðun umsjónarmanns, verði gert að greiða málskostnað sbr. athugasemdir við 6. gr. hér að aftan.
    Í 3. mgr. er óbreytt ákvæði gildandi laga þess efnis að njóti skuldari á sama tíma heimildar til nauðasamningsumleitana til greiðsluaðlögunar skuli sami umsjónarmaður að öðru jöfnu fara með bæði málin enda ljóst að umsjónarmaður hefur þá verið með mál skuldara á hendi frá upphafi umleitana um samning um greiðsluaðlögun í samræmi við lög um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Um 5. gr.


    Í a-lið er lögð til breyting á 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Í gildandi ákvæði er kveðið er á um að fastar mánaðargreiðslur skuldara til greiðslu veðkrafna megi ekki nema lægri fjárhæð en umsjónarmaður metur að samsvari húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna varðar. Við útreikning þeirrar leigu er heimilt að taka tillit til gjalda sem leigjandi mundi að jafnaði ekki greiða, svo sem fasteignagjalda, hússjóðs, trygginga, hita og rafmagns. Breytingin felst í því að sett er inn heimild til að víkja frá meginreglunni um hæfilega húsaleigu séu sérstakar tímabundnar aðstæður fyrir hendi hjá skuldara.
    Þá undanþáguheimild ber þó að skýra þröngt. Miða verður við að ekki sé verið að auðvelda skuldara að halda húsnæði sem hann hefur ekki efni á að halda. Væri því hér um að ræða óvenju mikla erfiðleika sem sýnt er fram á að verði tímabundnir, svo sem vegna atvinnuleysis sem varað hefur í lengri tíma en ætla má að ekki sé varanlegt, eða tímabundinna veikinda sé ljóst að skuldari muni til frambúðar standa undir greiðslum. Sú takmörkun er gerð að ekki megi þó ákvarða greiðsluna lægri en sem samsvarar 60% af hæfilegri húsaleigu og einungis tímabundið. Með því er mögulegt að mæta sérstökum aðstæðum skuldara án þess þó að leiða megi að því líkur að skuldari haldi eign sem hann muni ekki til frambúðar standa undir. Það getur verið hagur jafnt skuldara sem lánardrottins að áfram sé greitt af áhvílandi veðlánum þótt það sé undir markaðsleigu frekar en að lánardrottnar þurfi að leysa til sín óþarflega margar eignir.
    Í d-lið er lögð til breyting á 3. mgr. 5. gr. laganna þess efnis að þrátt fyrir að almennt boði umsjónarmaður til fundar með veðhöfum innan fjögurra vikna frá skipun sinni verði þessi frestur einungis tvær vikur hafi áður verið árangurslaust leitað samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Er hér horft til þess að mál eru mjög langt komin og ítarlega unnin á þessu stigi málsins auk þess sem fresturinn er til samræmis við 19. og 20. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Um 6. gr.


    Í a-lið eru lagðar til breytingar til samræmis við breytt heiti úrræðisins.
    Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. gildandi laga verður ekki á krafist, á tímabili greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna, nauðungarsölu á fasteigninni nema til fullnustu lögveðskröfu sem gjaldfallið hefur eftir upphaf hennar eða kröfu á hendur öðrum en skuldaranum sem tryggð er með veði í fasteigninni. Í b-lið 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að undanþáguheimildin varðandi lögveðskröfur og kröfur á hendur öðrum en skuldara falli brott.

Um 7. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna sem meðal annars er ætlað að samræma ákvæði laga við greiðsluaðlögun einstaklinga hafi hennar verið leitað fyrst.
    Í b-lið greinarinnar er kveðið á um sérreglu hvað varðar frest þegar frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna hefur verið unnið á grundvelli 20. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í þeim tilvikum hafa veðhafar einungis viku til að tilkynna umsjónarmanni að krafist sé úrlausnar héraðsdóms. Meginreglan er að þessi frestur veðhafa sé tvær vikur en þar sem veðhafar hafa allir áður haft tækifæri til að taka þátt í samningaumleitunum og kynna sér frumvarp í ferli greiðsluaðlögunar einstaklinga er hann styttur um viku. Rétt þótti þó að halda heimildinni inni enda er um að ræða tilraun til að ná fram samþykki um frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Hafi samningskröfuhafi staðið í vegi fyrir því að samningur um greiðsluaðlögun náði fram að ganga má leiða að því líkur að á þessu stigi samþykki veðhafar frumvarp umsjónarmanns. Við styttingu tímans var einnig horft til þess að reyna að samræma ferlið eins og unnt er við nauðasamning til greiðsluaðlögunar enda gert ráð fyrir að umsjónarmaður sé sá sami og eðlilegt að úrlausn málanna verði á svipuðum tímapunkti.
    Tilkynni veðhafi innan frestsins að hann krefjist úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun umsjónarmanns að af greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna verði er kveðið á um það að um meðferð máls fari samkvæmt sömu reglum og gilda um meðferð ágreinings um frumvarp skiptastjóra til úthlutunar við gjaldþrotaskipti. Því er til staðar heimild skv. 130. og 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, til að dæma málskostnað þeim veðhafa eða veðhöfum sem krefjast úrlausnar héraðsdóms, t.d. ef hann eða þeir tapa máli í öllu verulegu eða hafi höfðað mál að þarflausu.
    Í c-lið er skuldara veitt heimild til að óska eftir að umsjónarmaður sé viðstaddur meðferð máls fyrir héraðsdómi. Mikilvægt getur verið fyrir hagsmuni skuldara að hafa umsjónarmann viðstaddan enda er það ákvörðun umsjónarmanns sem krafist er úrlausnar héraðsdóms um og mikill aðstöðumunur á skuldara og veðhöfum.

Um 8. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 12. gr. laganna. Í 1. mgr. 12. gr. gildandi laga er kveðið á um skuldari geti að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna lokinni leitað eftir því að þau veðréttindi sem eru umfram 110% af söluverði eignar verði afmáð sýni hann fram á að hann verði ófær um fyrirséða framtíð að greiða þær en geti staðið í skilum með þær veðskuldir sem áfram hvíla á fasteigninni. Er lagt til að þessu verði breytt þannig að miðað verði við 100% söluverð eignarinnar og það muni eiga við um alla þá sem fá eða hafa fengið samþykkta greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.
    Komi upp þær aðstæður að skuldari sé eftir greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna enn ófær um fyrirsjáanlega framtíð að greiða skuldbindingar sínar og veðréttindi umfram matsverð eignar getur hann sótt um greiðsluaðlögun einstaklinga uppfylli hann skilyrði laganna að öðru leyti. Það á við þótt hann hafi áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun einstaklinga. Í e-lið 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins um greiðsluaðlögun einstaklinga kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari áður fengið slíka umsókn samþykkta nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Í athugasemdum við greinina eru talin upp dæmi um sérstakar aðstæður og segir þar: „Ekki er skylt að synja umsókn hafi áður verið leitað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna eftir lögum nr. 50/2009. Þetta er í samræmi við heimild sem er í þeim lögum þess efnis að skuldari geti þegar líður að lokum tímabils greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna óskað eftir því að veðkröfur umfram 100% matsverð eignarinnar verði afmáðar, sýni hann fram á að hann verði um ófyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með þær en geti staðið í skilum með þær sem eftir standa. Til að leysa vanda skuldara við þessar aðstæður er eðlilegt að hann geti að nýju sótt um greiðsluaðlögun einstaklinga. Heimildin ætti að auki að vera lánardrottnum hvati til að semja við skuldarann.“

Um 9. gr.


    Í ljósi þess að lagt er til að úrræðið um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði verði ekki lengur tímabundið er lögð til breyting á heiti laganna því til samræmis.

Um 10. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi 1. ágúst 2010 til samræmis við gildistöku laga um umboðsmann skuldara, greiðsluaðlögun einstaklinga og úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Að því tímamarki verður þó augljóslega hægt að beita gildandi lögum.