Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 646. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1386  —  646. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna kaupa á bifreið til einkanota.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnar Frey Helgason og Rán Ingvarsdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti ásamt Yngva Erni Kristinssyni ráðgjafa og Eddu Andradóttur hdl., Björn Rúnar Guðmundsson og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Markús Möller og Sigríði Logadóttur frá Seðlabanka Íslands, Unu Steinsdóttur og Ingvar Stefánsson frá Íslandsbanka, Kjartan Georg Gunnarsson og Herbert Svavar Arnarson frá SP-fjármögnun, Halldór Jörgensson frá Lýsingu, Magnús Gunnarsson og Hafdísi Böðvarsdóttur frá Avant og Marinó G. Njálsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Frumvarpið er lagt fram að fenginni úttekt Seðlabanka Íslands þar sem fram kemur að fjórðungur íslenskra heimila í greiðsluvanda sé með tæplega helming heildarskulda vegna bifreiðakaupa. Forsendur gera ráð fyrir að frumvarpið kunni að varða allt að 36 þúsund bílalán og að meðaleftirstöðvar hvers láns séu u.þ.b. 2,2 millj. kr.
    Lagt er til að lántakar sem gerðu fyrir bankahrunið lán- eða kaupleigusamning með gengistryggðum höfuðstól til kaupa á bifreið til einkanota eða yfirtóku þess háttar greiðsluskuldbindingu fyrir hrunið, geti óskað eftir skilmálabreytingu við viðkomandi fjármálafyrirtæki sem felst í því að eftirstöðvar eru endurreiknaðar og lækkaðar sem nemur mismun á hækkun vísitölu neysluverðs og hækkun lánsins samkvæmt gengi gjaldmiðla frá lántökudegi og að viðbættu 15% álagi. Heildarlækkun höfuðstóls má ekki vera umfram 3 millj. kr. Vaxtakjör lánsins svo breytt verði miðuð við almenn kjör lánveitandans með þeim fyrirvara að lántaki hafi val um hvort lánið verði verðtryggt eða óverðtryggt.
    Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hafi lántaki glatað umráðum bifreiðar sinnar til lánveitanda vegna vanefnda eigi sá fyrrnefndi rétt á að gera upp eftirstöðvar með sérkjörum svo fremi sem eftirstöðvar lánsins eftir skilmálabreytingu nema hærri fjárhæð en innlausnarverði bifreiðarinnar. Í því tilviki hefur lántaki heimild til að greiða vaxtalaust á allt að þremur árum helming þess mismunar sem er á eftirstöðvunum og matsverði eða endursöluverði bifreiðarinnar auk þess sem íbúðarhúsnæði lántaka getur ekki verið andlag fjárnáms vegna eftirstöðvanna. Félags- og tryggingamálaráðherra úrskurðar ef upp rísa álitaefni er varða framkvæmd frumvarpsins.
    Áhyggjur komu fram á fundum nefndarinnar af því hvort ákvæði frumvarpsins stæðust stjórnarskrá, einkum 72. gr. um friðhelgi eignarréttar en jafnframt 65. gr. um jafnræði. Fram kom að staða þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa stundað umræddar lánveitingar er misjöfn sem og burðir þeirra til að mæta þeim skerðingum sem frumvarpið mælir fyrir um. Sumir lýstu sérstökum áhyggjum af 5. gr. og telja þörf á að íhuga réttarstöðu sína verði frumvarpið að lögum. Því var haldið fram að skerðingin gæti kostað fyrirtækin umtalsverðar fjárhæðir sem þó réðist af því hversu margir nýttu sér úrræðið.
    Meiri hlutinn hefur skilning á framangreindum sjónarmiðum og gerir sér grein fyrir að reglur félagaréttar gera ráð fyrir að stjórnendur fyrirtækja gæti fjárhagslegra hagsmuna þeirra innan marka laga. Slíkir hagsmunir fara hins vegar ekki alltaf saman við mat löggjafans á almannaþörf auk þess sem erfiðara er nú en áður að gera skýran greinarmun á hagsmunum ríkisins og fjármálafyrirtækja vegna viðamikilla inngripa ríkisins á fjármálamarkaði í kjölfar hrunsins. Aðstæður hafa valdið því að umrædd fyrirtæki eru komin mislangt á veg í fjárhagslegri endurskipulagningu.
    Í máli gesta sem nefndin hefur rætt við er samhljómur um að þrátt fyrir að sá hópur lánveitenda sem frumvarpið varðar sé þröngur sé skerðing þess almenn vegna þess fjölda eigna sem um ræðir og samstöðu hafa, þ.e. gengistryggð lán- og kaupleigusamningar. Úttekt Seðlabanka Íslands bendir enn fremur til þess að þörfin sé brýn og ráðstöfunin málefnaleg þrátt fyrir að hún gagnist ekki einvörðungu þeim sem standa allra verst.
    Innan nefndarinnar hafa komið fram skiptar skoðanir á því hversu langt verði gengið í lausn á skuldavanda heimila án þess að litið sé til fjárhags og félagslegrar stöðu hvers og eins. Inn í þá umræðu hefur fléttast tal um svigrúm einstakra lánastofnana til almennra afskrifta á fasteignaveðlánum í því skyni að vega upp á móti þeim verðmætatilfærslum sem orðið hafa fyrir tilstuðlan verðtryggingar eða gengistryggingar og ekki verða beinlínis raktar til vilja lántakenda.
    Grunnstefið í aðferðafræði stjórnvalda við lausn á skuldavanda heimila hefur verið að haga regluverkinu á þann veg að lánveitendur og lántakar eigi frumkvæði að þeirri vinnu. Með hliðsjón af meðalhófi er eðlilegt að afla ítarlegra upplýsinga um stöðu lántaka og hagi áður en samþykktar eru afturvirkar reglur um samningssambandið sem áhrif geta haft á afkomu lánveitanda og ríkissjóðs. Á sama tíma bendir sumt til þess að mikillar tregðu gæti gagnvart því að lántakar fái úrlausn sinna mála og fram hafa komið sjónarmið um að það ásamt öðru megi rekja til þess að í framkvæmd sé tímafrekt og dýrt að skoða hvert tilvik fyrir sig, ekki síst þegar mál koma til kasta dómstóla.
    Meiri hlutinn telur að skoða beri frumvarpið í framangreindu ljósi og að teknu tilliti til eðlis bílalána og hvernig staðið hefur verið að stofnun þeirra. Í athugasemdum eru enn fremur færð þau rök fyrir frumvarpinu að með meiri greiðslugetu lántaka komi líkur á heimtum lánveitenda til með að aukast. Meginhugmyndin sé að gera aðilana eins setta og ef þeir hefðu samið um íslensk verðtryggð lánskjör í upphafi. Eru dæmi þess að fyrirtækin sem frumvarpið tekur til hafi þegar boðið viðskiptavinum sambærileg kjör, sbr. þó 5. gr.
    Nefndin ræddi enn fremur það álitamál hvort þörf væri á að fresta samþykkt málsins þar til Hæstaréttur felldi dóm um heimildir fjármálafyrirtækja til að veita gengistryggð lán. Sjónarmið komu fram um að við mat á þessu þyrfti að hafa í huga ólíkt hlutverk dómstóla og löggjafans í samfélaginu.
    Þá bárust nefndinni við meðferð málsins athugasemdir við einstakar greinar sem meiri hlutinn telur að höfðu samráði við félags- og tryggingamálaráðuneyti þurfa að skýra betur og eftir atvikum með því að leggja til breytingar:
     1.      Meiri hlutinn telur að gildissvið frumvarpsins eigi aðeins við um þann hluta lána- og kaupleigusamninga sem eru með gengistryggðan höfuðstól.
     2.      Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á orðalagi 1. gr. að í stað þess að þar verði vísað til lána í erlendri mynt verði vísað til gengistryggðra lána. Breytingin er lögð til að fenginni umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna og að höfðu samráði við félags- og tryggingamálaráðuneyti.
     3.      Meiri hlutinn telur að skilmálabreyting skuli bæði eiga við um gjaldfallnar og ógjaldfallnar eftirstöðvar, þ.m.t. afborganir í vanskilum, en þó ekki gjaldfallna vexti, dráttarvexti og annan áfallinn kostnað vegna vanefnda. Leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins þess efnis.
     4.      Meiri hlutinn telur að í því tilviki þegar lán hefur verið greiðslujafnað eigi að miða framkvæmd skilmálabreytingar við uppaflegan lánstíma. Enn fremur eigi að miða við upphaflegan lánstíma óski lántaki lengingar lánsins um 24 mánuði.
     5.      Fram kom á fundum nefndarinnar að frumvarpið stæði því ekki í vegi að samkomulag takist milli lánveitanda og lántaka um meiri höfuðstólslækkun en sem nemur 3 millj. kr. hámarki frumvarpsins. Áherslur komu einnig fram um að í því efni skyldi gætt jafnræðis. Meiri hlutinn skilur orðalag 3. mgr. 2. gr. þannig að aðilum sé heimilt að semja um meiri lækkun en sem nemur umræddu hámarki en að þá lækkun leiði ekki af frumvarpinu með því skattalega hagræði sem því fylgir.
     6.      Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur upplýst að reglur Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, nr. 492/2001, heimili að lán verði frá þeim gjalddaga er skilmálabreyting á sér stað verðtryggt með vísitölu neysluverðs þótt eftirstandandi lánstími sé skemmri en fimm ár, sbr. ákvæði til bráðabirgða II. Heimildin er veitt í ljósi þess að mörg gengistryggð bílalán voru upphaflega til lengri tíma en fimm ára og er tilgangur frumvarpsins að gera lántakendur jafnsetta þeim sem tóku sambærilegt íslenskt lán.
     7.      Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á a-lið 5. gr. að skýrar komi fram að miða skuli útreikning við það verð sem lánveitandi hefur sannanlega fengið við endursölu en ef bifreið selst ekki innan sex mánaða frá skilmálabreytingu skuli miðað við matsverðið. Einnig er lagt til að þegar lántaki óskar eftir óháðu mati löggilts bifreiðasala verði lánveitanda heimilt að afla mats dómkvadds matsmanns felli hann sig ekki við fyrra matið. Loks leggur meiri hlutinn til að við matið skuli taka tillit til hæfilegs kostnaðar sem lánveitandi hefur haft af sölu auk þess sem frá matsverði skuli dregin tiltekin áfallin gjöld.
    Álitinu fylgir minnisblað frá félags- og tryggingamálaráðuneyti til skýringar á skilmálabreytingu skv. 2. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „er í erlendri mynt og þar sem endurgreiðslur taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla“ í 1. málsl. komi: miðast við gengi erlendra gjaldmiðla
     2.      Við 2. gr. 2. mgr. orðist svo:
                  Skilmálabreyting skal fara þannig fram að núverandi eftirstöðvar höfuðstóls láns- eða kaupleigusamnings eru endurreiknaðar og lækkaðar sem nemur mismun hækkunar samkvæmt vísitölu neysluverðs og hækkunar lánsins samkvæmt gengi gjaldmiðla frá lántökudegi til þess gjalddaga þegar skilmálabreytingin tekur gildi. Skilmálabreyting skal taka til gjaldfallinna og ógjaldfallinna eftirstöðva höfuðstóls, þ.m.t. til afborgana sem eru í vanskilum, en þó ekki til gjaldfallinna vaxta, dráttarvaxta eða annars áfallins kostnaðar vegna vanefnda. Við þannig endurreiknaðar eftirstöðvar skal bæta 15% álagi. Lántaki hefur val um hvort láns- eða kaupleigusamningur er verðtryggður eða óverðtryggður frá þeim gjalddaga þegar skilmálabreytingin á sér stað. Kjör lánsins skulu miðast við vaxtakjör nýrra láns- eða kaupleigusamninga viðkomandi fjármálafyrirtækis. Lántaka skal jafnframt heimilt að óska lengingar lánsins í allt að 24 mánuði, til að lækka greiðslubyrði lánsins.
     3.      Við 5. gr. A-liður orðist svo: Fjárhæð eftirstöðva skuldbindingar lántaka skal aldrei ákvarðast hærri en sem nemur mismun á eftirstöðvum skuldbindingar, að teknu tilliti til skilmálabreytingar skv. 2. gr., og því verði sem lánveitandi hefur sannanlega fengið við endursölu bifreiðarinnar. Seljist bifreið hins vegar ekki innan sex mánaða frá skilmálabreytingu skv. 2. gr. skal miðað við matsverð bifreiðar. Lántaka er heimilt, á eigin kostnað, að óska eftir óháðu mati löggilts bifreiðasala á matsverði bifreiðar og skal við það mat tekið tillit til hæfilegs kostnaðar við sölu bifreiðarinnar. Fallist lánveitandi ekki á það mat getur hann aflað mats dómkvadds matsmanns. Frá matsverði skal draga áfallin gjöld, svo sem bifreiðagjöld, vátryggingar og stöðumælasektir, sem og áfallinn kostnað vegna vanefnda.

    Meiri hlutinn gerir fyrirvara við álitið.

Alþingi, 15. júní 2010.Lilja Mósesdóttir,


varaform., frsm.,


með fyrirvara


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Magnús Orri Schram,


með fyrirvara.Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Anna Margrét Guðjónsdóttir,


með fyrirvara.
Fylgiskjal.


Félags- og tryggingamálaráðuneytið:


Skilmálabreyting samkvæmt svokölluðu bílalánafrumvarpi.


(Minnisblað, 13. júní 2010.)    Í samræmi við óskir efnahags- og skattanefndar Alþingis, dags. 12. júní 2010, hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið tekið saman skýringar á framkvæmd skilmálabreytingar sem kveðið er á um í 2. gr. 646. þingmáls.
    Segir í greininni: ,,Skilmálabreyting fer þannig fram að núverandi eftirstöðvar láns- eða kaupleigusamnings eru endurreiknaðar og lækkaðar sem nemur mismun hækkunar vísitölu neysluverðs og hækkunar lánsins samkvæmt gengi gjaldmiðla frá lántökudegi til þess gjalddaga sem skilmálabreytingin tekur gildi. Við þannig endurreiknaðar eftirstöðvar skal bæta 15% álagi. Lántaki hefur val um hvort lánið er frá þeim gjalddaga sem skilmálabreytingin á sér stað verðtryggt eða óverðtryggt. Kjör lánsins skulu miðast við vaxtakjör nýrra lána eða kaupleigusamninga viðkomandi fyrirtækis.“
    Þær dagsetningar sem miðað er við við skilmálabreytinguna eru annars vegar lántökudagur og hins vegar sá gjalddagi sem skilmálabreytingin tekur til. Í tilviki vísitölu neysluverðs skal annars vegar miða við stöðu vísitölunnar í þeim mánuði sem viðkomandi lán var veitt og hins vegar við næstnýlegasta gildi vísitölunnar við gjalddagann sem skilmálabreytingin tekur gildi. 1 Í tilviki gengi gjaldmiðla skal miða við miðgildi viðmiðunardagsgildis Seðlabankans á lántökudegi annars vegar og síðasta virka dag þess mánaðar sem vísitölugildið er miðað við.
    Dæmi: Óski lántaki sem tekið hefur lán 7. apríl 2007 eftir skilmálabreytingu sem taka skal gildi á gjalddaga í ágúst 2010, skal miðað við gildi vísitölu neysluverðs í apríl 2007 og í júní 2010, en gildi gengis 7. apríl 2007 og 30. júní 2010.
    Hér að neðan fylgir dæmi um útreikning á skilmálabreytingu byggt á ofangreindu. Vinsamlegast athugið að miðað er við að breytingin eigi sér stað á gjalddaga 1. apríl sl. þar sem ekki vannst tími til að uppfæra dæmi ráðuneytisins á svo skömmum tíma.

Dæmi.
    Lán tekið 30. nóvember 2007 til 72ja mánaða. Myntsamsetning: 50% JPY, 50% CHF, vextir 4,8%. Upphæð við lánveitingu 2.609.814 ISK, sem skiptist þannig:

Höfuðstóll Mynt (M1) Miðgildi gengis (G1) Í ISK
JPY 2.369.542 0,55 1.303.248
CHF 24.009 54,42 1.306.565
Samtals 2.609.814

    Skilmálabreytingar óskað fyrir gjalddaga í apríl 2010.
    Eftirstöðvar í mars 2010, miðað við miðgildi dagsgengis CHF og JPY 26. febrúar 2010 (síðasta virka dag þess mánaðar sem vísitölugildið miðast við):

Höfuðstóll Mynt (M2) Miðgildi gengis (G2) Í ISK
JPY 1.861.423 1,44 2.676.726
CHF 18.971 119,36 2.264.379
Samtals 4.941.105

    Hefur höfuðstóll lánsins hækkað um tæp 90%, þrátt fyrir að lántaki hafi þegar greitt 1,3 m.kr. af láninu (afborganir af höfuðstól, ásamt vöxtum)
    Gildi vísitölu neysluverðs í nóvember 2007 og í febrúar 2010: 279,9 og 360,9 (V1-2).
    Nýjar eftirstöðvar eru reiknaðar út á eftirfarandi hátt:
     1.      Núverandi eftirstöðvum í erlendri mynt (M2) breytt yfir í ISK miðað við miðgildi gengis á lántökudag (G1).
     2.      Vísitöluþróun frá nóvember 2007 til febrúar 2010 bætt við (V1-2)
     3.      15% álagi bætt við (Á).

Höfuðstóll Mynt (M2) Miðgildi gengis (G1)
Í ISK
m/ vísitölu (V1-2) m/15% álagi (Á)
JPY 1.861.423 0,55 1.023.783 1.320.054 1.518.062
CHF 18.971 54,42 1.032.402 1.331.167 1.530.843
Samtals 3.048.905

    Höfuðstóllinn hefur því lækkað úr 4.941.105 kr. í 3.048.905 kr., eða sem nemur 38,3%.
    Þróun greiðslubyrði er eftirfarandi (gróf áætlun):

Gjalddagi Heildargreiðsla í ISK
01.01.08 (1. gjalddagi) 42.000
01.03.10 (síðasti gjalddagi fyrir breytingu – full greiðsla) 95.000
01.04.10 (fyrsti gjalddagi eftir breytingu – m.v. 7,95% vexti) 58.000
01.04.10 (fyrsti gjalddagi eftir breytingu, með 24 mánaða lengingu) 45.000

    Tekið skal fram að áhrif skilmálabreytingar á eftirstöðvar láns er afar misjöfn. Ræður þar gengissamsetning og lántökudagur mestu um. Er dæmið hér að ofan eitt það tilvika sem myndi gefa hvað mesta lækkun höfuðstóls – er algeng lækkun eftirstöðva 25–40%.Neðanmálsgrein: 1
1     Hagstofa Íslands miðar við að vísitalan sé birt eigi síðar en næst síðasta virka dag mánaðar – vísitala fyrir júní 2010 birtist því að jafnaði næstsíðasta virka dag þess mánaðar. Gera þarf ráð fyrir eðlilegum vinnslutíma lánveitenda og því eðlilegt að gefa þeim rúman tíma til endurreiknunar.