Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 646. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1387  —  646. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna kaupa á bifreið til einkanota.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Markmið frumvarpsins er að lækka greiðslubyrði skuldugra heimila vegna gengistryggðra bílalána sem veitt hafa verið gegn veði.
    Að teknu tilliti til 72. gr. stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar og 65. gr. stjórnarskrár um jafnræði hefur frá upphafi legið fyrir að leita hefði þurft lögfræðiálits um mögulega skaðabótaskyldu ríkisins. Minni hlutinn hefur óskað eftir slíku áliti síðan málið kom inn í nefndina. Nægur tími hefur verið til að vinna það, m.a. áður en frumvarpið var lagt fyrir Alþingi. Áður en nefndin afgreiddi málið hefði verið nauðsynlegt að fá slíkt álit til að tryggja vandaða lagasetningu sem samræmist stjórnarskrá.
    Einnig er eðlilegt að Alþingi bíði niðurstöðu Hæstaréttar sem mun á næstu dögum kveða upp dóma í nokkrum málum sem snúa að gengistryggðum samningum.
    Af þessum ástæðum studdi minni hlutinn ekki að nefndin afgreiddi málið að svo búnu.

Alþingi, 15. júní 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.