Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 662. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1417  —  662. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Sambærilegt frumvarp var rætt í nefndinni á 136. löggjafarþingi. Þá mættu á fundi nefndarinnar Ólafur Friðriksson, Sigurgeir Þorgeirsson og Jóhann Guðmundsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Páll Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Ólafur Magnússon og Hróbjartur Jónatansson frá Mjólku, Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Elín Björg Jónsdóttir frá BSRB, Þórólfur Sveinsson frá Samtökum kúabænda og Pálmi Vilhjálmsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði.
    Samkvæmt 1. gr. búvörulaga er tilgangur þeirra meðal annars að stuðla að jöfnuði á milli mjólkurframleiðenda hvað varðar afurðaverð og markað. Þannig er afurðastöðvum skylt að haga greiðslu fyrir innlagðar búvörur til samræmis við ákvæði laganna eða samninga sem gerðir eru á grundvelli þeirra. Taki mjólkursamlag við mjólk af framleiðanda umfram greiðslumark hans og hún verður utan heildargreiðslumarks við lokauppgjör skal samsvarandi magn mjólkurafurða markaðsfært erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Þó getur framkvæmdanefnd búvörusamninga heimilað sölu þeirra innan lands ef gengið hefur á birgðir og skortur á mjólkurvörum er því fyrirsjáanlegur. Í VII. kafla búvörulaga eru svo ákvæði er varða stjórn búvöruframleiðslunnar og eru þau sett fram í anda framangreinds tilgangs laganna. Ákvörðun um heildargreiðslumark mjólkur er byggð á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarið tólf mánaða tímabil og áætlun Bændasamtaka Íslands fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Verði sala mjólkurafurða undir heildargreiðslumarki ársins þannig að birgðir aukist kemur mismunur til lækkunar á heildargreiðslumarki næsta árs. Á sama hátt hækkar heildargreiðslumark ef sala eykst. Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal skv. 52. gr. laganna fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Af öllu framangreindu liggur fyrir að sala mjólkurafurða á íslenskum markaði umfram greiðslumark er bönnuð og umframframleiðsla verður aðeins seld erlendis.
    Markmið frumvarpsins er að fylgja eftir skýrum ákvæðum laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og varðveita núverandi framleiðslustýringarkerfi á meðan annað og betra kerfi hefur ekki litið dagsins ljós. Þetta markmið er útfært á þann hátt að í frumvarpinu er kveðið á um heimild ráðherra til þess að sekta rekstraraðila afurðastöðva fyrir að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark en markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði í trássi við ákvæði gildandi laga. Þó er gert ráð fyrir að komið sé verulega til móts við framleiðendur sem sjálfir geta unnið mjólk á eigin býli með undanþágu til markaðsfærslu innan lands fyrir allt að 10 þúsund lítra. Telja verður að þetta ákvæði feli m.a. í sér verulegan stuðning við verkefnið „Beint frá býli“, en það hefur þegar skilað miklum árangri í að efla fjölbreytta heimavinnslu mjólkurafurða. Þessi undanþága er einnig til þess fallin að auka samkeppni í mjólkuriðnaði.
    Á fundum nefndarinnar á 136. löggjafarþingi kom meðal annars fram að með því frumvarpi er þá lá fyrir væru tekin af öll tvímæli um réttarstöðu þeirra sem framleiddu mjólk bæði innan og utan greiðslumarks. Þannig þyrfti að liggja ljóst fyrir hvort greiðslumarkskerfi búvörulaga væri virkt eða ekki. Brýnt væri að ekki yrði hróflað við núgildandi greiðslumarkskerfi sem hefur reynst vel. Á móti var það sjónarmið nefnt að greiðslumarkskerfi búvörulaga hamlaði samkeppni í mjólkuriðnaði. Það frumvarp er fyrir lægi mundi loka enn frekar fyrir mögulega aðkomu frumkvöðla að mjólkuriðnaði og þannig tryggja að frekara leyti einokunarstöðu stærstu afurðastöðvarinnar. Skilningur nefndarinnar er að með fyrirliggjandi frumvarpi sé verið að tryggja heildarhagsmuni mjólkuriðnaðar og framleiðenda enda hafi aðrar afurðastöðvar aðgang að hrámjólk til vinnslu á eðlilegum kjörum. Sú á að vera raunin meðal annars með opinberri verðlagningu og eftirliti. Ljóst sé að sala mjólkurvara á innanlandsmarkaði hafi farið minnkandi frá haustinu 2008. Leiði gildandi greiðslumarkskerfi búvörulaga til þess að markaðshlutdeild þeirra framleiðenda sem framleitt hafa innan greiðslumarks minnkar á meðan þeir framleiðendur er kunna að framleiða mjólk utan greiðslumarks verða ekki fyrir sambærilegri skerðingu. Nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að varðveita grundvöll greiðslumarkskerfisins, tryggja jafnræði ásamt því að gefa framleiðendum eðlilegan og sjálfsagðan möguleika á heimavinnslu afurða og tryggja að á grundvelli búvörulaga verði mögulegt að ná þeim markmiðum er þau stefna að með heildarhagsmuni í huga en ekki sérhagsmuni þeirra sem vilja ganga gegn gildandi lögum, án tillits til samfélagslegra hagsmuna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „10.000 lítrum“ í 2. málsl. 2. efnismgr. 2. gr. komi: 15.000 lítrum.

    Ólína Þorvarðardóttir og Jón Gunnarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.     

Alþingi, 23. júní 2010.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Ásmundur Einar Daðason.


Ögmundur Jónasson.



Einar K. Guðfinnsson.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Ólína Þorvarðardóttir,


með fyrirvara.



Sigurður Ingi Jóhannsson.