Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 672. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1418  —  672. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Markús Sigurbjörnsson, formann réttarfarsnefndar. Með frumvarpinu er lagt til úrræði fyrir einstaklinga sem greiða fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum til heimilisnota. Um er að ræða söluúrræði til að gera einstaklingum sem keypt höfðu fasteign til heimilisnota, en ekki selt fyrri eign þegar efnahagshrunið varð, kleift að losa sig við aðra eignina með því að ráðstafa henni til veðhafa á ætluðu markaðsvirði fasteignarinnar og telst slík ráðstöfun fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara til þeirra veðhafa sem eigninni er ráðstafað til samkvæmt frumvarpinu. Frumvarpið byggist á frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra sem fól í sér að kveðið væri á um að úrræðið væri í nýjum kafla í lögum um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna en við meðferð þess frumvarps taldi nefndin eðlilegt að úrræðið væri í sérlögum þar sem það er tímabundið, mjög sértækt og annars eðlis en greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Við samningu frumvarpsins var lagt upp með að fela réttarfarsnefnd að skoða sérstaklega hvernig frumvarpið samrýmdist eignarréttarákvæðum stjórnarskrár, hvernig það kæmi til með að virka í tengslum við önnur úrræði og samræmanleika þess við ákvæði réttarfarslaga. Fór sú vinna réttarfarsnefndar fram eftir framlagningu frumvarpsins og eru breytingartillögur nefndarinnar því unnar á grundvelli athugasemda réttarfarsnefndar.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um atriði er lúta að tilfærslu veðréttinda milli eigna þegar önnur eignin er yfirveðsett en hin ekki. Samkvæmt frumvarpinu getur skuldari valið hvort hann skilar eign til veðhafa og þá, í samráði við umsjónarmann, hvorri eigninni hann skilar. Gert er að skilyrði að heildarveðsetning eignanna sé að lágmarki 75% af samanlögðu verðmati og er því ljóst að svo getur farið að sú fasteign sem skuldari vill losa sig við sé ekki veðsett að fullu. Einnig getur eignin sem skuldari ákveður að skila verið síðri veðkostur, t.d. vegna staðsetningar eða ástands, en sú sem hann ákveður að halda. Í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef samanlögð fjárhæð veðkrafna á þeirri eign sem ráðstafa skal til veðhafa er lægri en 100% af verðmati hennar skuli umsjónarmaður leita samninga við kröfuhafa beggja fasteigna og skuldara um sanngjarna lausn á því hvernig farið skuli með eignarhlut skuldarans í þeirri fasteign sem ráðstafa skal til veðhafa, með það að markmiði að skuldari geti nýtt sér verðmæti eignarhlutarins við eignaráðstöfunina. Þó er við það miðað í öðrum ákvæðum frumvarpsins að veðréttindi séu að jafnaði flutt milli fasteigna þannig að velji skuldari að skila fasteign sem er undirveðsett skuli færa veðkröfur af þeirri eign sem hann heldur eftir þar til veðrými á þeirri eign sem hann skilar er fullnýtt. Ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvað gera skuli náist ekki samningur milli aðila um sanngjarna lausn. Nefndin fjallaði sérstaklega um þetta fyrirkomulag í tengslum við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og telur að með ákvæðinu sé gengið nærri stjórnarskrárvörðum eignarréttindum veðhafa. Nefndin telur því nauðsynlegt að leggja til breytingar á frumvarpinu til þess að skýrt sé kveðið á um hvernig fara eigi með veðréttindi, m.a. til að veðréttur kröfuhafa og þar með eignarréttur þeirra sé tryggður.
    Nefndin leggur því til nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi leggur nefndin til að ákvæði 4. gr. breytist á þann hátt að veðhafar geti valið að færa veðkröfur sínar yfir á þá eign sem skilað er til að fylla upp í veðrými þeirrar eignar. Með því er ekki lögð sú skylda og kvöð á þá að færa til veðböndin en telji þeir rétti sínum betur borgið á þeirri eign sem er skilað hafa þeir þennan valkost. Sé eignin sem skilað er yfirveðsett gefur umsjónarmaður veðhöfum kost á að færa veðbönd sín af þeirri eign og yfir á þá sem skuldari heldur eftir.
    Í öðru lagi leggur nefndin til að sé veðrými þeirrar eignar sem skilað er ekki fullnýtt og kjósi veðhafar ekki að flytja veðbönd sín yfir á þá eign skuli umsjónarmaður finna mismun uppreiknaðra eftirstöðva veðskulda á þeirri fasteign og 100% af verðmati hennar og gefa út tryggingarbréf til skuldara að fjárhæð þess mismunar. Tryggingarbréfið stendur aftast í veðröð, er með uppfærslurétti og ber sömu vexti og verðtryggingu og almenn fasteignalán Íbúðalánasjóðs. Í tryggingarbréfinu skal kveðið á um að sá veðhafi sem fær fasteigninni ráðstafað til sín skuli við sölu hennar ávallt leitast við að ráðstafa henni á markaðsverði og leita hæstu tilboða. Við söluna skal veðhafinn ráðstafa til skuldara þeim hluta af söluverði sem er umfram það sem þarf til að greiða rétthærri veðskuldir og endurgreiða veðhafanum veðskuldir sem hann kann að hafa leyst til sín, allt þar til uppreiknaðar eftirstöðvar tryggingarbréfsins hafa þannig verið greiddar. Myndist við sölu hagnaður umfram áhvílandi veðskuldir, þ.m.t. tryggingarbréf skuldara, fær skuldari ekki hlutdeild í þeim hagnaði enda er hann ekki eigandi fasteignarinnar. Eftir sölu fasteignarinnar og ráðstöfun söluverðs skal tryggingarbréfið máð af henni þótt söluverðið hafi ekki hrokkið til að greiða eignarhluta skuldara að nokkru leyti eða öllu.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 6. gr. til einföldunar á því ferli sem fer fram þegar veðhöfum er gefinn kostur á að leysa til sín fasteignina sem er skilað.
    Í fjórða lagi leggur nefndin til breytingar á því tímabili sem kveðið er á um að síðari eign skuli hafa verið keypt á. Í frumvarpinu er kveðið á um að eignin skuli hafa verið keypt á tímabilinu 1. janúar 2007 til 1. nóvember 2010 og var við það miðað að skuldari hefði þá haft nokkurt svigrúm til að losa sig við eign sína áður en ástand versnaði til muna á fasteignamarkaði. Nefndin kynnti sér þróun á fasteignamarkaði utan höfuðborgarsvæðisins og telur ljóst að þar hafi ástandið versnað mun fyrr. Leggur nefndin því til að hið fyrra tímamark verði 1. janúar 2006 til að úrræðið nýtist sem skyldi. Þá verði jafnframt kveðið á um að við sérstakar aðstæður sé heimilt að víkja frá því tímamarki. Áréttar nefndin að þessa undanþáguheimild skuli skýra mjög þröngt en hún gæti komið til álita vegna staðbundinna aðstæðna á fasteignamarkaði og t.d. þegar eign hefur verið til sölu um langan tíma en ekki selst.
    Í fimmta lagi leggur nefndin til þá breytingu að sé umsókn skuldara um eignaráðstöfun samþykkt skuli umboðsmaður skuldara endurgreiða kostnað vegna verðmats fasteignasala á eignunum.
    Þá leggur nefndin til breytingar sem miða að einföldun ákvæða og lagfæringar á texta sem og orðalagi til samræmis við athugasemdir réttarfarsnefndar.
    Að lokum telur nefndin rétt að benda á að nokkuð skammur tími vannst til yfirferðar á tillögum réttarfarsnefndar að breytingum á frumvarpinu. Samkvæmt mati félags- og tryggingamálaráðuneytis eru um 1.000–1.500 heimili í vanda vegna þess að greiða þarf fasteignaveðkröfur af tveimur eignum en ekki hefur tekist að selja aðra eignina. Áréttar nefndin því mikilvægi þess að lögin verði samþykkt sem fyrst og úrræðið nýtist strax við gildistöku laganna þegar umboðsmaður skuldara hefur starfsemi sína. Nefndin mun eftir sem áður halda áfram skoðun á einstökum atriðum og fylgjast náið með framkvæmd laganna þegar að gildistöku þeirra kemur. Hyggst nefndin leggja til breytingar telji hún þess þörf til að tryggja skilvirkni úrræðisins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 23. júní 2010.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Guðbjartur Hannesson.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásmundur Einar Daðason.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Ögmundur Jónasson.