Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 562. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1420  —  562. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um umboðsmann skuldara.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Markús Sigurbjörnsson, formann réttarfarsnefndar. Þau atriði sem hlutu hvað mesta umfjöllun í nefndinni að þessu sinni voru m.a. upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara, fjármögnun umboðsmanns skuldara á yfirstandandi ári og ráðning starfsfólks og skipun umboðsmanns skuldara.
    Nefndinni voru kynnt þau sjónarmið varðandi c-lið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að umboðsmaður skuldara færi í reynd ekki með framkvæmd greiðsluaðlögunar heldur veitti hann atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun og leggur nefndin til breytingu því til samræmis. Í f-lið 2. mgr. 1. gr. er svo kveðið á um að umsjónarmaður skuldara veiti skuldurum aðstoð þegar við á og í því felst m.a. aðstoð sem umboðsmanni er skylt að veita við greiðsluaðlögun.
    Rætt var sérstaklega um störf umsjónarmanna og kostnað við störf þeirra en skv. 2. gr. frumvarpsins er umboðsmanni skuldara heimilt að gera þjónustusamning við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina. Slíkir samningar verða allajafna gerðir við lögmenn sem skipaðir eru umsjónarmenn með greiðsluaðlögun í samræmi við 9. gr. frumvarps til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (670. mál). Nefndin telur rétt að settar verði skýrar reglur um greiðslur vegna slíkra samninga og leggur því til að bætt verði við ákvæðið reglugerðarheimild þess efnis.
    Á þingskjali 1367 lagði nefndin til breytingar sem miðuðu að því að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga umboðsmanns skuldara, sem og starfsfólks hans og þeirra utanaðkomandi aðila sem hann gerir þjónustusamning við, fullnægi skilyrðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Lagði nefndin m.a. til að bætt yrði við ákvæði um að upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara væri háð því skilyrði að hún væri nauðsynleg og í samræmi við samþykki skuldarans fyrir vinnslunni og að fylgt væri ákvæðum 21. gr. laganna sem kveður á um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila, í þessu tilfelli umboðsmanns skuldara, þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða, þ.e. skuldara. Nefndin telur vert að árétta mikilvægi þess að við upplýsingaöflun sé gætt ákvæða laganna og að umboðsmaður skuldara sem ábyrgðaraðili láti skuldara vita þegar upplýsinga er aflað og veiti honum lögbundna fræðslu þar um.
    Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um kostnað við rekstur embættis umboðsmanns skuldara. Nefndin leggur til smávægilega breytingu á 3. mgr. ákvæðisins til að gera textann skýrari.
    Nefndin ræddi að nýju nokkuð um starfsmannamál Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og umboðsmanns skuldara. Ráðgjafarstofan hefur nokkra sérstöðu þar sem hún starfar ekki á lögformlegum grunni heldur á grundvelli samnings sem ekki er runninn út. Af þessum sökum verður stofan ekki lögð niður með lögum en mikilvægt er að gæta þess að þeir opinberu starfsmenn sem hjá henni starfa hljóti ekki samtímis laun á uppsagnarfresti og laun sem starfsmenn umboðsmanns skuldara. Telur nefndin brýnt að gætt verði að þessu atriði við ráðningar starfsmanna til hinnar nýju stofnunar. Þá áréttar nefndin að um skipan umboðsmanns skuldara gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og verður staða umboðsmanns skuldara því auglýst sérstaklega áður en ráðherra skipar hann í samræmi við frumvarpið.
    Í ákvæði til bráðabirgða III er lagt til að miða skuli útreikning á kostnaði og greiðslu við rekstur umboðsmanns skuldara fyrir árið 2010 við áætlun sem umboðsmaður skuldara gerir eins fljótt og auðið er eftir að lögin eru samþykkt. Þar sem auglýsa þarf stöðu umboðsmanns skuldara og því ljóst að hann tekur ekki strax til starfa telur nefndin rétt að starfshópur sá sem undirbýr gildistöku laganna og er umboðsmanni skuldara til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið geri drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2010.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:     1.      Við 1. gr. C-liður 2. mgr. orðist svo: veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun.
     2.      Við 2. gr. bætist ný málsgrein er verði 4. mgr., svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um þjónustusamninga við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina þar sem m.a. verði kveðið á um verkefni og fjárhæðir greiðslna.
     3.      2. mgr. 3. gr. orðist svo:
                  Upplýsingasöfnun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg og í samræmi við samþykki skuldara fyrir vinnslunni og fylgt sé ákvæðum 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila, í þessu tilfelli umboðsmanns skuldara, þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða, þ.e. skuldara.
     4.      3. mgr. 5. gr. orðist svo:
                  Ef gjald er greitt eftir eindaga reiknast dráttarvextir af því frá gjalddaga.
     5.      1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III orðist svo:
                  Útreikningi á kostnaði og greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara fyrir þann hluta ársins 2010 sem eftir er þegar lög þessi öðlast gildi skal háttað með sama hætti og kveðið er á um í 5. gr., þó þannig að miða skal við drög að áætlun sem starfshópur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II gerir eins fljótt og auðið er eftir að lögin hafa verið samþykkt. Fer álagning gjaldsins fram svo fljótt sem unnt er eftir það.

Alþingi, 23. júní 2010.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Pétur H. Blöndal.Guðbjartur Hannesson.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásmundur Einar Daðason.Unnur Brá Konráðsdóttir.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Ögmundur Jónasson.