Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1427  —  670. mál.
Breytingartillagavið brtt. á þskj. 1422 [Greiðsluaðlögun einstaklinga].

Frá Pétri H. Blöndal.    4. tölul. orðist svo: 4. gr. orðist svo:
    Skuldari skal leggja fram umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Í umsókninni skal koma fram:
     1.      Fullt nafn skuldara, kennitala hans og dvalarstaður ef hann er annar en lögheimili.
     2.      Sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara umfram 2 millj. kr. sem ekki eru skráðar í opinberum skrám og ekki eru nauðsynlegar fyrir rekstur heimilis, svo sem málverka-, frímerkja- og bókasöfn, skartgripir og hestar.
     3.      Sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda, gjaldfallinna sem ógjaldfallinna, og ábyrgða sem ekki eru skráðar í opinberum skrám og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra.
     4.      Hverjar tekjur skuldara eru svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
     5.      Mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda sinna, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum.
     6.      Lýsing skuldara á því hvað valdið hafi skuldastöðu hans og hvers vegna hann geti ekki eða sjái ekki fram á að geta staðið að fullu við skuldbindingar sínar.
     7.      Hverjir kunna að vera ábyrgðarmenn skuldara, samskuldarar eða hafa veitt veð fyrir skuldum hans og hvort hann beri sjálfur ábyrgð á skuldbindingum annarra.
     8.      Yfirlýsing um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga, án þess að þagnarskylda þeirra sem búa yfir slíkum upplýsingum hindri það, sé talin þörf á því.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skal einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum.
    Umsókninni skulu fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma.
    Umboðsmaður skuldara skal aðstoða skuldara við að semja umsókn um greiðsluaðlögun honum að kostnaðarlausu.
    Umboðsmaður skuldara skal að fengnu samþykki skuldara og eftir atvikum maka skuldara og annars heimilisfólks, sbr. 2. mgr., afla nauðsynlegra gagna frá opinberum stofnunum sem og þekktum lánardrottnum. Skylt er þeim aðilum að senda umboðsmanni skuldara umbeðin gögn.