Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 597. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1447  —  597. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og borist umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að aukið verði á gagnsæi fjárframlaga til stjórnmálasamtaka og jafnræði þeirra á milli. Þá er lagt til að reglur laganna um framlög frambjóðanda frá einstaklingum og lögaðilum og um upplýsingaskyldu þeirra taki einnig til frambjóðenda í forsetakosningum ásamt því að kveðið verði á um leyfilegan hámarkskostnað frambjóðenda í forsetakjöri til kosningabaráttu.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það sé unnið út frá þeirri reynslu er fengist hefur af framkvæmd laganna ásamt því að byggjast á tilmælum sem GRECO, samtök ríkja gegn spillingu er starfa innan vébanda Evrópuráðsins, beindu til íslenskra stjórnvalda í skýrslu matsnefndar GRECO frá 4. apríl 2008 um gagnsæi fjárframlaga til stjórnmálasamtaka.
    Nefndin telur að með þessu frumvarpi sé stigið skref í rétta átt hvað það varðar að skýra og skilgreina þau mörk sem eðlileg megi telja þegar kemur að fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Fjármálareglur stjórnmálaflokka og frambjóðenda eru ekki endanlega afgreiddar með þessu frumvarpi og telur nefndin rétt að ítreka það álit að hér er stigið eitt skref af mörgum nauðsynlegum í þá átt að endurreisa traust kjósenda á stjórnvöldum.
    Í 5. gr. laganna er kveðið á um skyldu sveitarfélaga með fleiri en 500 íbúa til að veita fjárframlög til stjórnmálasamtaka. Með frumvarpinu er lagt til að skýrt sé kveðið á um skyldu til að veita þessi framlög árlega. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram tillaga að nýrri málsgrein þar sem kveðið verði skýrt á um að á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram fái stjórnmálasamtök framlög fyrir síðari hluta þess árs í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum. Nefndin leggur því til að nýr málsliður bætist við b-lið 4. gr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin fjallaði nokkuð um hvernig réttast væri að ákvarða leyfilegan hámarkskostnað frambjóðenda í forsetakosningum, þ.e. með hámarksfjárhæð eins og lagt er til í frumvarpinu eða með einhvers konar viðmiði við íbúafjölda þar sem örðugt gæti verið í framkvæmd að breyta fjárhæð rétt fyrir forsetakosningar. Nefndin telur eðlilegra að tengja fjárhæðina við íbúafjölda eins og gert er með frambjóðendur í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna og leggur því til breytingu á f-lið 6. gr. frumvarpsins þannig að hámarkskostnaður frambjóðanda í forsetakjöri megi ekki nema meira en tvöfaldri þeirri fjárhæð sem tiltekin er í 4. mgr. 7. gr. laganna miðað við hvern íbúa á kjörskrá fyrir landið allt. Í greininni er kveðið á um álag á heildarkostnað frambjóðenda eftir því hve kjörsvæðin eru stór. Á kjörsvæði með fleiri en 50.000 íbúa 18 ára og eldri eru það 75 kr. fyrir hvern íbúa. Nefndin leggur til að hámarkskostnaður frambjóðanda í forsetakjöri verði miðaður við tvöfalda þá fjárhæð eða 150 kr. á hvern íbúa á kjörskrá og sé þá miðað við landið allt sem eitt kjörsvæði. Á kjörskrá 1. júlí sl. voru um það bil 237 þús. manns á kjörskrá og væri fjárhæðin þá um 35,5 millj. kr. eða svipuð og lagt er til í frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Við b-lið 4. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru skal úthlutun framlaga fara fram á þann hátt að stjórnmálasamtök fái framlög fyrir síðari hluta þess árs í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum.
     2.      Við 6. gr. Efnismálsgrein f-liðar orðist svo:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                      Heildarkostnaður frambjóðanda í forsetakosningum af kosningabaráttu má ekki vera hærri en nemur tvöfaldri þeirri fjárhæð sem tiltekin er í 4. mgr. á hvern íbúa á kjörskrá fyrir landið allt.
     3.      12. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. október 2010.

    Ögmundur Jónasson og Vigdís Hauksdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. ágúst 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Valgerður Bjarnadóttir.


Ólöf Nordal,


með fyrirvara.



Þráinn Bertelsson,


með fyrirvara.