Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 687. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1448  —  687. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála (málsóknarfélög).

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, svohljóðandi:
    1. Þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, er í stað þess að sækja mál skv. 1. mgr. 19. gr. heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra. Málsóknarfélag skal stofnað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og er hvorki heimilt að takmarka ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins né láta það starfa við annað en rekstur málsins og eftir atvikum fullnustu á réttindum félagsmanna og uppgjör krafna þeirra. Séu málsóknarfélagi ekki settar sérstakar samþykktir skulu gilda um það almennar samþykktir sem dómsmálaráðherra ákveður í reglugerð. Halda skal skrá um félagsmenn. Verði málsóknarfélag skrásett skal ekki greitt fyrir það gjald í ríkissjóð.
    2. Þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eiga félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóta þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessarar greinar. Í stefnu skal dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum, svo og hvern hlut hver þeirra eigi í kröfu sé hún um greiðslu peningafjárhæðar. Í dómi skal kveðið á um kröfu eða önnur réttindi félagsins á hendur gagnaðila án þess að félagsmanna sé getið. Félagið fer í hvívetna með forræði á máli svo að bindandi sé fyrir félagsmenn, þar á meðal til að fella það niður eða ljúka því með dómsátt. Ef því er að skipta leitar félagið í eigin nafni fullnustu réttinda félagsmanna að máli loknu. Leita má fullnustu á réttindum á hendur málsóknarfélagi hjá félagsmönnum sjálfum.
    3. Nú gengur nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál er höfðað en áður en aðalmeðferð þess er hafin og getur þá félagið aukið við dómkröfur sínar í þágu nýja félagsmannsins. Slík breyting á dómkröfum skal eftir þörfum gerð með framhaldsstefnu og gildir þá ekki það skilyrði 29. gr. að félaginu verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.
    4. Segi félagsmaður sig eftir höfðun máls úr málsóknarfélagi fer það ekki lengur með forræði á hagsmunum hans sem málið varðar og ber félaginu að breyta dómkröfum sínum að því leyti sem úrsögn gefur tilefni til. Dæma má félagsmann, sem svo er ástatt um, til að greiða hlut í málskostnaði sem gagnaðila félagsins kann að verða ákveðinn.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

I.


    Tildrög frumvarpsins eru þau að nokkrir alþingismenn lögðu á yfirstandandi þingi fram frumvarp til laga um hópmálsókn, þskj. 701, 393. mál. Fjallað var um málið í allsherjarnefnd á nokkrum fundum og var talið að málið þyrfti skoðun sérfræðinga í réttarfari. Var samþykkt að leita til réttarfarsnefndar um samningu frumvarps sem mundi mæta þeim sjónarmiðum sem þingmálinu var ætlað að ná og samdi réttarfarsnefnd frumvarpið að tilhlutan dómsmálaráðherra fyrir allsherjarnefnd.
    Með frumvarpinu er lagt til að leitt verði í íslenskan rétt sérstakt úrræði til málshöfðunar sem svarar til þess sem nefnt hefur verið hópmálsókn og á sér fyrirmynd í rétti annarra ríkja. Við samningu frumvarps til laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, var hugað að því hvort efni væru til að lögleiða reglur af þessu tagi. Á þeim tíma var hins vegar ekki við norrænar fyrirmyndir að styðjast og var því horfið frá því að leiða þetta nýmæli í lög. Eftir setningu laganna hefur úrræði af þessu tagi verið innleitt annars staðar á Norðurlöndum. Voru reglur um hópmálsókn lögfestar í Svíþjóð árið 2003 en í Danmörku, Finnlandi og Noregi árið 2008. Rétt þykir að löggjöf hér á landi fylgi þessari þróun, en með því er greitt fyrir aðgangi að dómstólum.
    Í gildandi réttarfarslögum eru fyrir hendi heimildir tveggja eða fleiri aðila til að standa saman að rekstri dómsmáls um kröfur, sem þeir eiga þó ekki sameiginlega. Annars vegar er um að ræða það sem kallast samlagsaðild, en hún felst í því að fleiri en einum er heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með sömu skilyrðum má sækja fleiri en einn í sama máli, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Hins vegar er að finna heimild í 3. mgr. 25. gr. laganna fyrir félög eða samtök manna til að reka í eigin nafni mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Þessi síðarnefnda heimild svarar að nokkru til þess sem lagt er til með frumvarpinu en á þessu tvennu er þó sá munur að heimild fyrir félög eða samtök til að höfða mál á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laganna er bundin við svokallaðar viðurkenningarkröfur, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þannig verður mál ekki höfðað eftir þessari heimild af félagi eða samtökum til heimtu fjárkröfu fyrir hóp manna. Úr þessu er bætt með tillögu frumvarpsins um að lögfestar verði reglur um heimild fyrir málsóknarfélög til að reka mál fyrir dómi. Með því móti verður kleift að höfða eitt mál þegar fjöldi manna telur sig eiga fjárkröfu á hendur sama aðila af sama tilefni en krafa hvers og eins er það lág að tæplega svarar kostnaði fyrir einn þeirra að höfða dómsmál. Þannig væri unnt að safna saman fjölda krafna til að mynda eina heildarkröfu á hendur þeim sem sóttur yrði fyrir dómi.
    Með frumvarpinu er lagt til að hópmálsókn verði valinn sá búningur að stofnað verði málsóknarfélag í því skyni að reka dómsmál í einu lagi um hagsmuni þeirra sem eiga í hlut og vilja leita réttar síns með öðrum. Það félag yrði aðildarhæft í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála og kæmi fram sem aðili máls vegna hagsmuna allra félagsmanna. Þetta fyrirkomulag verður til þess að tryggja að reglur um hópmálsókn samræmist aðildarreglum laga um meðferð einkamála og reglum fullnusturéttarfars um hvernig leitað er fullnustu réttinda samkvæmt dómi.
    Frumvarpið felur í sér heimild fyrir fleiri til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum sameiginlega með ákveðnu móti. Þannig á úrræðið eingöngu við um aðild til sóknar og því verða ekki mynduð málsóknarfélög í því skyni að taka til varna í dómsmáli. Af reglum laga um málskot leiðir þó að málsóknarfélag getur verið til varnar fyrir Hæstarétti þegar sá sem sóttur hefur verið af málsóknarfélagi áfrýjar dómi eða kærir úrskurð héraðsdóms.

II.


    Í frumvarpinu felst sú grundvallarregla að um mál sem er höfðað og rekið af málsóknarfélagi gilda allar reglur réttarfarslaga að því marki sem ekki er beinlínis vikið frá þeim með reglum frumvarpsins.
    Frumvarpið nær til þeirra tilvika þar sem hver og einn sem telur til réttar á hendur öðrum hefði getið rekið mál fyrir dómi upp á sitt eindæmi eða með því að standa ásamt fleirum að málsókn með samlagsaðild skv. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Þess í stað er með frumvarpinu lögð til heimild til stofnunar málsóknarfélags í því skyni að félagið komi fram og reki dómsmál en ekki þeir sem eiga þá hagsmuni sem leitað er fyrir dómi. Í frumvarpinu er gengið út frá því að þessi félög verði einföld í sniðum en þó verður að gæta þeirrar formfestu sem er nauðsynleg til að félag geti notið aðildarhæfis skv. 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála og farið með hagsmuni annarra fyrir dómi með því móti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þannig verður að stofna félagið auk þess sem halda ber félagatal, enda telst félagið sjálfkrafa koma fram og reka málið um hagsmuni skráðra félaga. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir formsatriðum að því þó gættu að málsóknarfélag verður að hafa samþykktir með reglum sem félagið starfar eftir. Til einföldunar er lagt til að dómsmálaráðherra setji reglugerð sem hafi að geyma almennar samþykktir fyrir málsóknarfélög og gildi þær nema félagsmenn ákveði að víkja frá þeim eða setja sérstakar samþykktir fyrir félagið.
    Samkvæmt framansögðu gildir sú lágmarkskrafa að málsóknarfélag hafi sannanlega verið stofnað en það er einfaldast að leiða í ljós með skriflegri stofnsamþykkt eða fundargerð stofnfundar. Jafnframt leiðir af sjálfu sér að gefa verður félaginu nafn, sem dómsmál sem félagið höfðar er kennt við. Frekari aðgerða er ekki þörf og gilda þá almennar samþykktir fyrir félagið eftir reglugerð ráðherra. Það skal tekið fram að ekki er lagt til með frumvarpinu að skylt verði að skrá málsóknarfélög. Í þeim efnum gilda því almennar reglur laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, en af þeim leiðir að yfirleitt ætti að vera óþarft að skrá málsóknarfélög. Í frumvarpinu er þó tekið fram að sé málsóknarfélag skrásett beri ekki að greiða gjald fyrir það í ríkissjóð. Að baki þessu býr viðleitni til að greiða fyrir starfsemi málsóknarfélaga.

III.


    Með frumvarpinu er lagt til að nýju ákvæði, 19. gr. a, um málsóknarfélög verði bætt við III. kafla laga um meðferð einkamála sem fjallar um aðild og fyrirsvar. Hér á eftir verður fjallað nánar um einstök efnisatriði ákvæðisins að því marki sem það hefur ekki þegar verið skýrt.
     Um 1. mgr.
    Lagt er til að lágmarksfjöldi til að koma á fót málsóknarfélagi verði þrír aðilar. Að baki þessu búa þau rök að ekkert hagræði er af félagi fyrir tvo aðila enda gætu þeir hæglega rekið málið sameiginlega fyrir dómi á grundvelli heimildar til samlagsaðildar skv. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Einnig er áskilið með sama hætti og á við um samlagsaðild að félagsmenn í málsóknarfélagi eigi allir kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með öllu er ógerlegt að víkja frá þessu skilyrði enda verður ekki rekið í einu lagi mál þar sem sakarefnið er ekki eins gagnvart öllum sem eiga í hlut þannig að málatilbúnaður allra sé samhljóða.
    Með því að ræða um að þrír aðilar eða fleiri geti falið málsóknarfélagi að reka mál fyrir dómi er vitanlega bæði átt við einstaklinga og lögpersónur. Því geta allir sem á annað borð njóta aðildarhæfis hagnýtt sér þetta úrræði til málshöfðunar þótt í lagatextanum sé til einföldunar rætt um að félagsmenn standi að málsóknarfélagi. Þá þarf ekki annað en að ganga í málsóknarfélag svo að réttarsamband í skilningi ákvæðisins stofnist milli félagsmannsins og félagsins, en það samband felur í sér heimild fyrir félagið til að höfða og reka dómsmálið. Nær þetta jafnt til stofnfélaga og þeirra sem síðar ganga í félagið eftir ákvæði 3. mgr. sem nánar verður vikið að hér á eftir.
    Eins og beinlínis er tekið fram í 1. mgr. verður málsóknarfélag aðeins myndað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og verður sakarefni þess að liggja fyrir við stofnun félagsins. Ef nauðsynlegt er af einhverju tilefni að reka fleiri mál fyrir dómi væri vitanlega hægt að stofna samtímis fleiri málsóknarfélög um hvert sakarefni og tæki þá aðild að hverju félagi mið af því hverjir ættu þá hagsmuni sem málareksturinn stendur um. Þá getur málsóknarfélag ekki starfað við annað en að reka þetta tiltekna mál og eftir atvikum þegar dómur hefur fallið að leita fullnustu á réttindum félagsmanna og standa skil gagnvart þeim. Því yrði félagsskapur ekki klæddur í búning málsóknarfélags ef því er ætlað víðtækara hlutverk en hér hefur verið rakið.
    Þegar málsóknarfélag hefur verið myndað rekur það í einu lagi mál um kröfur allra félagsmanna. Í þessu felst að peningakröfur félagsmanna verða lagðar saman þannig að úr verði ein heildarkrafa sem beint verður að þeim sem málið er höfðað gegn. Ef málsóknarfélag gerir á hinn bóginn aðeins viðurkenningarkröfu er gert ráð fyrir því að sú krafa sé höfð uppi fyrir alla félagsmenn í senn án þess að þar sé gerður nokkur greinarmunur. Þannig yrði mál ekki rekið á þessum grundvelli ef aðstæður væru með því móti að tíunda yrði sérstaklega réttindi hvers og eins, enda er þá viðbúið að málatilbúnaður þeirra allra sé ekki einsleitur eins og áskilið er í frumvarpinu.
    Samkvæmt 1. mgr. er ekki heimilt að takmarka ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum málsóknarfélagsins. Þetta helgast af því að félagið sem slíkt á ekki þá hagsmuni sem það fer með fyrir dómi og eru ekki líkur fyrir að það eigi aðrar eignir. Aftur á móti er þess ekki að vænta að til falli annar kostnaður við starfsemi félagsins en málskostnaður og eftir atvikum kostnaður við fullnustu og uppgjör. Af þessu leiðir að málsóknarfélag telst almennt félag og önnur félagsform eins og hlutafélög eða einkahlutafélög koma ekki til álita þar sem reglur um þau heimila ekki úrsögn með því að félagsmaður segi skilið við félagið og taki um leið sína hagsmuni með sér úr því. Þá er ótækt að félagsmenn geti komist hjá því að standa skil á kostnaði af rekstri máls með því að takmarka ábyrgð sína.
     Um 2. mgr.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að málsóknarfélag reki dómsmál í eigin nafni um hagsmuni félagsmanna í skjóli umboðs frá þeim á grundvelli aðildar þeirra að félaginu. Því eru þeir hagsmunir sem um er fjallað eftir sem áður í eigu félagsmanna þótt hagsmunirnir séu dæmdir félaginu en ekki félagsmönnum. Af þessum sökum er gert ráð fyrir að félagsmenn hafi sömu stöðu og aðilar nema annað sé beinlínis ákveðið í 19. gr. a. Í samræmi við þetta yrði félagsmaður leiddur til skýrslugjafar fyrir dóm sem aðili en ekki vitni. Einnig gæti sá sem málið er höfðað gegn haft uppi gagnkröfur á hendur félagsmanni, svo langt sem hagsmunir hans hrökkva til. Þetta felur þó ekki í sér heimild til að höfða gagnsök á hendur félagsmanni til sjálfstæðs dóms. Þá getur félagsmaður sjálfur ekki höfðað dómsmál um hagsmuni sína ef málsóknarfélag sem hann á aðild að hefur þegar höfðað málið og því gætir svokallaðra litis pendens áhrifa gagnvart félagsmanninum, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga um meðferð einkamála. Jafnframt er dómur í máli, sem félagið hefur höfðað, bindandi um úrslit sakarefnis fyrir félagsmann, en þar er um að ræða það sem nefnt er res judicata áhrif, sbr. 116. gr. laganna. Í þessu felst að félagsmaður hefur með aðild sinni að málsóknarfélagi afsalað sér málsforræðinu og verður að sæta því hvernig félagið hefur kosið að haga málatilbúnaðinum. Því getur félagsmaður ekki að gengnum dómi höfðað mál aftur í eigin nafni um sama sakarefni til að láta reyna á þann málatilbúnað sem hann hefði talið við hæfi. Er þetta sérstaklega áréttað í lagatextanum með því að taka fram að félagið fari í hvívetna með forræði á máli svo að bindandi sé fyrir félagsmenn. Einnig getur félagið með bindandi hætti fyrir félagsmenn fellt niður mál eða lokið því með dómsátt. Að því leyti er staða félagsmanna gagnvart málsóknarfélagi önnur og takmarkaðri en staða aðila að dómsmáli undir venjulegum kringumstæðum gagnvart málflutningsumboðsmanni sínum.
    Í 2. mgr. er tekið fram að í stefnu skuli dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en áður er vikið að því atriði. Þar sem hagsmunir tilheyra félagsmönnum verður að koma fram hverjir þeir eru og hvern hlut hver þeirra á í kröfu sé hún um greiðslu peningafjárhæðar. Þetta er óhjákvæmilegt bæði með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem félagsmenn hafa við rekstur málsins, svo sem hér hefur verið rakið, og með tilliti til uppgjörs komi til þess að gengnum dómi eða í kjölfar þess að fullnustu hefur verið leitað.
    Í niðurlagi ákvæðisins er tekið fram að leita megi fullnustu á réttindum á hendur málsóknarfélagi hjá félagsmönnum. Þetta helgast af því að félagið á ekki hagsmuni sem dómsmál fjallar um og mundi almennt ekki eiga neitt og er því óhjákvæmilegt að heimila að leitað sé fullnustu hjá félagsmönnum sjálfum.
     Um 3. og 4. mgr.
    Þessi ákvæði snúa að inngöngu og úrsögn úr málsóknarfélagi.
    Að því er varðar inngöngu í málsóknarfélag geta nýir félagsmenn gengið inn í rekstur dómsmáls allt fram að aðalmeðferð þess og er heimilt að auka við dómkröfur í samræmi við þetta. Til að greiða fyrir þessu er vikið frá þeim almennu skilyrðum 29. gr. laga um meðferð einkamála fyrir framhaldssök að málsaðila verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfuna í heild sinni í öndverðu. Að baki þessu býr að það er í raun hagræði fyrir alla að sem flestir taki þátt í rekstri dómsmálsins. Það skal þó tekið fram að ekki þykir rétt að skylda málsóknarfélag til að veita öllum sem eftir því leita inngöngu og taka þannig við einhverjum sem það vill ekki hafa innan sinna vébanda.
    Samkvæmt 4. mgr. getur félagsmaður sagt sig úr málsóknarfélagi og fer félagið upp frá því ekki með hagsmuni hans. Að því leyti sem úrsögnin gefur tilefni til verður að gera breytingar á kröfugerð félagsins. Með þessu er félagsmanni gert kleift að losna undan starfsháttum félagsins og freista þess sjálfur að gæta sinna hagsmuna eins og hann telur best henta.