Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1497  —  521. mál.




Nefndarálit



um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð H. Hilmarsson frá Fjárfestingarstofu, Arnar Þór Másson frá forsætisráðuneyti, Svein Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneyti, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Valdimar Össurarson frá Valorku, ÁTAK og Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Ólöfu Ýri Atladóttur ferðamálastjóra, Árna Ragnarsson og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Önnu Guðrúnu Björnsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þorvarð Hjaltason frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Hrefnu Jónsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Þorvald Jóhannesson frá Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Aðalstein Óskarsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Elínu Líndal frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Sigrúnu Björk Jakobsdóttur frá Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, ÁTAK, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Byggðastofnun, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Ferðamálastofu, Fjárfestingarstofu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fljótsdalshéraði, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Þróunarfélagi Austurlands, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Seðlabanka Íslands, tollstjóranum í Reykjavík, Umhverfisstofnun, Valorku ehf. og Vegagerðinni.
    Með tillögunni er lagt til að unnið verði að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013 þannig að hún verði hluti af heildstæðri sóknaráætlun fyrir alla landshluta. Með aðgerðunum er leitast við að lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Í byggðaáætluninni eru skilgreind sjö lykilsvið og undir hverju þeirra eru tillögur um aðgerðir og eftirfylgni. Einnig fylgir áætluninni greinargerð Byggðastofnunar um ástand og horfur í byggðaþróun. Með aðgerðunum er leitast við að ná samhljómi með annarri áætlanagerð og aðgerðum stjórnvalda. Lykilsviðin sjö eru sett fram í tillögunni sjálfri en nánar útfærð í athugasemdum. Þar er jafnframt greint frá meginhugmynd að baki hverri aðgerð, ábyrgðaraðilum, öðrum hugsanlegum þátttakendum og tímasetningu aðgerðanna. Meginmarkmið tillögunnar er að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar er ætlað að vera hluti af Sóknaráætlun 2020 sem nú er unnið að á vegum ríkisstjórnarinnar en markmið sóknaráætlunar er að mótuð verði heildstæð stefna fyrir Ísland í þágu atvinnulífs og samfélags. Einn tilgangur sóknaráætlunar er að samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Með þessu á að stuðla að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana, þvert á ráðuneyti. Lögbundnar áætlanir sem skal samþætta eru samgönguáætlun, sbr. lög nr. 33/2008, um samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, sbr. 2. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, áætlanir í ferðamálum, sbr. þingsályktun um ferðamál, sem samþykkt var 3. maí 2005, og áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins, sbr. 2. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, sbr. 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Alþingi hefur fengið allar þessar áætlanir til meðferðar og afgreiðslu á undanförnum árum. Nokkrir umsagnaraðilar gagnrýndu tímasetningu byggðaáætlunar sökum þess að verið er að leggja lokahönd á tillögur um samþættar sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta sem fram verða lagðar á haustmánuðum. Einstakir umsagnaraðilar töldu þar af leiðandi Byggðaáætlun óþarfa þar sem Sóknaráætlun 2020 sé ætlað að leysa hana af hólmi. Einnig var bent á að Sóknaráætlun væri hin eiginlega byggðaáætlun og því beri að fresta afgreiðslu þingsályktunartillögunnar þar til Sóknaráætlun 2020 verði samþykkt, en þá verði þær afgreiddar samhliða. Jafnframt komu fram sjónarmið um að mikilvægt sé að fá skýrt fram hvaða áætlun verði stefnumarkandi og hvernig markmiðum verði hrint í framkvæmd. Meiri hluti nefndarinnar leggur ríka áherslu á að byggðaáætlun er ætlað að vera innlegg í Sóknaráætlun 2020. Ályktunin felur í sér fjölmargar aðgerðir sem lagt er til að verði hluti af hinni heildstæðu sóknaráætlun fyrir alla landshluta. Eitt meginverkefni Sóknaráætlunar 2020 er að samþætta opinberar áætlanir sem samþykktar hafa verið á Alþingi á undanförnum árum og afgreiðsla byggðaáætlunar nú er því í fullu samræmi við það verklag sem fylgt er við samþættingu áætlana.
    Meiri hlutinn vill árétta að á Alþingi hvílir lagaskylda að samþykkja byggðaáætlun, sbr. 7. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, en þar er kveðið á um að iðnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Einnig telur meiri hlutinn mikilvægt að byggðaáætlun fái framgang nú svo hægt verði að halda áfram að hrinda einstökum þáttum hennar og aðgerðum í framkvæmd. Margar aðgerðir eru nú þegar komnar til framkvæmda, svo sem ýmsar aðgerðir í ferðaþjónustu. Frestun á afgreiðslu byggðaáætlunar mundi skaða framkvæmd einstakra aðgerða hennar, m.a. vaxtarsamningana, sem eru veigamesti málaflokkur byggðaáætlunar, en tveimur þriðju fjárveitinga hennar er varið til vaxtarsamninga.
    Fram kom hjá nokkrum umsagnaraðilum gagnrýni á þá aðferðafræði sem notuð er við mótun byggðaáætlunar. Víða í umsögnum er einnig bent á að draga þurfi fram vaxandi mikilvægi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Jafnframt kemur fram að í nokkrum tilfellum séu sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög spyrnt saman sem þátttakendur en eðlilegra væri að hvor aðili um sig væri skilgreindur sem sjálfstæður þátttakandi, þar sem um aðskilda aðila er að ræða. Meiri hlutinn tekur undir þessa gagnrýni og bendir jafnframt á að í tillöguninni sé of mikil áhersla á miðstýringarvald hins opinbera á kostnað frumkvæðis, ábyrgðar og eftirfylgni heimamanna í einstökum landshlutum. Meiri hlutinn fagnar því að staðinn verði vörður um starfsemi atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni en þau hafa mikla staðþekkingu og eru eitt öflugasta tæki heimamanna í héraði til að hreyfa við málefnum sinna svæða. Það er niðurstaða meiri hlutans að mikilvægt sé að auka aðkomu, ábyrgð og hlutverk heimamanna og ekki síst landshlutasamtaka við mótun og framkvæmd byggðaáætlunar. Nefndin kynnti sér skýrslu sem starfshópur á vegum samgönguráðherra skilaði árið 2009, en hann hafði það hlutverk að fara yfir starfsemi landshlutasamtaka sveitarfélaga og koma með tillögur að framtíðarskipulagi svæðisbundinnar samvinnu. Fram kemur í skýrslunni að það sé einróma álit starfshópsins að þörf sé á því að efla byggðaþróun í landinu og samþætta opinberar áætlanir og stefnur. Þessir þættir séu mikilvægir til að ná tilætluðum árangri, auka skilvirkni, nýta betur fjármuni og til að fyrirbyggja óþarfa ágreining. Starfshópurinn er sammála því að landshlutasamtök sveitarfélaga séu vel til þess fallin að taka að sér það samþættingarhlutverk, hvert á sínu svæði. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir þetta álit starfshópsins.
    Meiri hlutinn tekur undir þá ábendingu umsagnaraðila að mikilvægi menntunar og fræðastarfs, rannsókna og þróunar á vettvangi þekkingasetra í landshlutunum sé ótvírætt fyrir eflingu byggða og markvissa stefnumótun í þeirra þágu. Sé litið til langtímaþróunar þá munu þessar áherslur skila hvað mestum árangri í nýsköpun, eflingu samfélaga og jöfnun búsetu. Á hinn bóginn komu einnig fram athugasemdir um að stjórnsvið byggðaáætlunar hefði þrengst frá því að iðnaðarráðuneytið tók við stjórnsýslu málaflokksins og það hafi m.a. leitt til þess að byggðaáætlunin taki fyrst og fremst mið af málaflokkum ráðuneytisins. Meiri hlutinn vill benda á að hafa verður hugfast við gerð áætlana að kröfur samtímans kalla á sífellt nánara samstarf þvert á ráðuneyti og mikilvæg forsenda skilvirkrar stjórnsýslu er að áætlanir sem eiga upptök sín í mismunandi ráðuneytum séu samþættar og framkvæmd þeirra samræmd.
    Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að mikilvægt sé að stilla saman strengi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þegar mótuð er byggðastefna til framtíðar, ekki síst í ljósi gjörbreyttrar stöðu höfuðborgarsvæðisins í kjölfar efnahagshrunsins, þar var þenslan mest og samdrátturinn því mest áberandi. Meiri hlutinn telur að forsenda árangursríkrar byggðastefnu sé náið samstarf höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og telur að sú aðferðafræði sem lögð er til grundvallar í undirbúningi Sóknaráætlunar 2020 og byggist á víðtæku samráði við heimamenn í héraði um stefnumótun sé til eftirbreytni og líkleg til að skila verkfæri sem nýtt verður á markvissan hátt. Á sama hátt vekur meiri hlutinn máls á því að víða um land er góð reynsla af samstarfi og samræmingu vaxtarsamninga og menningarsamninga. Slík samlegð varðandi mannahald, stefnumótun og fleira er skynsamleg og líkleg til að skila meiri árangri en aðgreining þessara verkefna.
    Menning og listir hafa á síðustu árum orðið einn eftirtektarverðasti vaxtarbroddurinn í samfélagi byggðanna hringinn í kringum landið. Aukið vægi þessara greina í félags- og atvinnulífi hefur allt í senn aukið lífsgæði í byggðunum, sjálfsvitund og sjálfstraust íbúa og laðað að æ fleiri ferðamenn, sem víða hefur getið af sér fjölbreyttari atvinnutækifæri en áður voru til staðar. Í dag eru í gildi menningarsamningar við alla landshluta þar sem mennta- og menningarmálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti leggja fjármuni til verkefna á móti sveitarfélögum og framkvæmdaraðilum. Tilgangur menningarsamninga er að efla menningarstarf á viðkomandi landsvæði og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg, ásamt því að tryggja sem best frumkvæði og áhrif heimamanna við forgangsröðun verkefna og auka samstarf þeirra við framkvæmd og stefnumótun menningarmála. Samstarf þetta hefur skilað miklum ávinningi víða um land til samræmis við stefnumótun í fyrri byggðaáætlun. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram komu í umsögnum að mikilvægt sé að gera menningu og skapandi greinum hærra undir höfði í áætluninni og leggur til breytingu þess efnis að efling menningarstarfs og skapandi greina verði eitt af lykilsviðum byggðaáætlunar.
    Meiri hlutinn leggur einnig til orðalagsbreytingar á þingsályktunartillögunni í samræmi við ákvæði 44. gr. þingskapalaga nr. 55/1991, en þar segir að tillögur til þingsályktunar skuli vera í ályktunarformi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þingsályktanir verði að greina vel frá settum lögum. Þær eru vilja- eða stefnuyfirlýsingar Alþingis, en hafa ekki að geyma bindandi reglur fyrir borgara eða yfirvöld.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      1. og 2. mgr. og inngangur 3. mgr. orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Áætlunin byggist á aðgerðum í nýsköpun og atvinnuþróun í samræmi við aðra stefnumótun við gerð Sóknaráætlunar 2020.
                  Meginmarkmið byggðaáætlunarinnar verði að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfi byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.
                  Til þess að ná markmiðum áætlunarinnar verði gripið til eftirfarandi aðgerða sem falla undir átta skilgreind lykilsvið.
     2.      Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Efling menningarstarfs og skapandi greina. Menning og listir skipa æ ríkari sess í nýsköpun og eflingu atvinnulífs um land allt og hafa þar með jákvæð áhrif á byggðaþróun. Svæðisbundnir menningarsamningar hafa reynst vel og styðja við fjölbreytt menningar- og listalíf á landsbyggðinni og að efla tengsl lista og menningartengdrar ferðaþjónustu. Mikilvægt er að styrkja grundvöll skapandi greina með því að auka áherslu á menntun á þessu sviði. Nýta má menningarsamninga og vaxtarsamninga í þessu skyni og koma á víðtæku samstarfi við þekkingarsetur og menningarsetur í heimabyggð, framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um eflingu menntunar á sviði skapandi greina.

Alþingi, 30. ágúst 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Atli Gíslason.



Gunnar Bragi Sveinsson,


með fyrirvara.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Árni Þór Sigurðarson.