Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 691. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1514  —  691. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um NMT- farsímakerfið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig verður brugðist við því að NMT-farsímakerfið var lagt niður um síðustu mánaðamót?

    Í janúar sl. var tíðniheimild Símans á 450 Mhz framlengd tímabundið til þess að veita NMT-þjónustu á 450 Mhz tíðni. Á tímabilinu hefur Síminn dregið úr NMT-þjónustu samhliða uppbyggingu á farsímaþjónustu með annarri tækni, svo sem GSM. Þetta er í samræmi við skilyrði Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir framlengdri notkun tíðninnar. Fyrsta september hætti Síminn að veita NMT-þjónustu á tíðnisviðinu og er það nú laust til umsóknar.
    Einn aðili skilaði tilboði í uppbyggingu langdrægs stafræns fjarskiptakerfis á tíðninni þegar það var boðið út í mars 2007. Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 26/2008 var heimildin afturkölluð þar sem ekki hafði orðið úr uppbyggingu kerfisins. Póst- og fjarskiptastofnun hafa ekki borist aðrar umsóknir um að byggja upp langdrægt farsímakerfi á tíðninni, auk þess sem rekstur NMT-þjónustunnar er ekki hluti af alþjónustu og Síminn hefur rekið hana á markaðsforsendum af Símanum á undanförum árum.
    Á undanförnum árum hefur mikil uppbygging átt sér stað á GSM- og UMTS-, eða 3G-, farsímakerfum á Íslandi, meðal annars með stuðningi fjarskiptasjóðs í samræmi við lög um fjarskiptasjóð og gildandi fjarskiptaáætlun sem samþykkt var af Alþingi vorið 2005. Útbreiðsla þessara kerfa er mjög viðamikil og nær samtals til mun stærra svæðis en NMT- kerfið gerði áður eitt og sér. Jafnframt býður tæknin upp á margfalt fleiri möguleika, t.d. gagnaflutning sem nú kemur sjómönnum á hafi úti mjög til góða. Með hliðsjón af þessu og nýtingu tíðnisviðsins á síðustu árum má ætla að markaðsaðilar hyggist notast við langdræg GSM- og 3G-farsímakerfi til þess að veita þjónustu á þeim svæðum sem NMT-kerfið náði til áður. Verið getur að NMT-kerfið hafi í einhverjum tilvikum náð til stöku svæða eða heimila þar sem ekkert farsímasamband er nú. Orsökin getur falist í staðsetningu senda eða eðliseiginleikum mismunandi farsímakerfa. Ráðherra mun óska eftir upplýsingum frá fjarskiptafélögum um slík svæði og búsetu á þeim.