Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 12  —  12. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður E. Árnadóttir,


Jón Gunnarsson, Ólöf Nordal, Kristján Þór Júlíusson,


Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


Ásbjörn Óttarsson, Pétur H. Blöndal, Unnur Brá Konráðsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að móta reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum í verslunum, til þess að tryggja eðlilegt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi innlendrar matvælaframleiðslu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 136. löggjafarþingi (363. mál) og aftur á 138. löggjafarþingi (22. mál). Mælt var fyrir málinu á síðara þinginu og var því vísað til viðskiptanefndar þaðan sem það fór til umsagnar. Nær allir umsagnaraðilar hvöttu til samþykktar tillögunnar. Bændasamtökin vísuðu til samþykktar búnaðarþings í þessa veru. Þá lýsti Matís yfir stuðningi við hugmyndina að því að setja reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum í verslunum og telja Neytendasamtökin að slíkar reglur kunni að leiða til verðlækkunar. Samtök iðnaðarins fagna því að mótaðar verði slíkar reglur og Viðskiptaráð hvetur til þess að tillagan verði samþykkt. MAST telur forsendur tillögunnar umdeilanlegar en hvetur til að matvælavernd verði tryggð ef af samþykkt tillögunnar verður.
    Mikil umræða hefur átt sér stað um svokallaða skilaskyldu á ferskum matvörum. Skilaskyldan felur í sér að kjósi verslunareigandi svo, getur hann sér að kostnaðarlausu krafist þess að framleiðandi taki til baka framleiðsluvörur sem eru að nálgast síðasta söludag. Þetta á við um íslenskar matvörur en ekki þær erlendu.
    Margir íslenskir matvælaframleiðendur telja að þetta fyrirkomulag skapi mikla skekkju í samkeppnisumhverfinu. Innlendir framleiðendur þurfi að bera kostnað af þeirri rýrnun sem hlýst af því að vöru er skilað en sá sem flytur inn matvörur geti komið ábyrgðinni og kostnaðinum af sér yfir á herðar kaupmannsins. Þetta fyrirkomulag leiði síðan til þess að það skapist hvatning fyrir seljanda vörunnar að halda fremur fram þeirri vöru sem ekki er með skilaskyldu, til þess að tryggja að kostnaðurinn af rýrnun falli ekki á hann.
    Þau sjónarmið hafa á hinn bóginn heyrst af hálfu seljenda að í skilaskyldu felist trygging fyrir því að ekki verði óeðlileg birgðasöfnun í verslun, með tilheyrandi kostnaði og rýrnun sem að lokum falli á neytendur í hærra vöruverði. Þess ber þó að geta að margir birgjar sjá sjálfir um að fylla á í búðunum og stýra magni, að minnsta kosti að mestu leyti.
    Mjög mikilvægt er að um þessi mál gildi sanngjarnar leikreglur sem tryggi samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi hinnar gríðarlegu samþjöppunar í matvöruverslun sem hefur orðið hér á landi, þar sem tvær verslunarkeðjur ráða drýgstum hluta markaðarins.