Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 25. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 25  —  25. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir,


Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Lilja Mósesdóttir,
Árni Þór Sigurðsson, Björn Valur Gíslason, Álfheiður Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn ráðgjafarstofu fyrirtækja. Markmið ráðgjafarstofunnar verði að aðstoða fyrirtæki sem eiga í greiðsluörðugleikum við endurskipulagningu rekstrar eða við að hætta rekstri.

Greinargerð.


    Tillaga þessi hefur þrívegis verið lögð fram á Alþingi, á 136. löggjafarþingi (459. mál), 137. löggjafarþingi (116. mál) og 138. löggjafarþingi (73. mál). Á 137. þingi var tillagan tekin til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd en varð ekki útrædd. Nefndinni bárust tólf umsagnir um málið sem voru flestar mjög jákvæðar og studdu langflestir umsagnaraðilar að tillagan næði fram að ganga. Nánar verður vikið að afstöðu þeirra síðar í greinargerð þessari.
    Óveður ríkir nú í íslensku og alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Gjaldþrot Glitnis, Landsbankans og Kaupþings hafa orsakað geysilega erfiðleika hjá íslenska ríkinu og í atvinnulífinu. Ljóst má vera að fjölmörg fyrirtæki eiga í miklum greiðsluerfiðleikum og eiga á hættu að verða gjaldþrota eða hætta rekstri á næstu missirum. Árið 2008 urðu 748 fyrirtæki gjaldþrota og árið 2009 urðu 910 fyrirtæki gjaldþrota. Til samanburðar urðu 528 fyrirtæki gjaldþrota árið 2005 og 601 fyrirtæki árið 2004. Í ár hefur 621 fyrirtæki orðið gjaldþrota frá janúar til ágúst og fjöldi fyrirtækja hefur komist í greiðsluþrot þótt ekki hafi verið farið fram á gjaldþrot.
    Enginn formlegur stuðningur hefur verið við fyrirtæki til að aðstoða þau í samskiptum við lánardrottna og vandinn er mikill. Með hliðsjón af þessu er mikilvægt að setja upp stuðningskerfi sem allra fyrst fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum ef atvinnulífið á að eiga sér viðreisnar von.
    Ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki í greiðsluörðugleikum mundi gegna svipuðu hlutverki og ráðgjafarstofa fyrir heimili og/eða umboðsmaður skuldara. Hún mundi aðstoða eigendur og stjórnendur fyrirtækja við að yfirfara reksturinn, semja við lánardrottna og ráðleggja um hvort halda ætti rekstri áfram eður ei. Hugmyndin er ekki ný af nálinni, og á við hvort sem stormar geisa í efnahagslífinu eða þegar vel gengur. Evrópusambandið setti fram þess háttar hugmyndir í verkefninu Restructuring, Bankruptcy and a Fresh Start árið 2002. Ef samfélög telja það þess virði að einstaklingar hefji rekstur fyrirtækja, þá þarf að vera til stuðningskerfi til að takast á við rekstrarörðugleika og gjaldþrot fyrirtækja. Dæmi um stuðning landa við fyrirtæki í rekstrarörðugleikum er Schuldenhelpline, sem er hjálparsími og vefsíða fyrir einstaklinga og lítil fyrirtæki í Þýskalandi, Entreprise Prévention í Frakklandi og Startvækst vefsíðan í Danmörku. Þannig er mest áhersla lögð á að aðstoða einstaklinga (einyrkja) og lítil fyrirtæki, þar sem meiri líkur eru á að stærri fyrirtæki geti nálgast nauðsynlega aðstoð og þekkingu til að vinna sig út úr rekstrarörðugleikum eða hætta rekstri.
    Mikilvægt er að ráðgjafarstofa starfi náið með öðru stuðningskerfi við atvinnulífið og með dómskerfinu. Tilvalið væri að ráðgjafarstofan starfaði með Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem þegar styður markvisst við frumkvöðla, lítil og meðalstór fyrirtæki. Stofan mundi leiða samvinnu endurskoðenda, fjármálastofnana, lögfræðinga, skiptastjóra, dómstóla, Ábyrgðasjóðs launa og ríkisskattstjóra til að hjálpa rekstraraðilum að komast út úr erfiðleikunum eða taka ákvörðun um rekstrarstöðvun. Stjórnendum yrði kennt hver viðvörunarmerkin væru, utanaðkomandi ráðgjöf gæti komið að eins fljótt og hægt er, og skýrar upplýsingar yrðu aðgengilegar um leiðir út úr erfiðleikum, svo sem um endurskipulagningu rekstrar, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti. Nauðsynlegt er að bjóða upp á þjónustuna bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, og mundi stuðningsnet Nýsköpunarmiðstöðvar um land allt henta vel.
    Í umsögn Byggðastofnunar segir: „Byggðastofnun telur að ráðgjöf af því tagi sem stofunni [ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum] er ætlað að veita sé nauðsynleg við núverandi aðstæður. Byggðastofnun hefur mikla reynslu af stuðningi við atvinnufyrirtæki og hjá stofnuninni er sérstakt fyrirtækjasvið, þar sem mikil reynsla er við fjárhagslega endurskipulagningu hjá fyrirtækjum í rekstrarvanda. Stofnunin vill einnig benda á að um allt land eru starfandi atvinnuþróunarfélög, sem einnig hafa mikla reynslu á þessu sviði.“
    Einkar athyglisverð var einnig ábending ríkisskattstjóra: „Ríkisskattstjóri bendir á að ef vel tekst til eru vissar líkur á því að minna yrði um að skattgreiðslur fyrirtækja töpuðust vegna þrotameðferðar. Þannig gæti meðferð af því tagi sem flutningsmenn þingsályktunarinnar leggja til, dregið úr ýmissi óreglu sem einkenna fyrirtæki sem komin eru í greiðsluerfiðleika.“
    Fáir hafa meiri innsýn inn í fjárhagsstöðu fyrirtækja en Creditinfo. Í umsögn þess um tillöguna lýsir fyrirtækið yfir stuðningi sínum við hana og telur fulla þörf á að koma henni til framkvæmda. Þar segir m.a.: „Mikilvægt er að koma fyrirtækjum, sem líkleg eru til að lenda í greiðsluþroti, fljótt til hjálpar. Vandi slíkra fyrirtækja getur vaxið hratt á tiltölulega skömmum tíma og rekstri sem hefði mátt bjarga verður ekki bjargað ef of seint er gripið í taumana.“ Þá er áréttað mikilvægi þess að fyrirtæki séu upplýst um hvenær þau geti leitað til ráðgjafarstofunnar og hvaða hjálp þau geti fengið þar, en Creditinfo býðst til að veita aðstoð sína til að auðvelda slíkt, án sérstaks endurgjalds. Creditinfo fjallar jafnframt um mikilvægi þess að hafa gagnsæi í samskiptum kröfuhafa og skuldara og hugsanlegt hlutverk ráðgjafarstofu sem milliliðar í því samhengi, til þess að allt sé uppi á borðum og kröfuhafar þurfi ekki að óttast undanskot eigna umbjóðenda ráðgjafarstofu eða að kröfuhöfum verði mismunað með einhverjum hætti.
    Þá kom ábending frá Creditinfo um rýmkun á heimildum varðandi afskriftir krafna, m.a. vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna sölu á vöru/þjónustu. Skattyfirvöld hafa gert kröfu um árangurslaust fjárnám eða gjaldþrot áður en afskrift kröfu er heimiluð, en Creditinfo leggur til að slíkt verði heimilað á grundvelli yfirlýsingar ráðgjafarstofunnar, svo framarlega sem virðisaukaskattur sé greiddur af kröfunni ef hún fæst greidd síðar.
    Samfélagslegar afleiðingar af gjaldþroti fyrirtækja eru margvíslegar. Eigendur geta misst allt sitt, starfsmenn missa atvinnuna og lánardrottnar tapa fjármunum. Álag á starfsmenn og eigendur getur verið geysilega mikið og jafnvel leitt til varanlegs heilsuskaða. Því skiptir miklu að ríkið grípi strax til aðgerða til að lágmarka skaðann bæði fyrir einstaklinga og samfélagið, enda ætti stuðningskerfi fyrirtækja í greiðsluörðugleikum að vera jafnmikilvægur þáttur í að viðhalda stöðugu atvinnulífi og sá stuðningur sem veittur er fyrirtækjum í upphafi rekstrar. Í þeim tilgangi er þessi tillaga nú flutt í fjórða skipti.