Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.

Þskj. 61  —  60. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      6. tölul. orðast svo: Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem eru nauðsynleg til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna. Skil milli virkjunar og flutningsfyrirtækis eru við innkomandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtæki á því vélaspenni, eldingavara og tengingu við tengivirki. Með sama hætti eru skil milli flutningsfyrirtækis annars vegar og dreifiveitna/stórnotenda hins vegar við útgangandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins.
     b.      17. tölul. orðast svo: Stórnotandi: Notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWh á ári.
     c.      19. tölul. orðast svo: Tekjumörk: Hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði. Þau skulu sett til fimm ára en uppfærð árlega eftir á miðað við breytingar á viðmiðum tekjumarka eins og þau eru tilgreind í 12. og 17. gr.

2. gr.

    Í stað „7 MW“ í 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 10 MW.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 1. mgr. orðast svo: Flutningsfyrirtækið skal vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skulu vera dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi samkvæmt lögum þessum til að stunda viðskipti með raforku.
     c.      3. og 4. mgr. falla brott.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                      Flutningsfyrirtækið má ekki stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum eða samkvæmt öðrum lögum. Því er þó heimilt að:
              a.      reka raforkumarkað,
              b.      eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða, svo fremi sem samkeppni sé ekki raskað,
              c.      selja út sérfræðiþekkingu fyrirtækisins ef eftir því er leitað, svo fremi sem samkeppni sé ekki raskað.
             Fyrirtækinu ber að halda reikningum vegna þeirrar starfsemi sem getið er í a–c-lið aðskildum frá reikningum vegna annarrar starfsemi í bókhaldi. Um bókhaldslegan aðskilnað fer að öðru leyti skv. 41. gr. Stjórn flutningsfyrirtækisins skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku.

4. gr.

    Í stað orðanna „ef reisa á línur“ í 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: fyrir nýjum raflínum.

5. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Í sérstökum tilvikum má sækja um leyfi ráðherra til að reisa sjálfstætt flutningsvirki og flytja raforku beint frá virkjun til notanda, enda tengist hvorki virkjun né notandinn flutningskerfinu eða dreifikerfi. Leita skal umsagnar flutningsfyrirtækis og eftir atvikum viðkomandi dreifiveitu varðandi slíkar tengingar áður en leyfi er veitt.

6. gr.

    12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjumörk flutningsfyrirtækisins.

    Markmið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar í rekstri flutningsfyrirtækisins og tryggja að tekjur þess séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem því er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi. Til að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri flutningsfyrirtækisins eru tekjumörk afmörkuð í tímabil, tekjumarkatímabil.
    Orkustofnun setur flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku. Tekjumörk skulu vera tvískipt, þ.e. vegna flutnings á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar og skulu hin síðarnefndu ákvörðuð í bandaríkjadölum. Tekjumörk skulu ákveðin fyrir fram til fimm ára í senn og uppfærð árlega miðað við breytingar á viðmiðum sem tilgreind eru í 3. mgr. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til kostnaðar vegna rekstrar og fjárfestinga vegna flutnings til dreifiveitna annars vegar og til stórnotenda hins vegar. Starfsemi flutningsfyrirtækisins skv. 5. mgr. 8. gr., sem ekki er nauðsynleg vegna rekstursins, er undanskilin við ákvörðun tekjumarka. Sama gildir um orkukaup vegna tapa í flutningskerfinu og aðföng vegna kerfisþjónustu.
    Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
     1.      Rekstrarkostnaði sem tengist flutningsstarfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun. Við ákvörðun rekstrarkostnaðar við setningu tekjumarka skal taka tillit til meðalrekstrarkostnaðar síðustu fimm ára með eins árs töf að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og áhrifa nýrra stórra fjárfestinga á rekstrarkostnað flutningsfyrirtækisins. Þegar stórar fjárfestingar bætast við fastafjármuni flutningsfyrirtækisins skal skipting rekstrarkostnaðar milli tekjumarka annars vegar fyrir stórnotendur og hins vegar fyrir dreifiveitur uppfærð. Við setningu nýrra tekjumarka skal liggja fyrir endurskoðuð skipting rekstrarkostnaðar á milli stórnotenda og dreifiveitna.
     2.      Arðsemi flutningsfyrirtækisins af flutningsstarfsemi skal vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Arðsemi til grundvallar tekjumörkum skal vera jöfn hlutfalli milli annars vegar hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og hins vegar bókfærðs virðis fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs flutningskerfisins auk 20% af tekjumörkum síðasta árs til að mæta kostnaði af veltufjármunum. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir voru 31. desember 2004 og miðast við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum sem hafa komið til eftir þann tíma eða síðar kunna að koma til, afskriftum þeirra og endurmati eins og það er á hverjum tíma. Stærri fjárfestingar skulu teljast til fastafjármuna frá þeim tíma sem þær fara í notkun en minni fjárfestingar skulu taldar til fastafjármuna frá þeim tíma sem fjárfestingin á sér stað. Eignastofn vegna tekjumarka fyrir stóriðju skal vera í bandaríkjadölum og skulu eignir teknar inn í hann á opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þess tíma sem þær voru teknar inn í eignastofn flutningsfyrirtækisins. Skipting eignastofns á milli tekjumarka annars vegar fyrir stórnotendur og hins vegar fyrir dreifiveitur skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Á grundvelli þessa töluliðar skal arðsemi ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila.
     3.      Afskriftum af fastafjármunum, sbr. 2. tölul.
     4.      Áreiðanleika afhendingar þar sem frávik frá viðmiðum geta leitt til hækkunar eða lækkunar tekjumarka.
                      Náist ekki markmið þessara laga um skilvirkni í rekstri flutningsfyrirtækisins með afmörkun tekjumarkatímabila er Orkustofnun heimilt að setja flutningsfyrirtækinu hagræðingarkröfu fyrir nýtt tekjumarkatímabil, að fengnu mati sérfróðra aðila, eftir að flutningsfyrirtækinu hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um slíkar fyrirætlanir. Slík hagræðingarkrafa skal byggjast á sjónarmiðum sem byggt er á í sambærilegum rekstri um hvað telst skilvirkni í rekstri, studd af undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun skal tilkynna flutningsfyrirtækinu með tveggja mánaða fyrirvara ef framkvæma á slíkt mat og skal því lokið eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir upphaf viðkomandi tekjumarkatímabils.
    Eigi síðar en 1. september árið áður en ný tekjumörk taka gildi skal Orkustofnun setja tekjumörk fyrir flutningsfyrirtækið fyrir næsta tekjumarkatímabil.
    Eigi síðar en 1. maí ár hvert skal flutningsfyrirtækið skila Orkustofnun rekstrarupplýsingum vegna fyrra árs. Eigi síðar en 1. ágúst ár hvert skal Orkustofnun skila uppfærðum tekjumörkum og uppgjöri vegna fyrra árs til flutningsfyrirtækisins sem og viðeigandi rökstuðningi fyrir breytingum ef einhverjar eru. Í uppgjöri tekjumarka við lok hvers árs skulu bornar saman rauntekjur og uppfærð tekjumörk ársins.
    Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt tekjumörkum milli ára við árlegt uppgjör tekjumarka en uppsafnaðar of- eða vanteknar tekjur skulu aldrei nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára.
    Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tekjumörkin, m.a. um setningu þeirra og uppgjör, afskriftareglur, arðsemismarkmið, útreikning vegins fjármagnskostnaðar, mat fastafjármuna, skiptingu eignagrunns og rekstrarkostnaðar, kröfur um hagræðingu, áreiðanleika afhendingar og um mat sérfróðra aðila skv. 2. og 4. tölul. 3. mgr. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga og gengis gjaldmiðla, auk annarra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

7. gr.

    Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gjaldskrá flutningsfyrirtækisins.

    Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 12. gr. Gjaldskráin skal gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda sem skal ákvörðuð í bandaríkjadölum.
    Byggt skal á því að verðlagning flutningsfyrirtækisins vegna flutnings til dreifiveitna sé í samræmi við meðalkostnað að teknu tilliti til sjónarmiða um arðsemi. Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á afhendingarstöðum, sbr. 6. tölul. 3. gr., skal miðast við að raforka sé afhent á 66 kV spennu. Ef orka frá flutningskerfi er afhent til dreifiveitna á hærri spennu ber að lækka gjaldtöku með tilliti til þess. Með sama hætti skal taka tillit til afhendingaröryggis við gjaldtöku fyrir úttekt á einstökum afhendingarstöðum. Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðisins auk þess sem móttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins, sbr. þó 3. mgr. Ekki skal greitt af notkun í einangruðum kerfum innan dreifiveitusvæða sem ekki njóta tengingar við flutningskerfið.
    Greiða skal úttektargjald til flutningsfyrirtækisins vegna framleiðslu virkjana sem tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu sem hér segir:
     1.      Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1,42 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
     2.      Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1,42–3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 60% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
     3.      Vegna orku frá virkjun sem er 3,1–10 MW skal greiða 60% fulls úttektargjalds.
    Varaaflsstöðvar sem eru nýttar þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins.
    Sé orka afhent beint til stórnotenda, frá virkjun sem nýtur tengingar við flutningskerfið, án þess að orkan fari um flutningskerfið og án þess að flutningskerfið taki þátt í kostnaði við tengingu notandans skal greiðsla úttektargjalds til flutningskerfis nema 60% af úttektargjaldi til stórnotenda. Heimilt er að veita frekari afslátt af úttektargjaldi ef úttekt stórnotandans er alfarið háð því að orkan komi frá virkjuninni. Í öllum tilvikum skal greiða fyrir kerfisþjónustu samkvæmt gildandi gjaldskrá flutningsfyrirtækisins.
    Notandi sem í framleiðslu sinni er algjörlega háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en aðeins raforku getur óskað heimildar til beinnar tengingar við virkjunina skv. 5. gr. enda þótt hann nái ekki stórnotendaviðmiðinu. Gjald fyrir úttekt þessa fer skv. 5. mgr.
    Flutningsfyrirtækinu er heimilt að afhenda raforku til stórnotenda á 66 kV eða lægri spennu enda standi sérstök gjaldtaka undir viðbótarkostnaði.
    Flutningsfyrirtækið skal einnig setja gjaldskrá fyrir kerfisþjónustu og töp í flutningskerfinu sem tekur mið af kostnaði ásamt hæfilegri þóknun.
    Eigi síðar en sex vikum fyrir fyrirhugaða gildistöku skal gjaldskrá flutningsfyrirtækisins send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við flutningsfyrirtækið innan þriggja vikna frá móttöku. Gjaldskráin tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Flutningsfyrirtækið skal birta gjaldskrána opinberlega.
    Krefjast skal greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda kerfisins. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.
    Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um gjaldskrá auk þeirra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

8. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó er flutningsfyrirtæki heimilt að flytja/dreifa rafmagni á sérleyfissvæði dreifiveitu til stórnotenda sem fá raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV að því gefnu að samkomulag náist þar að lútandi á milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu.

9. gr.

    17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjumörk dreifiveitna.

    Markmið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar í rekstri dreifiveitna og tryggja að tekjur þeirra séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem þeim er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi. Til að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri dreifiveitu eru tekjumörk afmörkuð í tímabil, tekjumarkatímabil.
    Orkustofnun skal setja dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við dreifingu raforku. Ef heimilað er að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæði, sbr. 2. mgr. 17. gr. a, skulu sérstök tekjumörk sett vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar. Tekjumörk skulu ákveðin fyrir fram til fimm ára í senn og uppfærð árlega miðað við breytingar á grunnforsendum. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til kostnaðar vegna rekstrar og fjárfestinga.
    Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:
     1.      Rekstrarkostnaði sem tengist dreifingu fyrirtækisins á rafmagni, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu. Við ákvörðun rekstrarkostnaðar við setningu tekjumarka skal taka tillit til rekstrarkostnaðar síðustu fimm ára með eins árs töf að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og áhrifa nýrra stórra fjárfestinga á rekstrarkostnað dreififyrirtækisins.
     2.      Arðsemi dreifiveitu af dreifingu raforku skal vera sem næst vegnum fjármagnskostnaði að teknu tilliti til skatta og að frátöldum verðlagsbreytingum. Arðsemi til grundvallar tekjumörkum skal vera jöfn hlutfalli milli annars vegar hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og hins vegar bókfærðs virðis fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs dreifiveitunnar auk 20% af tekjumörkum síðasta árs til að mæta kostnaði af veltufjármunum. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir voru 31. desember 2004 og miðast við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum sem hafa komið til eftir þann tíma eða síðar kunna að koma til, afskriftum þeirra og endurmati eins og það er á hverjum tíma. Fjárfestingar skulu teljast til fastafjármuna frá þeim tíma sem fjárfestingin á sér stað. Á grundvelli þessa töluliðar skal arðsemi ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila.
     3.      Afskriftum af fastafjármunum, sbr. 2. tölul.
     4.      Áreiðanleika dreifingar raforku þar sem frávik frá viðmiðum geta leitt til hækkunar eða lækkunar tekjumarka.
                      Náist ekki markmið þessara laga um skilvirkni í rekstri dreifiveitu með afmörkun tekjumarkatímabila er Orkustofnun heimilt að setja viðkomandi dreifiveitu hagræðingarkröfu fyrir nýtt tekjumarkatímabil, að fengnu mati sérfróðra aðila, eftir að dreifiveitunni hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um slíkar fyrirætlanir. Slík hagræðingarkrafa skal byggjast á sjónarmiðum sem byggt er á í sambærilegum rekstri um hvað telst skilvirkni, studd af undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun skal tilkynna dreifiveitunni með tveggja mánaða fyrirvara ef framkvæma á slíkt mat og skal því lokið eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir upphaf viðkomandi tekjumarkatímabils.
    Eigi síðar en 1. september árið áður en ný tekjumörk taka gildi skal Orkustofnun setja tekjumörk fyrir dreifiveitur fyrir næsta tekjumarkatímabil.
    Eigi síðar en 1. maí ár hvert skal hver dreifiveita skila Orkustofnun rekstrarupplýsingum vegna fyrra árs. Eigi síðar en 1. september ár hvert skal Orkustofnun skila uppfærðum tekjumörkum og uppgjöri vegna fyrra árs til viðkomandi dreifiveitu sem og viðeigandi rökstuðningi fyrir breytingum ef einhverjar eru. Í uppgjöri tekjumarka við lok hvers árs skulu bornar saman rauntekjur og uppfærð tekjumörk ársins.
    Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt tekjumörkum milli ára við árlegt uppgjör tekjumarka en uppsafnaðar of- eða vanteknar tekjur skulu aldrei nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára.
    Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um tekjumörkin, m.a. um setningu þeirra og uppgjör, afskriftareglur, arðsemismarkmið, útreikning vegins fjármagnskostnaðar, mat fastafjármuna, skiptingu eignagrunns og rekstrarkostnaðar, kröfur um hagræðingu og áreiðanleika afhendingar, gæði dreifiveitu og um mat sérfróðra aðila skv. 2. og 4. tölul. 3. mgr. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um með hvaða hætti tekið er tillit til almennra verðbreytinga og gengis gjaldmiðla, auk annarra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

10. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Gjaldskrá dreifiveitna.

    Hver dreifiveita skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 17. gr. Sama gjaldskrá skal gilda á veitusvæði hverrar dreifiveitu fyrir úttekt á lágspennu, þ.e. 230–400 V spennu. Ef orka frá dreifiveitu er afhent á annarri spennu er heimilt að taka tillit til þess í gjaldskrá. Með sama hætti er við gjaldtöku heimilt að taka tillit til annars mismunar á þjónustu.
    Dreifiveitum er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Það er skilyrði fyrir heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskrár að notkun á viðkomandi dreifbýlissvæði sé a.m.k. 5% af heildarnotkun dreifiveitusvæðisins. Með umsókn um skiptingu gjaldskrár skulu fylgja upplýsingar um landfræðilega afmörkun svæða, landnotkun og fjölda íbúa á viðkomandi svæði, auk gagna sem sýna fram á að kostnaður við dreifingu til notenda á svæðinu sé hærri en til annarra.
    Eigi síðar en fjórum vikum fyrir fyrirhugaða gildistöku skal gjaldskrá dreifiveitu send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði laga þessara eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við dreifiveitu innan tveggja vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveita skal birta gjaldskrána opinberlega.
    Dreifiveitu er skylt að greiða virkjun sem tengist henni og er undir 3,1 MW þann ávinning, að hluta eða að fullu, sem felst í því að þurfa ekki að greiða úttektargjald að fullu til flutningskerfisins, sbr. ákvæði 3. mgr. 12. gr., með eftirfarandi hætti:
     1.      Greiða skal virkjun undir 0,3 MW að fullu hreinan ávinning veitunnar af niðurfellingu úttektargjaldsins.
     2.      Fyrir virkjun sem er 0,3–3,1 MW skal minnka greiðsluna hlutfallslega þar til ekkert er greitt sé virkjunin 3,1 MW eða stærri.
    Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um gjaldskrá auk þeirra atriða sem ákvæði þetta kveður á um.

11. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Leyfi til að reka raforkumarkað.

    Leyfi ráðherra þarf til þess að reka raforkumarkað. Slíkt leyfi felur hvorki í sér sérleyfi né önnur sérréttindi til handa leyfishafa. Leyfi verður aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila. Umsækjandi skal sýna fram á fjárhagslegan styrkleika og þekkingu á raforkumarkaði til að efna skuldbindingar vegna starfseminnar. Nánar skal kveðið á um skilyrði leyfisveitingar og starfsemi raforkumarkaðar í reglugerð.

12. gr.

    Í stað orðsins „Samkeppnisstofnun“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: Samkeppniseftirlitið.

13. gr.

    Í stað orðsins „Samkeppnisstofnunar“ í fyrirsögn 27. gr. laganna kemur: Samkeppniseftirlitsins.

14. gr.

    Í stað orðanna „og 1. mgr. 18. gr.“ í 32. gr. laganna kemur: 1. mgr. 18. gr. og 18. gr. a.

15. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I, III–XI, XIV og XV í lögunum falla brott.

16. gr.

    Viðauki við lögin, Afhendingarstaðir til dreifiveitna úr flutningskerfinu skv. 6. tölul. 3. gr., fellur brott.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a-liðar 3. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 2015 og ákvæði 6., 7., 9. og 10. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2011.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Við gildistöku laganna skal iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga, Landsnets, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu.
    Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.

II.

    Ef uppsafnaðar ofteknar tekjur nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum í árslok 2009 skal flutningsfyrirtækið eða dreifiveita eftir því sem við á setja gjaldskrá sína ár hvert frá og með árinu 2011 og þar til hlutfallið er komið undir 10% þannig að hlutfall uppsafnaðra oftekinna tekna lækki. Skulu uppsafnaðar ofteknar tekjur ekki nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum við lok árs 2020. Ef uppsafnaðar vanteknar tekjur nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum í árslok 2009 er heimilt að setja gjaldskrá þannig að hlutfallið lækki niður fyrir 10% fyrir lok árs 2020, þó þannig að tekjur hvers árs fari ekki meira en 3% fram úr uppfærðum tekjumörkum þess árs af þessum orsökum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 138. löggjafarþingi og er nú endurflutt í óbreyttri mynd þar sem ekki varð af afgreiðslu þess á síðasta löggjafarþingi.
    Hinn 1. júlí 2003 komu raforkulög, nr. 65 frá 27. mars 2003, til framkvæmda. Með lögum nr. 89/2004, um breytingu á raforkulögum, var kveðið á um að iðnaðarráðherra skyldi skipa nefnd fulltrúa hagsmunaaðila og þingflokka sem falin yrði endurskoðun laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði XIII. Samkvæmt umræddu bráðabirgðaákvæði skyldi vinnu við endurskoðunina vera lokið fyrir 31. desember 2010.
    Í samræmi við framanritað skipaði iðnaðarráðherra 16. júní 2008 nefnd til endurskoðunar á raforkulögum. Í nefndina voru eftirtaldir skipaðir: Álfheiður Ingadóttir, Baldur Dýrfjörð, Bryndís Skúladóttir, Guðni A. Jóhannesson, Gústaf Adolf Skúlason, Grétar Mar Jónsson, Ingunn S. Þorsteinsdóttir, Jónína B. Bjarnadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján Skarphéðinsson, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ólafur Hr. Sigurðsson, Ólöf Nordal, Pétur Þórðarson, Ragnhildur Guðjónsdóttir, Þórður Guðmundsson og Þuríður Einarsdóttir. Sumarið 2009 tóku Skúli Helgason, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þórhallur Kristjánsson sæti í nefndinni í stað Álfheiðar Ingadóttur, Grétars Mars Jónssonar og Katrínar Júlíusdóttur. Starfsmenn nefndarinnar voru Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, Guðjón Axel Guðjónsson, Ingvi Már Pálsson og Lárus M.K. Ólafsson. Þá hefur Páll Harðarson veitt nefndinni hagfræðilega ráðgjöf. Auk nefndarmanna komu á fundi nefndarinnar ýmsir aðilar sem hafa sérþekkingu á tilteknum sviðum er snerta viðfangsefni nefndarinnar.
    Í frumvarpinu er að finna áfangatillögur sem byggjast á vinnu nefndarinnar og talið er brýnt að leggja fram nú. Taka ber fram að nefndin hefur ekki lokið störfum. Eins og nánar er gerð grein fyrir í almennum athugasemdum með frumvarpinu er í því að finna tillögur að breytingum á skilgreiningum í I. kafla, breytingum á einstökum ákvæðum í II., III. og IV. kafla laganna, m.a. ný ákvæði um tekjumörk, gjaldskrár og beinar tengingar. Þá eru að auki lagðar til lagfæringar á texta laganna, einkum með það að markmiði að gera hann skýrari og fella brott úrelt ákvæði. Meginatriði frumvarpsins fara hér á eftir.

II. Almennt um efnisákvæði frumvarpsins.

Skilgreining á flutningskerfi.
    Í frumvarpinu er lögð til endurskoðuð skilgreining á hugtakinu flutningskerfi. Samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu í núgildandi lögum nær flutningskerfið frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna. Talið er nauðsynlegt að endurskoða skilgreiningu á flutningskerfinu með tilliti til aðstöðu fyrir tengingu við flutningskerfið og mælingu inn á það, þ.e. þar sem skil flutningskerfisins við virkjanir og aðveitustöðvar eru. Með frumvarpinu er lagt til að skil milli orkuframleiðanda og flutningsfyrirtækis verði við innkomandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtæki á því, og ber ábyrgð á, vélaspenni, eldingavara og tengingu við tengivirki.
    Í öðru lagi er lagt til að tekin verði úr núgildandi skilgreiningu tilvísun í afhendingarstaði sem taldir eru upp í viðauka við lögin. Í ákvæði til bráðabirgða með raforkulögum var ákveðið að skilgreina alla afhendingarstaði flutningskerfisins til dreifiveitna og þeir taldir upp í viðauka. Talið er að slík lögfesting afhendingarstaða geti hamlað hagkvæmri útfærslu og uppbyggingu flutningskerfisins.

Skilgreining á stórnotanda.
    Í raforkulögum er kveðið á um að stórnotandi sé notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira. Þeir sem nota svo mikið magn orku geta tengst flutningskerfi raforku beint en ekki um dreifiveitu og greiða fyrir flutning raforkunnar samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotendur. Til þessa hafa eingöngu stóriðjuver fallið undir skilgreiningu stórnotanda. Hins vegar hafa aðrir aðilar með háan nýtingartíma sýnt áhuga á að koma upp starfsemi hér á landi, svo sem netþjónabú. Þótt slík starfsemi hafi háan nýtingartíma getur hún verið nokkuð undir þeim aflmörkum sem lögin kveða á um nú. Til að skapa þessum minni stórnotendum möguleika á tengingu við flutningskerfið er lagt til að aðlögunartímabil þeirra verði þrjú ár frá fyrstu afhendingu að telja. Þá er lagt til að í stað þess að kveða bæði á um 14 MW afl og árlegan nýtingartíma upp á 8.000 stundir verði notað orkuviðmiðið 80 GWh á ári. Er það allnokkur lækkun frá viðmiði núgildandi laga en 80 GWh eru u.þ.b. 10 MW.

Skilyrði fyrir veitingu virkjanaleyfis.
    Með frumvarpinu er lagt til að rýmkaðar verði heimildir virkjana til að tengjast dreifikerfi með því að endurskoða stærðarmörk. Er lagt til að virkjanir sem eru 10 MW eða stærri (í stað 7 MW samkvæmt núgildandi lögum) skuli tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu.

Eignarhald á flutningsfyrirtækinu.
    Lagt er til að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2015. Samkvæmt núgildandi lögum skal flutningsfyrirtækið ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Ekki þykir heppilegt að fyrirtæki sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga og hafa ríka hagsmuni af starfsemi flutningsfyrirtækisins, t.d. raforkuframleiðendur og dreifiveitur, eigi hlut í flutningsfyrirtækinu og er því lagt til að kveðið verði á um beint eignarhald ríkis og/eða sveitarfélaga að flutningsfyrirtækinu. Jafnframt er með frumvarpinu lagt til ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að við gildistöku laganna skuli iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga, flutningsfyrirtækisins, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu. Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.

Flutningsfyrirtækið og rekstur flutningskerfis.
    Ákvæði raforkulaga um stofnun flutningsfyrirtækis eru að mestu leyti úrelt og er því lögð til endurskoðun og uppfærsla á þeim ákvæðum. Jafnframt eru endurskoðuð ákvæði um heimildir flutningsfyrirtækisins til að stunda aðra starfsemi en þá sem tengist beint flutningi raforku en tengist hlutverki fyrirtækisins. Lagt er til að flutningsfyrirtækinu verði heimilað að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða og selja út sérfræðiþekkingu fyrirtækisins ef eftir því er leitað, svo fremi samkeppni sé ekki raskað. Um er að ræða sambærilegar heimildir og hjá flutningsfyrirtækjum í nágrannalöndunum. Skal slíkri starfsemi haldið aðskildri í bókhaldi félagsins.

Tekjumörk og gjaldskrár.
Hagrænar aðstæður raforkuflutnings.
    Kenningar hagfræði skýra hvernig samkeppni leiðir til lægra verðs og meiri umsvifa á markaði en við einkasölu. Eitt af efnahagslegum verkefnum stjórnvalda er því að stuðla að samkeppni og koma í veg fyrir einokun. Margs konar hindranir geta verið í vegi fyrir því að virk samkeppni náist á einstökum mörkuðum. Stærðarhagkvæmni er dæmi um slíka samkeppnishindrun en hún á sér stað þegar fastur kostnaður er mikill, t.d. í formi fjárfestinga, og viðbótarkostnaður aukinna afkasta er fastur eða jafnvel fallandi, sem leiðir til þess að meðalkostnaður fellur með aukinni framleiðslu. Slíkt hefur mjög oft í för með sér að eitt stórt fyrirtæki getur þjónað markaðnum með lægri kostnaði en mörg smærri. Ný fyrirtæki ná ekki fótfestu og svokölluð „náttúruleg einokun“ skapast með hærra verði og minna framboði en ella, þ.e. við samkeppni. Stjórnvöld sjá sig knúin til afskipta og setja einokunarfyrirtækinu reglur um verðlagningu þannig að verði sé haldið í samræmi við meðalkostnað. Niðurstaða slíkrar reglunar (e. regulation) er meira framboð en við einkasöluaðstæður en minna en samkeppni hefði leitt af sér.
    Almenningsveitur (e. utilities) hafa einkenni náttúrulegrar einokunar. Á seinni hluta síðustu aldar komu fram þær hugmyndir að þau einkenni ættu ekki við um alla þætti í starfseminni. Með því að skilja á milli framleiðslu og flutnings í rekstri veitufyrirtækjanna mætti koma á samkeppni í framleiðslu en hins vegar væri flutningurinn í eðli sínu náttúruleg einokun. Með þessum aðskilnaði var markmiðið að minnka umfang eftirlitsvandans og efla hagkvæmni.
    Raforkugeirinn fellur undir hefðbundna veitustarfsemi. Líkt og hjá öðrum almenningsveitum má aðgreina framleiðslu og flutning. Raforkuflutningur einkennist af mikilli stærðarhagkvæmni og því er hagkvæmt að einn aðili sjái um slíkan rekstur. Flutningur raforku er því dæmi um náttúrulega einokun. Þar sem slík einokunarfyrirtæki skortir það aðhald sem samkeppni veitir verður kostnaður gjarnan meiri en það sem hagkvæmast getur orðið. Starfsemin er því ekki einungis undir eftirliti hvað verðlagningu snertir heldur einnig hvað varðar rekstrarkostnað. Stýring verðs felur þannig í sér að fylgst er með þeim kostnaði sem heimilt er að nota sem grundvöll verðlagningar. Í þessum kostnaði þarf að taka tillit til arðsemi af þeim fjármunum sem liggja í rekstrinum. Slíkir útreikningar búa hins vegar til hvata til fjárfestinga, þ.e. fyrirtæki hefur hag af því að hámarka fjármuni sína sem kallar á sérstakt eftirliti með fjárfestingum þeirra fyrirtækja sem sæta reglun. Hið endanlega markmið slíks eftirlits er að raforkuflutningur sé rekinn með þjóðhagslega arðsemi í huga.

Aðferð tekjumarka.
    Með því að setja flutningsfyrirtækinu sérstök tekjumörk, sem aftur hefur áhrif á gjaldskrá, er verði stýrt. Tekjumörkin eru samtala rekstrarkostnaðar, afskrifta og útreiknaðrar framlegðar fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT). Gjaldskrá flutningsfyrirtækisins stendur þannig almennt undir meðalkostnaði við rekstur fyrirtækisins að teknu tilliti til sjónarmiða um arðsemi.
    Aðferðin ein og sér tryggir ekki hvata til hagræðingar og lækkunar á rekstrarkostnaði flutningsfyrirtækisins. Til að ýta undir hagræðingu og skilvirkni eru hámarkstekjur flutningsfyrirtækisins, hin svokölluðu tekjumörk, festar til ákveðins tíma (með verðleiðréttingum), eða fimm ára samkvæmt frumvarpinu. Nái flutningsfyrirtækið kostnaði niður fyrir það sem reiknað var með á tekjumarkatímabilinu fær fyrirtækið að halda viðbótarhagnaðinum þar til tekjumörk eru sett næst. Þá er hagræðingu skilað til neytenda með ákveðnum töfum í formi lækkunar á leyfilegum tekjum flutningsfyrirtækisins og þar með gjaldskrá.
    Þessi aðferð felur í sér að útreiknaða framlegðin fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) er margfeldi af fastafjármunum að viðbættum veltufjármunum og arðsemiskröfu hins vegar. Fastafjármunir birtast enn fremur í útreikningi afskrifta. Með þeirri tengingu sem myndast í tekjumörkum við magn fjármuna og leyfilegar tekjur myndast hvati til offjárfestingar. Því þarf enn fremur að hafa eftirlit með að hagkvæmni sé gætt í fjárfestingu flutningsfyrirtækisins.

Þættir sem þarfnast endurskoðunar í núgildandi lögum.
    Á undanförnum árum hefur verið búið til kerfi þar sem framleiðsla og dreifing raforku er aðskilin í samræmi við þróun í Evrópu. Nokkur reynsla hefur náðst í starfsemi raforkuflutninga innan hinnar nýju lagaumgjörðar sem tók gildi árið 2003. Lögin taka mið af þeim aðstæðum sem voru á þeim tíma. Í þeim eru óvissuþættir og túlkunaratriði sem hafa gert framkvæmd laganna erfiða og úr því þarf að bæta. Nokkrir þættir standa þar upp úr í núgildandi lögum.
     *      Verðlagsáhrif eru tvíreiknuð, þ.e. eignir eru uppreiknaðar miðað við verðbólgu á sama tíma og arðsemi af þeim er reiknuð miðað við vexti óverðtryggðra markaðsbréfa en vextir slíkra bréfa innifela verðbólguálag.
     *      Vandamál sem tengjast því að gjaldskrá stórnotenda er í bandaríkjadölum en tekjumörk og eignagrunnur flutningsfyrirtækisins er í krónum.
     *      Skilgreining eignagrunnsins hefur verið of þröng þar sem veltufjármunir hafa verið undanskildir.
     *      Lengd tekjumarkatímabila.
     *      Ákvörðun ávöxtunarkröfu til útreiknings á arðsemi.
     *      Vandamál tengd hagræðingarkröfu.
     *      Skort hefur á skýrari reglur við ákvörðun á þeim kostnaði sem lagður er til grundvallar við setningu tekjumarka.

Beinar tengingar.
    Lögð er til breyting sem tekur mið af þeim kröfum sem koma fram í 22. gr. tilskipunar 2003/54/EB. Breytingin felur í sér að fellt er út það skilyrði fyrir svonefndri beinlínutengingu að flutningsfyrirtækið hafi áður hafnað tengingu við flutningskerfið, en óheimilt er samkvæmt tilskipuninni að setja slíkt skilyrði. Að öðru leyti getur ráðherra sett þau skilyrði fyrir leyfinu sem lögin gera ráð fyrir og með sama hætti getur umsækjandi þurft að óska eftir öðrum heimildum í samræmi við ákvæði annarra laga sem um slíka framkvæmd fjalla, svo sem á sviði skipulags, bygginga, umhverfisverndar o.s.frv.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lögð til ný skilgreining á hugtakinu flutningskerfi. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er með hinni nýju skilgreiningu kveðið skýrar á um skilin á því hvar raforkan er afhent á milli orkuframleiðanda og flutningsfyrirtækis. Flutningsfyrirtækið þarf ekki að nálgast raforkuna inn í virkjun orkuframleiðanda heldur eru skilin við rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtækið ber þannig ábyrgð á tengingu við tengivirkið. Jafnframt er ekki í skilgreiningunni lengur vísað til afhendingarstaða þeirra sem taldir eru upp í viðauka með lögunum.
    Í b-lið greinarinnar er lögð til ný skilgreining á hugtakinu stórnotandi og felst í henni sú breyting að miðað er við notkun innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWh á ári. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er lagt til þriggja ára aðlögunartímabil þar sem hluti viðskiptavina uppfyllir ekki umrædd skilyrði frá fyrsta degi starfsemi. Hið þriggja ára aðlögunartímabil er frá fyrstu afhendingu raforku að telja, þó að undanskildum uppkeyrslutíma, en að þeim tíma loknum er gert ráð fyrir að viðkomandi kaupandi raforku uppfylli lágmarkskröfur. Jafnframt er lagt til að nota orkuviðmiðið GWh í stað nýtingarstunda og MW, og að lækka viðmiðið frá núgildandi lögum. Viðmiðið 80 GWh jafngildir um 10 MW og er því um nokkra lækkun að ræða frá núgildandi lögum en jafnframt er þá samhengi milli þessarar skilgreiningar og 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins, sem kveður á um að virkjanir sem eru 10 MW eða stærri skuli tengjast flutningskerfinu beint.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að rýmkaðar verði heimildir virkjana til að tengjast dreifikerfi með því að endurskoða stærðarmörk. Er lagt til að virkjanir sem eru 10 MW eða stærri (í stað 7 MW samkvæmt núgildandi lögum) skuli tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu. Eins og fram kemur í umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins er þessi breyting í samræmi við nýja skilgreiningu á hugtakinu stórnotandi.

Um 3. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á því ákvæði raforkulaga sem snýr að rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnun.
    Í a-lið greinarinnar er lögð fram breyting sem snýr að eignarhaldi flutningsfyrirtækisins. Er lagt til að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2015. Með sveitarfélögum er átt við hérlend sveitarfélög. Samkvæmt núgildandi raforkulögum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2008, skal flutningsfyrirtækið ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Ekki þykir heppilegt að fyrirtæki sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga og hafa ríka hagsmuni af starfsemi flutningsfyrirtækisins, t.d. raforkuframleiðendur og dreifiveitur, eigi hlut í flutningsfyrirtækinu og er þessi breyting því lögð til.
    Lesa ber a-lið greinarinnar með hliðsjón af gildistökuákvæði frumvarpsins (17. gr.) og ákvæði til bráðabirgða I við frumvarpið. Eigendur flutningsfyrirtækisins í dag eru sem hér segir:
    Landsvirkjun 64,73%
    RARIK 22,51%
    Orkuveita Reykjavíkur 6,78%
    Orkubú Vestfjarða 5,98%
    Af framangreindum eigendalista sést að ákveðinn aðlögunartíma þarf til að koma því nýja beina eignarhaldi ríkis og/eða sveitarfélaga á flutningsfyrirtækinu fyrir sem hér er lagt til, þ.e. selja þarf eignarhluti orkufyrirtækjanna í flutningsfyrirtækinu. Er því lagt til að hið nýja fyrirkomulag eignarhalds skuli koma til framkvæmda 1. janúar 2015. Með ákvæði til bráðabirgða I við frumvarpið er því lagt til að við gildistöku laganna skuli iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga, Landsnets, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á eignarhlutum orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu. Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að bætt verði við ákvæði 2. mgr. 8. gr. laganna, um viðskiptavini flutningsfyrirtækisins, að þeir geti líka verið þeir aðilar sem hafa leyfi samkvæmt lögunum til að stunda viðskipti með raforku.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að 3. og 4. mgr. 8. gr. falli brott en þau ákvæði fjalla um stofnun flutningsfyrirtækisins og eru því úrelt og óþörf í dag.
    Í d-lið greinarinnar er fjallað um hvaða starfsemi flutningsfyrirtækið má stunda og er þar lagt til að því verði heimilað að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða og selja út sérfræðiþekkingu fyrirtækisins ef eftir því er leitað, svo fremi samkeppni sé ekki raskað. Um er að ræða sambærilegar heimildir og hjá flutningsfyrirtækjum í nágrannalöndunum. Skal slíkri starfsemi haldið aðskildri í bókhaldi félagsins.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á orðalagi 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna þar sem kveðið er á um leyfi til að reisa línur sem flytja raforku á 66 kV spennu eða hærri. Markmið greinarinnar er að gera ákvæðið skýrara og kveða nánar á um leyfisskyldu tiltekinna framkvæmda á þá vegu að ekki sé vafa undirorpið hvaða framkvæmdir við flutningskerfið skuli lúta ákvæðum um leyfisskyldu eður ei. Að óbreyttu kann núverandi orðalag ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða byggingu loftlínu eða lagningu jarðstrengs. Til að taka af allan vafa er lagt til að orðalagi ákvæðisins sé breytt á þá vegu að leyfisskyldan taki til nýrra raflína sem flytja raforku á 66 kV spennu eða hærri. Vísast þar til skilgreiningar á orðinu raflína í 12. tölul. 2. gr., þ.e. samsafn af leiðurum, einangrandi efni og tengdum búnaði til að flytja raforku milli tveggja staða innan raforkukerfis. Samkvæmt framanrituðu væri því ekki gerður greinarmunur á því hvort raflína væri lögð í jörðu eða hún reist ásamt því sem nauðsynlegur tengibúnaður við raflínuna yrði háður umræddri leyfisveitingu.

Um 5. gr.

    Meginregla raforkulaganna er sú að flutningsvirki skuli tengjast flutningskerfinu og vera hluti af því. Í beinlínutengingu felst undanþága frá þessari meginreglu og felur í sér sjálfstæða línulögn milli einstakra virkjana og notenda. Viðkomandi lína telst þá ekki hluti af flutningskerfinu, ekki rekin af flutningsfyrirtækinu og yrði alfarið á ábyrgð eiganda línunnar. Dæmi um slíkt gæti t.d. verið ef sami aðili mundi reisa stóriðjuver og virkjun sem annaði raforkuþörf iðjuversins. Ljóslega verða bæði notandinn og virkjunaraðilinn að vera samþykkir því að reist sé bein lína. Eðlilegast er að aðilar sæki sameiginlega um leyfið en semji sín á milli um eignarhald og annað sem viðkemur flutningsvirkinu. Skilyrði fyrir beinlínutengingu er að hvorki virkjun né notandi tengist flutningskerfinu með öðrum hætti og njóti því ekki þess öryggis sem felst í tengingu við flutningskerfið.

Um 6. gr.

    Í núgildandi raforkulögum fjallar 12. gr. um tekjumörk og gjaldskrá. Í þessu frumvarpi er sú grein gerð mun ítarlegri en áður og nokkrar breytingar lagðar til. Lagt er til að ákvæðinu verði nú skipt í tvo hluta þar sem 12. gr. fjallar um setningu tekjumarka en 12. gr. a um gjaldskrá.
    Lagt er til að settur verði skýrari rammi um það hvernig tekjumörk skulu ákvörðuð. Mikilvægt er að tekjumörk séu sett þannig að í þeim felist réttir hvatar fyrir flutningsfyrirtækið til þess að hagræða í hvívetna og þannig stuðlað að þjóðhagslega hagkvæmum raforkuflutningi. Um leið þarf að tryggja fyrirtækinu rekstrargrundvöll til lengri tíma og hvetja til hagkvæmra fjárfestinga.
    Í 1. mgr. kemur fram að markmiðið með setningu tekjumarka er í senn að tryggja hagræðingu í rekstri og að tekjur séu í samræmi við tilkostnað að teknu tilliti til arðsemi. Hvatar til hagræðingar verða til með afmörkun tekjumarkatímabila. Raforkuflutningur er í eðli sínu náttúruleg einokun sem leiðir óhindrað til hærra verðs og minni umsvifa en við samkeppni Af þessum sökum er nauðsynlegt að stýra verði með því að setja hámark á leyfðar tekjur. Hins vegar er ljóst að fyrirtækið verður að bera arð og gera þarf ráð fyrir því í tekjumörkum. Heimilar tekjur byggjast á tilteknum kostnaðarliðum við reksturinn og því er mikilvægt að kostnaði sé haldið í skefjum. Það er gert með því að setja leyfilegan kostnað fastan á tilteknu tímabili (tekið er tillit til almennra verðlagshækkana). Takist fyrirtækinu að lækka rekstrarkostnað heldur það ávinningnum af því þar til næstu tekjumörk eru sett en þá er hagræðingu skilað til notenda með töfum sem nemur uppfærslu rekstrarkostnaðar í nýjum tekjumörkum. Slíkt fyrirkomulag er því mjög til hagsbóta fyrir notendur.
    Samkvæmt 9. gr. raforkulaga skal flutningsfyrirtækið byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Tekjumörk tryggja fyrirtækinu fullar tekjur á móti nýfjárfestingum og þeim fjárfestingum sem mynda fastafjármuni. Þetta getur skapað vandamál sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirrar reglunar sem hér er fylgt. Það verður til hvati fyrir flutningsfyrirtækið að fjárfesta meira en arðsamt er. Það er því hætta á offjárfestingu og því fer ekki endilega saman rekstrarleg og þjóðhagsleg arðsemi.
    Til að stuðla að því að aðeins sé ráðist í þjóðhagslega hagkvæmar fjárfestingar er því nauðsynlegt að opinber aðili fari yfir fjárfestingaráætlanir til samþykktar eða höfnunar á þeim grundvelli og að vel sé fylgst með fjárfestingum flutningsfyrirtækja og þeim kostnaði sem þeim fylgir. Gæta þarf þess í hvívetna að lágmarka kostnað sem stofnað er til að teknu tilliti til þeirra krafna sem fram koma í 9. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er fjallað um fyrirkomulag setningar tekjumarka. Þar segir að Orkustofnun setji flutningsfyrirtækinu tekjumörk. Orkustofnun hefur eftir sem áður eftirlit með starfsemi flutningsfyrirtækisins, er „reglunaraðilinn“. Þá segir að tekjumörkin skuli vera tvískipt, annars vegar vegna flutnings til dreifiveitna og hins vegar til stórnotenda og tilgreint að tekjumörkin til stórnotenda skulu vera í bandaríkjadölum. Gjaldskrá vegna flutnings til stóriðju er nú þegar í bandaríkjadölum og til þess að draga úr gengisáhættu og gæta samræmis er rökrétt að tekjumörk séu í sömu mynt og gjaldskráin. Þá skal kostnaði bæði við rekstur og fjárfestingar hvors hluta haldið til haga til að mynda grundvöll tekjumarka. Það leggur flutningsfyrirtækinu þær skyldur á herðar að greina allan rekstrarkostnað og fjárfestingar eftir því hvorum hluta slíkt tilheyrir og kallar á – eins og fram kemur í næstu málsgrein – reglulega endurskoðun þeirrar skiptingar eftir því sem raforkukerfið stækkar og þróast. Með þessu frumvarpi er tekjumarkatímabilið lengt úr þremur árum í fimm til þess að auka hvata til hagræðingar í rekstri. Með lengingu tekjumarka heldur framleiðandi hagræðingu lengur en áður og sterkari hvati til hagræðingar verður til fyrir vikið sem á endanum verður til hagsbóta fyrir notendur. Annarri starfsemi flutningsfyrirtækisins er haldið utan tekjumarka á þeim forsendum að það sé fyrst og fremst flutningurinn sem sé einokunarstarfsemi í eðli sínu og háður reglun.
    Í 3. mgr. eru tiltekin fjögur viðmið sem nota skal við setningu tekjumarka. Þau eru: rekstrarkostnaður sem tengist flutningsstarfsemi, arðsemi af flutningsstarfsemi, afskriftir fastafjármuna og áreiðanleiki afhendingar.
     Rekstrarkostnaður. Skilgreint er hvað skuli talið með í rekstrarkostnaði og að við setningu tekjumarka skuli taka tillit til meðaltals kostnaðar við rekstur næstu fimm ára á undan með eins árs töf með áhrifum verðlagsbreytinga auk áhrifa nýrra stórra fjárfestinga á þann kostnað. Þar sem tekjumörkin eru sett til fimm ára fram í tímann er nauðsynlegt að tekið sé tillit til kostnaðar við rekstur á fimm ára tímabili þar á undan svo ekki verði til rangir hvatar í rekstrinum. Væri aðeins litið til næstu þriggja ára á undan gæti fyrirtækið freistast til að hafa rekstrarkostnað hlutfallslega hærri þau ár sem lægju til viðmiðunar en hafa kostnað lægri á þeim árum sem ekki væru lögð til grundvallar og færa þannig kostnað milli ára eftir því sem unnt væri. Með því að hafa tímabil tekjumarka og viðmiðunar jafnlöng er hvatt til jafnvægis í rekstrinum og tekið jafnt tillit til alls kostnaðar við setningu nýrra tekjumarka. Til að ákveða tekjumörk þarf að gera ráð fyrir raunhæfum kostnaði og því er nauðsynlegt að leiðrétta rekstrarkostnað sl. fimm ára fyrir verðlagsbreytingum og áhrifum nýrra fjárfestinga. Jafnframt er í 3. mgr. mælt fyrir um að endurskoða skuli skiptingu rekstrarkostnaðar milli stórnotenda og dreifiveitna bæði þegar stórar fjárfestingar eigi sér stað og við setningu nýrra tekjumarka. Í fyrra tilfellinu er ljóst að verulegar breytingar geta orðið á skiptingu rekstrarkostnaðar þegar nýjar fjárfestingar koma inn og í síðara tilfellinu er tekið á áhrifum smærri fjárfestinga á þessa skiptingu og það talið nægja á fimm ára fresti.
    Nokkurs konar viðbótarákvæði um hagræðingu er hnýtt við umfjöllun um rekstrarkostnað sem viðmið tekjumarka. Þetta ákvæði gefur eftirlitsaðila tækifæri til að kalla eftir meiri hagræðingu ef hinn „innbyggði“ hagræðingarhvati sem fæst með setningu tekjumarkatímabila er ekki talinn hafa skilað nægjanlegri hagræðingu. Í þessari heimild felst að Orkustofnun getur gert sérstaka hagræðingarkröfu á flutningsfyrirtækið í upphafi nýs tekjumarkatímabils ef markmið laganna um skilvirkni í rekstri nást ekki. Hagræðingarkrafan skal byggjast á viðmiðum úr sambærilegum rekstri að undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun þarf að kalla til sérfræðinga utan stofnunarinnar til að meta hagræðingarkröfuna og flutningsfyrirtækið skal fá tækifæri til að skýra sitt sjónarmið. Tilteknir eru tímafrestir við ferlið.
     Arðsemi. Núverandi lög kveða á um að arðsemi flutningsfyrirtækisins skuli vera jöfn markaðsávöxtun á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til fimm ára. Jafnframt er í reglugerð kveðið á um hvernig kostnaður og eignagrunnur skulu uppfærðir með verðlagi. Á þessu fyrirkomulagi hafa verið tveir gallar. Annars vegar er arðsemisviðmiðunin of lág (þ.e. raunávöxtunarþátturinn), sem þýðir að hvorki eru til staðar eðlilegir hvatar til fjárfestingar né heldur er tryggt að fyrirtækinu séu búin þau skilyrði að það geti fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma. Hins vegar þýðir uppfærsla eignagrunns með verðlagi að tvisvar er tekið tillit til verðbólgu, fyrst með uppfærslu miðað við vísitölu neysluverðs og síðan með verðbólguálagi óverðtryggðra skuldabréfa sem hefur gert arðsemisviðmiðunina of háa. Þetta hefur að vísu hingað til eingöngu átt við stórnotendahlutann vegna ákvæða í núverandi lögum um tímabundna hálfa arðsemi sem féll úr gildi á árinu 2010. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að arðsemisviðmiðunin byggist á vegnum fjármagnskostnaði (WACC) í samræmi við það sem tíðkast í svipuðum rekstri í öðrum Evrópulöndum. Þá er gengið út frá tilteknu hlutfalli skulda og eigin fjár í fjármögnun fyrirtækisins og viðeigandi áhættuálagi bætt á ávöxtunarkröfu vegna eigin fjár. Vaxtaþættirnir eru myndaðir á grundvelli líkansins um verðlagningu eigna (e. Capital Asset Pricing Model). Almennt skal við útreikning taka mið af hagkvæmasta hlutfalli skulda og eigin fjár, fremur en raunverulegu hlutfalli í bókum einstakra fyrirtækja. Þá skal við útreikning vaxta af skuldum taka mið af vöxtum sem tíðkast í sambærilegum rekstri fremur en í bókum einstakra fyrirtækja. Hætta er á að ef vextir skulda einstakra fyrirtækja séu lagðir til grundvallar tapist hvatinn til að lágmarka vaxtakostnað þar eð vextir fengjust þá sjálfkrafa bættir eða tekjur væru teknar af flutningsfyrirtækinu ef það gerði betur í fjármögnun.
    Nýlunda er hér að við ákvörðun á arðsemi er miðað við veltufjármuni auk fastafjármuna. Í núgildandi lögum er litið fram hjá því að fyrirtæki nota ekki aðeins fastafjármuni í rekstrinum heldur þurfa þau einnig töluverða veltufjármuni sem fela í sér t.d. birgðir og skammtímakröfur. Í tilviki flutningsfyrirtækisins hafa veltufjármunir verið á bilinu 20–25% af tekjum undanfarin ár. Því segir í 3. mgr. að miða skuli við bókfært virði fastafjármuna auk 20% af tekjumörkum til þess að mæta kostnaði af veltufjármunum. Tekið er fram hvenær fjárfestingar fari inn í eignagrunn en það hefur áhrif á arðsemi og þar með tekjumörk. Stærri fjárfestingar bætast við jafnskjótt og þær eru teknar í notkun en minni fjárfestingar teljast til fastafjármuna frá því að þær eiga sér stað. Tillagan miðar að því að tekið verði tillit til fjárfestinga sem augljóslega hafa áhrif á forsendur tekjumarkasetningar og skiptingu eignagrunns og rekstrarkostnaðar milli tekjuramma. Slíkar leiðbeiningar er ekki að finna í núverandi raforkulögum sem hefur leitt til óþarfa óvissu um hvernig breytingar undanfarinna ára skuli meðhöndlaðar.
    Eignastofn vegna tekjumarka fyrir stóriðju skal vera í bandaríkjadölum í samræmi við gjaldskrána og tekjumörkin fyrir þann hluta en í núverandi lögum er þessi eignastofn í íslenskum krónum. Þessi breyting stuðlar að meiri stöðugleika bæði í rekstri flutningsfyrirtækisins og í gjaldskrá fyrir stórnotendur. Jafnframt verður meira samræmi milli raunverulegra fjármagnsgjalda og leyfðra fjármagnsgjalda en fyrirtækið hefur fjármagnað sig að hluta til í erlendri mynt. Í 2. tölul. 3. mgr. er tekið fram að skipting eignagrunns milli tekjumarkahluta skuli endurskoðuð ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Slík regluleg endurskoðun er nauðsynleg til þess að tekjumörk séu rétt ákvörðuð. Í lokamálslið 2. tölul. 3. mgr. er lagt til að á grundvelli þeirra efnisreglna og viðmiða sem fram koma í 2. tölul. skuli arðsemi ákvörðuð að fengnu mati sérfróðra aðila. Mikilvægt er að óháður aðili, með sérfræðiþekkingu á þessu sviði, leggi mat á hver eðlileg arðsemi flutningsfyrirtækisins skuli vera þrátt fyrir að það sé síðan Orkustofnun sem setji flutningsfyrirtækinu tekjumörk, sbr. 2. mgr. 6. gr. Samkvæmt lokamálsgrein 6. gr. skal ráðherra setja reglugerð þar sem m.a. er nánar fjallað um mat sérfróðra aðila. Sams konar fyrirkomulag er lagt til varðandi ákvörðun á arðsemi dreifiveitna, sem lið í tekjumörkum dreifiveitna, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. segir að Orkustofnun yfirfari rekstraruppgjör flutningsfyrirtækisins sem skilað skal eigi síðar en 1. maí vegna fyrra árs. Eigi síðar en 1. ágúst skal Orkustofnun hafa lokið sínu uppgjöri. Í því felst að Orkustofnun uppfærir sett tekjumörk miðað við verðlagsbreytingar og aðrar breytingar sem 12. gr. heimilar, svo sem breytingu rekstrarkostnaðar og eignagrunns vegna nýrra fjárfestinga, og ber saman við raunverulegar rekstrarniðurstöður flutningsfyrirtækisins.
    Í framhaldi af uppgjöri skv. 5. mgr. er hægt skv. 6. mgr. að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt tekjumörkum milli ára en þær geta þó aldrei orðið meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Ef svo ber undir skal ná hlutfallinu niður fyrir lok næsta árs á eftir. Segja má að þessar reglur séu til sveiflujöfnunar þannig að ekki þurfi stöðugt að vera að hreyfa við gjaldskrám þótt tekjumörkum sé ekki fylgt út í hörgul án þess þó að slíkur mismunur megi verða of mikill eða leiðrétting dragist of lengi.

Um 7. gr.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildandi ákvæði 12. gr. í raforkulögunum verði skipt upp í tvö ákvæði þannig að ákvæði 12. gr. a gildi um gjaldskrá flutningsfyrirtækisins en 12. gr. um tekjumörkin og setningu þeirra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að litlar efnisbreytingar verði á gildandi ákvæði um gjaldskrá og vísast um það til greinargerðar með 12. gr. laga nr. 65/2003, 8. gr. laga nr. 89/2004, 2. gr. laga nr. 149/2004 og 4. gr. laga nr. 67/2008. Þó er nú lagt til að í lögin komi skýrt ákvæði um að gjaldskrá fyrir flutning fyrir stórnotendur verði í bandaríkjadölum. Þá er lagt til að smávægilegar breytingar verði á tímarammanum fyrir samþykki Orkustofnunar á gjaldskrá flutningsfyrirtækisins.
    Með 5. mgr. 7. gr. er lögð til breyting á núverandi 12. gr. raforkulaganna með það fyrir augum að koma til móts við þann möguleika að byggður sé upp orkufrekur iðnaður við eða í nágrenni við virkjun sem þegar er tengd flutningskerfinu. Er þá gert ráð fyrir að notandinn tengist beint við virkjun og sé í þeim skilningi ekki beintengdur flutningskerfinu en getur á hinn bóginn notið þess í gegnum tengingu virkjunarinnar og/eða að rekstur virkjunarinnar er háður tengingu við flutningskerfið. Í þessum tilvikum ber að greiða 60% af úttektargjaldi til stórnotenda. Þá er samkvæmt ákvæðinu heimilt að veita frekari afslátt ef úttekt stórnotandans er algjörlega bundin við virkjunina, þ.e. framleiðsla hans eða notkun stöðvast algjörlega ef orkuframleiðsla virkjunarinnar stöðvast. Skilyrt er að notandi greiði ætíð fyrir kerfisþjónustu til flutningsfyrirtækisins.
    Með 6. mgr. er lagt til að komið sé sérstaklega til móts við notendur sem byggja upp framleiðslufyrirtæki við hlið eða skammt frá jarðvarmavirkjun og nýta frá henni fleiri afurðir en einungis raforku. Miklar væntingar eru bundnar við að hægt sé að byggja upp fyrirtæki sem nýtt geta koltvísýring og mögulega aðrar afurðir frá jarðvarmavirkjunum. Þar sem framleiðsla, starfsemi og rekstur þessara fyrirtækja er alfarið háð því að þau fái jöfnum höndum fleiri afurðir en raforku til þess að framleiðsluferlin séu í gangi er talið réttlætanlegt að heimila að viðkomandi aðilar geti sótt um undanþágu frá skilyrði 5. mgr. um stórnotanda og njóti þar með beinnar tengingar við virkjun þó svo að notkun nái ekki stórnotendaviðmiðum laganna.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagt til að við 13. gr. laganna, sem fjallar um sérleyfi til dreifingar, bætist nýr málsliður þess efnis að flutningsfyrirtækinu sé heimilt að flytja/dreifa rafmagni á sérleyfissvæði dreifiveitu til stórnotenda sem fá raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV, að því gefnu að samkomulag náist þar að lútandi á milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu. Er ákvæði þetta hugsað fyrir þann hóp viðskiptavina sem telst til minni stórnotenda en fyrir þá er oft og tíðum heppilegra að fá raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV. Er gert ráð fyrir því að umræddir stórnotendur greiði þann kostnað sem af niðurspenningunni hlýst.

Um 9. gr.

    Vísað er til almennra athugasemda við frumvarpið og athugasemda við 6. gr.

Um 10. gr.

    Vísað er til almennra athugasemda við frumvarpið og athugasemda við 7. gr.

Um 11. gr.

    Með greininni er lögð til ný grein sem kemur í kjölfar 18. gr. um leyfi til að reka raforkumarkað. Tekur greinin mið af 18. gr. sem fjallar um leyfi til að stunda raforkuviðskipti. Er gert ráð fyrir að ráðherra framselji Orkustofnun viðkomandi leyfisveitingarvald, sbr. 32. gr. núgildandi raforkulaga. Í gildandi lögum er kveðið á um heimild flutningsfyrirtækisins til að reka raforkumarkað en ekki er að finna ákvæði um það hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem óska eftir slíku leyfi eða hver veitir leyfið. Er ákvæði þetta því lagt til sem nýtt ákvæði í lögin.

Um 12.–14. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða við núgildandi raforkulög eru mörg hver úrelt og hafa ekkert sjálfstætt gildi lengur. Er með greininni lagt til að slík ákvæði til bráðabirgða verði afnumin og því um ákveðna hreinsun og uppfærslu á lagatextanum að ræða. Þau ákvæði sem lagt er til að falli brott eru I, III–XI, XIV og XV.

Um 16. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum og í umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins eru í viðauka við raforkulög skilgreindir allir afhendingarstaðir til dreifiveitna úr flutningskerfinu. Talið er að slík lögfesting afhendingarstaða geti hamlað hagkvæmri útfærslu og uppbyggingu flutningskerfisins. Er því lagt til að viðaukinn verði afnuminn.

Um 17. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi þegar við birtingu. Hins vegar er lagt til að ákvæði a-liðar 3. gr., sem fjallar um eignarhald flutningsfyrirtækisins, komi til framkvæmda 1. janúar 2015 og að ákvæði 6., 7., 9. og 10. gr. komi til framkvæmda 1. janúar 2011. Fjalla þau ákvæði um tekjumörk og gjaldskrá og er æskilegt að þau ákvæði komi til framkvæmda um áramót bæði af tæknilegum ástæðum og til að veita hæfilega aðlögun að breyttu fyrirkomulagi.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum og í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins er lagt til að iðnaðarráðherra skipi nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga, flutningsfyrirtækisins, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu. Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Samkvæmt 6. og 9. gr. þessa frumvarps eru settar takmarkanir á færslu of- eða vantekinna tekna samkvæmt tekjumörkum milli ára. Þannig skulu þær aldrei nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum. Þar eð þessar takmarkanir eru nýmæli þykir rétt að gefa þeim fyrirtækjum sem eru fyrir utan þessi mörk í lok árs 2009 ákveðið svigrúm til að bregðast við.
    Vanteknar tekjur má rekja til þess að gjaldskrá viðkomandi fyrirtækja hefur að jafnaði verið lægri en tekjumörk hafa gefið tilefni til. Með ákvæðinu er þeim fyrirtækjum sem hafa haldið raforkuverði tiltölulega lágu undanfarin ár heimilað að setja gjaldskrá sem miðar að því að þau njóti þeirrar inneignar sem þau hafa safnað. Þó er heimildin ekki ótakmörkuð. Verði uppsafnaðar vanteknar tekjur enn yfir viðmiðunarmörkum í lok árs 2020 er fyrirtækjunum óheimilt að flytja það sem umfram er milli ára. Fyrirtækjunum eru einnig settar skorður sem ætlað er að draga úr mögulegum áhrifum á raforkuverð. Þannig skulu tekjur hvers árs ekki fara meira en 3% fram úr uppfærðum tekjumörkum þess árs af þessum orsökum.
    Einnig þykir rétt að gefa þeim fyrirtækjum sem hafa uppsafnaðar ofteknar tekjur umfram viðmiðunarmörk í árslok 2009 svigrúm til að koma sér niður fyrir mörkin. Með því er jafnframt stefnt að því að draga úr sveiflum í raforkuverði. Fari uppsafnaðar of- eða vanteknar tekjur niður fyrir framangreind mörk á ákvæðið ekki lengur við eðli málsins samkvæmt.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

    Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru lagðar til nýjar skilgreiningar á hugtökunum flutningskerfi og stórnotandi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir veitingu virkjanaleyfis. Lagt er til að heimildir virkjana til að tengjast dreifikerfi verði rýmkaðar með því að endurskoða stærðarmörk þannig að virkjunum sem eru 10 MW eða stærri sé heimilt að tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu. Í gildandi lögum eru mörkin miðuð við 7 MW. Í þriðja lagi er lagt til að flutningsfyrirtækið Landsnet skuli vera í beinni meirihlutaeign ríkis og/eða sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2015. Samkvæmt gildandi lögum skal flutningsfyrirtækið ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Til þess að þetta nái fram að ganga þarf að ná samkomulagi um uppskipti eða kaup á eignarhlut Landsnets við þau félög ríkisins sem fara með eignarhlut í Landsnetinu. Samkvæmt ársreikningi 2009 var eigið fé Landsnets rúmir 8 milljarðar kr. en um 93% fyrirtækisins eru í eigu ríkisfyrirtækja í orkuiðnaði og um 7% eru í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Gangi þessar eignayfirfærslur eftir kann ríkissjóður að þurfa að leggja fram stofnfé en á móti mun hlutur ríkissjóðs í kaupunum færast til eignar í efnahagsreikningi. Í fjórða lagi er lagt til að flutningsfyrirtækinu verði m.a. heimilað að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða. Í fimmta lagi eru lögð til ný ákvæði um tekjumörk og gjaldskrá bæði flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna. Lagt er til að tekjumörkin verði samtala rekstrarkostnaðar, afskrifta og útreiknaðrar framlegðar fyrir fjármagnsliði og skatta. Gjaldskrá flutningsfyrirtækisins á þannig að standa almennt undir meðalkostnaði við rekstur fyrirtækisins að teknu tilliti til sjónarmiða um arðsemi. Í sjötta lagi er lagt til breytt ákvæði um beinar tengingar milli notenda og virkjana sem tekur mið af kröfum sem koma fram í 22. gr. tilskipunar 2003/54/EB.
    Ekki verður séð að útgjöld, sem færast í rekstrareikning A-hluta ríkisjóðs, muni aukast verði frumvarpið óbreytt að lögum.